Skip to main content
13. október 2022

HÍ fær viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar

HÍ fær viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands var meðal ríflega 70 aðila sem hlutu í gær viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar, hreyfiaflsverkefnis Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) sem miðar að því að jafna hlut kynjanna í stjórnun fyrirtækja og stofnana. Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda, tók við viðurkenningunni fyrir hönd Háskóla Íslands á stafrænu ráðstefnunni „Jafnrétti er ákvörðun“. 

Háskóli Íslands hefur átt aðild að Jafnvægisvogarverkefninu frá árinu 2020 en í því felst að Háskólinn skuldbindur sig til að vinna stöðugt að því að jafna hlutfall karla og kvenna í stjórnendastöðum innan skólans. 

Markmiðið með Jafnvægisvoginni er ekki síst að jafna hlut kynjanna í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja og stofnana þannig að árið 2027 verði hlutfallið á milli kynja a.m.k. 40/60 í framkvæmdastjórnum. Þá hefur verkefnið einnig þann tilgang að virkja íslenskt viðskiptalíf til að verða að fyrirmynd jafnréttis fyrir aðrar þjóðir. Í tengslum við verkefnið er haldið úti mælaborði með tölfræðilegum upplýsingum um jafnrétti í íslensku atvinnulífi og hjá hinu opinbera en því er ætlað að tryggja aðhald og góða frammistöðu. 

Markmið verkefnisins er einnig að vekja samfélagið til umhugsunar um virði fjölbreytileika og jafnréttis með viðburðum, fræðslu og viðurkenningum fyrir það sem vel er gert, en sérstakt Jafnvægisvogarráð veitir árlega Jafnvægisvogarmerkið þeim fyrirtækjum og stofnunum sem hafa á framúrskarandi hátt unnið að markmiðum Jafnvægisvogarinnar. Alls hafa yfir 200 aðilar hér á landi undirritað viljayfirlýsingu um að vinna að markmiðum Jafnvægisvogarinnar en þessu sinni fengu 59 fyrirtæki, 6 sveitarfélög og 11 opinberir aðilar merki Jafnvægissvogarinnar. Háskóli Íslands er eini háskólinn sem hlýtur viðurkennningu í ár.

Að hreyfiaflsverkefninu standa auk FKA, forsætisráðuneytið, Sjóvá, Deloitte, Pipar\TBWA og Ríkisútvarpið.

 

Fulltrúar handhafa viðurkenningar Jafnvægisvogarinnar.