„Höfum við ekki öll á einhverjum tímapunkti velt fyrir okkur spurningum eins og: Er vinnan sem ég legg til samfélagsins virkilega að fara skila mér sama ágóða og manneskjunni sem situr hliðina á mér? Hvaða áhrif hefur sú samfélagsstaða sem ég elst upp við á framgang minn í lífinu? Þetta verkefni er mín leið til þess að reyna komast nær svörum við spurningum sem þessum,“ segir doktorsneminn Emil Dagsson sem nýtir aðferðir hagfræðinnar til þess að varpa ljósi á tækifæri fólks til þess að skapa sér betra líf í íslensku samfélagi.
„Markmið rannsóknarinnar er að ná að mæla forréttindi mismunandi samfélagshópa ásamt því að meta hversu jöfn tækifæri eru í okkar samfélagi. Það er gert með því að meta félagslegan hreyfanleika á milli kynslóða á Íslandi, en þar er helst horft til menntunar og tekna sem segir okkur hvaða áhrif samfélagsstaða foreldra gæti haft á börn þeirra,“ útskýrir Emil nánar.
Menntunarhreyfanleiki meiri en víða í Evrópu
Áhugi Emils á viðfangsefninu kviknaði strax í BS-námi en lokaverkefni hans, sem síðar varð að grein í tímariti Stjórnmála og stjórnsýslu, leiddi í ljós tölfræðilegt samband milli menntunar foreldra og barna þeirra. „Niðurstöður greiningarinnar voru á þann veg að menntunarhreyfanleiki milli kynslóða er meiri hér á Íslandi en í öðrum Evrópuríkjum en þó aðeins minni en annars staðar á Norðurlöndunum. Þetta þýðir t.d. að barn hér á landi sem á foreldra með litla menntun á betri möguleika en börn víða annars staðar til þess að mennta sig og auka þannig tækifæri sín í lífinu. Frekari rannsókna er þó þörf á þessu sviði og það leiddi mig á þá braut að gera þetta viðfangsefni að doktorsverkefninu mínu,“ segir Emil.
Rannsóknaráhugi Emils snýst að hans sögn að miklu leyti um tölfræðilegar greiningar á samfélagslegri stöðu fólks og fjálmálatengdar ákvarðanir þess, allt í þeim tilgangi að skilja mannlegt samfélag betur. „Meistaraverkefni mitt snerist einmitt um að meta greiðslubyrði mismunandi samfélagshópa á Íslandi,“ segir Emil sem einnig hefur lagt mikla áherslu á að miðla hagfræðilegum málefnum með ýmsum hætti. Hann kom t.d. að stofnun Fjárráðs, félags hagfræðinema um bætt fjármálalæsi háskólanema, og er stofnandi þátttarstjórnandi hlaðvarpsins Ekon á Kjarnanum þar sem fjallað var um hagfræði á mannamáli.
„Okkur fannst einnig áhugavert að menntunarhreyfanleiki „niður á við“ reyndist algengari hér á landi og annarstaðar á Norðurlöndum en í öðrum löndum, en þar er átt við einstaklinga sem eiga foreldra sem eru menntaðri heldur en þeir. Það sem við viljum skoða meðal annars er hvort arðsemi menntunar geti spilað þarna hlutverk, það er hvort lakari arðsemi þess að sækja sér meiri menntun geti orsakað meiri menntunarhreyfanleika milli kynslóða,“ segir Emil. MYND/Kristinn Ingvarsson
Rýnt m.a. í menntun, tekjur og eignir
Í doktorsverkefni sínu heldur Emil áfram að rýna í tölfræðilegt samband milli menntunar foreldra og barna þeirra en einnig samband milli ævitekna foreldra og barna þeirra. „Slíkt gefur okkur hugmynd um hvaða áhrif samfélagsstaða foreldra gæti haft á börn þeirra, ef við gefum okkur að menntun og tekjur segi til um samfélagsstöðu fólks,“ útskýrir Emil og bætir við: „Einnig eru áform um að víkka greininguna með að horfa til annarra breyta, svo sem eigna, atvinnu og fleira þegar lengra líður á rannsóknina.“
Við rannsókna segist Emil aðallega styðjast við gögn frá Hagstofu Íslands, þar sem skattaupplýsingar eru tengdar við aðrar félagslýðfræðibreytur eins og menntun. „Það er hins vegar alltaf áskorun í rannsóknum sem þessum að tryggja að það sé ekki verið að bera saman epli og appelsínur. Það þarf að meta áhrifin út frá tilteknum eiginleikum en gæta þess að halda öðrum eiginleikum föstum. Ein leið til þess að komast nær raunverulegu orsakasambandi er að vinna með svokallaðar hjálparbreytur og við erum með nokkrar slíkar í huga sem við eigum eftir að skoða betur,“ segir Emil og vísar þar til samstarfsmanna sinna í verkefninu, leiðbeinandans Gylfa Zoëga, prófessors í hagfræði, og þeirra Arnaldar Sölva Kristjánssonar, hagfræðings ASÍ, Kolbeins Hólmars Stefánssonar, dósents við Félagsráðgjafadeild HÍ, og Helga Eiríks Eyjólfssonar doktorsnema.
Hefur arðsemi menntunar áhrif á menntunarhreyfanleika?
Aðspurður segir Emil rannsókn sína skammt á veg komna og því liggi niðurstöður ekki fyrir. Fyrri rannsóknir hópsins hafi þó leitt í ljós að menntunarhreyfanleiki á Íslandi sé meiri en að meðaltali í Evrópu en minni en í öðrum norrænum ríkjum. „Okkur fannst einnig áhugavert að menntunarhreyfanleiki „niður á við“ reyndist algengari hér á landi og annarstaðar á Norðurlöndum en í öðrum löndum, en þar er átt við einstaklinga sem eiga foreldra sem eru menntaðri heldur en þeir. Það sem við viljum skoða meðal annars er hvort arðsemi menntunar geti spilað þarna hlutverk, það er hvort lakari arðsemi þess að sækja sér meiri menntun geti orsakað meiri menntunarhreyfanleika milli kynslóða,“ segir Emil.
Emil segir niðurstöður doktorsrannsóknarinnar muni leiða í ljós bæði hvernig kynslóðahreyfanleiki gæða, eins og menntunar og eigna, hefur þróast hér á landi og hvernig slíkur hreyfanleiki á sér stað í samfélögum, en sterkt tölfræðilegt samband er milli ójafnaðar í samfélögum og lágs kynslóðarhreyfanleika. „Slíkar upplýsingar geta stutt við innleiðingu og þróun opinbers regluverks sem spornar gegn hvers kyns aukningu ójafnaðar, hvort sem er í menntun, tekjum, eignum eða tækifærum,“ segir Emil.
Hann bætir við að einnig sé mikilvægt að öðlast skilning á því hvernig samfélög geta náð meiri kynslóðahreyfanleika þar sem einstaklingar færast upp á við í samfélaginu. „Mikill kynslóðarhreyfanleiki upp á við í samfélögum er vanalega talinn af hinu góða og ríki almennt sammála um að það eigi að vinna að honum. Með þessum rannsóknum öðlumst við betri skilning á því hvernig hægt verður að stuðla að auknum kynslóðahreyfanleika á Íslandi. Einnig verður hægt að bera saman stöðu Íslands við önnur ríki þar sem sambærilegar rannsóknir hafa verið gerðar, ekki síst annars staðar á Norðurlöndum, til þess að fá betri yfirsýn yfir það hvar við stöndum í alþjóðlegum samanburði í þessum efnum.“