Kynnti verkefni sem miða að sjálfbærri framleiðslu vetnis
Camila Pía Canales, rannsóknasérfræðingur við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands, kynnti tvö spennandi rannsóknarverkefni sem snúa að sjálfbærri framleiðslu vetnis á árlegri ráðstefnu Functional Materials and Nanotechnology (FM&NT) sem fram fór í Ríga í Lettlandi í júlí.
Camila, sem er doktor í efnafræði, hefur unnið að verkefnunum tveimur innan Háskóla Íslands í samstarfi við vísindamenn innan og utan skólans. Hún hefur starfað við Háskóla Íslands frá árinu 2019 og státar af 11 ára reynslu á sviði rannsókna á sviði rafefnafræði.
Annað verkefnið nefnist AliCe-Why og er samvinnuverkefni vísindamanna víða í Evrópu, en að því koma prófessorarnir Christiaan P. Richter og Rúnar Unnþórsson innan HÍ. Meginmarkmið þess er að nýta álúrgang til að framleiða vetni.
Hitt verkefnið tengist framleiðslu á vetni með sjó og framtíðarmöguleikum þess í ljósi þess að ferskvatnsbirgðir heimsins minnka ört. Camila er þar aðalrannsakandi og fer fyrir tíu manna hópi vísindamanna sem nýtur stuðnings m.a. Molymet, Grein Research og Hafrannsóknastofnunar við rannsóknirnar. Þessu verkefni er skipt í þrjú meginþrep sem snerta (1) rafhvata, (2) efnaupplýsingafræði (e. chemometrics) og (3) velferð.
Hún vinnur með ólíkum vísindamönnum að hverju þessara þrepa:
(1) Thomas E. Mallouk, prófessor við University of Pennsylvania, Alexey Serov við Oak Ridge National Laboratory, Árna S. Ingasyni hjá fyrirtækinu Grein Research ehf., Agli Skúlasyni, prófessor við Háskóla Íslands, og Galo Ramírez, prófessor við Pontificia Universidad Católica de Chile.
(2) Enrique del Castillo, prófessor við Pennsylvania State University, og Birgi Hrafnkelssyni, prófessor við Háskóla Íslands.
(3) Kyrre Rickertsen, prófessor við Norwegian University of Life Sciences, og Daða Má Kristóferssyni, prófessor við Háskóla Íslands. Daði hefur unnið ötullega með Camilu að því að koma þekkingunni sem verður til í rannsóknunum út í atvinnulífið og koma vetni á framfæri sem hluta af hringrásarhagkerfinu.