Varði doktorsritgerð um sítengdan heim og Sören Kierkegaard
Guðmundur Björn Þorbjörnsson hefur varið doktorsritgerð í heimspeki við Vrije Universiteit í Brussel (VUB) og fengið sameiginlega doktorsgráðu milli VUB og Háskóla Íslands. Ritgerðin nefnist „“The World Continues“. Repetition and Recollection in Hyper-Connectivity“ og var unnin undir leiðsögn Karls Verstrynge, prófessors við VUB og Vilhjálms Árnasonar, prófessors við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði við Háskóla Íslands. Einnig var Yoni van den Eede, prófessor við VUB í doktorsnefndinni. Aðrir í dómnefnd voru Paul Cruysberghs, prófessor emeritus við KU Háskóla í Löven, Elisabete de Sousa, prófessor við Háskólann í Lissabon og Sigríður Þorgeirsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands.
Um rannsóknina
Í doktorsritgerðinni rannsakar Guðmundur Björn tilvist okkar í sítengdum heimi út frá hugsun Sörens Kierkegaard. Með hugmyndum sínum um endurtekningu og endurminningu kortleggur Kierkegaard tvær ólíkar, en um leið nátengdar, leiðir til að tjá mannlega tilvist sem lifaða reynslu. Markmið þessarar ritgerðar er að sýna hvernig þessar hugmyndir birtast í lífi hins sítengda sjálfs, og greina með augum Kierkegaards tilvist okkar í sítengdum heimi nútímans. Með því að skoða endurminningu og endurtekningu – og flókið samband Kierkegaards við veruleika dagblaða og fjölmiðlunar – er markmiðið að finna nýja leið fyrir tilvistarlega hugsun í fræðilegri umræðu um tilvist í sítengdum heimi.
Aðalrannsóknarspurningin snýst um hvort hægt sé að nota tilvistarhugsun Kierkegaards til að varpa ljósi á ólíka tilvistarhætti tilvistar innan sítengingar. Ennfremur, hvort hægt sé að gera það frá öðru sjónarhorni en þeirra fræðimanna, sem hafa fært rök fyrir því að Kierkegaard hefði fyrirlitið Internetið, og þeir byggja á því sem hann skrifaði um hina nýju stétt fjölmiðla um miðja nítjándu öld í Kaupmannahöfn. Í ritgerðinni er einnig leitað svara við því hvort samband Kierkegaards við miðla síns tíma, og gagnrýni hans á þá, hafi markast af tilvistarhugsun hans. Í kjölfarið er spurt hvort kenningar Kierkegaards um endurtekningu og endurminningu megi túlka sem fyrirmyndir eða dæmi um tilvistarlegt frelsi og ófrelsi. Að lokum verður skorið úr um hvort hægt sé að túlka þessar fyrirmyndir eða dæmi sem tilvistarlegar hreyfingar í samhengi sítengingar.
Aðferðafræðilega er hugmyndin um sítengingu skilgreind sem lífheimur [Lebenswelt] þar sem mörkin milli hins aftengda og hins tengda eru að mást út. Í ljósi vaxandi áhrifa stafrænnar tækni á daglegt líf okkar, eru færð rök fyrir því að nota megi hugmyndir Kierkegaards til að svara spurningum sem þessi þróun vekur, sérstaklega er varða tilvist, sjálfið og samhuglægni. Samband Kierkegaards við fjölmiðla er einkum skoðað frá menningar- og sögulegu sjónarhorni. Þegar rætt er um mikilvæg hugtök í verkum sem Kierkegaard skrifaði undir dulnefni, er hugtakagreining notuð til að færa rök fyrir því að, sem tilvistarlegar hreyfingar, megi túlka endurminningu og endurtekningu sem dæmi um tilvistarlegt frelsi og ófrelsi í sítengdum heimi.