Skip to main content

Doktorsvörn í læknavísindum - Edda Vésteinsdóttir

Doktorsvörn í læknavísindum - Edda Vésteinsdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
13. maí 2022 13:00 til 16:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Föstudaginn 13. maí ver Edda Vésteinsdóttir doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Sýklasótt sem krefst innlagnar á gjörgæsludeild: Þróun faraldsfræði yfir tíma, krabbamein, valaðgerðir og áhrif einstakra faraldra.

Andmælendur eru dr. Anders Perner, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, og dr. Erik Solligård, prófessor við St. Olavs háskólasjúkrahúsið í Þrándheimi.

Umsjónarkennari og leiðbeinandi var dr. Sigurbergur Kárason, prófessor, og meðleiðbeinandi var dr. Martin Ingi Sigurðsson, prófessor. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd Magnús Gottfreðsson, prófessor og Kristinn Örn Sverrisson, sérfræðingur.

Þórarinn Guðjónsson, prófessor og deildarforseti Læknadeildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðarsal Háskóla Íslands og hefst kl. 13:00.

Vörninni verður streymt: 

https://livestream.com/hi/doktorsvorneddavesteinsdottir

Ágrip

Sýklasótt er heilkenni sem stafar af víðtæku bólguviðbragði ónæmiskerfisins við alvarlegri sýkingu og er ein algengasta ástæða innlagna á gjörgæsludeildir í heiminum. Dánartíðni vegna sýklasóttar er há, en mikil vitundarvakning hefur verið um heilkennið á síðastliðnum árum og alþjóðlegu átaki í meðferð þess verið hleypt af stokkunum með það að markmiði að bæta lifun. Sýklasótt er algengur fylgikvilli ýmissa læknismeðferða sem hafa áhrif á varnir líkamans, til dæmis krabbameinslyfjameðferða og skurðaðgerða, en sjaldgæfara er að fólk veikist af völdum mengaðra læknisáhalda eða íhluta.

Heildarmarkmið þessa verkefnis var að lýsa faraldsfræði sýklasóttar sem leiddi til innlagnar á gjörgæsludeild hjá heilli þjóð hér á Íslandi, auk þess að skoða sérstaklega nokkra undirhópa. Metið var hvort breytingar hefðu orðið á nýgengi, meðferð og afdrifum sjúklinga yfir tíma, auk þess að lýsa nánar krabbameinssjúklingum með sýklasótt, sjúklingum sem fengu sýklasótt í kjölfar valskurðaðgerða og áhrifum sýkinga sem tengdar voru lækningatæki.

Helstu niðurstöður voru að nýgengi sýklasóttar á íslenskum gjörgæsludeildum breyttist ekki yfir 11 ára rannsóknartímabil (2006-2016) og litlar breytingar urðu jafnframt á meðferð sjúklinga. Dánarhlutfallið var einnig stöðugt og sambærilegt við önnur Norðurlönd (28 daga dánartíðni 25% og eins árs 41%). Um fjórðungur sýklasóttarsjúklinga hafði undirliggjandi krabbamein en takmarkaðri gjörgæslumeðferð var oftar beitt hjá þeim sem höfðu langt genginn sjúkdóm. Stórar kviðarholsaðgerðir vegna krabbameina reyndust algengasta orsök sýklasóttar eftir valaðgerðir. Óvanalegt mynstur sýkinga eftir hjartaskurðaðgerðir leiddi til uppgötvunar á örfínni sprungu í vélindaómtæki sem olli því að sótthreinsun á tækinu varð ófullkomin.

English abstract

English title: Sepsis requiring Intensive Care Unit admission: Studies on temporal trends in epidemiology, cancer, elective surgery and local infectious outbreaks

Sepsis is a syndrome caused by the systemic inflammatory response to an infection and is a leading cause of admission to intensive care units worldwide. Mortality rates are high but awareness of the syndrome has increased in recent years and an international treatment campaign has been launched with the goal of reducing mortality. Medical care may contribute to the development of sepsis, not only by weakening host defenses with immunosuppressive therapy and surgical procedures, but also on rarer occasions by contaminated equipment.

The overall aim of this thesis was to create a broad overview of sepsis requiring admission to intensive care units in a nationwide cohort in Iceland, with a special focus on several patient groups. Trends in incidence, treatment and outcome were assessed, with special consideration given to cancer patients with sepsis, patients developing sepsis after surgery and the detection of nosocomial infection clusters and their impact.

The main results were that the population incidence of sepsis requiring intensive care in Iceland did not change over an 11 year study period (2006-2016) and no major changes were observed in sepsis management. The mortality rate was also stable and comparable to the other Nordic countries (28-day mortality 25% and one year mortality 41%). Cancer is a frequent comorbidity in sepsis patients but the extent of intensive care was often limited in patients with advanced disease. Major oncological procedures are the most common cause of postoperative sepsis following elective surgery. Unusual pattern of infections in cardiac surgery patients led to the detection of minor surface damage on a transoesophageal echocardiography probe that prevented adequate sterilization.

Um doktorsefnið

Edda Vésteinsdóttir er fædd árið 1981 í Stokkhólmi. Hún lauk stúdentsprófi af eðlisfræðideild I Menntaskólans í Reykjavík árið 2001, embættisprófi frá Læknadeild Háskóla Íslands 2007 og hlaut meistaragráðu við sömu deild 2010. Hún lauk sérnámi í svæfinga- og gjörgæslulækningum við Karolinska sjúkrahúsið í Solna árið 2015. Edda hefur starfað sem sérfræðilæknir á Svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala frá árinu 2016 og lauk framhaldsnámi í svæfingum fyrir hjartaaðgerðir 2019. Foreldrar hennar eru Vésteinn Jónsson augnlæknir og Þorbjörg Jónsdóttir viðskiptafræðingur. Edda er gift Þórði Tryggvasyni meinafræðingi og eiga þau tvö börn, Tryggva og Auði Elínu.

Edda Vésteinsdóttir ver doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands föstudaginn 13. maí.

Doktorsvörn í læknavísindum - Edda Vésteinsdóttir