Miðaldafræði


Miðaldafræði
MA – 120 einingar
Miðaldafræði er þverfræðileg grein þar sem teknir eru til rannsóknar valdir þættir úr sögu, menningu, trúarbrögðum, bókmenntum, listum og heimspeki Evrópu á tímabilinu 500 til 1500.
Skipulag náms
- Haust
- Kenningar í hugvísindum
- Latína I: ByrjendanámskeiðV
- Fræði og ritunV
- Arabíska IV
- VíkingaöldinV
- Norðurheimur á miðöldumV
- Vor
- Íslensk miðaldahandritB
- MiðaldalatínaBE
- Siðfræði vísinda og rannsóknaV
- Málfar EddukvæðaV
- Bergmál alþjóðlegra miðalda í samtímasöguV
- Íslensk miðaldahandritV
- VíkingaaldarfornleifafræðiV
- MiðaldafornleifafræðiV
- Norræn trúV
Kenningar í hugvísindum (FOR709F)
Námskeiðinu er ætlað að breikka og dýpka þekkingu nemenda á kenningum í hugvísindum og að veita þeim innsýn í ólík kennileg sjónarmið og aðferðir sem efst eru á baugi í fræðunum. Í námskeiðinu verða kynntar og ræddar valdar kenningar sem hafa sett mark sitt á fræðilega umræðu í hugvísindum síðustu áratugi, samhliða því sem nemendum verður kennt að beita þeim á eigin rannsóknir.
Latína I: Byrjendanámskeið (KLM101G)
Námskeiðið er 10 eininga inngangsnámskeið í latínu ætlað byrjendum. Ekki er gert ráð fyrir kunnáttu í latínu við upphaf námskeiðs en æskilegt er að nemendur hafi góðan skilning á íslenskri málfræði. Farið er yfir beygingafræði latínunnar svo og undirstöðuatriði setningafræðinnar. Stuttir leskaflar og málfræðiæfingar.
Námskeiðið er kennt á íslensku en nemendur sem þurfa geta fengið leyfi til að skila verkefnum og prófum í þessu námskeiði á ensku.
Fræði og ritun (ENS231F)
Á þessu námskeiði fjöllum við um menningar-, frásagnar- og aðlögunarfræði. Virk þátttaka er nauðsynleg.
Arabíska I (MAF102G)
Nemendur byrja á því að læra arabíska stafrófið og málhljóðin ásamt undirstöðuatriðum. Eftir að nemendur hafa náð góðum tökum á stafrófinu verður farið í helstu málfræðiatriði, einfalda setningargerð og orðaforða. Samhliða því er einblínt á bæði hlustun og munnlega tjáningu. Mikil áhersla er lögð á mætingu og heimavinnu nemenda. Námskeiðið er kennt á ensku.
Námskeiðið er undanfari MAF204G: Arabíska II.
Víkingaöldin (MIS704M)
Á víkingaöld héldu norrænir menn í stórum stíl frá meginlandi Skandinavíu vítt og breitt um Evrópu, austur til Miklagarðs og Kaspíahafs, vestur til Bretlandseyja, Írlands og Frakklands, og suður fyrir Íberíuskaga og inn í Miðjarðarhafið. Margvíslegar heimildir vitna um ferðir þeirra, fornleifar sem og ritaðar lýsingar þar sem þeir ganga undir ýmsum nöfnum og koma fyrir í margvíslegum hlutverkum, t.d. sem ógvekjandi innrásarsveitir, nokkuð friðsamir kaupmenn, eða leiguliðar.
Norðurheimur á miðöldum (SAG716M)
Sögulegt yfirlit og saga rannsóknarhefðar um valin þemu norrænna miðalda, með áherslu á Ísland og Noreg frá víkingaöld fram til fjórtándu aldar. Þemu telja, m.a.: vald, konungur og ríki; lög og fæðardeilur; kyngervi, mægðir og félagstengsl; trú og hugarfar; kristnitaka, kristni og kirkja; efnahagur. Grunnþekking í atburðasögu tímabilsins er hjálpleg en ekki skilyrði. Leskunnátta í þýsku og norrænum málum er einnig hjálpleg en ekki skilyrði (skyldulesefni er allt á ensku). Nemendur semja eina ritgerð og stýra umræðum; ekkert skriflegt próf.
Íslensk miðaldahandrit (ÍSL416M)
Í þessu námskeiði verður fjallað um íslenska handritamenningu frá ýmsum hliðum. Nemendur fá þjálfun í að lesa íslensk handrit frá ýmsum tímum, allt frá elstu skinnhandritunum á tólftu og þrettándu öld og fram á tíma pappírshandrita á sautjándu og átjándu öld. Gefið verður yfirlit yfir skriftarsöguna, fjallað um uppruna íslenskrar skriftar og helstu breytingar á henni í tímans rás og nemendur þjálfaðir í að lesa ólíkar skriftartegundir frá ólíkum tímum. Stafsetning fornra handrita er um margt ólík þeirri stafsetningu sem við eigum að venjast í nútímanum. Þar er til að mynda notað kerfi skammstafana sem að hluta til er arfur úr miklu eldri latínustafsetningu. Nemendur fá þjálfun í að lesa úr þessum styttingum. Íslenskt mál hefur einnig breyst í tímans rás og margvíslegar málbreytingar birtast þegar lesnir eru íslenskir textar frá ólíkum tímum. Rætt verður um valdar breytingar. Breytingar á skrift, stafsetningu og máli veita mikilvægar vísbendingar um aldur handrita og fá nemendur þjálfun í að tímasetja íslensk handrit á grundvelli skriftar, stafsetningar og máls.
Fjallað verður um bókagerð á miðöldum og meðal annars rætt um skinnaverkun, blekgerð og bókband. Fjallað verður um skrifara og skrifaraskóla og líklegar miðstöðvar bókagerðar á Íslandi á miðöldum. Rýnt verður í verk nokkurra afkastamikilla skrifara frá fjórtándu öld. Hvað var skrifað? Hvernig var skrifað? Breyttust vinnubrögð skrifara á löngum skrifaraferli? Enn fremur verður fjallað um textana sem handritin geyma og undirstöður textafræðinnar kynntar. Njáls saga hefur, svo dæmi sé tekið, varðveist í ríflega sextíu handritum og textinn í þeim er nokkuð breytilegur. Hvaða handrit á að leggja til grundvallar við útgáfu Njáls sögu? Rætt verður um mismunandi útgáfur fornra texta og nemendur takast á við útgáfuverkefni. Fjallað verður um rafrænar útgáfur og nemendur fá þjálfun í merkingu fornra texta með textamerkingarmálinu XML eftir leiðbeiningum Medieval Nordic Text Archive (MENOTA) og Medieval Unicode Font Initiative (MUFI).
Námskeiðið er kennt með blöndu af fyrirlestrum og vinnustofum með virkri þátttöku nemenda. Efni verður oft miðlað með upptökum á fyrirlestrum til að geta nýtt meiri tíma í kennslustofu fyrir umræður og virka þátttöku nemenda.
Námskeiðið er kennt í samstarfi við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og fara nemendur í heimsókn á stofnunina til að kynnast safnkosti og vinnuaðstöðu og skoða handrit.
Kennsluáætlun
Vika 1
(1) Inngangur
Námskeiðið kynnt: kennslufyrirkomulag, lesefni, verkefni, námsmat.
Viðfangsefnið kynnt: Íslensk miðaldahandrit.
(2) Elstu handrit og upphaf ritunar á Íslandi
Ágrip af sögu latínuleturs og elstu handrit á íslensku. Hvar lærðu Íslendingar að nota latínuletur? Hvaða stafsetning var notuð? Helstu einkenni miðaldastafsetningar og notkun styttinga.
Vika 2
(3) Rafrænar útgáfur norrænna forntexta
Hvernig er hægt að miðla fornum textum með rafrænum hætti? Textamerkingarmálið XML, TEI, MENOTA, MUFI og fleira því tengt. Við spreytum okkur á að skrifa upp og merkja texta í XML.
(4) Stafsetning elstu handrita og Fyrsta málfræðiritgerðin
Notkun latínustafrófsins við að skrifa íslensku: áskoranir — og lausnir höfundar Fyrstu málfræðiritgerðarinnar um miðja tólftu öld.
Vika 3
(5) Íslensk skrift og stafsetning á þrettándu öld
Munurinn á íslenskri og norskri skrift og stafsetningu á tólftu öld. Hvað breyttist á þrettándu öld?
(6) Ólíkar tegundir prentútgáfna: fræðilegar útgáfur
Hversu nákvæmar eiga prentaðar útgáfur að vera? Á að prenta hvern stafkrók úr handritinu? Hvað er „samræmd stafsetning forn“? Hverjar eru þarfir notenda? Hvert er hlutverk útgefandans?
Vika 4
(7) Norsk áhrif á skrift, stafsetningu og mál í handritum á Íslandi
Hvernig birtast norsk áhrif? Hve djúpt ristu þau? Hve lengi má finna þau í íslensku ritmáli?
(8) Aldursgreining handrita: skrift, stafsetning og mál
Hvernig er unnt að aldursgreina miðaldahandrit? Fjallað um nokkur einkenni í skrift, stafsetningu og máli er að gagni geta komið.
Vika 5
(9) Íslensk skrift og stafsetning á fjórtándu öld
Helstu einkenni og helstu breytingar.
(10) Ein rithönd eða margar?
Að sjá handa skil: Nokkur greinimörk. Íslenska hómilíubókin frá um 1200: Einn skrifari eða fjórtán?
Vika 6
(11) Bókagerð: skinn, blek, band og forvarsla
Hvernig var skinn verkað til bókfells? Hvernig var blek unnið? Hönnun bókar og bókband. Viðgerð bóka í nútímanum og varðveisla til framtíðar.
(12) Bókagerð: skinn, blek, band og forvarsla
Heimsókn á Stofnun Árna Magnússonar: Handrit skoðuð og handfjötluð undir ströngu eftirliti. Gripið í fjaðrapenna, oddur skorinn og dýft í blek.
— VERKEFNAVIKA —
Vika 7
(13) Skrifarar, skrifaraskólar, útflutningur bóka
Um atvinnuskrifara, samvinnu skrifara og mikla bókaframleiðslu. Skrifuðu Íslendingar bækur til útflutnings á þrettándu og fjórtándu öld?
(14) Íslensk skrift og stafsetning á fimmtándu og sextándu öld
Helstu einkenni og helstu breytingar.
Vika 8
(15) Textafræði
Handrit verður til af handriti; textinn tekur breytingum. Um textageymd, lesbrigði, skyldleika handrita og stemmu.
(16) Textafræði
Lesið og skrifað upp úr íslenskum miðaldahandritum, handrit borin saman og lesbrigðum safnað.
Vika 9
(17) Lýsingar í handritum
Um skreytta upphafsstafi og myndlist í miðaldahandritum; listamenn, handbragð og fyrirmyndir.
(18) Handritaskrár og handritaskráning
Við kynnumst helstu handritaskrám og ferlinu við skráningu handrits.
Vika 10
(19) Íslensk skrift og stafsetning á sautjándu og átjándu öld
Helstu einkenni og helstu breytingar.
(20) Textar í uppskriftum: forngripur eða lifandi texti?
Hvernig breyttist tungumálið í meðförum skrifara sem skrifuðu upp gömul handrit? Njáls saga er talin skrifuð undir lok þrettándu aldar. Hvaða mál er á Njáls sögu á sautjándu og átjándu öld?
Vika 11
(21) Fornfræðaáhugi, handritasöfnun og uppskriftaöld
Á sextándu öld kviknaði mikill áhugi á fornum fræðum, gömlum handritum var safnað og þau skrifuð upp af kappi.
(22) Ólíkar tegundir prentútgáfna: alþýðlegar útgáfur
Hvernig á að búa forna texta í hendur almenningi? Á að halda fornum einkennum í máli og stafsetningu eða á að færa allt til nútímahorfs? Um trúnað við handrit og trúnað við lesendur.
Vika 12
(23) Handritasöfn og handritasafnarar
Ævi og starf Árna Magnússonar.
(24) Handritamálið og heimkoma handritanna
Leitin að Skarðsbók postulasagna og kaup á æsispennandi uppboði, handritamálið og heimkoma handritanna.
— Þetta yfirlit er birt með fyrirvara um breytingar. —
Lesefni
Listi yfir lesefni er að finna á Canvas. Efni þar er (oftast) skipt í þrjá flokka:
(a) Skyldulesning: Textar sem ætlast er til að allir nemendur lesi.
(b) Valfrjálst viðbótarlesefni: Þetta er viðbótarlesefni fyrir þá sem vilja kafa dýpra.
(c) Fyrir þá sem vilja enn þá meira! Hér eru ábendingar um ýmiss konar lesefni. Þessi hluti er mest til uppýsingar en gæti komið að gagni við rannsóknaverkefnið.
Drjúgur hluti skyldulesefninu (og nokkuð af valfrjálsa viðbótarlesefninu) er á Canvas. Lesefni sem ekki er á Canvas er hægt að nálgast á rannsóknabókasafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í Eddu og á Landsbókasafni-Háskólabókasafni í Þjóðarbókhlöðu.
Forkröfur
Námskeiðið er á meistarastigi en opið grunnnemum sem lokið hafa að minnsta kosti 90 ECTS einingum með fyrstu einkunn (M-námskeið). Kunnátta í íslensku er nauðsynleg.
Kennslufyrirkomulag
Námskeiðið er kennt með blöndu af fyrirlestrum og vinnustofum með virkri þátttöku nemenda. Efni verður oft miðlað með upptökum á fyrirlestrum til að geta nýtt meiri tíma í kennslustofu fyrir umræður og virka þátttöku nemenda (vendikennsla).
Vinnumál: Námskeiðið situr blandaður hópur nemenda hvaðanæva úr heiminum og því eru notuð tvö vinnumál, íslenska og enska. Fyrirlestrar eru teknir upp bæði á íslensku og ensku (að frátöldum gestafyrirlesurum sem flytja sitt mál á ensku), skrifleg verkefni eru bæði á íslensku og ensku, lesefni er á íslensku, ensku og Norðurlandamálum. Umræður í kennslustofu eru að mestu á ensku en íslensku má einnig nota í umræðum. — Sjá sérstakt minnisblað um vinnumál og vinnulag í kennslustofu.
Kröfur og námsmat
Lokaeinkunn í námskeiðinu verður byggð á eftirfarandi þáttum:
(1) Uppskriftir texta úr handritum: 30%
(2) Verkefni í handritaskráningu: 10%
(3) Verkefni í aldursgreining handrits: 10%
(4) Kynning á handriti dagsins: 10%
(5) Rannsóknarritgerð: 30%
(6) Virkni í kennslustundum: 10%
Skriflegum verkefnum verður öllum skilað í gegnum Canvas. Nánari fyrirmæli um verkefni og skilafresti er að finna á Canvas.
Miðaldalatína (KLM203G)
Í námskeiðinu verða lesnir og þýddir valdir kaflar úr latneskum miðaldabókmenntum (allt frá lokum 4ðu aldar til upphafs þeirrar 16du) úr ýmsum áttum: fagurbókmenntum og sagnaritun, heimspeki og guðfræði. Textar verða skýrðir málfræðilega og ræddir efnislega eftir þörfum.
Námskeiðið er kennt á íslensku en nemendum, sem hafa annað móðurmál en íslensku, stendur til boða að ljúka verkefnum og prófum á ensku.
Siðfræði vísinda og rannsókna (HSP806F)
Námskeiðið er eingöngu ætlað framhaldsnemum. Tekið verður mið af þörfum nemenda af ólíkum fræðasviðum við útfærslu námskeiðsins.
Kennsla fer fram á fyrstu sex vikum vormisseris á föstudögum kl. 13:20 til 15:40.
Viðfangsefni:
Meðal annars verður fjallað um eftirfarandi efni: Fagmennska og ábyrgð vísindamanna. Kröfur um fræðilega hlutlægni og hlutleysi vísinda. Jafnréttissjónarmið og ríkjandi viðmið í vísindastarfi. Vald og vísindi. Hagsmunaárekstrar í vísindastarfi. Vísindin og samfélagið. Siðfræði rannsókna.
Markmið:
Nemendur öðlist þekkingu á siðferðislegri vídd vísinda og rannsókna og fái þjálfun í að greina og rökræða um siðferðileg ágreiningsefni tengd vísindum og rannsóknum í nútímasamfélagi.
Kennsla er í formi fyrirlestra og umræðna. Námskeiðið er hugsað sem akademískt samfélag þar sem nemendur taka virkan þátt í markvissri umræðu um viðfangsefnin. Hver nemandi flytur framsöguerindi samkvæmt áætlun sem gerð er í upphafi misseris og jafnframt kynna aðrir nemendur sér efnið og ræða það í málstofunni undir handleiðslu kennara.
Málfar Eddukvæða (ÍSM025F)
Farið verður yfir nokkur eddukvæði og málfar þeirra athugað. Einkum verður þeim þáttum gefinn gaumur sem varpa ljósi á aldur einstakra kvæða (beygingarfræði, setningafræði, orðfræði, bragfræði). Í því samhengi verður vitnisburður eddukvæða borinn saman við vitnisburð annarra málheimilda. Rætt verður um ýmsar aðferðir sem beitt er við aldurgreiningu eddukvæða.
Bergmál alþjóðlegra miðalda í samtímasögu (SAG413M)
Námskeiðið „Echoes of a Global Medieval Ages in Contemporary History“ kannar mót miðalda og samtímans, með því að skoða hvernig minningar, tákn og frásagnir miðalda halda áfram að móta núverandi hugmyndafræði, sjálfsmyndir og hnattræn sjónarmið. Með þematískri rannsókn á ákveðnum svæðum greinir námskeiðið hvernig ólík samfélög í dag endurtúlka og endurbyggja miðaldafortíð sína en einnig munum við fjalla um arfleifð heimsvaldastefnu, þjóðernishyggju og samskipti á milli menningarheima. Lykilatriði eru meðal annars áhrif stjórnarhátta, menningartákna, viðskiptaneta og hugmyndafræðilegra átaka miðalda á málefni samtímans.
Íslensk miðaldahandrit (MIS204F)
Inngangur að handritafræði með áherslu á miðaldir. Fjallað verður um sögu íslenskrar handritamenningar, kynnt verða grunnatriði í bókagerð miðalda og nemendur þjálfaðir í að lýsa handritum með viðeigandi sérorðaforða. Kenndur verður handritalestur og uppskrift texta. Fjallað verður um þróun stafsetningar og stafagerðar, ólíkar skriftartegundir, bönd og styttingar og kenndar aðferðir við að aldursgreina handrit með tilliti til skriftar og stafsetningar.
Víkingaaldarfornleifafræði (FOR102F)
Yfirlit um sögu víkingaaldar og sögu rannsókna á víkingaöld. Áhersla er lögð á fornleifaheimildir, byggingaleifar og gripi, og hvernig þær hafa verið notaðar til að varpa ljósi á þetta tímabil. Sérstök áhersla er lögð á lýsingu hagkerfa á víkingaöld, álitamál um þjóðerni og uppruna ríkisvalds.
Miðaldafornleifafræði (FOR812F)
During the last decades, medieval archaeology has experienced significant growth as a discipline concerned with material culture. Initially, the use of material culture was marginalized to the role of confirming or refuting historical knowledge about this period but today it is understood as having equal historical importance to the archived material. The course is thus intended to improve student’s understanding of Medieval Europe during the period 800–1600 AD through the study of material culture. It deals with general themes in medieval archaeology, such as identity, social status, rural and urban landscapes, religion, life and death, rather than the historical development of the Middle Ages in chronological order. The aim is to give students insight into the different fields of theory and method of medieval archaeology through both material and documentary evidences in accordance with the current state of research. A special emphasis will be put on medieval Iceland, as a part of European culture and society, but even on how medieval archaeologists gather their sources, analyse them and reach conclusions of historical importance.
Norræn trú (ÞJÓ203F)
Trúarlíf manna á norðurslóðum er tekið fyrir og heimildir allt frá elstu tímum, eins og grafir, rúnasteinar, hellaristur og aðrar fornminjar verða skoðaðar. Einnig verða lesnar lýsingar á norrænum trúarathöfnum í verkum eftir Tacitus, Adam frá Brimum, Saxo Grammaticus og í fornritum Íslendinga eins og Eddukvæðum og Konungasögum. Auk norrænnar trúar verður fjallað um seið og sjamanisma. Örlagatrú er tekin til ítarlegrar umfjöllunar sem meginþáttur í forkristnum átrúnaði á Norðurlöndum. Loks er vikið að því hvernig kristindómur hefur fallið að norrænum lífsháttum og hugsunarhætti. Námskeiðið er kennt á ensku.
Vinnulag
Kennsla fer fram í fyrirlestrum, og umræðum um fyrirlestra.
Fræði og ritun (ENS231F)
Á þessu námskeiði fjöllum við um menningar-, frásagnar- og aðlögunarfræði. Virk þátttaka er nauðsynleg.
Arabíska I (MAF102G)
Nemendur byrja á því að læra arabíska stafrófið og málhljóðin ásamt undirstöðuatriðum. Eftir að nemendur hafa náð góðum tökum á stafrófinu verður farið í helstu málfræðiatriði, einfalda setningargerð og orðaforða. Samhliða því er einblínt á bæði hlustun og munnlega tjáningu. Mikil áhersla er lögð á mætingu og heimavinnu nemenda. Námskeiðið er kennt á ensku.
Námskeiðið er undanfari MAF204G: Arabíska II.
Víkingaöldin (MIS704M)
Á víkingaöld héldu norrænir menn í stórum stíl frá meginlandi Skandinavíu vítt og breitt um Evrópu, austur til Miklagarðs og Kaspíahafs, vestur til Bretlandseyja, Írlands og Frakklands, og suður fyrir Íberíuskaga og inn í Miðjarðarhafið. Margvíslegar heimildir vitna um ferðir þeirra, fornleifar sem og ritaðar lýsingar þar sem þeir ganga undir ýmsum nöfnum og koma fyrir í margvíslegum hlutverkum, t.d. sem ógvekjandi innrásarsveitir, nokkuð friðsamir kaupmenn, eða leiguliðar.
Norðurheimur á miðöldum (SAG716M)
Sögulegt yfirlit og saga rannsóknarhefðar um valin þemu norrænna miðalda, með áherslu á Ísland og Noreg frá víkingaöld fram til fjórtándu aldar. Þemu telja, m.a.: vald, konungur og ríki; lög og fæðardeilur; kyngervi, mægðir og félagstengsl; trú og hugarfar; kristnitaka, kristni og kirkja; efnahagur. Grunnþekking í atburðasögu tímabilsins er hjálpleg en ekki skilyrði. Leskunnátta í þýsku og norrænum málum er einnig hjálpleg en ekki skilyrði (skyldulesefni er allt á ensku). Nemendur semja eina ritgerð og stýra umræðum; ekkert skriflegt próf.
Hafðu samband
Þjónustuborð Hugvísindasviðs
s.525 4400 hug@hi.is.
Opið virka daga frá kl 10:00–12:00 og 13:00–15:00.
3. hæð Aðalbyggingar.
Sæmundargötu 2, 102 Reykjavík.
Nemendur á Hugvísindasviði geta einnig nýtt sér þjónustuborð á Háskólatorgi.
Fylgstu með Hugvísindasviði

Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.