ESB styrkir fjölþjóðlegt kennsluverkefni á sviði sjálfbærrar verkefnastjórnunar
Öll þekkjum við stjórnun verkefna í daglega lífinu. Sum þau allra einföldustu snúast um að skrifa á minnismiða það sem maður ætlar sér að kaupa í næstu búðarferð og merkja svo inn á miðann það sem er tekið úr hillunum. Í rekstri eru verkefnin yfirleitt miklu flóknari. Verkefnisstjórnun í víðum skilningi er enda ört vaxandi svið í rekstri fyrirtækja og stofnana enda sýna rannsóknir að meira en þriðjungur af vergri landsframleiðslu í hagkerfum um allan heim sé unnin í formi verkefna. Vísindamenn á sviði verkefnastjórnunar telja sig sjá merki um að þessi tala muni hækka í náinni framtíð. Og hvers vegna skyldi svo vera? Jú, verkefnisstjórnun eykur m.a. hagkvæmni, afköst, framleiðni, hún bætir nýtingu og öryggi og treystir afhendingartíma og gæði.
Í stefnu skólans, HÍ26, er hvatt til að fjölga sameiginlegum námsleiðum með erlendum háskólum. Vísir að því er sannarlega í nýju samstarfsverkefni þriggja evrópskra háskóla um þróun á öflugu námskeiði um sjálfbæra verkefnastjórnun og verkefnavæðingu á meistarastigi. Háskóli Íslands, Háskólinn í Belgrad og Háskólinn í Vilníus koma að verkefninu og keyra nú saman tilraunanámskeið sem er aðgengilegt meistaranemum í verkefnastjórnun við HÍ. Verkefnið er styrkt myndarlega af Evrópusambandinu.
„Helstu markmið námskeiðsins eru að innleiða sjálfbærnihugsun í verkefni,“ segir Inga Minelgaite, prófessor í verkefnastjórnun við HÍ, en hún leiðir verkefnið fyrir hönd HÍ. Hún segir að verkefnisstjórnun sé gríðarlega mikilvæg í öllum rekstri og sjálfbærnihugsunin í vinnslu verkefna leiði af sér bæði samfélagslegar- og efnahagslegar úrbætur sem séu bráðnauðsynlegar á tímum þegar tekist er á við alls kyns áskoranir á alþjóðavísu.
„Með þessu erum við líka að treysta að sjálfbærni verði órjúfanlegur hluti af meistaranámi í verkefnastjórnunarlínu Háskóla Íslands.“
Inga segir að verkefnið gagnist mjög nemendum Háskóla Íslands enda læri þeir m.a. að vinna í teymum að alþjóðlegum verkefnum sem hafi mismunandi flækjustig. „Þeir kynnast gangverki sjálbærrar þróunar í verkefnum og samtímis því menningu annarra þjóða auk þess að sjá tækifæri til umbóta á sjálfbærnistefnu fyrirtækja hér og erlendis.“
Námskeið þróað sem verður öllum aðgengilegt
Doktorsneminn Ingibjörg Karlsdóttir er í hópi þeirra sem tóku þátt í undirbúningi verkefnisins sem er styrkt af Erasmus+. Hún segir að fyrir rösku ári hafi hún fengið tækifæri til að ganga til liðs við skipulagshópinn. „Það er mikill heiður að vera hluti af skipulagshópi þessa verkefnis og þar er magnað að sjá verkefnið verða að veruleika eftir að hafa tekið þátt í undirbúningi þess. Ég er svo ótrúlega stolt af nemendunum í þessu verkefni,“ segir Ingibjörg.
Hún segir að í framhaldi af þróun námskeiðsins sem nú standi sé hugmyndin að aðrir háskólar geti innleitt það með því að fara eftir handbók sem verði útbúin á meðan verkefninu stendur. „Handbókin verður öllum aðgengileg að verkefninu loknu,“ segir Ingibjörg.
Það fer vel á hafa sterkan fókus á sjálfbærni í þróun námskeiða við Háskóla Íslands enda eru það skýr markmið nýrrar stefnu skólans að miðla þekkingu í þágu sjálfbærs samfélags. Ætlunin er sú samkvæmt framtíðarstefnunni að HÍ verði leiðandi á sviði sjálfbærni í krafti kennslu, rannsókna og þekkingarsköpunar. Ingibjörg segir að háskólar gegni enda mikilvægu hlutverki við að móta framtíð sjálfbærra stjórnarhátta sem leiði til sjálfbærara samfélags og Inga tekur undir það.
Inga Minelgaite, prófessor í verkefnastjórnun við HÍ, sem er hér til vinstri, leiðir verkefnið fyrir hönd HÍ og doktorsneminn Ingibjörg Karlsdóttir, sem er hér til hægri, er í hópi þeirra sem tóku þátt í undirbúningi þess. „Með verkefninu erum við að treysta að sjálfbærni verði órjúfanlegur hluti af meistaranámi í verkefnastjórnunarlínu Háskóla Íslands.“
Frábær reynsla fyrir nemendur HÍ í Belgrad
Þær Inga og Ingibjörg segja að núna í febrúar hafi hópur haldið utan til Belgrad, höfuðborgar Serbíu, til að taka þátt í verkefnavinnu í tengslum við námskeiðið en vinnan stóð yfir í fimm daga. Tveir nemendur voru í hópnum, þær Þórða Berg Óskarsdóttir og Ragnheiður Ásta Brynjólfsdóttir sem báðar eru meistaranemar í verkefnastjórnun við Viðskiptafræðideild HÍ.
„Það var mjög skemmtilegt og fróðlegt að sjá hvernig kennarar frá ólíkum þjóðlöndum nálgast sjálfbæra stjórnun verkefna. Það var ekki síður lærdómsríkt að fá tækifæri til að ræða við þá utan kennslustofunnar um málefni sem því tengjast,“ segir Þórða Berg.
„Reynslan af því að vinna verkefni í þvermenningarlegu teymi var líka ógleymanleg. Eldmóður nemendanna í námskeiðinu fyllti mig hreinlega andagift og jók áhuga minn enn frekar á sjálfbærnimálum. Þetta gaf mér líka hugmyndir að nýjum verkefnum sem leiða til sjálfbærari hugsunar og framtíðar,“ segir Þórða.
Ragnheiður Ásta tók í svipaðan streng og sagði að ferðin hefði sýnt sér mikilvægi þess að einstaklingar sem vinni að verkefnum á alþjóðavísu kynni sér mismunandi menningu þeirra einstaklinga sem þeir starfi með. Hún segir að með fjölbreytileika innan verkefnateyma gerist hreinlega töfrar. „Maður öðlast nýja sýn á hlutina frá mismunandi sjónarhornum. Um leið skapast nýjar lausnir sem hefðu ekki endilega opnast ef skortur væri á fjölbreytileika.“
Ragnheiður Ásta segir það mjög áhugavert að fræðast um hvernig verkefnavæðing sé innan mismunandi menningar og sjá þau tækifæri sem sjálfbær þróun hafi upp á að bjóða í öðru menningarsamfélagi. „Við gátum með þessu samstarfi sameinað krafta okkar við að leysa þau raundæmi sem okkur var úthlutað. Við gátum deilt mismunandi þekkingu okkar á sjálfbærri þróun og stjórnarháttum verkefna og þróað þannig farsælar lausnir á þeim vandamálum sem við stóðum frammi fyrir.“
Næsta námskeið verður haldið á Íslandi í maí og í haust verður námskeiðið haldið í Vilníus í Litháen.