Stór hluti af þeim áskorunum sem við glímum við í nútímanum tengjast úrgangi og sorpi sem stöðugt eykst frá iðnaði og heimilum eftir því sem neysla eykst víða um heiminn. Vandi mannkyns felst meðal annars í því að finna þessu rusli stað á þann veg að umhverfið verði fyrir sem minnstum skaða – helst engum. Rusl endar nefnilega ekki bara víðsvegar í jörð eða á landi heldur virðast menn lifa við þá visku að hafið taki lengi við. Samkvæmt umhverfisstofnun Evrópu er talið að hartnær tíu milljónir tonna af rusli endi árvisst í heimshöfunum. Margt af því sem þar flýtur er rusl sem flokkast gjarnan sem heimilissorp og veldur víða gríðarlegu tjóni á lífríki og umhverfi.
Fáir eru beinlínis á höttunum eftir sorpi nema í þeim skilningi að plokka það og farga því, endurvinna eða urða á vistvænari hátt en gert er, nema kannski fornleifafræðingar sem finna í því merka sögu sem þeir skila til okkar um lífshætti frá fyrri tíð.
„Fornleifafræðingar fá oft þau svör þegar staðkunnugir eru spurðir eftir fornum öskuhaugum að í gamla daga hafi engu verið hent heldur hafi allt verið notað og nýtt. Fornleifarnar sýna þó skýrt að sú var alls ekki raunin,“ segir nýdoktorinn Ágústa Edwald Maxwell sem vinnur nú að rannsókn við HÍ sem heitir því skemmtilega nafni: Frá öskuhaugum til urðunar. Fornleifafræði íslensks heimilissorps frá 1850-1990.
Ágústa segir að allt frá landnámsöld hafi Íslendingar losað sig við ákveðna hluti frá heimilum sínum og fram á nítjándu öld hafi þessu rusli verið hent fyrir utan bæinn, stundum til uppfyllingar í gamlar tóftir, dældir eða hraunsprungur eða safnað saman í hauga. Hún segir að rusl sé því alls ekki bara nútímafyrirbrigði þótt söfnun þess á sameiginlega urðunarstaði sé nýtt fyrirkomulag. „Magn og gerð þess hefur vissulega breyst en hvernig og af hverju, það er rannsóknarefni,“ segir Ágústa.
Neysla heimilanna jókst upp úr miðri nítjándu öld
Eins og nafn rannsóknarinnar bendir til er markmið Ágústu að skoða hvernig heimilisrusl breytist á tímabilinu frá miðri nítjándu öld og fram til miðrar tuttugustu aldar. „Við þekkjum okkar eigin rusl nokkuð vel og gerum okkur sífellt betur grein fyrir því að það hverfur ekki þegar við hendum því heldur birtist það okkur aftur á ýmsan hátt, t.d. í mögum sjávarspendýra og fugla. Orðræðan um að í gamla daga hafi fólk verið nýtnara og hent færri hlutum, gert við það sem bilaði, látið notaða hluti ganga á milli fjölskylda o.s.frv. er sterk og sprettur sífellt upp í umræðu um neysluhyggju og umhverfisvá samtímans. Þessar hugmyndir hafa þó ekki verið rannsakaðar sérstaklega og má segja að það sé eitt að aðalmarkmiðum verkefnisins.“
Ágústa segir að fyrri rannsóknir sýni fram á að upp úr miðri nítjándu öld hafi neysla heimilanna aukist talsvert sem skili sér í fleiri gripum í fornleifauppgreftri frá þeim tíma. „Almennt er svo talið að íslensk heimili hafi neytt sífellt fleiri hluta eftir því sem tuttugustu öldinni vatt fram en ekki hefur verið rannsakað hvernig þessi aukna neysla endruspeglast í auknu rusli. Hvernig samsetning heimilisrusl þróaðist t.d. með tilliti til verslunar með notaðan varning og endurvinnslu.“
Frá uppgreftri í Hljómskálagarðinum sumarið 2020. Í baksýn sést Aðalbygging Háskóla Íslands.
Umræðan um neyslu ýtti undir áhugann
Oft er sagt að forvitni sé einn helgasti aflvaki margra vísindamanna og ljóst er að fornleifafræðingar sem opna stöðugt glugga inn í fortíðina þurfa að hafa þennan eiginlega í stórum stíl. Þótt þetta verkefni Ágústu sé alveg sjálfstætt er það í raun að hluta framhald af fyrri rannsóknum hennar. Síðasta rannsóknaverkefni hennar snerist um 19. aldar heimili og eignir þeirra eins og þær birtast í gripasöfnum úr fornleifauppgröftum og dánarbúum.
„Uppboðsskjöl fylgja oft dánarbússkjölum og þar er listi yfir þær eignir sem voru seldar áfram og að sama skapi voru sum gripasöfnin sem ég skoðaði úr ruslalögum. Þessi spurning um hverju var hent og hvað var selt áfram fór því að gerjast með mér.“
Ágústa segir að umræðan í samfélaginu um sorp og gengdarlausa neyslu hafi líka ýtt undir áhuga sinn á að skoða hvernig og hvort þessi neyslubylting sem hún sá í dánarbúunum og gripasöfnunum endurpeglaðist í einhverskonar ruslabyltingu. „Frétt um að borgin hafi verið skaðabótaskyld vegna gamals rusls sem kom upp á byggingareit við Eiðsgranda varð svo til þess að ég ákvað að safna upplýsingum um gamla urðunarstaði í borgarlandinu og að endingu að sækja um styrk til Rannsóknarmiðstöðvar Íslands fyrir verkefninu.“
Uppgröfturinn fór fram í Hljómskálagarðinum
Margir sjá fyrir sér fornleifafræðinga við uppgröft á stöðum þar sem fáir fara um en tengjast eftir sem áður sögunni með afgerandi hætti. Í þetta skiptið fór uppgröfturinn hreinlega fram í hjarta Reykjavíkur, í sjálfum Hljómskálagarðinum, enda er það nú svo að búið hefur verið í Reykjavík frá því fólk settist hér að.
„Ég er aðalrannsakandinn við rannsóknina,“ segir Ágústa. „Við uppgröftinn sem fór fram í fyrrasumar í Hljómskálgarðinum störfuðu auk þess tveir grunnnemar í fornleifafræði, þær Arndís Lilja Blöndal Hauksdóttir og Katrín Georgsdóttir. Gavin Lucas, prófessor við HÍ, hefur verið mér innan handar með ýmisleg verkefni og greiningar og auk þess bý ég að því að eiga góða samstarfsaðila hjá Fornleifastofnun Íslands, sem hafa veitt mér aðgang að gripasöfnum.“
Ágústa segir að verkefnið felist í því að skoða og tvinna saman tvær gerðir heimilda. Annars vegar ritaðar heimildir og hins vegar fornleifar. „Rituðu heimildirnar eru margskonar til dæmis uppboðskjöl, útflutningsskýrslur, verslunarleyfi, gjörðabækur Heilbrigðisnefndar og Veganefndar Reykjavíkur auk þess sem ég hef skoðað þá spurningalista Þjóðháttasafns sem víkja að hreinlæti og heimilisverkum. Fornleifafræðigögnin eru annars vegar gripir úr uppgröftum í miðborginni þar sem ruslalög hafa verið grafin upp við einstaka hús og hins vegar uppgröftur á elsta urðunarstað Reykjavíkur í Hljómskálagarðinum. Þar hentu starfmenn borgarinnar rusli frá heimilum í Vestur- og Miðbæ á árunum 1919-1930.
„Orðræðan um að í gamla daga hafi fólk verið nýtnara og hent færri hlutum, gert við það sem bilaði, látið notaða hluti ganga á milli fjölskylda o.s.frv. er sterk og sprettur sífellt upp í umræðu um neysluhyggju og umhverfisvá samtímans. Þessar hugmyndir hafa þó ekki verið rannsakaðar sérstaklega og má segja að það sé eitt að aðalmarkmiðum verkefnisins,“ segir nýdoktorinn Ágústa Edwald Maxwell.
Svörin leynast í ruslinu
Í rannsóknum er leitað svara við spurningum, og svo birtast oft nýjar eftir því sem verkinu vindur fram. Ágústa hélt af stað inn í fortíðina með þessar krefjandi spurningar: Hver er samsetning heimilisrusls á tímabilinu 1850-1990? Hvernig og hvert losaði fólk sig við hluti sem það vildi ekki lengur eiga á þessu tímabili? Var gert við hluti, voru þeir endurunnir, endurnýttir eða var þeim hent í nothæfu ástandi? Hvert var umfang verslunar með notaða hluti og endurvinnslu? Hvernig endurpeglar þessi þróun breytt viðhorf og skilning á hreinlæti, nýtni, fátækt og velmegun? Hvaða lærdóm getum við dregið af ruslamenningu síðustu 150 ára?
Þessar spurningar eru allar mjög forvitnilegar og svörin skipta okkur miklu máli því þau varpa ljósi það hver við erum og hvernig við höfum hagað ferð okkar inn í nútímann.
Að Ágústu sögn liggja bráðabirgðaniðurstöður fyrir við hluta rannsóknaspurninganna. „Uppboðsskjöl benda t.d. til þess að verslun með notaða hluti hafi verið mjög umfangsmikil hér á síðustu áratugum nítjándu aldar. Mikill meirihluti þeirra gripa úr dánarbúum sem seldir voru á uppboði seldust, jafnvel hlutir sem lýst var sem görmum eða í lélegu ástandi. Kaupendur voru nær allir karlmenn frá nálægum bænum en uppboð eignameiri búa drógu að sér kaupendur frá stærra svæði.“
Hún segir að endurvinnsla hráefna hafi einnig verið þónokkur á síðustu áratugum aldarinnar. „Frá miðri nítjándu öld var efni t.d. flutt úr landi til endurvinnslu. Þetta voru aðallega tuskur og bein og frá um 1890 málmar, helst járn. Ekki er alveg ljóst hvernig söfnun þessara efna fór fram en nokkrar auglýsingar eftir gömlum tuskum, reipum og málmum eru að finna í dagblöðum undir lok aldarinnar. Að meðaltali voru flutt út 39.479 kíló af beinum, að hvalbeinum undanskildum, á ári hverju á tímabilinu 1890 til 1900, 9.455 kg af tuskum og 8.959 kg af málmum. Árið 1895 var krónuvirði þessa útflutnings heilar 6.474 krónur.“
„Eftir því sem líður á tuttugustu öldina koma nýir gripaflokkar inn í safnið, t.d. ljósperur og rafmagnsöryggi og vírar. Samsetning rusls frá 1920 er því talsvert ólík því sem það var um 1870,“ segir Ágústa.
Árið 1919 hóf bærinn söfnun heimilissorps
Ágústa segir að viðhorf fólks til heimilisúrgangs hafi breyst nokkuð við aldamótin 1900, sérstaklega í þéttbýli, og endurspeglast það í nýju regluverki. „Talsvert var kvartað til bæjaryfirvalda í Reykjavík undan alls kyns óþrifnaði í bæjarlandinu. Ný heilbrigiðsreglugerð var samþykkt árið 1905 sem skyldaði alla bæjarbúa til að hafa sérstakar sorpkistur við heimili sín. Fólk vildi losna við ruslið í burtu frá heimilunum og þær raddir sem sögðu borgina bera ábyrgð á þessum úrgangi urðu sífellt háværari. Það var þó ekki fyrr en 1919 að bæjaryfirvöld tóku söfnun heimilissorps í sínar hendur. Ruslinu var safnað á ákveðna staði og var einn þeirra mýrin sunnan Tjarnarinnar. Það tók því um áratug frá því að reglugerð um sorp í Reykjavík var samþykkt þangað til að bæjaryfirvöldum tókst að fylgja henni í hvívetna. Ýmsar aðferðir voru reyndar til þess að losa heimilin við sorpið í millitíðinni og sitt sýndist hverjum.“
Ný samsetningu á sorpi eftir aldamótin 1900
Ágústa segir að um og eftir aldamótin 1900 verði nokkur breyting á samsetningu heimilissorps. Leirker sem eru meirihluti gripa úr rusli frá fyrri tímum víkja fyrir glerbrotum og málmbrotum ýmiss konar. Mikið af þessum glerbrotum séu úr umbúðum, s.s. flöskum og krukkum og járnhlutirnir eru m.a. úr niðursuðudósum.
„Eftir því sem líður á tuttugustu öldina koma nýir gripaflokkar inn í safnið, t.d. ljósperur og rafmagnsöryggi og vírar. Samsetning rusls frá 1920 er því talsvert ólík því sem það var um 1870. Hvað varðar aldursgreiningu ruslsins þá benda bráðbirgðaniðurstöður til þess að ruslið í sameiginlega ruslahaugnum í Hljómskálgarðinum spanni styttra tímabil en það sem grafið hefur verið upp við hús í Kvosinni,“ segir Ágústa.
Hún segir að þetta geti annaðhvort stafað af því að fólk hafi hent meira rusli og það því safnast saman hraðar eða að færri gamlir hlutir hafi verið í umferð á þessum tíma. „Ruslalög úr bakgörðum húsa innihalda til dæmis leirker sem voru framleidd með um það bil einnar aldar millibili. Það bendir til að sum þeirra hafi verið í notkun mjög lengi. Talsvert meira er um heilar flöskur og diska í ruslahaugnum í Hljómskálgarðinum en í gripasöfnum úr bakgarða-ruslahaugunum sem bendir til þess að gripum hafi hugsanlega fremur verið hent þegar þeir voru enn í nothæfu ástandi.“
Hverju hendum við og hvert?
„Gildi rannsóknarinnar er tvíþætt,“ segir Ágústa spurð út í það efni. „Í fyrsta lagi munu lokaniðurstöður hennar varpa ljósi á mikilvægan þátt í íslensku samfélagi sem hingað til hefur ekki verið skoðaður sérstaklega: hverju við hendum og hvert. Það er ljóst að þessar ákvarðanir eru háðar ýmsum menningarbreytum. Rannsóknir á neyslu heimilanna á nítjándu öld sýna skýrt að það var ekki einungis notkunargildi og nýtni sem réði hvers var neytt og það er því ólíklegt að það hafi stjórnað því hverju var hent.“
Ágústa segir að í öðru lagi muni niðurstaða rannsóknarinnar efla umræðu um rusl og ruslmenningu og minna okkur öll á að það sem við fleygjum hverfur ekki. „Gamla ruslið getur skýrt hvernig þeir hlutir sem við kaupum og notum enda í ruslinu og hvaða breytum, efnislegum og huglægum, sú ákvörðun byggidy á. Háleitasta markmið rannsóknarinnar er að varpa skýrara ljósi á það hvernig við urðum að einni af helstu ruslþjóðum í heimi og hjálpa okkur að snúa við blaðinu.“