Helga Rut í prófessorsstöðu við norskan háskóla
Helga Rut Guðmundsdóttir, prófessor í menntunarfræði tónlistar við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, hefur verið ráðin í hlutastöðu prófessors við Høgskulen på Vestlandet í Noregi til næstu tveggja ára. Þar mun hún m.a. vinna með rannsóknarhópi um þróun tónlistarkennslu.
Helga Rut tók formlega við stöðunni í upphafi árs. Löng hefð er fyrir því innan alþjóðlegs háskólasamfélags að ráða prófessora við tiltekna háskóla í hlutastöðu við aðra skóla, ekki síst til þess að efla rannsóknir og kennslu á tilteknum sviðum.
Helga Rut hefur m.a. í rannsóknum sínum lagt áherslu á söngþroska barna og samspil söngtöku og máltöku. Hún hefur tekið þátt í alþjóðlegum rannsóknarverkefnum á þessum sviðum og jafnframt hlotið styrki til rannsóknastarfa á sviði tónlistarkennslufræða við bandaríska háskóla.
Høgskulen på Vestlandet starfar á fimm stöðum á vesturströnd Noregs en Helga Rut mun ganga til liðs við rannsóknarteymi í Bergen sem nefnist Grieg Academy Music Education research group (GAME). Hópurinn vinnur m.a. að þróun tónlistarkennslu og framhaldsnáms á sviði menntunarfræði tónlistar og kemur að fjömörgum tónlistarkennslutengdum verkefnum víða um heim.
„Ég hef verið í samstarfi við kollega mína á Norðurlöndunum frá árinu 2002 og það snýst annars vegar um menntun meistara- og doktorsnema í tónlistarmenntunarfræðum og hins vegar um rannsóknasamstarf. Tónlistarmenntunarfræðingar í Bergen hafa um árabil sýnt rannsóknum mínum áhuga og á síðasta ári sótti tónlistardeildin um leyfi fyrir tveimur svokölluðum Prófessor II stöðum og þegar það fékkst í gegn buðu þau mér aðra þeirra,“ segir Helga Rut um aðdraganda ráðningarinnar við Høgskulen på Vestlandet.
Aðspurð segist hún ekki hafa þurfti að hugsa sig lengi um þegar boðið barst. „Í henni felst heiður og viðurkenning á minni reynslu og þekkingu á sviði rannsókna en ekki síður gefur hún mér tækifæri til að vinna nánar með nemendum og rannsakendum í Noregi. Það er mikill kostur að hafa aðgang að stærri hópi meistara- og doktorsnema á mínu sviði en er mögulegt hér á Íslandi. GAME-hópurinn er framarlega á sviði upplýsingatækni í tónlistarkennslu og við erum þegar farin að vinna að sameiginlegum umsóknum um styrki til nýrra verkefna,“ segir Helga Rut.