Dregið úr kolefnisspori með nýrri aðferð við áburðarframleiðslu
Háskóli Íslands hefur á síðustu árum lagt aukna áherslu á það að styðja bæði starfsfólk og nemendur af öllum fræðasviðum til nýsköpunar og hagnýtingar rannsóknaniðurstaðna. Þannig vill skólinn skapa ný tækifæri í íslensku atvinnu- og þjóðlífi og auka áhrif skólastarfsins á samfélagið enn frekar. Skólinn á nú hlut í um 20 sprotafyrirtækjum sem starfólk og nemendur hafa stofnað en öll vinna þau að því að leysa áskoranir sem samfélagið eða jafnvel mannkyn allt stendur frammi fyrir.
Þeirra á meðal er fyrirtækið Atmonia sem þróar byltingarkennda tækni sem auðvelda mun umhverfisvæna áburðarframleiðslu og greiða aðgang bænda um alla heim að áburði sem minnkar kolefnisspor þeirra. Fyrirtækið vinnur enn fremur með aðilum sem eru að setja á fót grænan orkugarð á Reyðarfirði, þar sem ætlunin er að nýta tækni Atmonia til sjálfbærar áburðaframleiðslu fyrir innlendan markað.
Hugmyndin á bak við Atmonia byggist á rannsóknum Egils Skúlasonar, prófessors í efnaverkfræði við Háskóla Íslands, og samstarfsfólks innan og utan lands og snýst um svokallaða efnahvata. „Fyrirtækið hefur unnið sleitulaust að þróun á nýjum og byltingarkenndum hvata, sem mun gera okkur kleift að framleiða ammoníak á umhverfisvænan hátt á samkeppnishæfu verði. Þetta er enn okkar aðaláhersla og mun vera þar til hvatinn hefur verið þróaður til fulls,“ segir segir Guðbjörg Rist, framkvæmdastjóri Atmonia, en hingað til hefur aðeins verið hægt að framleiða ammóníak við með mjög orkufreku og mengandi framleiðsluferli.
„Með fram þessari vinnu höfum við hafið þróun á kerfi sem býr til grænan nítratáburð úr ammoníaki sem eykur virði ammoníaksframleiðslu fyrirtækisins með því að vera skeytt aftan við ammoníaks-kerfið. Auk þess höfum við aukið viðskiptaþróun fyrirtækisins síðustu ár með ráðningum. Við erum t.a.m. komin með nokkur verkefni á teikniborðið í ýmsum heimshornum þar sem mótaðilar hafa áhuga að að reisa verksmiðjur sem byggja á tækni Atmonia og afkasta allt upp í 30 þúsund tonnum af ammoníaki á ári,“ bætir Guðbjörg við.
Rannsóknirnar þolinmæðisvinna en ávinningurinn mikill
Atmonia var stofnað árið 2016 og sigraði m.a. í nýsköpunarkeppninni Gullegginu árið 2017. Það hefur síðan vaxið hægt en örugglega, m.a. fyrir tilstilli styrkja úr ýmsum sjóðum og fjármagns frá fjárfestum. Einnig hefur aðstaðan hjá Tæknisetri skipt sköpum fyrir framgang fyrirtækisins þar sem aðgengi að sérhæfðu leiguhúsnæði og tækjabúnaði er tryggt. Þannig hafa vísindamenn fyrirtækisins getað haldið áfram þróun hugmyndarinnar og fyrirtækið smám saman bætt við sig mannskap, þar á meðal reynslumiklum aðilum úr sprota- og nýsköpunargeiranum. Eins og oftast gildir um hugmyndir sem kvikna í háskólum er rannsókna- og þróunarstarfið þolinmæðisvinna þar sem það tekur jafnvel mörg ár að sjá afrakstur vinnunnar.
„Vísindununum sem unnið er að innan Atmonia má lýsa sem djúptækni, sem felur í sér miklar fjárfestingar áður en eitthvað kemur út sem hægt er að markaðssetja. Þar af leiðandi er töluverð áhætta fólgin í að setja inn fjármagn í fyrirtæki sem vinnur slíkar rannsóknir en ávinningurinn er hins vegar þeim mun meiri þegar hlutirnir ganga upp. Stjórnendur Atmonia hafa því þurft að hafa mikið fyrir því að fá inn fjármagn í verkefnin og það hefur gengið upp fram að þessu í gegnum bæði styrki og fagfjárfesta. Vísindin sem fyrirtækið vinnur að eru flókin í framkvæmd og hafa því verið áskorun út af fyrir sig en þar sem tekist hefur að útvega lágmarksfjármagn til að halda rannsóknum gangandi frá stofnun fyrirtækisins hafa vísindamenn fyrirtækisins getað unnið sig sífellt nær lausninni. Styrkir frá Rannís og Tækniþróunarsjóði hafa að mestu leyti séð til þess að Atmonia hefur getað haldið rekstri gangandi í gegnum þessi síðustu ár,“ segir dr. Hákon Örn Birgisson, markaðsstjóri Atmonia, sem kom til liðs við fyrirtækið fyrir tveimur árum.
Sem fyrr segir er Háskólinn einn af hluthöfum í fyrirtækinu auk þess sem Egill Skúlason, einn af hugmyndasmiðunum og stofnendum þess, er einn stærsti hluthafinn. „Við höfum frá stofnun átt mjög gott samstarf við Háskólann, vinnum náið með rannsóknarhópi Egils og höfum veitt nemendum hans aðstöðu hjá okkur til sinna rannsóknum. Einnig njótum við þess að eiga samstarf við nanórannsóknasetrið og nýtum aðstöðuna þar,“ segir Guðbjörg aðspurð um samstarfið við Háskólann.
Framkvæmdastjórn Atmonia. Í efri röð eru þau Guðbjörg Rist og Hákon Örn Birgisson og í þeirri neðri Arnar Sveinbjörnsson og Helga Dögg Flosadóttir.
Unnnið að orkugarði á Reyðarfirði
Jafnbyltingarkennd hugmynd og forsvarsmenn Atmonia boða hefur eðilega vakið athygli innan lands og utan og skapað ný tækifæri. Á dögunum undirrituðu fulltrúar fyrirtækisins til að mynda viljayfirlýsingu um þátttöku í uppbyggingu á grænum orkugarði á Reyðarfirði, m.a. í samstarfi við sveitarfélagið Fjarðabyggð, Landsvirkjun og Copenhagen Infrastructure Partners (CIP). Markmið samstarfsins er m.a. að meta hvernig framleiðsla á grænu rafeldsneyti getur greitt fyrir orkuskiptum í sjávarútvegi, sjóflutningum og landflutningum. „Verkefni CIP og Landsvirkjunar fyrir austan er mjög spennandi og er mikilvægur liður í að minnka kolefnisfótspor, bæði hér heima og í þeim löndum sem skipta út vörum með hátt kolefnisfótspor fyrir grænar vörur framleiddar í orkugarðinum. Tilgangur Atmonia er að lækka kolefnisfótspor í heiminum hvar sem hægt er og fellur rekstur orkugarðsins fullkomlega að sýn og tilgangi Atmonia. Það var því auðveld ákvörðun að þiggja boð um að taka þátt,“ segir Hákon um verkefnið.
Það eru því afar spennandi tímar fram undan hjá Atmonia og þar eru markmiðin fyrir næstu ár skýr. „Áætlanir fyrirtækisins gera ráð fyrir að hvatinn verði tilbúinn til uppskölunar innan tveggja ára. Við tekur svo bestun á framleiðslu ammoníaks með tækinu og uppskölun á því. Reiknað er því með að fyrstu einingar í fullri stærð, sem framleiða ammoníak, verði komnar á markað innan fjögurra ára og að þær fari í uppbyggingu á þeim verksmiðjum sem þegar eru á teikniborðinu í Evrópu og Norður-Ameríku. Samfara þessu mun starfsemi fyrirtækisins og starfsmannafjöldi vaxa jafnt og þétt,“ segir Guðbjörg bjartsýn á framtíðina.