Doktorsvörn í menntavísindum: Svava Björg Mörk
Doktorsefni: Svava Björg Mörk
Heiti Ritgerðar: Samstarf í þriðja svæðinu: Nýr námsvettvangur í leikskólakennaranámi á Íslandi
Vörnin fer fram föstudaginn 4. febrúar kl. 9.00 í Hátíðarsal Háskóla Íslands og verður einnig streymt.
Andmælendur:
Dr. Frances Rust prófessor við University of Pennsylvania í Bandaríkjunum
Dr. Liv Torunn Grindheim prófessor við Western Norway University of Applied Sciences í Noregi.
Aðalleiðbeinandi: Dr. Kari Smith prófessor við Norwegian University of Science and Technology
Meðleiðbeinandi: Dr. Arna H. Jónsdóttir dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.
Auk þeirra sat í doktorsnefnd Dr. May Britt Postholm prófessor við Norwegian University of Science and Technology.
Dr. Kristín Jónsdóttir, forseti Deildar kennslu- og menntunarfræði, stjórnar athöfninni.
Öll velkomin.
Um verkefnið:
Doktorsverkefnið fjallar um samstarf á milli háskóla og vettvangs í leikskólakennaramenntun á Íslandi. Í verkefninu er sjónum beint að því að kanna hugtakið „þriðja svæðið” sem sameiginlegan námsvettvang þeirra sem koma að menntun leikskólakennara á Íslandi. Tilgangurinn var að kanna tengslin á milli fræða og starfs á vettvangi og hvernig þriðja svæðið getur verið sá hlekkur sem þarf til að tengja saman fræði og starf. Yfir rannsóknarspurningin er: „Hvernig getur „þriðja svæðið” orðið þýðingarmikill námsvettvangur í leikskólakennaramenntun á Íslandi?” Af þeim sökum var áherslan á mikilvæga þætti í þróun þriðja svæðisins, það er, samstarf í menntun leikskólakennara, nám leikskólakennaranema í vettvangsnámi og samskipti og verkaskiptingu hagsmunaaðila.
Gögnum var safnað á þrjá mismunandi vegu til að ná fram markmiði verkefnisins. Byrjað var á sögulegri greiningu opinberra gagna, síðan voru rýnihópaviðtöl tekin við leikskólakennaranema, leikskólastjóra, leiðsagnarkennara og háskólakennara. Í síðustu gagnaöfluninni voru tekin einstaklingsviðtöl við háskólakennara í ábyrgðarstöðu, sveitarstjórnarfólk í fræðsluráði og leiðsagnarkennara með framhaldsmenntun í starfstengdri leiðsögn. Opinber gögn voru kóðuð og greind með hliðsjón af fræðum um þriðja svæðið annars vegar og þriðja svæðið í kennaramenntun hins vegar. Viðtölin voru greind út frá fræðum um samstarf í kennaramenntun og þriðja svæðið, einnig var þemagreining notuð. Í lokin voru heildarniðurstöður rannsóknanna dregnar saman og skoðaðar út frá líkani Engeströms um útvíkkað nám.
Helstu niðurstöður sýna að þátttakendur töldu það mikilvægt að móta gott samstarf, fá fleiri aðila í samstarfið og styrkja samvinnu milli vettvangs og háskóla þar sem yfirmarkmið er að tryggja fagmennsku í leikskólastarfi. Þeir sáu þetta sem mikilvægan lið í að skapa sameiginlegan námsvettvang sem innihéldi nýsköpun, kraft og sveigjanleika - en allt þetta eru grundvallaratriði í myndun raunverulegs samstarfs. Þátttakendur ræddu einnig að skortur á samskiptum og umræðum virtist hindra samstarfið og fækka tækifærum til að þróa raunverulegt samstarf. Niðurstöður gefa til kynna að samstarf sé meira aðskilið og skorti sameiginlegt átak. Niðurstöður sýna að skilgreina þarf betur samstarf í leikskólakennaramenntun á Íslandi til að unnt sé að efla tengslin á milli háskóla og vettvangs, fræða og starfs.
Um doktorsefni:
Svava Björg Mörk fæddist í Vestmannaeyjum 1971. Hún ólst upp á Íslandi og í Færeyjum og á því sterkar tengingar til beggja landa. Svava Björg er leikskólakennari, hún lauk bakkalárgráðu í leikskólakennarafræðum frá Háskólanum á Akureyri árið 2006 og meistaragráðu í menntunarfræðum árið 2010 frá sama skóla. Svava Björg hefur starfað víða sem kennari. Eftir útskrift starfaði hún lengst af sem leikskólastjóri en síðan sem sjálfstætt starfandi leikskólaráðgjafi og stundakennari við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Haustið 2021 hóf Svava Björg störf sem lektor í leikskólakennarafræðum við Háskólann á Akureyri. Svava Björg er gift Jóhanni Kristmundssyni, stýrimanni á Aðalbjörgu RE5 og eiga þau 3 börn: Valeyju Ýr, Pál Herbert og Ólavíu Steinunni. Einnig eiga þau 2 barnabörn: Aníku Bríet og Ólivíu Styff.
Svava Björg Mörk doktorsvörn