Skip to main content
22. desember 2021

Ríkið og FS kaupa Hótel Sögu fyrir starfsemi HÍ og stúdentaíbúðir

Ríkið og FS kaupa Hótel Sögu fyrir starfsemi HÍ og stúdentaíbúðir - á vefsíðu Háskóla Íslands

Undirritaður hefur verið samningur um kaup ríkisins og Félagsstofnunar stúdenta á fasteign Bændahallarinnar ehf. við Hagatorg í Reykjavík, en það félag er í eigu Bændasamtaka Íslands.

Í Bændahöllinni fór fram starfsemi Hótels Sögu um áratuga skeið. Hótelinu var hins vegar endanlega lokað í nóvember 2020. Hafa samningaviðræður um sölu á fasteigninni staðið lengi yfir.

Með kaupum ríkissjóðs og Félagsstofnunar stúdenta mun hlutverk þessa sögufræga húss nú breytast. Í stað hótelstarfsemi verður hluti þess nú nýttur undir starfsemi Háskóla Íslands en auk þess mun Félagsstofnun stúdent nýta húsið undir stúdentaíbúðir.

Samningurinn var gerður með fyrirvara um samþykki Alþingis en heimild til kaupanna var staðfest með samþykkt fjáraukalaga í gærkvöldi. 

Afhending hússins mun fara fram á næstu vikum og mánuðum.

„Við í Háskóla Íslands fögnum því mjög að gengið hefur verið frá kaupum á Bændahöllinni. Með kaupunum verður loksins hægt að flytja Menntavísindasvið Háskóla Íslands á meginsvæði skólans en slíkt hefur staðið til frá 2008 þegar HÍ og Kennaraháskólinn sameinuðust undir merkjum Háskóla Íslands. Með flutningi Menntavísindasviðs verður hægt að tryggja enn betri samþættingu menntavísinda við önnur fræðasvið skólans. Vil ég sérstaklega nefna að staðsetningin hentar mjög vel. Í nágrenninu eru Landsbókasafnið - Háskólabókasafn, Hús íslenskunnar, Veröld – hús Vigdísar, þar sem erlend tungumál eru kennd, starfsemi Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, þar sem raungreinar eru kenndar, og Háskólabíó þar sem finna má fyrirlestrarsali. Skólinn verður með ýmsa aðra starfsemi í húsinu en fyrirhugað er m.a. að Upplýsingatæknisvið skólans flytji líka inn í húsið. 

Ég vil þakka ríkisstjórn, Alþingi og embættismönnum í fjármálaráðuneyti og ráðuneyti háskóla fyrir þeirra einarða stuðning við málið. Það er engin spurning að þetta er mikið heillaskref fyrir íslenskt samfélag,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, um þessi miklu tíðindi. 
 

Hótel Saga