Doktorsvörn í læknavísindum - Jónas Aðalsteinn Aðalsteinsson
Aðalbygging
Hátíðasalur
Mánudaginn 20. desember ver Jónas Aðalsteinn Aðalsteinsson doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Keratinocyte krabbamein á Íslandi: Faraldsfræði og lyfjanotkun. Keratinocyte carcinoma in Iceland: Epidemiology and risk in association with medication.
Andmælendur eru dr. Hildur Helgadóttir, yfirlæknir við Karolinska háskólasjúkrahúsið í Stokkhólmi, og dr. Kristjana Hrönn Ásbjörnsdóttir, lektor við Háskóla Íslands.
Umsjónarkennari og leiðbeinandi var dr. Jón Gunnlaugur Jónasson, prófessor, og leiðbeinandi var dr. Laufey Tryggvadóttir, klínískur prófessor. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd dr. Þórunn Rafnar, deildarstjóri krabbameinsrannsókna hjá ÍE, dr. Árni Kjalar Kristjánsson, sérfræðilæknir, og dr. Desirée Ratner, prófessor við Mount Sinai.
Þórarinn Guðjónsson, prófessor og deildarforseti Læknadeildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 13.00. Vörninni verður streymt: https://livestream.com/hi/DoktorsvornJonasAdalsteinnAdalsteinsson
Ágrip
Vitað er að mikil aukning hefur verið á grunnfrumu- og flöguþekjumeinum í húð síðustu ár í vestrænum löndum en ekki er alveg skýrt hvers vegna svo er. Helstu áhættuþættir þessara meina eru ljós húð og útfjólublá geislun og einnig hafa sum lyf verið bendluð við aukna áhættu með því að valda ónæmisbælingu eða auknu næmi fyrir útfjólublárri geislun í húð. Ekki er mikið til af rannsóknum sem skoða faraldsfræði og áhættuþætti þessara húðmeina og það er óljóst hvort sum þessara lyfja sem auka þessa áhættu myndu gera það á Íslandi þar sem útfjólublá geislun er lítil miðað við flest önnur lönd. Helstu markmið þessarar rannsóknar var að athuga sérstaklega tíðni þessara meina á Íslandi og einnig að skoða hvaða áhrif ákveðin lyf gætu haft á áhættu Íslendinga að fá þessi mein. Skoðuð voru sérstaklega hydrochlorothiazide (HCTZ), TNF-alpha hindra og statín, sem hafa í sumum rannsóknum verið bendluð við aukna áhættu á húðmeinum. Einnig voru skoðuð hugsanleg tengsl metformíns við húðmein, en metformín hefur sýnt að það hefur tengsl við lægri áhættu á krabbameinum í sumum rannsóknum. Gagnagrunnur hjá krabbameinsskrá var notaður til þess að reikna tíðnitölur og var lyfjagrunnur landlæknisembættis notaður til þess að skoða tengsl við lyf. Niðurstöður sýndu að jafnvel þó að útfjólublá geislun á Íslandi sé lág hefur tíðni grunn- og flöguþekjumeina aukist til muna, og Ísland er eina landið þar sem tíðni grunnfrumumeins og grunns flöguþekjumeins er hærra í konum en körlum. Þetta kann að skýrast af því konur virðast vera líklegri til þess að nota ljósabekki og stunda sólböð þegar þær eru erlendis heldur en karlmenn. Karlmenn vinna oftar úti en konur en erlendis eru þeir því í hárri áhættu að fá húðkrabbamein vegna mikillar geislunar. Á Íslandi er þessi geislun heldur minni. Einnig sást að þessi aukning á húðmeinum er mest á búk og fótleggjum kvenna, sem bendir enn frekar til ljósabekkja eða sólarlandaferða sem orsök. Varðandi lyf var HCTZ tengt við aukna áhættu á bæði grunn- og flöguþekjuæxlum. HCTZ eykur næmi fyrir útfjólubláum geislum og því var ekki endilega búist við að lyfið auki áhættu í landi með svo litla bakgrunnsgeislun. TNF-alpha hindrar og statín voru bæði tengd við aukna áhættu á flöguþekjumeinum, en ekki grunnfrumukrabbameini. Læknar sem skrifa út þessi lyf þurfa að vera meðvitaðir um þessa tengingu. Metformín var tengt við lægri áhættu á grunnfrumukrabbameini en ekki flöguþekjukrabbameini, en þörf er á frekari rannsóknum til þess að staðfesta þessa tengingu.
English abstract
An epidemic of basal cell carcinoma (BCC) and squamous cell carcinoma (SCC) has led to a significant healthcare burden in white populations. The incidence of both cancers is on the rise, the reasons for which are unclear. While the principal risk factors for these cancers are fair skin and ultraviolet radiation (UVR) exposure, certain medications have also been implicated in increased skin cancer risk through immunosuppression, immunomodulation, or UVR sensitization. Whole population studies assessing the epidemiology of and risk factors for BCC and SCC are lacking, and it is unclear whether medications significantly increase the risk of BCC and SCC development in the low UV radiation environment that Iceland provides. The primary objective this study was to establish incidence rates and tumor burden in an unselected, geographically isolated population that is exposed to low levels of UVR. The secondary objective was to delineate the relationship between SCC/BCC and hydrochlorothiazide (HCTZ), TNF-alpha inhibitors (TNFi), and statins. These medications have, in some studies, been associated with increased risk of BCC and SCC development through UV sensitization, immunosuppression, and immunomodulation, respectively. Lastly, the relationship between metformin, which has been shown in some studies to cancer risk, and BCC and SCC development was investigated. To accomplish our goals, we undertook a whole-population study based on the Icelandic cancer registry. To assess the relationship between medication and skin cancer, we used a population-based case-control study design. During the study period, the incidence for all subtypes of KC increased, despite Iceland’s low background UVR. This increase was most prominent in women on sites not generally exposed to UV radiation in Iceland: the trunk and legs. Men are more likely than women to develop invasive SCCs, which occur almost exclusively in the head and neck. HCTZ was associated with all subtypes of KC. TNFis and statins were associated with SCC but not BCC. Metformin was associated with decreased risk of BCC. Cutaneous KC is becoming a significant public health problem worldwide. Iceland is the only reported population, to our knowledge, in which the incidence of BCC and SCCis is significantly higher in women than in men. While in most countries, men have a higher incidence of BCC and SCC, Iceland's low UV radiation environment might protect men, as women may be more likely to engage in high-risk tanning behaviors. Despite the low background UV radiation in Iceland, high cumulative exposure to the UV sensitizing medication HCTZ was associated with the development of BCC, SCCis, and invasive SCC, suggesting that sun-protective behaviors alone may not eliminate the carcinogenic potential of HCTZ in high UV countries. TNFis and statins increased individual risk for SCC, but not BCC, a phenomenon also seen in organ transplant recipients and patients on immunosuppressive medications such as cyclosporine. Metformin might be beneficial in reducing BCC risk. These associations require further study.
Um doktorsefnið
Jónas Aðalsteinn Aðalsteinsson er fæddur í Reykjavík 24. apríl 1990. Hann lauk stúdentsprófi af náttúrufræðibraut frá Menntaskólanum í Reykjavík 2010, BSc-gráðu í læknisfræði frá Háskóla Íslands 2013 og embættisprófi í læknisfræði 2016. Að loknu kandídatsári vann hann við rannsóknir í húðlækningum á Mount Sinai sjúkrahúsinu í New York og hóf svo sérnám í húðlækningum við University of Connecticut. Hann útskrifast sem sérfræðingur í húðlækningum í júní 2022. Foreldrar Jónasar eru Aðalsteinn Egill Jónasson og Ásdís Halla Bragadóttir. Eiginkona Jónasar er Nína Guðrún Geirsdóttir og eiga þau eina dóttur, Matthildi Eddu.
Jónas Aðalsteinn Aðalsteinsson ver doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands mánudaginn 20. desember.