Hljóta kennsluviðurkenningu VoN 2021
Á nýafstöðnu sviðsþingi VoN, sem haldið var í Grósku þann 19. nóvember síðastliðinn, var kennsluviðurkenning VoN 2021 veitt tveimur kennurum á sviðinu. Þetta er í þriðja sinn sem veiting viðurkenningarinnar fer fram og bárust kennslunefnd VoN alls 15 tilnefningar frá deildum, námsbrautum og nemendum sviðsins. Að þessu sinni voru það Anna Soffía Hauksdóttir, prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild, og Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson, lektor í efnafræði við Raunvísindadeild, sem hlutu kennsluviðurkenningu sviðsins.
Í umsögn kennslunefndar um Önnu Soffíu segir:
Anna Soffía Hauksdóttir lauk BS-prófi í rafmagnsverkfræði frá Háskóla Íslands árið 1981. Hún lauk meistaraprófi í sömu grein árið 1983 frá The Ohio State University og doktorsprófi frá sama skóla árið 1987. Haustið 1987 sneri hún aftur til Háskóla Íslands, starfaði þá sem stundakennari fyrsta misserið um leið og hún sinnti rannsóknarstörfum fyrir Kerfisverkfræðistofu Verkfræðistofnunar. Vorið 1988 var hún ráðin í stöðu prófessors við Rafmagnsverkfræðiskor í Verkfræðideild, sem þá var og hét, en heitir nú Rafmagns- og tölvuverkfræðideild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði. Þeirri stöðu hefur hún gegnt síðan. Anna Soffía lauk viðbótardiplóma í kennslufræði háskóla vorið 2019 frá Háskóla Íslands. Hún hefur setið í kennslunefnd VoN frá árinu 2015.
Anna Soffía hefur lagt sig fram um þróun kennsluhátta í þeim námskeiðum sem hún kennir og þá sérstaklega með nemendamiðaða nálgun að leiðarljósi. Þannig hefur hún m.a. tekið upp leiðsagnarmat og leggur með því mikla áherslu á gæði í endurgjöf til nemenda sinna í þeim tilgangi að gera þeim kleift að læra ef reynslunni. Á nýliðnum misserum hefur Anna Soffía tekist á við áskoranir í kennslu af mikilli útsjónarsemi og gert sér far um að uppfylla þarfir nemenda sinna með öllum tiltækum ráðum þegar þeir hafa ekki komist í tíma, ýmist vegna samkomutakmarkana eða húsnæðisskorts í byggingum Háskóla Íslands. Þannig hefur hún nýverið leitað leiða til að þróa saman stað- og fjarnám og nýtt sér þá fjölmörgu möguleika sem stafræn tækni býður upp á í þeim tilgangi, meðal annars með gerð kennslumyndbanda og streymi úr tímum en jafnframt með fjölbreyttri fyrirlögn prófa og verkefna.
Anna Soffía er sérlega vel liðin meðal nemenda sinna. Hún er sögð áhugasöm um námsefnið og vekur með því áhuga nemenda sinna. Hún er sanngjörn gagnvart nemendum, sýnir þeim velvild og athygli og er alltaf tilbúin til að spjalla um námsefnið eða lífið og lífsmarkmið almennt. Sjálf hefur Anna Soffía talað um að sér finnist gaman að kenna og að í gegnum kennsluna finnist sér að hún geri gagn.
Í umsögn kennslunefndar um Benjamín Ragnar segir:
Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson lauk BS-prófi í efnafræði frá Háskóla Íslands árið 2009. Sama ár hélt hann til California Institute of Technology og brautskráðist þaðan með doktorspróf árið 2014. Á árunum 2014-2016 gegndi hann stöðu nýdoktors við Pomona College og starfaði þar til ársins 2017. Árið 2017 hóf hann störf sem lektor í lífrænni efnafræði við Raunvísindadeild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands og gegnir þeirri stöðu í dag. Benjamín var tekinn inn í Kennsluakademíu opinberu háskólanna haustið 2021 og er þar með einn af stofnfélögum hennar.
Benjamín hefur brennandi áhuga á þróun kennsluhátta. Hann hefur aflað sér menntunar í kennslufræði háskóla við Háskóla Íslands og hefur með því haft mikil áhrif á þróun kennslu í efnafræði. Meðal annars hefur hann unnið að endurskoðun verklegra námskeiða í lífrænni efnafræði og tileinkað sér þar nemendamiðaða kennsluhætti, svo sem vendikennslu með tilheyrandi gerð kennslumyndbanda. Hann er óhræddur við að gera tilraunir í kennslu sinni og beitir jafnvel óhefðbundnum aðferðum. Hann á það til dæmis til að semja lög um námsefnið og spila fyrir nemendur sína á gítar. Benjamín hefur þess fyrir utan gert kennslufræðilegar rannsóknir meðal nemenda sinna sem birst hafa á ritrýndum vettvangi. Meðan á samkomutakmörkunum vegna Covid-19 stóð tókst honum mjög vel upp með nauðsynlegar umbreytingar á kennsluháttum og sýndi með því mikla aðlögunarhæfni og skilning gagnvart þeim áskorunum sem við var að etja. Hann hefur tekið virkan þátt í undirbúningi landskeppninnar í efnafræði og komið að þjálfun Ólympíuliðsins i efnafræði undanfarin ár.
Benjamín er afar vel liðinn meðal nemenda sinna og fær jafnan mjög góðar umsagnir í árlegri kennslukönnun. Í umsögnum nemenda kemur fram að þeir finni að hann vilji allt fyrir þá gera, sé sanngjarn, fljótur að svara spurningum og að svör hans fari jafnframt langt fram úr væntingum; séu ítarleg, greinargóð, nákvæm og hjálpi mikið. Tímar hjá Benjamín eru að sögn nemenda hans líflegir og fjölbreyttir og honum tekst einstaklega vel að gera námsefnið áhugavert. Nemendur hugsa því hlýtt til hans, bæði meðan á námi þeirra stendur og löngu eftir að því er lokið.
Verkfræði- og náttúruvísindasvið óskar Önnu Soffíu og Benjamín Ragnari innilega til hamingju með viðurkenninguna.