Aftakaatburðir verða algengari og afdrifaríkari
„Miklar breytingar hafa orðið nú þegar og munu enn aukast svo lengi sem við höldum áfram að losa gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið. Styrkur koltvísýrings í andrúmsloftinu hefur ekki verið eins mikill og nú í a.m.k. tvær milljónir ára. Umfang hlýnunar er í beinu hlutfalli við uppsafnaða losun koltvísýrings. Nú þegar hefur hlýnað um 1,1 gráðu miðað við tímabilið 1850 til 1900 og hlýnunin er um tvöfalt meiri á norðurhveli jarðarinnar.“
Þetta segir Guðfinna Aðalgeirsdóttir, prófessor í jöklafræði við Háskóla Íslands. Hún tók þátt í að skrifa kafla níu í loftslagsskýrslu Sameinuðu þjóðanna sem hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum og meðal sérfræðinga um allan heim frá því hún kom út fyrr á þessu ári. Kaflinn sem Guðfinna kom að hefur titilinn Hafið, freðhvolfið og sjávarstöðubreytingar (Ocean, cryosphere and sea level change).
Guðfinna, sem hefur beint sjónum að hörfun jökla í rannsóknum sínum undanfarin ár, segir að breytingar sökum hamfarahlýnunar séu víða sjáanlegar. Yfirborð hafsins hafi ekki hækkað eins hratt og það gerir nú á síðustu þrjú þúsund árum, hafísinn í norðuríshafi hafi ekki verið svona umfangslítill í að minnsta kosti þúsund ár og jöklarnir hopi nú hraðar en nokkru sinni síðustu tvö þúsund árin.
„Hlýnuninni fylgja miklar breytingar,“ segir Guðfinna, „ákefð í ofsaveðri eykst og aftakaatburðir verða algengari og afdrifaríkari, þar með taldar hitabylgjur og þurrkar en einnig ákafari rigningar og skilyrði fyrir skógar- og gróðurelda verða algengari. Einnig er hægt að nefna aukna súrnun sjávar, snjóhula verður þynnri og varir styttri tíma, sífreri hlýnar og þar sem hann hlýnar í fjöllum, ásamt hopi jökla og aukinni ákefð í úrkomu eða þegar rignir í stað þess að snjóa að vetrarlagi, þá getur skriðuhætta aukist.“
Guðfinna segir að aðrir kaflar skýrslunnar beini sjónum að lofthjúpnum, koltvísýringi og öðrum gróðurhúsalofttegundum, áhrifum mannkyns á veðurkerfin og margt fleira. „Alls eru tólf kaflar í skýrslunni en henni fylgir líka sérstakur gagnagrunnur þar sem hægt er að skoða gögnin sem liggja til grundvallar skrifunum. Ég mæli með að skoða hann en þar er hægt að velja ákveðin svæði og skoða hvernig t.d. hitastig, úrkoma eða þurrkar hafa verið að þróast síðustu áratugi og þarna eru einnig spár um framtíðina.“
Stöðva þarf losun koltvísýrings svo hlýnun stöðvist
Það voru 18 aðalhöfundar að þeim kafla loftslagsskýrslunnar sem Guðfinna vann en þrír höfundanna voru einnig verkstjórar til að halda réttum áherslum. Að sögn Guðfinnu voru einnig kallaðir til sérfræðingar fyrir undirkafla þegar hópinn skorti sérþekkingu. „Í heildina voru 234 aðalhöfundar frá 65 þjóðlöndum sem skrifuðu þennan fyrsta hluta af þremur í sjöttu loftslagsskýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna. Annar og þriðji hluti skýrslunnar koma út núna í febrúar og mars 2022, en þeir fjalla um samfélags- og hagfræðileg áhrif loftslagsbreytinga og hugsanlega viðbragðsáætlun við loftslagsbreytingunum. Hversu miklar breytingarnar verða í framtíðinni er mjög háð því hve mikið af gróðurhúsalofttegundum verður losað á næstu áratugum,“ segir Guðfinna. „Því þarf að stöðva losun koltvísýrings svo hlýnun jarðar stöðvist, auk þess sem draga þarf úr losun annarra gróðurhúsalofttegunda. Verði ekki gripið til víðtækra og tafarlausra aðgerða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda mun að meðaltali hlýna um meira en 1,5 gráðu og jafnvel tvær á þessari öld og það hefur víðtæk áhrif á öll þessi atriði sem ég hef talið upp og fleiri.“
Tæplega þriðjungur höfunda eru konur og tveir þriðju karlar, en um þriðjungur höfundanna höfðu ekki tekið þátt í vinnu loftslagsnefndarinnar áður. Guðfinna segir að höfundar hafi komið frá öllum heimshornum og reynt hafi verið að hafa sem breiðastan höfundahóp sem einnig gerði þessa vinnu mjög áhugaverða. „Það var mjög áhugavert að skrifa um vísindin og stöðu þekkingar en það var líka áhugavert að taka þátt í svona fjölþjóðlegu, mikilvægu og viðamiklu verkefni.“
„Þetta var svolítið eins og að vera komin í ólympíuliðið, en margir vísindamannanna sem ég hef fylgst með undanfarin ár voru einnig höfundar og ég kynntist mörgum sem ég get hugsanlega unnið með í framtíðinni.“
Ferlið að hluta í fjarvinnu
Guðfinna segir að vinna við skýrsluna hafi dýpkað skilning sinn á því hversu mikilvægt málið er og hvað það snerti okkur öll á jörðinni. „Allir höfundarnir eru að vanda sig og mikill metnaður er í hópnum að gera efnið eins aðgengilegt og hægt er. Samtölin á öllum fundunum voru áhugaverð og tengingar við fremstu vísindamenn á þessu sviði mjög skemmtilegar. Það voru líka minni hópar þvert á kaflana sem skrifuðu stutta kafla sem svöruðu spurningum sem oft bar á góma og unnu samantektir, bæði tæknilegar samantektir og samantekt fyrir stjórnvöld og þá sem koma að ákvörðunum.“
Guðfinna segir kórónuveirufaraldurinn hafa breytt miklu um ferlið þannig að síðasti fundurinn, þar sem allir höfundar áttu að hittast, var ekki í raunheimum heldur á netinu. „Það kom í ljós hversu mikilvægt það er að þekkja og skilja þá sem maður vinnur með og til þess þarf að hittast, jafnvel þótt við höfum líka lært að það er hægt að hittast í netheimum og leysa flest málefni sem þurfti að leysa, en það gekk betur, held ég, af því við höfðum kynnst en ef við hefðum bara fundað á netinu.“
Guðfinna segir að sumar ákvarðanir hafi tekið lengri tíma þess vegna en það hafi verið samhljómur í höfundahópnum um að það væri jafnvel betra því þá gátu þeir sem ekki höfðu sig mest í frammi eða þurftu lengri tíma til að hugsa líka lagt til málanna á sínum hraða og haft áhrif á ákvarðanatöku. „Ég sjóaðist mikið í fundarhöldum á netinu, sjálfstraust mitt jókst mikið og ég sannaði fyrir sjálfri mér að ég gat skrifað þessa skýrslu, jafnvel þó að ég hafi alls ekki verið viss um að það væri hægt í upphafi verksins.“
Guðfinna vinnur ásamt jöklahóp Jarðvísindastofnunar Háskólans við margskonar jöklafræðileg verkefni. „Við höldum áfram að mæla afkomu og hreyfingar jöklanna á hverju ári, bæði með beinum mælingum á yfirborðinu og gervihnattamælingum. Við beitum líkanreikningum til að gera spár um framtíð jöklanna að gefnum þeim sviðsmyndum sem notaðar eru í loftslagsskýrslu Sameinuðu þjóðanna.“
Nær öll þekking heimsins komin saman
Ferlið að skrifa skýrslu sem skiptir svo miklu máli fyrir lífríkið allt og umhverfið er flókið og langt. Vinnan hófst með fundi allra höfundanna sumarið 2018. „Þá hittumst við og kynntumst þeim sem við áttum eftir að vinna með næstu þrjú árin. Þá þegar var búið að skrifa upp beinagrind að skýrslunni sem var síðan notuð þegar við hófum verkið. Höfundar skýrslunnar eru ekki að vinna að nýjum vísindum, heldur draga saman alla þá þekkingu sem hefur verið birt og meta stöðu þekkingar á hinum ýmsu sviðum. Vel skilgreint tungutak er notað til að segja hve mikil vissa er um hvert atriði og hverjar líkurnar eru á að eitthvað ákveðið gerist, t.d. hlýnun eða hækkun sjávarstöðu hækkun.“
Gerð voru nokkur drög að skýrslunni og fyrstu drög voru rýnd af vísindamönnum árið 2019. Önnur drög fóru svo í rýningu árið 2020 en þá gátu stjórnvöld auk vísindamanna gert athugasemdir. „Kaflinn okkar fékk meira en 5.700 athugasemdir og skýrslan öll yfir 50.000 athugasemdir sem við þurftum að taka tillit til og svara. Þetta ferli reyndist afar vel, að opna fyrir athugasemdir til þess að allir sem hafa sérþekkingu á þeim sviðum sem skýrslan tekur til gætu fylgst með og aðstoðað við að gera matsskýrsluna sem besta. Minn kaflahópur hittist vikulega á fundum þegar við skrifuðum lokaútgáfuna síðasta vetur, við skiptum með okkur verkum, lásum allar nýjustu vísindagreinar sem hafa verið gefnar út frá því síðasta skýrsla var skrifuð og gerðum okkar besta í að draga saman stöðu þekkingar.“
Guðfinna og jöklafræðingurinn Lucas Ruiz frá Argentínu skrifuðu kaflann um alla jökla í heiminum nema stóru íshvelin á Grænlandi og Suðurskautslandinu. Þau voru einnig í sambandi við alla þá sem voru að gefa út nýjar rannsóknir sem gætu nýst í kaflaskrifin. „Það var mjög gaman að vera í þeirri aðstöðu að eiga samtal við vísindamenn út um allan heim og heyra um nýjustu niðurstöður þeirra og við vonuðumst eftir að þær myndu birtast í tæka tíð, en einungis er hægt að nota efni úr birtum ritrýndum vísindagreinum sem efnivið skýrslunnar. Ég skrifaði líka hluta af kaflanum um breytingar á Grænlandsjökli síðustu áratugi og líkangerð fyrir framtíð jöklanna að gefnum ákveðnum sviðsmyndum, sem síðan var einn hluti af því sem fór í spána um sjávarstöðubreytingar framtíðarinnar.“
Þurfum víðtækar og tafarlausa aðgerðir
Þótt vinnu við loftslagsskýrsluna sé lokið situr Guðfinna svo sannarlega ekki auðum höndum. Núna vinnur hún ásamt jöklahóp Jarðvísindastofnunar Háskólans við margskonar jöklafræðileg verkefni. „Við höldum áfram að mæla afkomu og hreyfingar jöklanna á hverju ári, bæði með beinum mælingum á yfirborðinu og gervihnattamælingum. Við beitum líkanreikningum til að gera spár um framtíð jöklanna að gefnum þeim sviðsmyndum sem notaðar eru í loftslagsskýrslu Sameinuðu þjóðanna. Við erum í samvinnu við Landsvirkjun, Veðurstofuna, Landmælingar, Vegagerðina og einnig við alþjóðlega samstarfsaðila um mörg af þessum verkefnunum.“
Þegar Guðfinna er spurð út í það með hvað hætti við verðum að bregðast við þeim breytingum sem eru fram undan samkvæmt skýrslunni er svarið afdráttarlaust.
„Víðtækar og tafarlausar aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eru nauðsynlegar. Af því að hlýnunin er í beinu hlutfalli við styrk koltvísýrings í andrúmsloftinu þurfum við að minnka hann með öllum tiltækum aðgerðum. Nú þegar er til margs konar tækni og lausnir til að takast á við þetta verkefni, við þurfum að beita öllum ráðum. Einn lyklanna að lausninni eru breyttar neysluvenjur með minni orkuþörf og notkun hreinni orkugjafa við alla þætti daglegs lífs. Einnig er mikilvægt að draga úr sóun og nýta betur það sem búið er til og hætta að framleiða til að henda. Allar þær breytingar sem þarf að gera til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eru í raun jákvæðar fyrir jörðina og samfélögin á jörðinni, þær leiða til betri gæða andrúmsloftsins og stöðva hlýnunina.“