Nýsköpun er stór þáttur í starfsemi Háskóla Íslands og á undanförnum árum hafa fjölmörg fyrirtæki verið stofnuð á grundvelli rannsókna innan skólans. Sprotar-eignarhaldsfélag Háskóla Íslands var stofnað árið 2022 en hlutverk félagsins er að halda utan um eignarhluti Háskólans í sprotafyrirtækjum. Félagið starfar á grundvelli samþykkta og verklagsreglna um aðkomu Háskóla Íslands að sprota- og rannsóknarfyrirtækjum. Hér má finna hluta þeirra sprota sem hafa verið stofnaðir út frá nýsköpunarverkefnum í Háskólanum frá árinu 2000 til dagsins í dag. Akthelia ehf. Fyrirtækið var stofnað árið 2002 í tengslum við rannsóknir Guðmundar Hrafns Guðmundssonar, prófessors í líffræði við Líf- og umhverfisvísindadeild, og Eiríks Steingrímssonar, prófessors í lífefnafræði við Læknadeild, í samstarfi við Karolinska Institutet í Stokkhólmi. Fyrirtækið vinnur að þróun lyfja sem örva náttúrlegar ónæmisvarnir líkamans til að sigrast á sýkingum. Háskóli Íslands á hlut í fyrirtækinu. Vefsíða Akthelia Artica Biosciences ehf. Fyrirtækið Artica Biosciences var stofnað 2017 af Sigurði Brynjólfssyni, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild og Óttari Rolfssyni, prófessor við Læknadeild. Félagið sinnir rannsóknum og þróunarstarfi í raunvísindum og verkfræði. Það vinnur að þróun aðferða og hliðarafurða tengdum jarðvarmavinnslu með því að binda koltvíssýring og vetni úr útblæstri jarðvarmavera og breyta því í verðmætar afurðir um leið og dregið er úr skaðlegum áhrifum útblásturs á umhverfið. Háskóli Íslands á hlut í fyrirtækinu. Atmonia ehf. Fyrirtækið Atmonia ehf. var stofnað árið 2016 af Agli Skúlasyni, prófessor við Raunvísindadeild, og samstarfsfólki. Fyrirtækið vinnur að þróun aðferða þar sem rafmagn eða sólarljós er nýtt til þess að breyta nitri úr andrúmsloftinu og vatni í ammóníak sem síðan má nota til áburðarframleiðslu. Háskóli Íslands á hlut í fyrirtækinu. Vefsíða Atmonia Capretto ehf. Árið 2015 var Capretto ehf. stofnað í tengslum við rannsóknir Sveinbjörns Gizurarsonar og Þórdísar Kristmundsdóttur, prófessora við Lyfjafræðideild, og Halldórs Þormars, prófessors emeritus við Líf- og umhverfisvísindadeild. Tilgangur fyrirtækisins er að þróa örverudrepandi efni úr náttúrulegu fituefni til að vinna meðal annars gegn langvinnri skútabólgu (sinusitis). Háskóli Íslands á hlut í fyrirtækinu. Vefsíða Capretto Carbfix ohf. Carbfix ohf. var stofnað 2019 af Orkuveitu Reykjavíkur. Fyrirtækið hefur vakið heimsathygli fyrir aðferðir við förgun og bindingu koldíoxíðs úr andrúmslofti en það er m.a. byggt á grunni rannsókna bæði vísindamanna og doktorsnema innan Háskóla Íslands í samstarfi við öfluga aðila bæði hér innan lands og utan, þar á meðal Orkuveitu Reykjavíkur. Háskóli Íslands á hlut í fyrirtækinu. Vefsíða Carbfix Fiix greining ehf. Árið 2013 var Fiix greining ehf. stofnað í tengslum við rannsóknir Páls Torfa Önundarsonar, prófessors við Læknadeild og yfirlæknis á Landspítala, og Brynju R. Guðmundsdóttur, klínísk lektors á Landspítala. Fyrirtækið vinnur að markaðssetningu einkaleyfis á blóðþynningarprófi sem er þróað til að stýra betur lyfjagjöf blóðþynningarlyfsins Kóvar. Háskóli Íslands og Landspítali eiga hlut í fyrirtækinu. Vefsíða Fiix greiningar Grein Research ehf. Árið 2014 var Grein Research ehf. stofnað í tengslum við rannsóknir Unnars Bjarna Arnalds, fræðimanns hjá Raunvísindastofnun, og samstarfsmanna hans. Um er að ræða rannsóknar- og þróunarfyrirtæki á sviði örtækni og er starfsemi þess annars vegar á sviði ráðgjafar og þjónustu í efnisvísindum og hins vegar í þróun og framleiðslu á yfirborðshúðum og þróun tækjabúnaðar vegna nýrra efna. Háskóli Íslands á hlut í fyrirtækinu. Vefsíða Grein Research Heilsugreind ehf. Fyrirtækið Heilsugreind var stofnað 2017 af Rögnvaldi Sæmundssyni og Tómas P. Rúnarsyni, prófessorum við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild. Tilgangur félagsins er þróun og sala á hugbúnaði og þjónustu sem byggir á notkun viðskiptagreindar á heilbrigðissviði og önnur tengd starfsemi. Háskóli Íslands á hlut í fyrirtækinu. Vefsíða Heilsugreindar Hugarheill ehf. Hugarheill ehf. var stofnað árið 2011 í tengslum við rannsóknir Eiríks Arnar Arnarsonar, prófessors í sálfræði við Læknadeild. Fyrirtækið vinnur að forvörnum gegn þunglyndi hjá ungmennum. iMonIT ehf. iMonIT ehf. var stofnað árið 2011 af Guðrúnu Ólafsdóttur, verkefnisstjóra og sérfræðingi við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild, og samstarfsfólki. iMonIT býr til hugbúnað sem snýr að gagnsæi og rekjanleika vöruferla fyrir viðkvæmar vörur, svo sem matvæli. Háskóli Íslands á hlut í fyrirtækinu. Intranasally ehf. Fyrirtækið Intranasally ehf. var stofnað árið 2016 af Sveinbirni Gizurarsyni, prófessor í Lyfjafræðideild. Fyrirtækið vinnur að þróun lyfjagjafar með nefspreyi. Háskóli Íslands á hlut í fyrirtækinu. Lipid Pharmaceuticals ehf. Fyrirtækið var stofnað árið 2009 í tengslum við rannsóknir Einars Stefánssonar, prófessors við Læknadeild, og Þorsteins Loftssonar, prófessors við Lyfjafræðideild. Fyrirtækið vinnur að þróun lyfs gegn hægðatregðu og græðandi smyrsla úr íslensku þorskalýsi. Háskóli Íslands og Landspítali eiga hlut í fyrirtækinu. Marsýn ehf. Marsýn ehf. var stofnað árið 2012 í tengslum við rannsóknir Guðrúnar Marteinsdóttur, prófessors í fiski- og fiskavistfræði við Líf- og umhverfisvísindadeild, og Kai Logemann, verkefnisstjóra hjá Líf- og umhverfisvísindastofnun. Tilgangur félagsins er að þróa og markaðssetja upplýsingakerfi fyrir sæfarendur sem spáir fyrir um ástand sjávar, svo sem ölduhæð, hitastig, seltu, straum og lagskiptingu frá yfirborði niður á botn, ásamt því að þróa hugbúnað sem spáir fyrir um útbreiðslu fiskistofna. Háskóli Íslands á hlut í fyrirtækinu. Vefsíða Marsýnar NúnaTrix Fyrirtækið NúnaTrix ehf. var stofnað 2019 af Brynju Ingadóttur og Katrínu Jónsdóttur. Fyrirtækið hyggst þróa tölvuleik sem er ætlað að draga úr hræðslu barna sem eru að fara í skurðaðgerð. Háskóli Íslands og Landspítali eiga hlut í fyrirtækinu. Vefsíða NúnaTrix Oculis ehf. Fyrirtækið var stofnað árið 2003 í tengslum við rannsóknir Einars Stefánssonar, prófessors við Læknadeild, og Þorsteins Loftssonar, prófessors við Lyfjafræðideild. Fyrirtækið vinnur að þróun lyfja í formi augndropa með nanóögnum sem auka frásog lyfja inn í augað. Aðferðin gerir það að verkum að hægt er að gefa augndropa í staðinn fyrir að sprauta lyfjum í auga með nál. Háskóli Íslands og Landspítali eiga hlut í fyrirtækinu. Vefsíða Oculis Orkusproti ehf. Fyrirtækið Orkusproti ehf. var stofnað árið 2022 af Sveini Ólafssyni, vísindamanni við Raunvísindastofnun. Fyrirtækið vinnur að þróun aðferða í orkuframleiðslu. Háskóli Íslands á hlut í fyrirtækinu. Oxymap ehf. Fyrirtækið var stofnað árið 2002 í tengslum við rannsóknir Einars Stefánssonar, prófessors við Læknadeild, og Jóns Atla Benediktssonar, prófessors í rafmagns- og tölvuverkfræði. Fyrirtækið hefur þróa tækjabúnað sem getur metið blóðþurrðarsjúkdóma í augnbotnum með stafrænni myndvinnslu. Tæknin nýtist við meðhöndlun á sykursýki, bláæðastíflum í sjónhimnu og gláku og metur einnig áhrif lyfja- og leysimeðferðar. Háskóli Íslands og Landspítali eiga hlut í fyrirtækinu. Vefsíða Oxymap Risk ehf. Risk ehf. var stofnað árið 2009 í tengslum við rannsóknir Einars Stefánssonar, prófessors við Læknadeild, og Jóhanns P. Malmquist, prófessors í tölvunarfræði við vélaverkfærði og tölvunarfræðideild. Fyrirtækið vinnur að smíði hugbúnaðar í formi áhættureiknivélar sem metur sjálfvirkt áhættu sykursjúks einstaklings á augnsjúkdómum og sjónskerðingu vegna sykursýki. Hugbúnaðurinn gefur til kynna æskilega skimunartíðni sykursjúkra en með hugbúnaðinum má draga úr skimunartíðninni í samræmi við þörf einstaklinga. Háskóli Íslands og Landspítali eiga hlut í fyrirtækinu. Vefsíða Risks Taramar ehf. Árið 2010 var Taramar ehf. stofnað af Guðrúnu Marteinsdóttur, prófessor í fiski- og fiskavistfræði við Líf- og umhverfisvísindadeild. Fyrirtækið sérhæfir sig í þróun og framleiðslu á lífrænum og hreinum húðvörum sem hafa þann eiginleika að draga úr sjáanlegum áhrifum öldrunar. Vörurnar, sem byggjast að hluta á rannsóknum og þróunarstarfi innan Háskóla Íslands, innihalda lífvirk efni úr sjávarfangi og lækningajurtum. Háskóli Íslands á hlut í fyrirtækinu. Vefsíða Taramar facebooklinkedintwitter