Nemendur HÍ hafa lagt grunninn að íslensku samfélagi í 110 ár
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (8. október):
„Kæru nemendur og samstarfsfólk.
Markmið Háskóla Íslands er að tryggja gæði náms og kennslu og varða veginn svo þekkingarsköpun blómstri á grunni metnaðarfullra rannsókna. Í því felst að kraftar nemenda og starfsfólks eru virkjaðir og efldir, ekki bara innan skólans, heldur einnig í opnu samstarfi við atvinnulíf og samfélag á breiðum grundvelli.
Háskólar eru gjarnan metnir eftir árangri þeirra að þessu leyti – áhrifum þeirra í alþjóðlegu vísindastarfi, gæðum kennslu og alþjóðlegra tengsla. Háskóli Íslands hefur í heilan áratug raðast á lista yfir bestu háskóla heims þar hann er einmitt metinn á grundvelli þessara viðmiða. Í vikunni fengum við enn eina staðfestingu á sterkri stöðu skólans í alþjóðlegu vísindasamfélagi. HÍ er í 201.-250. sæti yfir bestu háskóla heims á sviði verkfræði og tækni samkvæmt lista tímaritsins Times Higher Education. Skólinn hefur þar með komist á fimm lista tímaritsins yfir framúrskarandi háskóla á einstökum fræðasviðum nú í haust. Þessi sterka staða fær frekari stuðning á hliðstæðum lista ShanghaiRanking sem birtur var í sumar. Þessir tveir matslistar eru taldir áhrifamestir á heimsvísu og Háskóli Íslands er á þeim báðum einn íslenskra háskóla.
Samtíð verður aldrei án sögu. Því er afar ánægjulegt að í gær fundaði háskólaráð í Alþingishúsinu til að fagna því að nú eru liðin 110 ár frá því að kennsla hófst við skólann 2. október 1911, einmitt í húsakynnum Alþingis. Háskólinn var stofnaður á 100 ára ártíð sjálfstæðishetjunnar Jóns Sigurðssonar og var í Alþingishúsinu við Austurvöll í 29 ár eða allt þar til starfsemin var flutt í nýja Aðalbyggingu á Melunum árið 1940. Á þeim 110 árum sem liðin eru hefur Háskóli Íslands brautskráð yfir fimmtíu þúsund nemendur sem hafa lagt grunn að íslensku samfélagi okkur öllum til heilla. Það er vandfundinn sá háskóli sem hefur haft víðlíka áhrif á það samfélag þar sem hann starfar.
Til að Háskóli Íslands geti rækt hlutverk sitt sem góður vinnustaður leggjum við áherslu á að allt háskólasvæðið sé farsælt og stuðli að jöfnu aðgengi og samheldnu og sjálfbæru samfélagi. Innan tíðar verður kynnt ný framtíðarsýn fyrir háskólasvæðið allt sem er í stöðugri mótun í þágu allra sem hér eru frá degi til dags. Við sem höfum átt erindi á kampus undanfarið höfum t.d. séð nýjar byggingar rísa á horni Hringbrautar og Sæmundargötu. Þessi hús falla einkar vel að þeim byggingum sem fyrir eru en þarna verður heimili stúdenta með aðgangi að allskyns þjónustu innan seilingar og skólastarfi í göngufæri. Við óskum nemendum og Félagsstofnunun stúdenta innilega til hamingju með nýja og glæsilega stúdentagarða.
Það verður varla nógu oft tíundað að hluti nýrrar stefnu Háskóla Íslands er að bregðast við þeim miklu áskorunum sem tengjast loftslagi og samfélagsbreytingum, ekki síst á norðurslóðum. Í næstu viku tekur HÍ þátt í árvissri ráðstefnu Arctic Circle sem er einn helsti vettvangur alþjóðlegrar samvinnu um framtíð norðurslóða og jarðarinnar allrar. Við leysum ekki vandamál samtímans og framtíðarinnar án aðkomu háskólanna, þeir eru þekkingarveitur sem hafa sjónir á þeim flóknu viðfangsefnum sem eru mikilvægust á hverjum tíma fyrir mannkynið, umhverfið og lífríkið. Framlag HÍ á Arctic Circle er því afar brýnt og byggist á margs konar metnaðarfullum rannsóknum, þ.á.m. þverfræðilegum rannsóknum á sviði umhverfis-, auðlinda- og loftslagsmála.
Kæru nemendur og samstarfsfólk. Það hefur verið afar ánægjulegt að fylgjast með mannlífinu blómstra í vikunni þar sem þátttaka ykkar hefur skipt miklu máli. Það sama gildir um seiglu ykkar við að verjast útbreiðslu kórónaveirunnar. Þótt betur gangi megum við aldrei missa sjónar á mikilvægi sóttvarna.
Njótum helgarinnar sem best við getum en fylgjum áfram hvatningu sóttvarnaryfirvalda. Verjum allt það góða sem hefur áunnist.
Jón Atli Benediktsson, rektor.“