Nýsköpun og samfélagsleg nýsköpun Nýsköpun er ný hugmynd, lausn eða endurbætur sem hrint er í framkvæmd. Nýsköpun getur verið ný eða endurbætt vara, ferli eða þjónusta sem skapar virði, verðmæti og/eða leiðir til framleiðsluaukningar og hagræðingar. Nýsköpun getur átt sér stað á ýmsum sviðum, svo sem: innan fyrirtækja og stofnana í atvinnulífinu skólastarfi umhverfi samfélagi listum menningu vísindum og tæknistarfi Samfélagsleg nýsköpun er ekki svo frábrugðin hefðbundinni nýsköpun, nema að því leyti að meginmarkmiðið er að skapa samfélagslegt virði. Í samfélagslegri nýsköpun er reynt að tryggja að annars vegar verði engin neikvæð umhverfis- eða samfélagsleg áhrif og hins vegar að áhrifin séu jákvæð fyrir að minnsta kosti hluta samfélagsins. Við samfélagslega nýsköpun er oft horft til þess að vinna í þágu nærsamfélags og Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Uppfinning Uppfinning er ný afurð, tæki, aðferð eða ferli sem leysir tæknilegt vandamál. Hægt er að sækja um einkaleyfi á tæknilegum uppfinningum. Til að fá einkaleyfi þarf uppfinning að vera: Ný, frumleg og hagnýtanleg í atvinnulífi. Uppfinning getur falið í sér nýsköpun ef að henni er hrint í framkvæmd. Ef sótt er um einkaleyfi má uppfinningin ekki hafa verið birt fyrir innlögn umsóknar og þá skiptir ekki máli hvar í heiminum birtingin á sér stað eða á hvaða tungumáli eða miðli. Frumkvöðull Í daglegu tali er orðið „frumkvöðull“ notað um þann sem hrindir nýsköpunarhugmynd sinni í framkvæmd. Segja má að frumkvöðlastarfsemi sé það að: Hefja, leiða eða taka þátt í starfsemi sem skapar verðmæti fyrir aðra, jafnt efnahagslega, menningarlega og félagslega. Ef frumkvöðullinn stofnar fyrirtæki utan um hugmyndina er talað um sprotafyrirtæki. Að stofna sprotafyrirtæki er ekki eins og hvert annað starf. Frumkvöðlar lenda í óteljandi nýstárlegum og oft erfiðum aðstæðum, vinnudagar geta verið langir og tekjustreymi getur verið mjög lítið eða ekkert til skemmri eða lengri tíma. Því getur það verið erfitt en þó oft spennandi, gefandi og skemmtilegt að stofna eigið fyrirtæki. Viðskiptalíkan og viðskiptaáætlun Viðskiptalíkan er oftast ekki meira en ein blaðsíða. Líkanið byggir á einföldu yfirliti eða skýringarmynd sem sýnir kjarnastarfsemi fyrirtækisins, frá vöru til viðskiptavina. Viðskiptalíkanið dregur fram samhengi hlutana og hvernig tekjur fyrirtækisins verða til. Dæmi um viðskiptalíkan Business Model Canvas Viðskiptaáætlun inniheldur: Lýsingu á viðskiptahugmyndinni. Upplýsingar um vöruna. Stjórnun og skipulag. Markaðinn og samkeppnina. Markaðsstefnu og áætlun. Hvernig fjármálum verði háttað. Viðskiptaáætlunin leggur grunn að framtíð fyrirtækisins og er mikilvæg fyrir lánveitendur, fjárfesta, styrkumsóknir og til að finna viðskiptafélaga. Vandið vel til verka með viðskiptalíkanið og viðskiptaáætlunina. Mótun viðskiptahugmynda Þú getur haft samband við ráðgjafa vísinda- og nýsköpunarsviðs ef þig vantar aðstoð við mótun viðskiptahugmyndar. Það getur verið gagnlegt að taka þátt í samkeppnum, hröðlum og lausnarmótum til að móta og fá endurgjöf á viðskiptahugmynd. Upplýsingar um samkeppnir, hraðla og lausnarmót. Icelandic Startups sem rekur fjölda hraðla í samstarfi við HÍ, fyrirtæki, stofnanir og Reykjavíkurborg. Auðna-tæknitorg sem er í eigu HÍ rekur Masterclass í verðmætasköpun vísinda. Þar er einnig veitt aðstoð við mótun viðskiptahugmynda. Hugverkaréttur Hugverkaréttur er lögbundinn eignarréttur. Hann heimilar höfundi eða eiganda á hugverki að útiloka aðra frá fjárhagslegri hagnýtingu í tiltekinn tíma. Hugverk eru oft talin verðmætasta eign fyrirtækja enda skapa þau atvinnulífinu alþjóðlegt samkeppnisforskot. Hugverkaréttur skiptist í skráðan og óskráðan rétt. Undir skráð hugverkaréttindi falla meðal annars: Einkaleyfi á tæknilegum uppfinningum. Vörumerki. Hönnun. Höfundarréttur fellur undir óskráð hugverkaréttindi. Hugverkastofa annast skráningu hugverkaréttinda hér á landi Einkaleyfi Einkaleyfi er veitt á tæknilegum uppfinningum sem leysa tiltekið vandamál. Einkaleyfi getur meðal annars verið veitt fyrir nýja/n: Tæknilega afurð. Aðferð. Búnað. Notkun. Skilyrði fyrir einkaleyfavernd er að uppfinning sé ný, frumleg og hagnýtanleg í atvinnulífinu. Öll opinberun á uppfinningu, í ræðu eða riti hefur áhrif á nýnæmi uppfinningar. Til að hægt sé að fá einkaleyfi þarf fyrst að leggja inn einkaleyfisumsókn áður en hægt er að birta uppfinningunna, til dæmis í greinum, bókum, dagblöðum eða á ráðstefnum. Til að uppfinning teljist frumleg þarf hún að liggja utan þeirra marka sem fagmanni á viðkomandi sviði hefði hugkvæmst með því einu að byggja á því sem þegar er þekkt. Þá þarf að vera hægt að fjöldaframleiða uppfinninguna þannig að hún sé hagnýtanleg í atvinnulífinu. Einkaleyfi verndar ekki: Hugmyndir. Uppgötvanir. Vísindakenningar og stærðfræðiaðferðir. Listræn verk. Viðskiptaaðferðir. Tölvuforrit sem slík. Miðlun upplýsinga og leiki. Einkaleyfi geta verið forsenda fyrir aðkomu fjárfesta og að uppfinning fari yfir höfuð á markað. Veitt einkaleyfi geta almennt gilt í 20 ár frá umsóknardegi. Vörumerki Vörumerki er sérstakt auðkenni fyrir vörur eða þjónustu til að nota í atvinnustarfsemi. Vörumerki geta verið hvers konar tákn, líkt og: Orð og nöfn. Myndir og mynstur. Bókstafir og tölustafir. Litir, hljóð og lögum. Umbúðir vöru. að því gefnu að vörumerkið greini vörur og þjónustu eins aðila frá vörum og þjónusta annarra. Þá þarf almenningur að skilja inntak vörumerkis og verndar. Vörumerkjaréttur stofnast annars vegar með skráningu vörumerkis hjá Hugverkastofu að uppfylltum skilyrðum laga. Hins vegar við notkun merkis en rétturinn fellur þá niður þegar notkun er hætt. Vörumerki eru skráð fyrir tiltekna vöru eða þjónustu. Vörumerkjaskráningu þarf að endurnýja á 10 ára fresti. Hönnun Hönnun er skráður réttur fyrir útlit vöru eða hluta vöru sem ræðst af einstökum þáttum eða skreytingu hennar, einkum: Línum, útlínum, litum, lögun, gerð og/eða efni. Hönnun getur verið í tví- og þrívídd, handunnin eða framleidd með tæknilegum hætti. Til að fá hönnun skráða þarf hún að vera ný og sérstæð þegar umsókn er lögð inn. Hönnuðir geta prófað hönnunina á markaði allt að 12 mánuðum áður en umsókn um vernd er lögð inn hjá Hugverkastofu. Hönnun getur gilt í allt að 25 ár frá umsóknarfresti. Höfundaréttur Til að verk njóti höfundaréttar þarf það að uppfylla skilyrði um andlega sköpun sem sé ný og sjálfstæð. Höfundur að bókmenntaverki eða listaverki á eignarrétt á því með þeim takmörkunum, sem í höfundalögum greinir. Tölvuforrit nýtur verndar höfundaréttar líkt og bókmenntaverk. Höfundaréttur nær eingöngu til verksins, ekki til: hugmynda staðreynda aðferða fyrirmynda uppgötvana Höfundaréttur gildir í 70 ár frá næstu áramótum eftir lát höfundar. Fjármögnun Mælt er með að frumkvöðlar meti hvort hægt sé að finna fjármögnun í þeirra nánasta umhverfi eða hversu lengi hægt er að viðhalda verkefni án skuldasöfnunar. Hér að neðan eru dæmi um ólíkar gerðir fjármögnunar við stofnun viðskiptatengdra verkefna eða fyrirtækis. Einnig eru dæmi um fjármögnun verkefna sem hafa ekki viðskiptalegar forsendur í forgrunni. Eigin / innri fjármögnun Eigin fjármögnun Þessi leið er auðveldust og oftast farin hjá þeim sem stofna fyrirtæki. Stofnendur þurfa að meta hvaða fjármuni þeir leggja til. Fjármunir geta tapast ef verkefni gengur ekki eftir. Ef stofnendur eru ekki tilbúnir til að leggja neitt af mörkum sjálfir er ólíklegt að hægt sé að sannfæra aðra um að leggja til fjármagn. Vinir og fjölskylda geta talist til eigin fjármagn, til dæmis í formi vinnuframlags eða lána. Áhætta við fjármögnun frá sínum nánustu er bæði fjárhagsleg og samfélagsleg. Á ensku er gjarnan rætt um F-in þrjú, það er „Friends, Family and Fools“. Innri fjármögnun Kemur að jafnaði frá tekjum af seldri vöru/þjónustu. Önnur gerð innri fjármögnunar er „bootstrapping“ og á við um þegar stofnendur gæta ítrustu varkárni í rekstri og leita stöðugt leiða til að finna lægsta mögulega kostnað. Algengar leiðir stofnenda: Vinna heima hjá sér í stað þess að leigja aðstöðu. Gefa starfsfólki kost á að verða meðeigendur í fyrirtæki í stað þess að greiða þeim hærri laun. Nýta nemendur í aðstoð við verkefni. Kaupa þjónustu í verktöku í stað fastra starfsmanna. Fá lánaðan tækjabúnað eða kaupa notuð tæki. Selja ráðgjöf á sínu sérfræðisviði samhliða því að varan eða þjónustan er þróuð áfram. Talað er um innri vöxt (e. organic growth) ef fyrirtæki tekst að nýta sér innri fjármögnun vel og umfang fyrirtækisins vex í takt við auknar tekjur. Ef innri fjármögnun reynist ekki nægileg til að styðja við reksturinn þarf að sækja utanaðkomandi fjármagn frá viðskiptavinum, birgjum eða fjárfestum. Kostir við eigin / innri fjármögnun Stofnendur viðhalda 100% eignarhaldi. Einfalt, óformlegt og aðgengilegt. Almennt með þægilegum skilmálum fyrir fyrirtækið. Gallar við eigin / innri fjármögnun Vöxtur verður hægur. Uppfyllir oft ekki nauðsynlega fjármagnsþörf. Fyrirtæki verður háð fólki í nánasta umhverfi stofnenda/fyrirtæki, sem getur haft óæskileg samfélagsleg áhrif. Fjármögnun frá viðskiptavinum eða birgjum Þessi tegund fjármögnunar hjálpar til við að minnka fjárþörf verkefnisins/fyrirtækisins. Fjármögnun frá viðskiptavinum getur til dæmis verið: Fyrirframgreiðsla fyrir vöru að hluta eða öllu leyti. Styttri greiðslufrestur eftir afhendingu vöru. Fjármögnun frá birgjum getur til dæmis verið: Seinkun eða dreifing á greiðslum. Jafnframt má hugsa sér að leigja tækjabúnað í stað þess að kaupa hann eða finna aðrar leiðir til að deila áhættunni með birgjum. Viðskiptavinir og birgjar gætu viljað einhvers konar umbun fyrir sitt framlag. Dæmi um slíkt er tímabundinn einkaréttur viðskiptavina á notkun vöru/þjónustu eða að fyrirtækið tryggi að ekki verði keypt önnur vara eða tækjabúnaður frá öðrum birgja. Kostir á fjármögnun viðskiptavina eða birgja Minnkuð fjárþörf fyrirtækis. Lægri kostnaður. Gallar á fjármögnun viðskiptavina eða birgja Fjármagn í boði er takmarkað. Krefst samvinnu við viðskiptavini eða birgja. Hefur áhrif á samband við viðskiptavini og birgja. Opinber fjármögnun og ESB-fjármögnun Opinberar stofnanir, hvort heldur ríki eða sveitarfélög eða Evrópusambandið (ESB) geta veitt fyrirtækjum og verkefnum á viðskiptalegum forsendum stuðning í formi lána, styrkja eða hlutafé. Tilgangur slíks stuðnings er ýmist á samfélagsforsendum, til dæmis stuðningur við stofnun fyrirtækja í dreifbýli eða viðkvæmum byggðalögum. Jafnframt getur sá stuðningur byggst á áherslum um uppbyggingu í tilteknum geira, sérstakri tækni eða stuðningi við tiltekna aldurshópa eða kyn. Fyrirtæki sem sinna rannsóknum og þróun eiga rétt á endurgreiðslu hluta þróunarkostnaðar. Nánar um skattafrádrátt rannsókna- og þróunarverkefna. Opinberir sjóðir til styrktar fyrirtækjum Styrkir til að stofna fyrirtæki eru ekki í boði, en stofnun fyrirtækis fer fram hjá Fyrirtækjaskrá Skattsins. Fjöldi styrkja er í boði fyrir rannsóknar- og þróunartengd verkefni/fyrirtæki og Rannís sér um utanumhald þeirra. Dæmi um íslenska sjóði/styrki: Rannsóknasjóður Tækniþróunarsjóður Loftslagssjóður Nýsköpunarsjóður námsmanna Rannís er einnig umsjónaraðili ESB-styrki. Byggðastofnun veitir styrki fyrir verkefni/fyrirtæki á landbyggðinni. Framtaksfjárfesting og vísisjóðir Framtaksfjármagn (e. venture capital) er einfaldlega fjármagn sem vísisjóðir (e. venture capital funds) eða aðrir fjárfestar leggja fyrirtæki til í formi hlutafjár. Þessir fjárfestar kaupa hlutafé í fyrirtækinu með væntingar um ávöxtun á sitt fjármagn. Urmull vísisjóða starfar í heiminum í dag. Á Íslandi starfa nokkrir slíkir sjóðir, til dæmis: Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins Brunnur Eyrir sprotar Crowberry Capital Frumtak Þessir sjóðir ávaxta fjármagn sinna fjárfesta með fjárfestingum í áhugaverðum sprotafyrirtækjum. Langstærstu fjárfestarnir í ofangreindum sjóðum eru íslenskir lífeyrissjóðir auk einkafjárfesta. Framtaksfjármagni má skipta í tvo undirflokka: Opinbert hlutafé (e. Public Equity); fjárfestingar í fyrirtækjum skráðum í kauphöll. Einkahlutafé (e. Private Equity); fjármagn sem fylgir gjarnan virkri en tímabundinni þátttöku fjárfesta. Hægt er að skipta þessum flokki í: Framtaksfjármagn (e. Venture Capital) þar sem fjárfest er í yngri fyrirtækjum á upphafs- eða vaxtaskeiði. Hlutabréfafjármagn sem notað er við kaup á hlutafé í þroskuðum fyrirtækjum. Til að fjárfestar fái áhuga á fyrirtækinu er mikilvægt að stofnendur geti sýnt fram á mögulega útgöngu (e. exit) í fyrirtækinu. Áætluð útganga er sá dagur sem fjárfestir má búast við geta fengið sitt fjármagn til baka, helst með góðri ávöxtun. Fjárfestar eru þó eins mismunandi og þeir eru margir og þolinmæði eftir því. Allir fjárfestar skilja þó að að uppbygging góðs fyrirtækis tekur tíma. Dæmi um mögulega útgöngu fjárfestis: Skráning hlutabréfa í kauphöll. Á ensku er talað um IPO (Initial Public Offering). Kaup þriðja aðila á eignarhlut fjárfestis. Þetta eru ýmist fyrirtæki sem starfa í sama geira og fyrirtækið sem eignarhluturinn er í eða annar fjárfestir. Endurkaup stofnenda á eignarhlut fjárfestisins. Grunnforsendur þess að framtaksfjárfestir sé reiðubúinn að fjárfesta eru: Fyrirtækið þarf að vera einkahlutafélag (ehf.) eða hlutafélag (hf.). Viðskiptahugmyndin þarf að vera einstök. Áhersla á vöxt og arðsemi. Fyrirtæki þarf að vera skalanlegt, sem þýðir að tekjur geti vaxað mun hraðar en kostnaður. Fyrirtæki þarf réttu blönduna af sérfræðiþekkingu og reynslu (sterkt teymi). Margir fjárfestar horfa fremur á teymið og getu þess til að framkvæma, fremur en viðskiptahugmyndina eina og sér. Skýra og trúverðuga viðskiptaáætlun. Umfang fjárfestingar getur verið á bilinu 30–300 milljónir króna ef um íslenska vísisjóði er að ræða. Sjóðirnir vinna svo gjarnan í samstarfi við erlenda sjóði, sem gætu viljað fjárfesta með þeim íslensku og þá hækka fjárhæðirnar. Líftími stakra vísisjóða er um 10 ár að jafnaði en getur verið lengri, til dæmis þegar kemur að lífvísindum og orkumálum. Framtaksfjárfestar í vísisjóðum eru virkir fjárfestar og munu þannig taka sæti í stjórn þeirra fyrirtækja sem fjárfest er í. Á vefsíðu Invest Europe (áður EVCA) má finna lista yfir evrópska vísisjóði eftir löndum. Kostir við vísifjármögnun Fjármögnun á fyrstu stigum (ekki skilyrði fyrir að tekjumyndun hafi hafist). Mikið fjármagn í boði til að flýta fyrir þróun fyrirtækis. Eigandi fjármagns er yfirleitt virkur fjárfestir og deilir samböndum, sérfræðiþekkingu og reynslu. Gallar við vísifjármögnun Stofnendur hafa ekki lengur alla stjórn á félaginu. Fjárfestir krefst að jafnaði mikils vaxtar. Viðskiptaenglar / Einkafjárfestar Önnur gerð framtaksfjármagns kemur frá einkafjárfestum, sem gjarnan er vísað í sem viðskiptaengla (e. business angels). Slíkir fjárfestar fjárfesta ekki einungis fjármagni heldur sínum tíma og sérfræðiþekkingu í viðkomandi fyrirtæki. Viðskiptaenglar eru þannig einstaklingar sem hafa reynslu af stofnun, rekstri fyrirtækja og hafa hagnast á sínum rekstri í gegnum tíðina með útgöngu úr einu eða fleiri fyrirtækjum. Þessu fjármagni vilja þeir svo fjárfesta til að nýjar og áhugaverða hugmyndir fái brautargengi. Reynsla, sérfræðiþekking og tengslanet þeirra nýtast fyrirtækjunum sem þeir fjárfesta í samhliða fjármagninu. Nálgun viðskiptaengla er að jafnaði önnur en vísisjóða: Upphæð hverrar fjárfestingar er yfirleitt lægri. Fjárfestingarákvörðun er frekar byggð á innsæi og trausti á frumkvöðlinum. Ákvörðunartaka um fjárfestingu er skjótari, þar sem hann/hún er ein(n) um ákvörðunina. Viðskiptaenglar taka yfirleitt aðra eða fleiri vinkla inn í fjárfestingarákvörðun en á hreinum viðskiptalegum forsendum. Þeir horfa á samfélagsleg áhrif, tilgang fyrirtækisins, hvort þátttaka verði persónuleg áskorun fyrir þá sjálfa og hversu áhugavert og skemmtilegt teymið eða viðskiptahugmyndin er að starfa með. Á Íslandi eru fáir tugir virka viðskiptaengla. Í allflestum löndum í kringum okkur eru virk viðskiptaenglanet (BAN – Business Angel Network) en slík samtök eða tengslanet hafa enn ekki verið stofnuð á Íslandi. Auðvelt er að leita að staðbundnum tengslanetum, til dæmis á Norðurlöndunum, á leitarvélum. Kostir viðskiptaengla Möguleiki á snemmbærri fjármögnun, jafnvel áður en tekjur hafa myndast. Skjót ákvörðunartaka og aðgangur að fjármagni. Bjóða upp á sérfræðiþekkingu, reynslu og tengslanet og eru þannig virkir eigendur. Gallar viðskiptaengla Getur verið erfitt að finna „réttan“ viðskiptaengil fyrir fyrirtækið. Eru yfirleitt mjög sértækir í ákvörðun, vilja fjárfesta í fyrirtæki sem hentar þeim. Stofnendur eru ekki einir um allar ákvarðanir. Bankalán Lán frá fjármálastofnun er líklegast algengasta fyrirkomulagið á ytri fjármögnun fyrirtækja. Bankar sérhæfa sig í að veita aðgang að fjármagni samhliða því að lágmarka áhættu og vilja fá einhvers konar tryggingu frá lántaka í upphafi. Áður en rekstur hefst er algengast að stofnendur veiti veð í eigin húsnæði (ekki er þó mælt með slíku) en tækjabúnaður, lager, veð í útistandandi kröfum eða fasteignum fyrirtækisins henta þegar reksturinn er kominn á skrið. Bankar biðja undantekningalaust um: Viðskiptaáætlun. Framtíðarplön. Ársreikninga. Fjárhagslegar áætlanir. til að meta lánshæfi fyrirtækisins. Fyrirtæki á fyrstu skrefum og án tekna eða hagnaðar eru þannig yfirleitt ekki lánshæf út frá sjónarmiði fjármálastofnana. Ef banki lánar fyrirtæki liggur lánasamningur með helstu skilmálum alltaf fyrir auk greiðsluáætlunar og yfirliti yfir tryggingar. Vextir lánanna fara eftir áhættumati bankans á rekstrinum og eru því umsemjanlegir. Í áhættumatinu felst að fjármálastofnun metur: Sjóðstreymi, þ.e.a.s. getu fyrirtækis til að standa undir reglulegum afborgunum. Fjárhagslegur styrkur – hlutfall eiginfjár af heildareignum fyrirtækisins. Eigin ávöxtun láns sem fyrirtæki er veitt. Að auki gera bankar lánshæfismat á öllum fyrirtækjum sem sækja um lán og skoða þannig forsögu fyrirtækisins og eigenda. Kostir bankaláns Bankar eru fjárhagslega sterkir aðilar sem geta veitt aðgengi að lánsfé með tiltölulega skömmum fyrirvara. Ólíkar gerðir fyrirgreiðslu eru í boði. Nokkrar leiðir eru til að fá aðgang að fjármagni út á eignir fyrirtækisins, svo sem kröfufjármögnun (e. factoring) eða birgðalán. Gallar bankaláns Formfastur fjármagnsveitandi sem gerir kröfu um jákvætt sjóðstreymi og/eða hagnað. Veð / tryggingar eru skilyrði. Hentar fyrst og fremst fyrirtækjum sem eiga sér rekstrarsögu. Hópfjármögnun Hópfjármögnun (e. crowdfunding) er tegund fjármögnunar sem gerir mörgum einstaklingum að fjárfesta eða styrkja einstakt verkefni eða fyrirtæki. Upphæð hvers fjárfestis / stuðningsaðila er lág en með miklum fjölda einstaklinga á bak við hvert verkefni er fjárhagslegum markmiðum náð. Fjármögnun verkefna fer fram í gegnum sérstakar vefsíður á borð við: Karolina Fund Indiegogo Kickstarter Fjármögnun fyrirtækja ef sækja á nýtt hlutafé fer fram í gegnum vefsíður á borð við: Funderbeam. Fyrirtæki sem nýta sér hópfjármögnun setja sér ávallt markmið um heildarupphæð sem á að safna og lýsa því skilmerkilega hvað viðkomandi stuðningsaðili / fjárfestir fær í staðinn. Hópfjármögnun hefur rutt sér til rúms á síðustu árum og fjölmörg dæmi eru um árangursríkar herferðir sem hafa skilað fyrirtækjum umtalsverðum fjármunum. Góð fjármögnunarherferð krefst góðrar skipulagningar og fer nánast undantekningalaust fram á samfélagmiðlum. Hópfjármögnun slær þrjár flugur í einu höggi: Markaðssetningu á fyrirtæki/vöru. Mat á móttækni markaðaðar(e. market validation). Fjármögnun. Kostnaður við hópfjármögnun er að jafnaði á bilinu 6-12% og greiðist í kjölfar herferðar. Kostir hópfjármögnunar Getur aukið meðvitund um verkefnið / fyrirtækið. Skjót leið að fjármögnun. Fjárfestar geta aðstoðað við kynningu á verkefni / fyrirtæki í gegnum sín tengslanet. Gallar hópfjármögnunar Ef fjárhagslegu markmiði er ekki náð að fullu fær verkefni ekkert fjármagn. Umsýsla í kringum keypt hlutafé / Umsýsla í kringum afhendingu á vöru sem keypt er. Orðanotkun um fjármögnun og aðgengi að fjármagni tekur á sig ólíkar myndir eftir því hvar verkefnið / fyrirtækið er statt: Sprotafjármögnun á við um fjármögnun áður en fyrirtæki er stofnað eða allra fyrstu fjármögnun þess. Vaxtarfjármögnun á við þegar fyrirtæki hefur komið vöru fyrir á markaði og vill útvíkka starfsemi sína. Kaup og sala á við þegar fjárfestir, til dæmis vísisjóður, kaupir tiltekna eignarhluti annarra eigenda/fjárfesta. Yfirtaka á við þegar eitt fyrirtæki kaupir alla eignarhluti í öðru fyrirtæki og tekur yfir reksturinn. Uppfinningar starfsmanna Samkvæmt lögum nr. 72/2004 um uppfinningar starfsmanna, á Háskóli Íslands og Landspítali líkt og aðrir atvinnurekendur rétt á uppfinningum sem starfsmenn koma fram með í starfi. Sama gildir um uppfinningar sem tengist tilteknu verkefni sem starfsmönnum er falið. Ákveði Hugverkanefnd fyrir hönd Háskóla Íslands og/eða Landspítala að öðlast rétt til uppfinningar er undirritaður samningur við starfsmann um framsal uppfinningar og sanngjarnt endurgjald. Ef Hugverkanefnd ákveður að sækja um einkaleyfi á uppfinningu fjármagnar nefndin þá vinnu. Í kjölfarið hefst vinna við hagnýtingu uppfinningar en Háskóli Íslands vinnur með Auðnu-tæknitorgi að tækniyfirfærslu. Tækni er almennt yfirfærð með leyfissamningi við starfandi fyrirtæki eða sprotafyrirtæki. Greiðslur sem berast fyrir hagnýtingu uppfinningar er skipt þannig að: Starfsmaður fær 35% í sinn hlut ásamt 10% í rannsóknastarf. 10% fer til starfseiningar starfsmanns. 45% til Háskóla Íslands og/eða Landspítala. Markviss vinna við tækniyfirfærslu eykur til muna líkur á að rannsóknir starfsmanna skili sér til samfélagsins. Tengt efni Vísindi og nýsköpun í HÍ facebooklinkedintwitter