Doktorsvörn í menntavísindum - Pascale Mompoint-Gaillard
Aðalbygging
Hátíðasalur
Pascale Mompoint-Gaillard ver doktorsritgerð sína í menntavísindum við Deild kennslu- og menntunarfræði, Háskóla Íslands:
Conversation as an Ecology of learning: An analysis of asynchronous discussions within an online professional community working to develop a democratic practice in education
Samræða í ljósi vistfræði náms: Greining á samræðu á netinu, sem ekki er samstillt í tíma, í samfélagi fagfólks sem leitast við að þróa lýðræðisleg ferli í skólastarfi
Vörnin fer fram mánudaginn 4. október kl. 14.00 í Hátíðasal Háskóla Íslands.
Andmælendur eru dr. Halla Björk Hólmarsdóttir prófessor við Oslo Metropolitan háskólann í Noregi og dr. Lucie Mottier Lopez prófessor við Genfarháskóla í Sviss.
Aðalleiðbeinandi var dr. Jón Torfi Jónasson prófessor emeritus við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og meðleiðbeinandi dr. Jacques Audran prófessor við INSA í Strasbourg í Frakklandi.
Auk þeirra sat í doktorsnefnd dr. Richard Harris prófessor við Háskólann í Reading í Bretlandi.
Dr. Kristín Jónsdóttir, deildarforseti Deildar kennslu- og menntunarfræði, stjórnar athöfninni.
Öll velkomin.
Um verkefnið
Evrópuráðið starfrækti í fjölda ára svonefnt Pestalozzi verkefni sem fólst í starfsþróun fagfólks í menntageiranum víða að í Evrópu. Meginviðfangsefnið var áhersla lýðræðisleg gildi í víðri merkingu, bæði að því er laut að starfsháttum í skólastarfi, ræktun lýðræðislegra viðhorfa almennt og þekkingu á lýðræði. Verklagið fólst að verulegu leyti í rafrænum samskiptum. Rannsóknin byggir á gögnum sem fengust í þessum rafrænum samskiptum og glímir við þrjú lykilviðfangsefni. Í fyrsta lagi hvað einkennir samskiptin. Niðurstöðurnar sýna hvað það er í samskiptunum sem stýrir hraða, samheldni, tryggð við umræðuefnið, tengsl þátttakenda og þægilegu viðmóti í samskiptunum sem allt stuðlar jafnframt að skilningi og mótun frekari þekkingar hjá hópnum. Það mátti auk þess sjá tvenns konar áhrifþeirra sem stýrðu umræðunni, annars vegar það sem kalla mætti kennaraáhrif og hins vegar áhrif sem eiga frekar skylt við jafningjaáhrif. Í öðru lagi, hvað það er sem ræður áhuga þátttakenda á viðfangsefninu. Átta þættir birtust sem stuðla að áhuga þátttakenda til virkrar þátttöku í þeirri samræðu sem boðið var upp á og halda henni áfram. Þeir eru, sjálfstraust í faglegu starfi, ásetningur að ná settu markmiði, lifandi áhugi á verkefninu, ásetningur um að virða sjónarmið annarra og hafa jafnræði í samræðu, svipuð gildi og siðferði þátttakenda, tilfinning fyrir að hafa stjórn á aðstæðum, ábyrgð á þátttöku öxluð og forvitni um efni verkefnisins. Innviðir sjálfsákvörðunarkenningarinnar komu fram, þ.e. þörfin fyrir hæfni, tengsl og sjálfræði, en nauðsynlegt var að bæta við þættinum forvitni. Í þriðja lagi var kannað hvernig þátttakendur glímdu við markmið sem stefndu að auknu lýðræði í skólastarfi sem var fyrir, í grundvallaratriðum, ólýðræðislegt. Í þeirri togstreitu mátti greina að þátttakendur sýndu merki um aktífisma. Sú flókna mynd sem er dregin upp sýnir fjölmarga þætti sem ofnir saman mynda margslungið vistkerfi menntunar sem er gagnleg hugmynd til þess að lýsa starfsþróun í netheimum og það sem þeir bjóða upp á þegar fengist er við þróun lýðræðislegra starfshátta og hugmynda í skólastarfi.
Pascale Mompoint-Gaillard ver doktorsritgerð sína í menntavísindum við Deild kennslu- og menntunarfræði, Háskóla Íslands.