Háskólar bæta lífskjör okkar allra
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (17. september):
„Kæru nemendur og samstarfsfólk.
Í Háskóla Íslands leggjum við áherslu á að starf skólans stuðli að sjálfbærni og farsælli þróun samfélagsins. Í nýrri heildarstefnu okkar til næstu fimm ára höfum við því heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun að leiðarljósi, en HÍ mun eins og aðrar mikilvægar þekkingarveitur gegna lykilhlutverki í leitinni að svörum við helstu áskorunum samtímans.
Með hliðsjón af þessu er einstaklega ánægjulegt að segja frá nýjum samingi við Matís um að efla enn frekar menntun á sviði matvælarannsókna og matvælaöryggis. Við höfum lengi átt í afar farsælu kennslu-, rannsókna- og nýsköpunarsamstarfi við Matís til að efla samkeppnishæfni innlendra matvælaframleiðenda og fyrirtækja, bæta lýðheilsu og matvælaöryggi og sjálfbæra nýtingu okkar eigin auðlinda. Það er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að við höldum ekki bara áfram á sömu braut heldur aukum kraftinn á þessu sviði.
Til að verja áfram það öfluga og skapandi samfélag sem við höfum öll mótað hér í HÍ er mikilvægt að fylgja áfram sóttvarnarreglum án undantekninga. Nýjar tilslakanir á sóttvarnarráðstöfunum tóku gildi í vikunni, en nú mega 500 manns koma saman. Áfram er þó grímuskylda hér í HÍ þegar ekki er unnt að hafa 1 metra milli einstaklinga en áfram má taka niður grímuna þegar sest er niður í skólastofum. Mælst er áfram til þess að fólk beri grímur á göngum skólans.
Okkur hér í HÍ er afar annt um öryggi allra og við höfum hannað kerfi til að bregðast við komi upp smit innan skólans. Kerfið gerir nemendum og kennurum kleift að skrá sig með afar einföldum hætti í kennslustund með QR-kóða sem er að finna á öllum borðum í kennslustofum skólans. Með þessu fyrirkomulagi verður reynt að tryggja lágmarksröskun í starfi Háskólans komi upp COVID-smit í kennslu. Nánari upplýsingar um kerfið eru hér.
Um þessar mundir fögnum við því að 110 ár eru liðin frá stofnun Háskóla Íslands. Framsækið háskólastarf hefur fært okkur meiri hagsæld en nokkurn gat órað fyrir þegar HÍ var stofnaður af fátækri þjóð með háleitar hugsjónir árið 1911. Við erum afar stolt af sögunni og þeim miklu jákvæðu áhrifum sem skólinn hefur haft á íslenskt samfélag í röska öld. Mestu áhrifin liggja auðvitað í öllum þeim sem lokið hafa námi hér í Háskóla Íslands. Við getum sagt með stolti að við höfum útskrifað meira en 50 þúsund áhrifavalda frá 1911.
Í tilefni af afmæli HÍ og nýrri heildarstefnu skólans höfum við gert breytingar á myndmerki skólans. Enn er hið kunnuglega andlit mennta- og viskugyðjunnar Pallas Aþenu í fókus sem okkur þykir afar vænt um. Drættirnir hafa hins vegar verið einfaldaðir til að falla betur að stafrænni miðlun sem er orðin helsta birtingin á merkinu. Þá höfum við breytt stafagerð í sama tilgangi og setjum nú HÍ í háskerpu sem er það heiti sem Íslendingar nota gjarnan um háskólann sinn, háskóla okkar allra. Litur HÍ er blár og í anda stefnunnar nýju um opinn háskóla sem vinnur þvert á einingar. Einn sterkur litur gefur þá mynd að Háskólinn sé án aðgreiningar og hindrana. Þessa dagana er verið að uppfæra útlit fyrir allt samskiptaefni skólans og tekur það formlega við af því gamla 1. október nk. Ég mun víkja að nýja útlitinu á upplýsingafundi rektors í næstu viku og að ýmsu öðru í okkar mikilvæga starfi.
Í nýrri stefnu okkar horfum við mjög til starfsánægju og að andrúmsloft innan skólans sé eins og best getur orðið. Það er því okkur öllum mikilvægt að horfa upp úr amstri dagsins annað slagið og koma saman til hátíðabrigða. COVID hefur hins vegar sett okkur ýmsar skorður að þessu leyti síðustu 20 mánuði. Vegna ástandsins í samfélaginu verðum við því miður að fresta árshátíð fram á næsta vormisseri. Ég vil samt hvetja ykkur, kæra samstarfsfólk, til að taka frá 5. nóvember nk. vegna starfsmannahátíðar sem við höfum nú á prjónunum.
Kæru nemendur og samstarfsfólk. Það gleður mig á hverjum einasta degi að sjá mannlífið blómstra á ný hér á háskólasvæðinu. Því fylgir mikill léttir. Þrátt fyrir nýja stafræna tækni í miðlun og kennslu eru háskólar öðru fremur samfélög sem helga sig rannsóknum og kennslu. Með því bæta háskólarnir lífskjör okkar allra en starfi þeirra fylgja iðulega hagnýtar uppgötvanir í ólíkum fræðigreinum. Rannsóknir í háskólum leiða til nýrra starfa, fyrirtækja og jafnvel heilla nýrra iðngreina.
Njótum þess að leita nýrrar þekkingar því hún er traustasti gjaldmiðill framtíðarinnar.
Góða helgi.
Jón Atli Benediktsson, rektor.“