Margbreytilegar raddir í nýju hlaðvarpi mannfræðinnar
„Markmiðið er að kynna og koma mannfræði, mannfræðingum ogrannsóknum íslenskra mannfræðinga á framfæri – og reyna líka að góma erlenda mannfræðinga sem sækja okkur heim,“ segir Kristján Þór Sigurðsson, aðjunkt í mannfræði og einn umsjónarmanna nýs hlaðvarps sem ber heitir Raddir margbreytileikans og er unnið í samstarfi við námsbraut í mannfræði við Háskóla Íslands. Jafnólíkir hlutir og COVID-19, íslensk ferðaþjónusta og Rómafólk er meðal þess sem fjallað er um í þáttunum.
Hlaðvarpið er að finna á Kjarnanum og er nýjasta blómið í fjölbreyttri flóru hlaðvarpa á vegum fræðimanna og nemenda við Háskóla Íslands.
Hlaðvarpið grundvallast m.a. á eldra hlaðvarpi sem Kristján sá um og fjallaði um ýmsar hliðar mannfræðinnar. „Það lifði ágætu lífi um stund en lagðist svo af. Síðan var ákveðið í vor að taka upp þráðinn í samstarfi við námsbraut í mannfræði. Það var sótt um smástyrk sem fékkst og fjárfest í góðum upptökugræjum. Hlaðvörp eru jú orðin mjög útbreiddir miðlar og eru eins og flestir vita um allt milli himins og jarðar en kveikjan var sem sagt að kynna mannfræði, koma mannfræðingum og þeirra rannsóknum á framfæri við almenning,“ segir Kristján.
Auk Kristjáns sjá þær Hólmfríður María Ragnhildardóttir og Sandra Smáradóttir, sem báðar eru fyrrverandi nemendur Kristjáns, um hlaðvarpið. Fjallað er um allar hliðar mannlegs lífs og samfélags, þar á meðal ýmis málefni sem ber hátt í umræðunni nú um stundir. Nú þegar hafa umsjónarmennirnir rætt við fræðafólk um rannsóknir á reynslu ungmenna af COVID-19, kynþáttahyggju hér á landi og annars staðar, Rómafólki í Austur-Evrópu, sveitadvöl barna á Íslandi og því hvernig ferðaþjónustan hér á landi endurspeglar íslenska lífshætti og samfélag. „Viðfangsefni hlaðvarpsins eru og verða að halda áfram að plægja hinn frjóa akur mannfræðirannsókna og koma þeim út til fólks. Við tölum bæði við prófessora, kennara og doktorsnema um rannsóknir þeirra sem eru um allt milli himins og jarðar,“ segir Kristján enn fremur.
Fyrstu fimm þætti hlaðvarpsins má nú þegar nálgast á Kjarnanum og að sögn Kristjáns hafa þeir fengið ljómandi fínar viðtökur. „Við miðlum upptökunum á marga staði, á Facebook, Twitter og öllum þeim síðum sem tengjast mannfræði og félagsvísindum í HÍ,“ segir Kristján og hvetur fólk til að kynna sér fjölbreytt efni hlaðvarpsins. „Við erum með mjög góðar upptökugræjur þannig að hljómgæði hlaðvarpsins eru mjög góð og við vonumst til að geta haldið þessi verkefni gangandi um ókomna tíð.“