Háskóli Íslands vill leggja sitt að mörkum við að efla til vistvænni samgöngumáta hjá starfsmönnum og nemendum. Stærsti hluti af losun af starfsemi HÍ er vegna samgangna og með því að velja vistvænan ferðamáta er hægt að stíga stórt skref í rétta átt! Hér að neðan má finna ýmsan fróðleik tengdum vistvænum samgöngum. Hjólreiðar við HÍ Hjólastandar eru við allar byggingar Háskóla Íslands auk þess sem finna má yfirbyggt hjólaskýli við Lögberg og VR II. Við Háskólatorg, VR II og Stakkahlíð eru enn fremur að finna viðgerðarstand ef eitthvað smálegt þarf að laga á hjólinu þínu. Hjólakort HÍ Á vefsíðu íþróttahúss HÍ er að finna kort þar sem sýndur er radíus tímavegalengda frá Háskóla Íslands. Hjólað í vinnuna Háskóli Íslands hefur tekið þátt í átakinu Hjólað í vinnuna frá árinu 2015. Markmið átaksins er að hvetja fólk til þess að nota umhverfisvænan samgöngumáta á leið til vinnu. Hjólavottun Háskóli Íslands hefur hlotið silfur í hjólavottun fyrir bæði Stakkahlíð og miðsvæði HÍ. Flugsamgöngur Ákvörðunartré fyrir flug Ef þú sérð ekki skjalið, Ýttu þá hér. Losun vegna flugferða Kolefnisfótspor Háskóla Íslands er reiknað út í svokölluðu Grænu bókhaldi. Af þeim umhverfisþáttum sem eru vaktaðir í Græna bókhaldinu vegur losun vegna flugi starfsfólks stærst. Losun vegna flugsamgangna árið 2022 var rúmlega 450 tonn af CO2. Ákvörðunartré fyrir flug Loftslagsbreytingarnar er einn stærsti vandi sem mannkynið stendur frammi fyrir og hvað neikvæð áhrif einstaklinga varðar vegur flugið einna þyngst. Við búum á eyju þannig að ekki er alltaf hægt að komast hjá því að fljúga, en spurningin er hvort öll flug séu jafn mikilvæg. Við hvetjum starfsfólk Háskóla Íslands og aðra háskólaborgara til að hugsa sig um áður en flogið er. Hér er ákvörðunartré til að hjálpa ykkur að svara spurningunni „Á ég að fljúga?“ Losun ólíkra áfangastaða Hér að neðan má sjá graf með algengustu áfangastöðum sem starfsfólk HÍ ferðast til innan Evrópu og Norður Ameríku. Á grafinu er gefið upp hnatthlýnunarmáttur (e. Global Warming Potential, GWP) flugferða frá Keflavík til ólíkra áfangastaða, gefið upp í kílóum af ígildi koltvísýrings (CO2-ígildi). Verkefnið var unnið af doktorsnemanum Clara Vásquez-Mejía og Ólafi Ögmundarsyni, lektor. Get ég dregið úr losun vegna ferðalaga minna? Ísland er eyja og er flug því oft á tíðum óhjákvæmilegt. Hér að neðan eru nokkur einföld ráð til að draga úr umhverfisáhrifum af ferðlagi erlendis: Er hópur að ferðast saman? Kannski er hægt að samnýta ferðina til og frá flugvellinum. Slepptu óþarfa millilendingum. Stundum er bæði fjárhagslegur- og tímasparnaður fólginn í því að taka lest hluta af ferðinni, svo ekki sé talað um minnkaða losun. Á heimasíðu Trainline er til dæmis hægt að skoða möguleikann á lestarferðum milli ólíkra áfangastaða í Evrópu. Er hægt að nýa ferðina erlendis og sameina ólíka viðburði? Með því að sleppa því að fljúga yfir Atlantshafið getur einstaklingur sparað allt að 300 kg af losun koltvísýrings! Kynntu þér almenningssamgöngur í borginni sem þú ert að ferðast til. Kynntu þér gagnvirka ákvörðunartréð um flug. Kannski er óþarfi að ferðast í þetta skiptið? Umhverfiskröfur gististaða Á ferðalaginu úti er hægt að draga úr kolefnisfótspori sínu með því að huga að því að velja gististaði sem uppfylla vandaðar umhverfiskröfur, samanber Svaninn, Evrópublómið, Græna lykilinn, ISO 14001, gullmerki Vakans eða sambærilega vottun. Háskóli Íslands er þátttakandi í Grænu skrefunum þar sem lögð er áhersla á að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum, meðal annars þegar starfsfólk ferðast erlendis. Fækkun bílferða Um 90% af losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi Háskóla Íslands má rekja til samgangna. Hér er að finna nokkur góð ráð við að fækka bílferðum. Leiðir til að hvíla bílinn Notaðu almenningssamgöngur. Kynntu þér hvort að Strætó geti ekki komið þér þangað sem þú ert að fara á hagkvæman og skjótan hátt. Hægt er að skoða leitarkerfi á heimasíðu Strætó. Gakktu frekar en að taka bíl. Kannanir sýna að um þriðjungur ferða hjá Reykvíkingum er styttri en 1 km og má ganga þá vegalengd á um 15 mínútum. Röskleg ganga í 30 mínútur á dag getur stórbætt heilsuna! Hjólreiðar eru vistvænn, hagkvæmur og heilsubætandi samgögnumáti. Hjólreiðum fylgja margir kostir, bæði fyrir þig og aðra. Ekki er það einungis umhverfisvænna en að koma akandi á bíl, heldur sparar það pening og oftar en ekki tíma við að sleppa við að sitja í umferð, bætir heilsu og að auki eru hjólreiðar skemmtilegur ferðamáti! Kynntu þér nánar hjólakort HÍ. Afnot af rafmagnshjóli. Starfsfólki Háskóla Íslands stendur til boða afnota af rafmagnshjólum til að sinna erindum á vinnutíma. Hjólin eru geymd í Aðalbyggingu og í Stakkahlíð. Bókanir fara fram í Uglu. Afnot af rafmagnsbíl. Starfsfólki Háskóla Íslands stendur til boða afnot af rafmagnsbifreiðum til að sinna vinnutengdum erindum. Bifreiðarnar eru staðsettar við Aðalbyggingu, Tæknigarð, Öskju, Læknagarð og Stakkahlíð. Bókanir fara fram í Uglu. Fækkaðu bílferðum. Veltu fyrir þér áður en þú leggur af stað á bíl hvort að möguleiki er að sleppa ferðinni, samnýta hana í annað erindi eða nota annan samgöngumáta eins og t.d. að ganga eða hjóla. Fjarfundir. Hægt er að fækka ónauðsynlegum ferðum og spara ferðakostnað og tíma, meðal annars með góðum fundarsíma, fjarfundarbúnaði eða tölvupósti. Samkersla. Oftar en ekki er skemmtilegra að ferðast með öðrum í bíl, auk þess sem það gefur tækifæri til að deila kostnaði vegna akstursins. Þú getur kannað hvort vinnufélagar þínir eiga heima í nágrenni við þig og stungið uppá að þið keyrið saman í vinnuna og/eða á fundi. Undir smáauglýsingar á Uglu er svæði sem heitir "Samnýting ferða - carpooling" þar sem hægt er að mynda hópa til að samnýta bíla. Veldu ónegld dekk í stað nagladekkja. Áætlað er að fólksbíll á nagladekkjum spæni upp um hálfu tonni af malbiki á ári og þyrli upp allt að 10 g af svifryki. Veldu frekar ónegld dekk þegar þú kaupir dekk undir bílinn þinn ef möguleiki er á. Rafskútur Rafskútur hafa síðustu ár rutt sér rúm sem vinsæll og umhverfisvænn ferðamáti hérlendis. Við Háskóla Íslands er að finna sérstök rafskútuskilasvæði við Háskólatorg, Læknagarð, Öskju, VR-II og Háskólabíó. Á vef Samgöngustofu er að finna fræðslu og fróðleik um rafskútur. Rafdeilibílar HÍ Starfsfólki Háskóla Íslands stendur til boða að bóka rafmagnsdeilibíla til afnota til að sinna vinnutengdum erindum. Rafmagnsdeilibílarnir eru staðsettir við Háskólatorg, Tæknigarð, Öskju, Læknagarð og Stakkahlíð og fer bókun fram í gegnum Uglu. Hleðslustöðvar fyrir rafbíla Hleðslustöðvar Orku Náttúrunnar eru á tveimur stöðum á háskólasvæðinu: Við Stakkahlíð eru tvær hleðslustöðvar, fjórir geta hlaðið í einu (22,1 kW) Við Tæknigarð eru fjórar hleðslustöðvar, átta geta hlaðið í einu (22,1 kW) Bílastæðin við hleðslustöðvarnar eru ekki ætluð til almennra nota heldur einungis fyrir þá aðila sem hyggjast nýta sér þjónustuna. Fjarfundir Hægt er að fækka óþarfa ferðum og spara þannig ferðakostnað og tíma, meðal annars með góðum fundarsíma, fjarfundabúnaði eða tölvupósti. Inn á vef Upplýsingatæknisviðs (UTS) Háskóla Íslands er að finna góðar leiðbeiningar um notkun fjarfundabúnaðar. facebooklinkedintwitter