Karldómarar líklegri að úrskurða í hag sóknar en kvendómarar í hag varnar
Bráðabirgðaniðurstöður nýrrar rannsóknar fræðimanna við Lagadeild benda til þess að kyn og aldur dómara og málflytjenda kunni að hafa tengsl við niðurstöður dómsmála.
Valgerður Sólnes, dósent við Lagadeild vinnur að rannsókninni og segir að hugmyndin að rannsóknarverkefninu hafi kviknað hjá henni og Benedikt Bogasyni prófessor og forseta Hæstaréttar. „Við fengum síðan Guðbjörgu Lindu Rafnsdóttur, prófessor og aðstoðarrektor vísinda, til liðs við okkur, því rannsóknin er þverfagleg á sviðum lög- og félagsvísinda.“
Rannsóknin snýst um að kanna hvort og þá hvaða tengsl séu á milli kynferðis og aldurs þeirra sem koma að rekstri einkamála annars vegar og niðurstaðna í málunum hins vegar. „Hún lýtur að því að safna upplýsingum um kynferði og aldur dómenda og málflytjenda í dómsúrlausnum í einkamálum, sem kærðar hafa verið eða áfrýjað til Hæstaréttar og Landsréttar á síðustu tíu árum,“ útskýrir Valgerður.
Aðspurð um kveikjuna að rannsókninni segir Valgerður að hana megi einfaldlega finna í áhuga hennar á að kanna hvort það skipti máli fyrir úrslit dómsmáls að málflytjandi væri til dæmis fullorðinn karlmaður eða ung kona. Enn fremur hvort það skipti máli fyrir úrslit máls hvort dómari væri t.d. fullorðin kona eða ungur karlmaður. Reynsluheimur eldra og yngra fólks væri ólíkur sem og reynsluheimur kynjanna.
Valgerður bendir á að rannsóknir í lögfræði snúi venjulega að niðurstöðu dómstóla en ekki hver dæmi eða flytji mál. Því sé rannsóknin frábrugðin hefðbundnum rannsóknum á fræðasviðinu og viðlíka rannsókn hafi ekki verið gerð áður hér á landi. „Konur hafa frá því á síðustu öld í auknum mæli sóst eftir menntun og störfum í starfsstétt lögfræðinga, sem áður einskorðaðist að mestu við karlmenn. Það er þó nokkuð síðan konur tóku fram úr körlum í fjölda brautskráðra nemenda úr laganámi á Íslandi. Konum hefur á hinn bóginn ekki fjölgað jafnhratt í starfsstétt starfandi lögmanna og skipaðra dómara hér á landi.“ bendir hún á.
Endanlegar niðurstöður rannsóknarinnar liggja ekki fyrir að sögn Valgerðar. „Við gátum lokið við söfnun upplýsinga í sumar eftir að styrkur fékkst til verkefnisins frá Nýsköpunarsjóði námsmanna. Það verkefni önnuðust frábærir laganemar og meistaranemi í félagsvísindum, þau Hafsteinn Gauti Ágústsson, Ingigerður Bjarndís Írisar Ágústsdóttir, Jón Sigurðsson Nordal og Tinna Karen Sveinbjarnardóttir,“ segir Valgerður.
„Bráðabirgðaniðurstöður gefa til dæmis til kynna að karlar séu líklegri til að dæma eða úrskurða sóknaraðila í hag en konur líklegri til að dæma eða úrskurða varnaraðila í hag. Sömuleiðis að dómarar á fimmtugsaldri séu mun líklegri til að dæma eða úrskurða varnaraðila í hag en aðrir aldurshópar dómara.“
Tölfræðivinna við rannsóknina stendur enn yfir og því geta niðurstöður breyst. „Með rannsókninni verður m.a. unnt að leiða í ljós hvort kynferði og aldur dómenda skipti máli fyrir úrslit dómsmála og hvort og þá hvaða máli kynferði og aldur málflytjenda skipti fyrir úrslit slíkra mála. Ef tengsl eru á milli aldurs og/eða kynferðis dómenda og málflytjenda og úrslita dómsmála gefur það ef til vill tilefni til að huga að menntun lögfræðinga, fræðslustarfi á vettvangi dómara og lögmanna og sjónarmiðum við skipun dómara. En ef í ljós kemur að engin tengsl séu á milli þessara þátta væri slíkt auðvitað merki um að dómstólarnir standi vel að vígi hvað þetta snertir.“
Valgerður segir að fyrir utan þýðingu rannsóknarinnar fyrir fræðasamfélagið eigi hún erindi við lögfræðingasamfélagið og almenning. „Niðurstöðurnar munu eftir atvikum geta gefið til kynna hvort og þá að hvaða marki þarf að efla laganám og fræðslustarf innan starfsstétta dómara og lögmanna með tilliti til aldurs- og kynjatengdra þátta. Rannsóknin kann einnig að hafa þýðingu fyrir ytra og innra starf dómstólanna því niðurstöður hennar geta varpað ljósi á hvort gæta þurfi sérstaklega að kynferði og aldri dómara við úthlutun dómsmála og hvort efla þurfi fræðslu fyrir dómara um áhrif þessara þátta á dómstörf. Þá getur rannsóknin haft þýðingu fyrir þau sem skipa í dómaraembætti, sem eftir atvikum kunna að þurfa að gæta sérstaklega að kynferði og aldri umsækjenda við skipun nýrra dómara ef rannsóknarniðurstöðurnar gefa tilefni til þess,“ segir hún og bætir við að rannsóknin eig erindi við samfélagið í heild því jafnrétti kynjanna og bann við mismunun á grundvelli kynferðis njóti verndar 65. gr. stjórnarskrárinnar. „Þessi réttindi gilda í samfélaginu öllu og varða þar með almenning og einstaklingsbundinn rétt borgaranna. Það sama gildir um stöðu dómstólanna í samfélaginu.“
Ragnheiður J. Sverrisdóttir, nemi í blaða- og fréttamennsku.