Rýnt í orðræðu um þungunarrof
Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor við Stjórnmálafræðideild
„Rannsóknin snýst fyrst og fremst um að skoða hvernig íhaldsöfl tala um kyn- og frjósemisréttindi, þá sérstaklega þungunarrof´, og hvernig andstaða við sjálfsákvörðunarrétt kvenna yfir eigin líkama er notuð til þess að styrkja andstöðu eða íhaldsöfl í sessi,“ segir Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Hún rannsakar, ásamt Gunnari Sigvaldasyni doktorsnema, hvernig Ísland og Írland tóku skref að aukinni frelsisvæðingu í þessum efnum á árunum 2018 og 2019.
Hún nefnir að ólík ríki innan Sameinuðu þjóðanna sem höfðu ekki unnið saman áður séu að sameinast í því að takmarka aðgengi kvenna að kyn- og frjósemisréttindum. „Þar má nefna til dæmis Bandaríkin undir Trump,“ segir Silja Bára.
Með ákveðna þráhyggju fyrir málefninu
„Ég er með ákveðna þráhyggju fyrir þessu máli,“ segir Silja Bára en hún flutti til Bandaríkjanna fyrir um þrjátíu árum og varð fljótlega vör við það hvernig orðræðan þar var um þungunarrof. Hún telur að umræðan um málefnið verði aftur hávær nú með skipun nýs hæstaréttardómara þar í landi.
„Mér fannst mjög undarlegt að málefni sem var ofboðslega lítið stjórnmálavætt kringum mig hérna heima væri svona stór þáttur í pólitík í Bandaríkjunum. Síðan áttaði ég á mig að því að það sem ég taldi að væri réttur á Íslandi var það ekki,“ segir Silja Bára. Á Íslandi þurfti að sækja um leyfi og jafnframt þurfti annan einstakling til þess að skrifa upp á svo að kona mætti fara í þungunarrof.
Silja Bára skrifaði fyrir nokkrum árum bók ásamt Steinunni Rögnvaldsdóttur um reynslu kvenna af þungunarrofi og þar kom í ljós hversu mikil áhrif það hefði að vera upp á einhvern annan kominn með leyfi til að taka ákvörðun um eigið líf, áhrif á bæði líf og líðan þeirra kvenna sem hafa gengið í gegnum þá reynslu. „Mér finnst mjög áhugavert hvernig líf einstaklings getur orðið að pólitísku viðfangsefni, hvernig líkamar birtast í stjórnmálum í stærra samhengi og það að skerða réttindi einhvers getur verið notað til þess að byggja upp pólitískt vald,“ segir Silja Bára.
Snertir konur öðruvísi en karla
Silja Bára vonast til þess að önnur lönd dragi lærdóm af því hvernig Íslendingar og Írar hafi nálgast umræðuna um þungunarrof. „Það sem var mjög áhugavert hér heima var kvennasamstaðan í kringum málið, það myndaðist samstaða þvert á stjórnarflokka,“ segir Silja Bára.
Frumvarp um þungunarrof hafi verið lagt fram sem ríkisstjórnarmál en ríkisstjórnarflokkarnir hafi ekki verið sameinaðir í afstöðu sinni til málsins. Þá hafi verið samstaða milli hópa innan stjórnar og stjórnarandstöðu um málið. „Þetta segir okkur fyrst og fremst að málið snertir konur öðruvísi heldur en karla. Það verður til allt öðruvísi pólitísk umræða hérna á Íslandi,“ segir Silja Bára.
Á grundvelli þessara niðurstaðna vakna svo aðrar spurningar, t.d. um hvernig málum er aflað fylgis á þinginu fremur en hvernig orðræða um þungunarrof sé notuð. Það síðarnefnda hafi verið upprunaleg rannsóknarspurning þeirra. „Það sem við erum að draga fram er að meira að segja hérna á Íslandi, þar sem staða kvenna er almennt frekar góð, birtist samt þessi mikla andstaða í orðræðu um þungunarrof. Hvernig er hægt að læra af því og yfirfæra?“ spyr Silja Bára.
Fyrsta vísindagreinin sem byggist á rannsókninni, um orðræðu um þungunarrof á Íslandi, hefur verið samþykkt til birtingar og kemur út 2021. „Við eigum eftir að skoða Írland betur og gera svo samanburðargreiningu þar sem vonandi koma fram áhugaverðar niðurstöður,“ segir Silja Bára.