Skip to main content

Doktorsvörn í menntavísindum - Renata Emilsson Pesková

Doktorsvörn í menntavísindum - Renata Emilsson Pesková  - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
27. ágúst 2021 15:00 til 17:00
Hvar 

Hátíðasalur HÍ

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Renata Emilsson Pesková ver doktorsritgerð sína í menntavísindum við Deild kennslu- og menntunarfræði, Háskóla Íslands.

Skólareynsla fjöltyngdra nemenda: Fjöltilviksrannsókn frá Íslandi  

Vörnin fer fram föstudaginn 27. ágúst kl. 15.00 í Hátíðarsal Háskóla Íslands.

Beint streymi frá vörninni

Andmælendur eru dr. Margaret Early prófessor við Háskólann í British Columbia, Kanada og dr. Åsa Palviainen prófessor við Háskólann í Jyväskylä, Finnlandi.

Aðalleiðbeinandi var dr. Hanna Ragnarsdóttir prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og meðleiðbeinandi dr. Lars Anders Kulbrandstad prófessor við Inland Norway University of Applied Sciences.

Auk þeirra sat í doktorsnefnd dr. Birna Arnbjörnsdóttir prófessor við Hugvísindasvið Háskóla Íslands.                                                           

Dr. Kristín Jónsdóttir, forseti Deildar kennslu- og menntunarfræði, stjórnar athöfninni.

Öll velkomin.

Um verkefnið

Fjöltyngi nemenda er sífellt virkt og til staðar í lífi þeirra. Fjöltyngdum nemendum hefur stöðugt fjölgað á undanförnum árum en í dag eru töluð um eitt hundrað tungumál í grunnskólum landsins. Skólar eru hluti fjölbreytts, lýðræðislegs samfélags og meðal hlutverka þeirra er að búa alla nemendur undir framtíðarstörf og virka þátttöku í samfélaginu. Markmið rannsóknarinnar var að kanna samspil tungumálaforða fjöltyngdra nemenda og skólareynslu þeirra í íslenskum grunnskólum. Í rannsókninni var sjónarhorn fjöltyngdra nemenda á eigin tungumálanotkun skoðað ásamt því að leitast var við að varpa ljósi á merkingu og hlutverk tungumálaforða þeirra í félagslegum og námslegum aðstæðum. Auk þess var leitað svara við því, að hvaða leyti kennarar þeirra studdust við og byggðu á auðlindum þeirra og styrkleikum í námi og hvaða hlutverki tungumálastefnur fjölskyldna gegndu í skólareynslu nemenda. Þátttakendur voru fimm fjöltyngdir grunnskólanemendur frá Íslandi sem lærðu móðurmál sitt í móðurmálsskólum utan formlega skólakerfisins. Fjöltyngi nemenda þróast í fjölbreyttum námsaðstæðum eða námsrýmum, sérstaklega í kjöraðstæðum þar sem tengsl skapast, upplýsingum er miðlað og samskipti byggjast upp. Í þessari þverfaglegri fjöltilviksrannsókn var stuðst við eigindlega aðferðafræði. Við greiningu gagna var byggt á aðferðum þemagreiningar og tungumálasjálfsmynda. Nemendurnir í rannsókninni náðu félagslegum og námslegum árangri, byggðu ofan á tungumálaforða sinn áreynslulaust og löguðu sig vel að kringumstæðum. Metnaðarfullir, virkir foreldrar og móðurmálskennarar bættu starfsemi grunnskóla með því að styðja við tungumálaforða nemendanna, en með því sköpuðust kringumstæður sem gerðu fjöltyngdum nemendum kleift að líða vel og ná auknum árangri í námi. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna fram á mikilvægi allra tungumála nemendanna og þörfina á að í skólum sé byggt á viðeigandi kennslufræði fyrir fjöltyngda nemendur, að unnar séu tungumálastefnur í skólum og að fjölskyldur móti meðvitaða tungumálastefnu. Niðurstöðurnar gefa vísbendingar um að viðurkenna þurfi fjöltyngi nemenda og notkun alls tungumálaforða þeirra í námi og félagslegum aðstæðum. Þannig er stutt við sjálfsmynd nemenda, tilfinningu þeirra um að tilheyra og virka þátttöku. Niðurstöðurnar auka enn fremur skilning á því að innflytjendaforeldrar og kennarar deila hlutverki og ábyrgð á að viðhalda og þróa tungumálaforða fjöltyngdra nemenda. Rannsóknin sýnir fram á kosti þess að tengja á milli tungumálastefnu fjölskyldna, móðurmálskennslu sem fer fram utan hins formlega skólakerfis og námsins sem fer fram í grunnskólanum.

Um doktorsefnið 

Renata Emilsson Peskova fæddist í Tékklandi árið 1978. Hún lauk BA-gráðu í Fullorðinsfræðslu og mannauðsstjórnun frá Karlsháskóla í Prag í Tékklandi árið 2004 og meistaragráðu í þvermenningarsamskiptum og þýskum annarsmálsfræðum frá Universität Bayreuth í Þýskalandi árið 2005. Hún kenndi ensku og þýsku í Hlíðaskóla í Reykjavík í sjö ár. Renata vann sem stundakennari og aðjúnkt við Menntavísindasvið og Hugvísindasvið Háskóla Íslands meðfram doktorsnámi, ásamt því að starfa sem formaður og stjórnarmaður Móðurmáls – samtaka um tvítyngi. Renata hefur stundað rannsóknir um fjöltyngi, fjöltyngdar nálganir í kennslu, tungumálastefnur, móðurmálsnám og tungumálasjálfsmyndir. Í haust tekur Renata við aðjúnktstöðu í deild faggreinakennslu á námsbrautinni Íslenska og erlend tungumál. Renata á eitt barn, Jóhannes Guðmundsson.

 

Renata Emilsson Pesková ver doktorsritgerð sína í menntavísindum við Deild kennslu- og menntunarfræði, Háskóla Íslands.

Doktorsvörn í menntavísindum - Renata Emilsson Pesková