Spennandi vettvangsnámskeið í íslenskri náttúru
Íslensk náttúra er óútreiknanleg, veðráttan síbreytileg og við mannfólkið margskonar. Allt hefur þetta áhrif á upplifun hvers og eins af náttúrunni. Samspil og samskipti manns og náttúru verða til umfjöllunar í námskeiðinu Eldur og ís – náttúruöflin, nám og upplifun sem boðið verður upp á við Menntavísindasvið Háskóla Íslands nú í sumar. Þverfaglegur hópur sérfræðinga og kennara koma að námskeiðinu en meðal þeirra eru Jakob Frímann Þorsteinsson, aðjunkt við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda, Þorvarður Árnason, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Hornafirði, Kolbrún Þorbjörg Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, og Eyjólfur Guðmundsson, skólameistari Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu.
Á námskeiðinu, sem hentar sérstaklega þeim sem skipuleggja náms- og vettvangsferðir í íslenskri náttúru, er lögð áhersla á beina reynslu af náttúru Íslands og umfjöllun um náttúruvísindi. Námskeiðið fer fram á vettvangi, við gosstöðvarnar á Reykjanesi og í Skaftafelli og á Breiðamerkursandi í Vatnajökulsþjóðgarði. Kraftar náttúrunnar skapa námskeiðinu einstaka umgjörð og tækifæri til að setja í samhengi sjálfbæra sambúð manns og náttúru með áherslu á eldgos, jökla, loftlagsbreytingar, veðuröfga, náttúruhamfarir og náttúruvá.
„Námskeiðið Eldur og ís býður upp á frábært tækifæri til að læra um hvernig náttúruöflin skapa einstakan vettvang fyrir nám, þroska og upplifun. Við sem stöndum að þessu verkefni sáum ótrúleg tækifæri í því að leiða saman krafta okkar til að bjóða upp á nýtt þverfræðilegt sumarnámskeið sem ætti að höfða til breiðs hóps háskólanema. Eitt af því sem við vitum er það að tengja saman fólk af ólíkum fræðasviðum og með mismunandi bakgrunn er eina leiðin til að undirbúa okkur betur undir að takast á við flókin verkefni samfélaga um allan heim. Þetta eru grundvallarverkefni á borð loftslagsbreytingar, fátækt og stríðsástand víða um heim. Við lifum á annan hátt en áður og höfum mikil áhrif á náttúruna. Íslensk náttúra er einstök og mótar einnig líf okkar og þroska. Í þessu námskeiði er sjónum beint bæði inná við, að ígrunda eigin tengsl við náttúruna, og útá við, að læra að umgangast náttúruna og miðla því til annarra, segir Kolbrún Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands.
Um spennandi samstarfsverkefni Menntavísindasviðs, Rannsóknaseturs HÍ á Hornafirði og Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu (FAS) er að ræða en frekari upplýsingar um skipulag námskeiðsins og skráningu má finna hér.