Háskóli Íslands er undirstaða atvinnulífs og framfara
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (28. maí):
„Kæru nemendur og samstarfsfólk.
Háskóli Íslands er undirstaða atvinnulífs og framfara og með opnun Grósku hugmyndahúss í Vatnsmýrinni skapast mikil tækifæri til samstarfs við íslensk fyrirtæki. Gróska og Vísindagarðar Háskóla Íslands hafa verið nokkurs konar þungamiðja nýsköpunarvikunnar sem nú stendur yfir en húsinu er ætlað verða suðupottur framfara á öllum sviðum. Þar hefur tölvuleikjafyrirtækið CCP nú hreiðrað um sig í nánum tengslum við Háskólann. Fyrsta samstarfsverkefni Háskóla Íslands og CCP er spennandi netnámskeið um vináttu á tímum vaxandi vinsælda tölvuleikja. Námskeiðinu var hleypt af stokkum í fyrradag að viðstöddum Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands og verður það í boði innan edX-netsins, eins þekktasta fræðslunets opinna vefnámskeiða í heiminum. Í námskeiðinu er rýnt í þau margslungnu áhrif sem tölvuleikir hafa í samfélaginu og kannað hvort vinátta sem mótast þar hafi sömu þýðingu og í raunheimum. Ég hvet ykkur öll til að kynna ykkur námskeiðið, ekki síst nemendum skólans, en þátttaka er ókeypis.
Háskóli Íslands tekur mjög virkan þátt í nýsköpunarvikunni meðal annars með stafrænum stefnumótum við sprotafyrirtæki sem eiga rætur að rekja til skólans. Á morgun verður svo haldið í göngu í þágu nýsköpunar og þróunar í sjávarútvegi og fiskvinnslu. Varla er hægt að finna fróðari mann til að leiða gönguna en Sigurjón Arason, prófessor emerítus við Háskóla Íslands og yfirverkfræðing hjá Matís. Brennandi áhugi Sigurjóns á sjávarútvegi og fiskvinnslu hefur verið aflvakinn í margháttaðri nýsköpun í einni mikilvægustu atvinnugrein okkar Íslendinga. Framganga Sigurjóns í þróun lausna í samstarfi við sjávarútveginn er skýrt dæmi um mikilvægi þess að atvinnulíf og háskólar leggi saman krafta sína í þágu heillar atvinnugreinar og aukinnar verðmætasköpunar með hag allra að leiðarljósi.
Mikilvægum áfanga var náð við mótun nýrrar og metnaðarfullrar framtíðastefnu Háskóla Íslands í vikunni þegar háskólaþing ræddi hana og afgreiddi til háskólaráðs. Háskólinn hefur alltaf tekið hlutverk sitt alvarlega gagnvart íslensku samfélagi. Markmiðið með nýrri stefnu er að betri háskóli leiði til betra samfélags fyrir íslenska þjóð þar sem leiðarljósin verða gæði, traust og snerpa. En háskólinn horfir ekki síður út fyrir landsteina í nýrri stefnu því hann ætlar sér að þétta alþjóðlegt samstarf á öllum sviðum og auka traust í alþjóðasamfélagi háskóla.
Háskóli Íslands hagnýtir sér ýmsa mælikvarða til að meta starf sitt í alþjóðlegu samhengi en hann hefur nú verið á hinum virta Shanghai-lista fimm ár í röð (Shanghai Global Ranking of Academic Subjects). Nýr Shanghai-listi var birtur í vikunni yfir fremstu háskóla heims á einstökum fræðasviðum og er Háskóli Íslands áfram í allra fremstu röð á sviði fjarkönnunar. Hann er auk þess í hópi 45 bestu á sviði rafmagns- og tölvuverkfræði og mælist meðal 500 bestu á öðrum 14 fræðasviðum. Þessi glæsilegi árangur er til marks um metnað ykkar, kæra samstarfsfólk og nemendur, sem hafa komið Háskóla Íslands ítrekað í fremstu röð samkvæmt viðurkenndum alþjóðlegum mælingum.
Sumarið er komið á Háskólalóðinni þegar nemendur í Háskóla unga fólksins mæta í byggingarnar okkar og kynnast undrum umhverfis, lífríkis og samfélags með vísindamönnum Háskóla Íslands. Í dag hefjast skráningar í Háskóla unga fólksins sem er eins og áður fyrir fróðleiksfúsa krakka á aldrinum 12 til 14 ára. Færri sæti eru í skólanum en venjulega vegna samkomutakmarkana og hvet ég fólk til að vera viðbúið um leið og opnað verður fyrir skráningar.
Kæru nemendur og samstarfsfólk. Tilslakanir á sóttvarnarreglum hafa sannarlega fært líf í byggingar Háskóla Íslands að nýju. Fréttir berast þó enn af smitum í íslensku samfélagi og við þurfum því að halda vöku okkar og huga stöðugt að einstaklingsbundnum sóttvörnum.
Við vinnum sigrana í sameiningu.
Góða helgi.
Jón Atli Benediktsson, rektor.“