Heilsuhegðun ungra Íslendinga – hlaðvarp um heilsu og lifnaðarhætti ungs fólks
Heilsuhegðun ungra Íslendinga er nýtt vísindahlaðvarp um heilsu og lifnaðarhætti ungs fólks hér á landi. Hlaðvarpið byggir á samnefndri langtímarannsókn vísindamanna við Háskóla Íslands. Í hverjum þætti eru fengnir til samtals vísindamenn sem koma að rannsókninni og ræða þeir niðurstöður sínar á mannamáli við ungt fólk á framhaldsskólaaldri.
Hlaðvarpið er samtalsvettvangur fræðimanna og framhaldsskólanema og hugsað sem mikilvægur hluti þekkingarmiðlunar. Í hverjum þætti eru fengnir til samtals vísindamenn sem koma að rannsókninni og ræða þeir niðurstöður sínar á mannamáli við ungt fólk á framhaldsskólaaldri. Hver þáttur er 45 til 60 mínútur að lengd og eru þeir hugsaðir fyrir alla þá sem hafa áhuga á heilsu en ekki hvað síst fyrir ungt fólk og foreldra.
Markús Þórhallsson, sagnfræðingur og útvarpsmaður, hefur umsjón með hlaðvarpinu, sem framleitt er af Menntavísindasviði Háskólans. Tæknimaður er Gústav K. Gústavsson og Adam Switala, doktorsnemi í tónlist, samdi stefið. Eggerti Gunnarssyni, dagskrárgerðarmanni á RÚV, eru færðar þakkir fyrir veitt liðsinni.
Viðmælendur hlaðvarpsins eru þau Erlingur Jóhannsson, prófessor í íþrótta- og heilsufræði og stjórnandi rannsóknarinnar, Ársæll Már Arnarsson, prófessor í tómstunda- og félagsmálafræði, Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor í næringarfræði, Vaka Rögnvaldsdóttir, lektor í íþrótta- og heilsufræði, Sunna Gestsdóttir, lektor í íþrótta- og heilsufræði, og Rúna Sif Stefánsdóttir, doktorsnemi í íþrótta- og heilsufræði. Framhaldsskólanemendur koma úr Verslunarskóla Íslands, Menntaskólanum við Hamrahlíð og Fjölbrautaskólanum í Garðabæ.
Háskóli Íslands styrkir gerð hlaðvarpsins úr nýjum styrktarsjóði sem snýr að samfélagsvirkni vísindamanna.
Fyrsti þáttur hlaðvarpsins verður á dagskrá 26. maí. Hlaðvarpið er aðgengilegt á öllum helstu streymisveitum og á heilsuhegdun.hi.is
Um rannsóknina
Heilsuhegðun ungra Íslendinga er umfangsmikil rannsókn þar sem skoðuð er staða og þróun á heilbrigðisþáttum ungmenna og breyting til langframa á hreyfingu, svefni, þreki, kyrrsetu og andlegum þáttum frá sjö til sautján ára aldurs. Um fimm hundruð reykvísk ungmenni, fædd árið 1999, hafa tekið þátt í rannsókninni.
Niðurstöður rannsóknarinnar hafa vakið mikla athygli í íslensku samfélagi enda gefa þær góða vísbendingu um stöðu og þróun fjölmargra heilsufarsþátta hjá þátttakendum. Þekkingarsköpun og aukin vitneskja um breytingar á heilsufari og velferð ungs fólks er nauðsynleg í öllum samfélögum. Ávinningur rannsóknarinnar er ótvíræður fyrir þróun og uppbyggingu velferðarsamfélagsins.