Þjálfa næstu kynslóð leiðtoga í afvopnunar- og samningamálum
Þriðja og síðasta námskeiðið á fyrsta starfsári samstarfsnetsins ACONA (The Arms Control Negotiation Academy) verður haldið á netinu í maí en að náminu standa Höfði - friðarsetur Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands í samstarfi við Davis Center við Harvard-háskóla og fjórar aðrar stofnanir frá Bandaríkjunum, Rússlandi og Þýskalandi. Jafnframt hefur verið opnað fyrir umsóknir um þátttöku í námskeiðum næsta vetrar á vegum ACONA-netsins.
ACONA-samstarfsnetið byggist á þremur vikulöngum námskeiðum fyrir upprennandi leiðtoga á sviði afvopnunarmála og alþjóðasamninga. Á einu ári öðlast þátttakendur í ACONA færni í að undirbúa sig fyrir og meta flóknar samningaviðræður, vinna saman að alþjóðlegum rannsóknarverkefnum og funda með reynslumiklum leiðtogum í alþjóðamálum. „Námskeiðin eru sprottin úr þeirri miklu óvissu í afvopnunarmálum sem við stöndum frammi fyrir í dag en samstarfsnetið var mótað með það í huga að þjálfa upp nýja kynslóð sérfræðinga til að takast á við þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir á þessu sviði,“ segir Silja Bára Ómarsdóttir, rannsóknastjóri Höfða - friðarseturs og prófessor við Stjórnmálafræðideild, sem kennir á námskeiðinu.
Þegar Álfrún Perla Baldursdóttir, sérfræðingur hjá utanríkisráðuneytinu og annar tveggja þátttakenda frá Íslandi í námskeiðinu, er spurð að því hvað standi upp úr svarar hún: „Námskeiðið hefur verið einstaklega fróðlegt en fyrirlesararnir standa klárlega upp úr. Við höfum fengið að ræða við helstu sérfræðinga í afvopnunarmálum og reynslumikla diplómata og sérfræðinga sem hafa tekið þátt í og leitt samningaviðræður um afvopnunarmál.“ Meðal leiðtoga sem tekið hafa þátt í námskeiðinu á þessu fyrsta ári samstarfsnetsins eu Anatoly Antonov, sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum, og Catherine Ashton, fyrrverandi utanríkisráðherra Evrópusambandsins.
Þær Brynja Huld Óskarsdóttir og Álfrún Perla Baldursdóttir hafa tekið þátt í námskeiðum á fyrsta starfsári ACONA-samstarfsnetsins og segja þau afar lærdómsrík. Höfði - friðarsetur Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands og Davis Center við Harvard-háskóla standa fyrir námskeiðunum í samstarfi við Wilson Center í Washington, The Higher School of Economics University í Moskvu, The Peace Research Institute í Frankfurt og The Moscow State Institute of International Relations í Moskvu.
Sextán þátttakendur víðs vegar að úr heiminum með fjölbreyttan sérfræði- og akademískan bakgrunn taka þátt í námskeiðunum á fyrsta starfsárinu sem lýkur í maí. „Það gleður mig að sjá hversu mikill fjöldi af efnilegu, ungu fólki hefur áhuga á að læra meira um samninga á sviði afvopnunarmála. Við munum þurfa á kröftum þeirra og hugviti að halda á komandi árum,“ segir Rose Gottemoeller, fyrrverandi aðstoðarframkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, fyrrverandi aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna og meðlimur í alþjóðlegu ráðgjafaráði ACONA.
Brynja Huld Óskarsdóttir öryggis- og varnarmálafræðingur hefur einnig verið í hópi þátttakenda í náminu í vetur. „Ég sótti um því mér fannst námið vera frábær viðbót við framhaldsnám mitt í öryggis- og varnarmálafræðum. Kjarnorkuváin er svo sannarlega ekki undanskilin þó svo að mörgum þyki það vera svolítið „retro“ eða „gamaldags“ að læra um eða velta afvopnunarmálum fyrir sér.“
Hún segir þátttakendur ekki aðeins læra samningatækni „heldur líka að skilja hvað er undirliggjandi í geópólitík og utanríkisstefnu stórveldanna, bæði þeirra landa sem eiga kjarnorkuvopn og þeirra sem eru að reyna að byggja upp kjarnorkuvopnabirgðir. Íslendingar ættu að láta afvopnunarmál og kjarnorkuvána sig varða því þetta er risastórt öryggismál fyrir okkur öll. Það eru fáir samningar í gildi, mikil samskiptaóvissa á milli þeirra sem hafa yfir að ráða kjarnorkuvopnum og Ísland gæti og ætti að reyna að leggja sitt af mörkum sem kjarnorkuvopnalaus smáþjóð til að ýta þessum málum í betri farveg.“
Opið er fyrir umsóknir í næsta árgang ACONA-samstarfsnetsins og er umsóknarfrestur til 2. maí 2021. Allar frekari upplýsingar má finna á vef námskeiðsins eða með því að hafa samband við Auði Birnu Stefánsdóttur, verkefnastjóra ACONA hjá Höfða friðarsetri (audurstefans@hi.is).