Sjálfbærnimenntun á Norðurlöndum kortlögð í nýrri skýrslu
Norræna ráðherranefndin gaf út skýrslu á dögunum þar sem sjálfbærnimenntun á Norðurlöndunum er kortlögð. Ólafur Páll Jónsson, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands, hefur leitt vinnu nefndarinnar undanfarin tvö ár í samstarfi við prófessora og meistaranema á öllum Norðurlöndunum. „Ísland tók við forystu í nefndinni árið 2019. Venjan er sú að það land sem fer með forystu setur fram tiltekið verkefni sem það vill vinna að. Þegar röðin var komin að Íslandi var ákveðið að leggja áherslu á ungt fólk og sjálfbærni. Hluti af verkefninu fólst í að reyna að draga upp mynd af því hvernig gengi að innleiða sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna á Norðurlöndum eða öllu heldur hvernig gengi með undirmarkmið 4.7 sem varðar sjálfbærnimenntun. Við sem komum að þessu verkefni lögðum ríka áherslu á að það yrði ekki bara unnið af miðaldra prófessorum heldur yrði vinnan virkt samstarf tveggja kynslóða,“ segir Ólafur Páll sem lengi hefur látið að sér kveða í umræðum um loftslagsmál hér á landi.
Þegar sjálfbærnimenntun er kortlögð liggur beint við að skoða hvernig áherslur hennar birtast í námskrá þeirra sem hyggja á kennaranám. Ólafur segir að þegar horft sé til sjálfbærnimenntunar í kennaranámi á Íslandi birtist bæði ljósir punktar og dökkir. „Ef við skoðum kennaramenntun hjá Háskólanum sérstaklega, þá fara flestir nemendur í gegnum eitt 10 eininga námskeið sem heitir Menntun til sjálfbærni – Hæfni í heimi breytinga. Að auki eru nokkur námskeið þar sem unnið er með grunnþætti menntunar sem voru skilgreindir í aðalnámskrám leik-, grunn- og framhaldsskóla árið 2011. Einn af grunnþáttunum er sjálfbærni og því gefst nemendum færi á að dýpka skilning sinn á sjálfbærni í ólíku samhengi. Hins vegar eru námskeið sem nefna sjálfbærni berum orðum mjög fá, einungis um 5% af þeim námskeiðum sem koma fyrir í kennsluskrá sviðsins,“ lýsir hann og þar er klárlega svigrúm til að betrumbæta.
Löng hefð fyrir umhverfismenntun á Norðurlöndum
Norænu ríkin nálgast sjálfbærnimenntun með talsvert ólíkum hætti. Í Svíþjóð, Finnlandi og Noregi óx sjálfbærnimenntun út úr langri hefð umhverfismenntunar, stundum með sterka tengingu við útimenntun. En hvernig stendur Ísland í samanburði við sjálfbærnimenntun annars staðar á Norðurlöndunum?
„Á Íslandi hefur ekki farið mikið fyrir útimenntun og á grunnskólastigi var umhverfismenntun lengi vel lítið fag inni í náttúrufræðimenntun. Segja má að með skilgreiningu á sjálfbærni sem einum af grunnþáttum menntunar árið 2011 hafi orðið talsverð breyting á þessum málum vegna þess að allt í einu var sjálfbærni gefið augljóst vægi í stefnumótun um menntun og skólastarf. Að vísu var ekki ljóst hvernig ætti að vinna úr þessari nýju áherslu en margir kennarar, bæði í leik-, grunn- og framhaldsskólum, á Menntavísindasviði Háskóla Íslands og við Háskólann á Akureyri hafa tekið þetta til sín og fundið skapandi leiðir til að gera sjálfbærni að raunverulegu viðfangsefni í menntun.“
Norræna ráðherranefndin var stofnuð árið 1971 og er vettvangur ríkisstjórnasamstarfs Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands. Samvinna við grannríki Norðurlanda er mikilvægt verkefni og sama gildir um allt samstarf sem eflir áhrif landanna í Evrópu. Ólafur er afar hlynntur norrænu samstarfi af þessu tagi. „Sjálfbærni er í eðli sínu samvinnuverkefni, það er sjálfbærnimenntun líka. Samvinna eins og sú sem gat af sér þessa skýrslu getur vonandi hreyft við menntakerfum Norðurlandanna og þeim fjölmörgu sem vinna innan þessara kerfa.“
Sjálfbærnimenntun er einfaldlega góð menntun
Sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna númer 4.7 er á þessa leið: „Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allir nemendur öðlist nauðsynlega þekkingu og færni til þess að ýta undir sjálfbæra þróun, meðal annars með menntun sem er ætlað að efla sjálfbæra þróun og sjálfbæran lífsstíl, með því að hlúa að friðsamlegri menningu, með mannréttindum, kynjajafnrétti, alheimsvitund, viðurkenndri menningarlegri fjölbreytni og framlagi menningar til sjálfbærrar þróunar.“
Aðspurður hvað góð sjálbærnimenntun feli í sér svarar Ólafur að ef til vill sé sjálfbærnimenntun einfaldlega góð menntun. „Eða ætti að snúa þessu við: Engin menntun getur talist góð menntun ef hún er ekki um leið sjálfbærnimenntun, þ.e. ef hún gerir okkur ekki hæfari til að lifa og starfa í samfélagi fólks, á þessari viðkvæmu jörð, okkur sjálfum, öðru fólki og öllu umhverfi til farsældar. Slík menntun getur vitaskuld ekki bara verið fólgin í því að læra nýjar staðreyndir, heldur verður hún einnig að efla væntumþykju um annað fólk og jörðina sjálfa, og um leið eigin persónulega fullnægju.“