Skip to main content

Doktorsvörn í eðlisfræði -  María Marteinsdóttir

Doktorsvörn í eðlisfræði -  María Marteinsdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
8. apríl 2021 14:00 til 16:00
Hvar 
Nánar 
Aðgangur ókeypis

Vörninni verður streymt

Doktorsefni: María Marteinsdóttir

Heiti ritgerðar: Líffræðileg óvissa í geislameðferð með róteindum (Biological Uncertainties in Proton Radiation Therapy)

Andmælendur: Dr. Ludvig Muren, prófessor við Heilbrigðiseðlisfræðideild Árósaháskóla

Dr. Iuliana Toma-Dasu, prófessor við Eðlisfræðideild Stokkhólmsháskóla, og yfirmaður lækningadeildar í geislaeðlisfræði við Stokkhólmsháskóla

Leiðbeinandi:  Dr. Harald Paganetti, prófessor við Harvard Medical School og forstöðumaður eðlisfræðirannsókna á
Geislameðferðardeild krabbameinslækninga við Massachusetts General sjúkrahúsið í Boston

Umsjónarkennari: Dr. Snorri Þorgeir Ingvarsson, prófessor við Raunvísindadeild Háskóla Íslands

Einnig í doktorsnefnd: Garðar Mýrdal, forstöðumaður geislaeðlisfræðideildar Landspítala

Doktorsvörn stýrir: Dr. Einar Örn Sveinbjörnsson, prófessor og deildarforseti Raunvísindadeildar Háskóla Íslands

 Ágrip

Geislameðferð staðbundinna æxla (external beam radiation therapy - EBRT) er þaulreynd aðferð við krabbameinslækningar með það að markmiði að skila háum jafndreifðum geislaskammti inn í æxlið sjálft án þess að skaða aðliggjandi líkamsvef. Við nútíma geislameðferð eru notaðar háþróaðar aðferðir til að draga úr aukaverkunum með því að stilla meðferðargeislann þannig að geislaskammturinn falli hratt þegar út úr æxlinu kemur og inn í heilbrigðan vef. Algengast er að nota styrkmótaða ljóseindageisla (intensity modulated radiation therapy - IMRT) en annar valkostur er meðferð með róteindabunu (proton beam therapy - PBT) sem veldur minna geislaálagi á heilbrigðan vef vegna hagfelldra eðliseiginleika róteinda.

Læknavísindin búa að áratuga reynslu af geislalækningum með ljóseindum sem reynt er að nýta við róteindameðferð. Hefðbundnir geislaskammtar ljóseinda eru hafðir til hliðsjónar þegar skipuleggja á meðferð með róteindabunu. Að jafnaði er miðað við fast hlutfall líffræðilegrar virkni (relative biological effectiveness - RBE) upp á 1,1 sem gerir ráð fyrir að róteindir hafi 10% meiri lífræn áhrif en ljóseindir. Þessi einfalda nálgun gengur hins vegar í berhögg við niðurstöður fjölda rannsókna sem sýna að RBE stuðullinn er breytilegur eftir stærð geislaskammts, eðli líkamsvefs, orkuskilum á lengdareiningu (linear energy transfer - LET), auk fleiri atriða.

Markmið ritgerðarinnar var að meta klínísk áhrif sem og líffræðilega óvissu í róteindameðferð með því að bera fastan RBE stuðul upp á 1,1 saman við breytilegan RBE stuðul. Þessu var áorkað með því að greina gögn úr klínískum rannsóknum og að beita Monte Carlo tölvuútreikningum.

Stuðst var við fjögur þýði krabbameinssjúklinga og rannsókninni skipt í jafnmarga þætti. Í fyrsta þættinum voru skoðuð klínisk áhrif þess að nota breytilegan RBE stuðul við meðferð blöðruhálskrabbameins sökum óvissu í hlutfalli (α/β)x. Annar þáttur rannsóknarinnar fólst í mati á óvissuþáttum í róteindameðferð á litlu meðferðarsvæði, sem rekja má til breytilegs RBE stuðuls vegna hækkunar á orkuskilun á lengdareiningu (LET) innan meðferðarsvæðisins. Auk þess var kannað hvaða áhrif það hefur á mat á RBE stuðulinn á meðferðarsvæðinu með því að draga úr umframslaglengd róteindageislans en við klíníska róteindameðferð er venja að bæta 3,5% + 1 mm við slaglengdina. Þriðji þáttur rannsóknarinnar beindist að sjúklingum sem fengu róteindameðferð með mjóbunustraumi (pencil beam scanning - PBS) til að meðhöndla æxli í vinstra brjósti og klínískur árangur borinn saman við meðhöndlun með þrívíðri hnitmiðaðri ljóseindageislun (three-dimensional conformal radiotherapy - 3DCRT) og mótaðri snúnings ljóseindageislun (volumetric modulated arc therapy - VMAT). Í fjórða og lokaþætti rannsóknarinnar voru þrjú mismunandi RBE líkön notuð til að meta áhrif breytilegs RBE stuðuls á meðferð sjúklinga með sarkmein í mjúkvef með róteindageislun.

Um doktorsefnið

María Marteinsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1980. Hún lauk B.Sc prófi í eðlisfræði frá Háskóla Íslands árið 2006. Árið 2009 útskrifaðist hún með M.Sc. próf í eðlisfræði frá Stokkhólmsháskóla og lauk M.Sc. gráðu í geislaeðlisfræði á heilbrigðissviði frá Stokkhólmsháskóla árið 2012. Að námi loknu vann María sem geislaeðlisfræðingur við Karolinska sjúkrahúsið í Stokkhólmi. Hún hóf doktorsnám við Háskóla Íslands árið 2015 en stundaði rannsóknir sínar við Massachusetts General sjúkrahúsið í Boston á geislameðferðardeild krabbameinslækninga.

María Marteinsdóttir

Doktorsvörn í eðlisfræði -  María Marteinsdóttir