Skip to main content
1. febrúar 2021

Kraftur settur í rannsóknir um haf, loftslag og samfélag

Kraftur settur í rannsóknir um haf, loftslag og samfélag - á vefsíðu Háskóla Íslands

Sex nýdoktorar hafa verið ráðnir til rannsóknarstarfa við nýstofnað Rannsóknarsetur Margrétar II. Danadrottningar og Vigdísar Finnbogadóttur f.v. forseta Íslands um haf, loftslag og samfélag (ROCS). Rannsóknasetrið starfar við Háskóla Íslands og Kaupmannahafnarháskóla. 

Nýdoktorarnir munu gegna lykilhlutverki við að efla samvinnu þeirra dönsku og íslensku vísindamanna sem tengjast rannsóknasetrinu. Það er þverfræðilegt og er því ætlað að auka skilning á samspili loftslagsbreytinga og vistkerfa hafsins og mikilvægi þeirra fyrir íslenskt samfélag og menningu. 

Nýdoktorarnir sex eru af sviði hug- og félagsvísinda annars vegar og af sviði náttúruvísinda hins vegar. Vísindafólkið af fyrrtöldu sviðunum mun kanna áhrif hafs og loftslagsbreytinga á íslenskt samfélag og menningu og vísindafólkið af því síðartalda mun kanna samband loftslags- og vistkerfa í gegnum söguna í hafi og á landi. Það verður m.a. gert með því að kortleggja tengsl loftslags og lífríkis hafsins á mannöldinni og með því að rannsaka loftslagstengdar breytingar á láði og legi.

Nýdoktorarnir sem koma til rannsóknastarfa við Háskóla Íslands og Kaupmannahafnarháskóla eru Wesley Randall Farnsworth, Angela Marie Rawlings, Auður Aðalsteinsdóttir, Kirstine Drumm, Rebecca Jackson og Arndís Bergsdóttir, sem jafnframt er verkefnastýra á Íslandi. 

Rannsóknasetrið um haf, loftslag og samfélag var stofnað af Carlsbergsjóðnum í samvinnu við íslensk stjórnvöld og Rannís. Framlag Carlsbergsjóðsins til setursins er afmælisgjöf til Margrétar II Danadrottningar og Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, en framlagi íslenskra stjórnvalda er ætlað að efla vísindasamstarf Dana og Íslendinga í tilefni af 75 ára afmæli lýðveldisins árið 2019. 

Áhersla á loftslag, samfélag og hafið umhverfis Ísland

„Viðfangsefni ROCS hverfast um hafið sem umlykur Ísland, íslensk samfélög og náttúru. Meginmarkmiðið er að rannsaka hvernig gerð vistkerfa og loftslagsbreytingar hafa haft áhrif á íslenskt umhverfi bæði á sjó og landi en landið þykir ákjósanlegur vettvangur til rannsókna á flóknu samspili loftslags, lífhvolfs og mannvera,“ segir verkefnastýran Arndís Bergsdóttir.
„Aðallega vegna einangrunar þess í Norður Atlantshafi, náins samlífs fólks og náttúru en einnig vegna aðgengis að heimildum um lifnaðarhætti fólks og menningu.“ 

Þótt þungamiðja rannsóknanna við ROCS verði hafið umhverfis Ísland er líklegt að drjúgur hluti af niðurstöðum  rannsóknanna muni nýtast til skilnings á þróuninni í Norður-Atlantshafi í heild sinni. 

Nýjar aðferðir notaðar við rannsóknir

Rannsóknarsetrinu er stýrt af Katherine Richardson, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, sem er einnig aðal verkefnisstjóri. Auk hennar sitja í stýrihópi setursins: Auður Hauksdóttir, prófessor á Hugvísindasviði Háskóla Íslands, Flemming Besenbacher, stjórnarformaður Carlsbergsjóðsins og prófessor við Háskólann í Árósum, Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor á Félagsvísindasviði Háskóla Íslands og aðstoðarrektor vísinda, Lars Stemmerik, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, og Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor á Verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands. 

Rannsóknir sem eru stundaðar á vegum ROCS byggjast á náinni samvinnu allra sem að verkefninu koma og tengja hefðbundin svið náttúru-, félags-, og hugvísinda eins og áður sagði. Rannsóknirnar miðast við að skapa þekkingu sem byggist frá grunni á ólíkum nálgunum á svipuðu viðfangsefni. Auk rannsókna og þekkingarsköpunar er það markmið ROCS að byggja á áratuga löngu samstarfi Íslendinga og Dana á sviði vísinda og leggja drög að öflugu neti vísindafólks og samstarfi til framtíðar. 

„Við rannsóknirnar á vegum ROCS verður sérstaklega horft til nýstárlegra aðferða þar sem eDNA er greint úr setkjörnum sem borað verður eftir bæði á sjó og í vötnum. Með þessari aðferð verður í fyrsta sinn hægt að veita innsýn í samband vistkerfa við þróun loftslags og afla nýrrar þekkingar um flókið samspil og samlíf vistkerfa, loftslags, mannvera og annarra lífvera á Íslandi,“ segir Arndís. 
 

Arndís Bergsdóttir