Skip to main content
20. janúar 2021

Nemendur við HÍ hljóta Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands

Nemendur við HÍ hljóta Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands - á vefsíðu Háskóla Íslands

Verkefni þriggja nemenda í iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands og nemanda í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík hlaut Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands í ár en verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í dag. Verkefnið snýst um að bæta þjónustu við sjúklinga á leið á sjúkrahúsið Vog.

Verkefnið nefnist „Betri samskipti við sjúklinga sem bíða innlagnar og meðferðar á sjúkrahúsinu Vogi“. Að því standa Ari Kvaran, Sunneva Sól Ívarsdóttir og Þórdís Rögn Jónsdóttir, nemar í iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands, og Ísól Sigurðardóttur, nemi í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík. Leiðbeinendur voru Guðmundur Valur Oddsson, Rögnvaldur Jóhann Sæmundsson og Tómas Philip Rúnarsson, prófessorar á Verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands, og Valgerður Árný Rúnarsdóttir, yfirlæknir á sjúkrahúsinu Vogi.

Markmið verkefnisins var að hanna og þróa frumgerð að hugbúnaði til þess að aðstoða skjólstæðinga meðan þeir bíða eftir að komast í meðferð á sjúkrahúsinu Vogi en eftirspurn eftir þjónustu sjúkrahússins hefur aukist hratt og biðtími lengst á undanförnum misserum. Áhersla var lögð á að bæta samskipti við skjólstæðinga með rafrænum sjálfvirkum skilaboðum ásamt því að veita þeim greiðan aðgang að þeim úrræðum sem eru í boði, hvatningu og aðstoð í aðdraganda meðferðar sem höfðar til hvers og eins. Á tímum heimsfaraldursins hefur aldrei verið jafn mikil þörf á rafrænni lausn sem býður upp á betri og fjölbreyttari þjónustu við þennan skjólstæðingahóp.

„Með notkun hugbúnaðarins eru vonir bundnar við það að hægt sé að beina skjólstæðingum í viðeigandi úrræði og koma þannig fleirum að í afeitrun, sem þurfa á henni að halda. Hugbúnaðurinn myndi því ekki einungis skila ávinningi fyrir fólk sem glímir við áfengis- og vímuefnafíkn og aðstandendur þeirra heldur samfélagið í heild,“ segir m.a. í tilkynningu vegna verðlaunanna. 

Frumgerðin var unnin í nánu samstarfi við starfsfólk SÁÁ og einstaklinga sem hafa reynslu af því að bíða eftir innlögn. Niðurstaða verkefnisins hefur meðal annars verið kynnt fyrir verkefnastjóra áfengis- og vímuvarna hjá Embætti landlæknis sem sýndi verkefninu mikinn áhuga og sér mikil tækifæri með notkun á hugbúnaðinum.

Hægt er að skoða lausnina á vefnum electra.is en þess má geta að verkefnið komst einnig í úrslit Gullegssins 2020.

Fjallað var um verkefnið á vef Háskóla Íslands í sumar.

Alls voru sex verkefni tilnefnd til verðlaunanna og fengu þau öll sérstaka viðurkenningu á Bessastöðum í dag. Þess má geta að nemendur við Háskóla Íslands komu að þremur þeirra

Þetta var í 26. sinn sem verðlaunin eru afhent en þau eru veitt þeim námsmönnum sem hafa unnið framúrskarandi starf við úrlausn verkefna sem styrkt voru af Nýsköpunarsjóði námsmanna árið 2020. 

Þór­dís Rögn, Sunn­eva Sól, Ísól og Ari ásamt Guðna Th. Jó­hann­es­syni, for­seta Íslands.