Þann 15. nóvember 2020 var nákvæmlega 41 ár liðið frá því fyrstu flóttamennirnir frá Víetnam komu hingað til lands. Þeir voru rösklega þrjátíu talsins en árið 1979 var vandi flóttafólks í Suðaustur-Asíu mjög alvarlegur. Hópur fólks með víetnamskar rætur hefur stækkað jafnt og þétt hér á landi frá þessum tíma og í fyrra fengu t.d. þrjátíu einstaklingar íslenskt ríkisfang sem áður höfðu verið með ríkisfang í Víetnam. Þetta var næststærsti hópurinn sem fékk íslenskt ríkisfang í fyrra á eftir Pólverjum.
Anh Dao Katrín Tran er aðjunkt og nýdoktor við Deild menntunar og margbreytileika við Háskóla Íslands. Hún á rætur að rekja til Víetnams og heimsótti Ísland fyrst í janúar árið 1980, aðeins nokkrum mánuðum eftir komu samlanda sinna hingað. Seinna flutti hún til Íslands og hefur hún nú lokið doktorsgráðu frá Háskóla Íslands.
Anh Dao hefur beint sjónum sínum að samfélagi innflytjenda á Íslandi í rannsóknum sínum, ekki síst Víetnama. Í doktorsrannsókninni hennar voru t.d. víetnömsk ungmenni í íslenskum framhaldsskólum í háskerpu.
Aðlögun þriggja kynslóða Víetnama
Nú vinnur Anh Dao að nýrri rannsókn með það að markmiði öðlast þekkingu á aðlögun og breytingum milli þriggja kynslóða Víetnama á Íslandi. Anh Dao horfir í félags-, menningar- og menntunarlegt samhengi yfir síðustu fjóra áratugi með sérstaka áherslu á menntaferil fólksins.
„Rannsóknin er nauðsynleg til að öðlast innsýn og skilning á öllum leikendum í menntakerfinu. Hér á ég við börn, nemendur, foreldra og starfsfólk. Þetta er brýnt til að halda áfram þróun í námi, kennslu og stefnumótun sem gagnast öllum, sérstaklega börnum og ungu fólki,“ segir Anh Dao þegar vikið er að mikilvægi þessarar rannsóknar.
„Ísland er hluti af alþjóðasamfélaginu,“ segir hún, „þar sem aukinn margbreytileiki og fjölmenning hefur einkennt íbúa landsins frá upphafi 21. aldarinnar. Víetnamar hafa áunnið sér sess í íslensku samfélagi á undanförnum fjórum áratugum. Að undanskildum nokkrum greinum í fjölmiðlum hefur lítið verið fjallað um þennan hóp og engin vísindaleg rannsókn hefur farið fram á aðlögun þessa hóps í heild að íslensku samfélagi.“
Anh Dao segir að aðeins hafi verið gerðar tvær rannsóknir á víetnömskum ungmennum sem komu til landsins seint á síðustu öld og snemma á þessari. Sú fyrri var í samstarfi við Hönnu Ragnarsdóttur, prófessor á Menntavísindasviði og Chris Gaine, sem var prófessor við Háskólann í Chichester í Bretlandi og sú seinni er hér til umfjöllunar og er unnin með Hönnu. „Það er mikilvægt að horfa ekki á reynslu flóttafólks sem stakan atburð heldur líta til sögulegs samhengis og félagslegra ferla í samskiptum kynslóða. Þessi rannsókn mun hjálpa okkar að skilja ferli samfélagslegrar aðlögunar flóttafólks og innflytjenda – auk afkomenda þessara hópa á Íslandi, jafnt félags- og menntunarlega.“
„Rannsóknin er nauðsynleg til að öðlast innsýn og skilning á öllum leikendum í menntakerfinu. Hér á ég við börn, nemendur, foreldra og starfsfólk. Þetta er brýnt til að halda áfram þróun í námi, kennslu og stefnumótun sem gagnast öllum, sérstaklega börnum og ungu fólki,“ segir Anh Dao Katrín Tran.
Heildarsýn fæst á samþættingu
Rannsóknin er þess eðlis að tekin eru viðtöl við fólkið og hafa þegar verið tekin viðtöl við sum þeirra sem komu hingað til lands árið 1979. Áformað er að birta niðurstöður um mitt ár 2021.
„Rannsóknin mun gefa heildarsýn yfir samþættinguna á þessu 40 ára tímabili, t.d. hvort hún hafi breyst í gegnum tíðina með auknum straumi innflytjenda til landsins undanfarna áratugi,“ segir Anh Dao sem hefur mestan áhuga á að íslenskt menntakerfi þróist áfram fyrir alla, á öllum skólastigum.
„Heimspekin á bak við fjölmenningarlega menntun er byggð á því hún sé fyrir alla, að hún virði fjölbreytileika og að jöfn tækifæri séu í fyrirrúmi burtséð frá kyni, trú, uppruna, kynþætti, félags- og efnahagslegri stöðu, fötlun eða öðru. Til að markmið fjölmenningarlegrar menntunar um bættan námsárangur nemenda af erlendum uppruna nái fram að ganga þarf að þróa nýja kennslufræði og gera ýmsar umbætur í skólum landsins,“ segir Anh Dao.
Ný rannsókn hennar er varða á þeirri vegferð. Því er við þetta að bæta að rannsóknin fékk styrk frá RANNÍS til þriggja ára.