Skip to main content

Doktorsvörn í líffræði - Jónas Páll Jónasson

Doktorsvörn í líffræði - Jónas Páll Jónasson  - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
20. janúar 2021 14:00 til 16:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðarsalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Streymi: https://livestream.com/hi/doktorsvornjonasjonasson

Doktorsefni: Jónas Páll Jónasson

Heiti ritgerðar: Stofnsveiflur fiskungviðis og hryggleysingja við Ísland (Population dynamics of fish juveniles and invertebrates in Icelandic waters)

Andmælendur:
Dr. Richard David Marriott Nash, sérfræðingur hjá hafrannsóknastofnuninni Marine Fisheries Cefas í Lowestoft, Bretlandi
Dr. Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, forstöðumaður rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum

Leiðbeinandi: Dr. Guðrún Marteinsdóttir, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands

Einnig í doktorsnefnd:
Dr. Bruce J. McAdam, lektor við Institute of Aquaculture, The University of Sterling, Bretlandi
Dr. Sigurður Snorrason, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands

Doktorsvörn stýrir: Dr. Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor og deildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar Háskóla Íslands

Ágrip

Við Ísland er að finna eitt flóknasta hafstraumakerfi í Norður-Atlantshafi. Hér má búast við mismunandi áhrifum umhverfisbreytinga á ólíka stofna sjávarlífvera, en með því að skoða nokkrar tegundir má draga víðtækari ályktanir af eðli áhrifanna. Meginviðfangsefni þessa verkefnis var rannsókn á ungviði og stofnsveiflum með tilliti til nýliðunar hjá þorski, skarkola, sandrækju og hörpudiski. Rannsóknin tók yfir tímabil þegar innstreymi hlýs Atlantssjávar jókst með tilsvarandi hækkun sjávarhita.

Þorskungviði var að finna í háum þéttleika í seltuminni sjó nærri landi, sem rennir stoðum undir mikilvægi ferskvatnsknúna strandstraumsins við árangursríka nýliðun hjá þorski og flutningi á lirfum yfir á norðlægari uppeldissvæði. Stofnstærðarsveiflur hjá þorski og skarkola við Ísland eru almennt litlar og má að einhverju leyti rekja ástæður þess til flókinnar stofngerðar tegundanna og að auki hemjandi þéttleikaháðra áhrifa á uppeldisslóð skarkolans. Hörpudisksstofninn í Breiðafirði var ein fyrsta tegundin við Ísland sem hrundi í kjölfar núverandi hlýindaskeiðs sem hófst í kringum árið 1996, en hrunið markast af háu veiðiálagi, háum náttúrulegum dauða í kjölfar sýkingar og lélegrar nýliðunar. Á þessu tímabili greindust einnig nokkrar ágengar lífverur í sjó, meðal annars sandrækja sem naut góðs af hlýindunum í hafinu og hefur hún aðlagast hratt nýjum heimkynnum. Almennt má segja að drifkraftur nýliðunarsveiflnanna sé sameiginlegur milli ólíkra tegunda og þarft er að skoða sveiflurnar á víðum grunni.

Um doktorsefnið

Jónas Páll Jónasson lauk BSc-gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands árið 2001 og MSc-gráðu í fiskifræði frá sama skóla árið 2005. Jónas starfar sem sérfræðingur á Hafrannsóknastofnun og ber m.a. ábyrgð á og sinnir rannsóknum og stofnmati á leturhumri, hörpudisk og sæbjúgum. Hann sinnir einnig kennslu og leiðbeiningu við Sjávarútvegsskóla Þróunarsamvinnumiðstöðvar UNESCO á Íslandi, sem hefur aðsetur á Hafrannsóknastofnun.

Jónas er giftur dr. Sólveigu Guðrúnu Hannesdóttur og eiga þau fimm börn.

Jónas Páll Jónasson

Doktorsvörn í líffræði - Jónas Páll Jónasson