Skip to main content
3. desember 2020

Fjögur verðlaunuð fyrir framúrskarandi störf í þágu Háskóla Íslands

""

Fjórir starfsmenn Háskóla Íslands, þau Amalía Björnsdóttir, Gavin Lucas, Irma Erlingsdóttir og Helga Steinunn Hauksdóttir, hlutu viðurkenningu fyrir lofsvert framlag í starfi við skólann á sviði kennslu, rannsókna, jafnréttismála og annarra starfa á upplýsingafundi rektors fyrir starfsfólk sem fram fór í dag.

Amalía Björnsdóttir, prófessor við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda á Menntavísindasviði, hlýtur viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til kennslu. Amalía lauk BA-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands 1990 og ári síðar prófi í uppeldis- og kennslufræðum.  Árið 1994 lauk hún MS-prófi í sálfræði frá University of Oklahoma í Bandaríkjunum og doktorsgráðu í sömu grein frá sama skóla tveimur árum síðar. Amalía tók við starfi lektors við Kennaraháskóla Íslands árið 1996, varð dósent árið 2000 og prófessor 2016.

Amalia

„Amalía hefur verið leiðandi í kennslu megindlegra rannsóknaraðferða á Menntavísindasviði. Hún hefur glætt kennslu sína lífi og hrifið nemendur inn í heim tölfræðinnar. Auk þess kemur hún að fjölmörgum rannsóknarverkefnum nemenda þar sem megindlegum aðferðum er beitt. Amalía hefur verið í fararbroddi við að tileinka sér og nýta nýjar áherslur í kennslu og lagt sig fram um að veita nemendum stuðning, hvort sem er í stað- eða fjarnámi. Hún hefur í kennslu sinni um langt skeið sett með markvissum hætti stuðningsefni fyrir nemendur á netið, bæði upptökur og myndskeið. Meðal annars setti hún árið 2006 upp tölfræðivef með fjölbreyttu efni sem nemendur hafa nýtt sér í ríkum mæli. Á heimasíðu hennar er margs konar kennsluefni og hún hefur tekið upp fjölda vandaðra og hnitmiðaðra myndbanda og birt á Youtube.

Amalía hefur á kennsluferli sínum lagt sig fram um að laga kennsluhætti að aðstæðum á hverjum tíma og nýta tækninýjungar við kennslu. Hún var m.a. í prófunarhópi vegna innleiðingar nýs námsumsjónarkerfis í Háskóla Íslands og lagði síðan á sig ómælda vinnu við að hanna notendavæna námsvefi. Þegar COVID-19 veirufaraldurinn skall á snemma á þessu ári var Amalía því vel undirbúin. Hún tók þá að sér að leiðbeina og aðstoða fjölmarga samkennara við fjarkennslu og uppsetningu CANVAS-vefja í námskeiðum auk þess sem hún tók upp leiðbeiningarefni fyrir aðra kennara um kennslu á vefnum.

Amalía hefur í rannsóknum sínum látið sig kennslu og aðstæður nemenda og kennara varða. Þá hefur hún fjallað um kulnun og starfsaðstæður kennara og skólastjórnenda.  Hún hefur rannsakað reynslu nemenda í háskólanámi og verið vakandi fyrir því að gæta að stöðu nemenda af landsbyggðinni. Amalía er fagmanneskja fram í fingurgóma, gerir miklar kröfur til nemenda en þó umfram allt til sjálfrar sín. Þannig leggur hún sig fram um að finna lausnir fyrir nemendur og leiða þá áfram í heimi tölfræðinnar sem oft er vandrataður,” segir í umsögn valnefndar vegna viðurkenningarinnar.

Gavin Murray Lucas, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild á Hugvísindasviði, hlýtur viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til rannsókna. Gavin Murray Lucas lauk BA-prófi í fornleifafræði við University College London í Englandi 1988 og doktorsprófi frá Cambridge-háskóla 1995. Næstu ár starfaði hann við ýmis rannsóknarverkefni á Íslandi, í Suður-Afríku, í Tyrklandi og í Bretlandi. Gavin var ráðinn lektor í fornleifafræði við Háskóla Íslands árið 2006, varð dósent 2010 og prófessor 2012. Hann hefur verið bæði farsæll kennari og afkastamikill rannsakandi í starfi sínu hjá Háskóla Íslands.

Gavin

Rannsóknir Gavins hafa vakið verðskuldaða athygli í alþjóðlegum fræðaheimi sem sést m.a. á fjölda tilvísana í verk hans. „Gavin er mjög fjölhæfur vísindamaður, hefur stjórnað fornleifauppgröftum og skrifað bækur og fjölda vísindagreina um kenningar í fornleifafræði. Þannig hefur hann haslað sér völl sem leiðandi fræðimaður á alþjóðlegum vettvangi í rannsóknum á tengslum tíma og fornleifafræði, en árið 2005 kom út bók eftir hann hjá Routledge-forlaginu um fornleifafræði tímans. Áratug síðar var hann valinn til að skrifa kafla um tímann í sögulegri fornleifafræði í bók sem birtist í ritröðinni Cambridge Companions (Cambridge University Press, 2015) og um tímann í The Oxford Handbook of Archaeological Theory 2014. 

Til viðbótar þessu, í bókum sem komu út hjá tveimur af virtustu akademísku forlögum heims í hugvísindum, Cambridge University Press og Routledge, nýtir Gavin sér reynslu sína af frumrannsóknum við ritun grunnbóka um aðferðafræði í fornleifafræði. Svipuðu máli gegnir um fræðibókina An Archaeology of Colonial Identity: Power and Material Culture in the Dwars Valley, South Africa, en þar setur Gavin niðurstöður grunnrannsókna sinna í Suður-Afríku inn í umræður um svonefnd „eftirlendufræði” innan fornleifafræðinnar. Loks hefur Gavin kynnt niðurstöður íslenskra rannsókna í fornleifafræði fyrir alþjóðlegum fræðaheimi, m.a. í bókinni Hofstaðir: Excavations of a Viking Age Feasting Hall in North-Eastern Iceland sem hann ritstýrði,“ segir m.a. í umsögn valnefndar. 

Irma Jóhanna Erlingsdóttir, dósent við Mála- og menningardeild á Hugvísindasviði, hlýtur viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til jafnréttismála. Irma lauk doktorsprófi í samtímabókmenntum og menningarfræði frá Sorbonne-háskóla árið 2012. Hún var ráðin lektor í frönskum nútímabókmenntum við Háskóla Íslands 2009 og hefur verið dósent frá 2013.  

Irma

Irma hefur verið forstöðumaður RIKK – rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands frá árinu 2000 og stýrt Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna frá stofnun hans árið 2009, en skólinn starfar undir merkjum UNESCO og hefur brautskráð samtals 152 nemendur frá 25 löndum með diplómagráðu á meistarastigi í alþjóðlegum jafnréttisfræðum. Þá leiðir Irma einnig rannsóknaklasann EDDU sem er samstarfsvettvangur fræðimanna sem sinna gagnrýnum samtímarannsóknum með áherslu á jafnrétti og margbreytileika í hug- og félagsvísindum.

„Irma hefur stýrt stórum alþjóðlegum rannsóknaverkefnum, m.a. á sviði jafnréttismála og samtímafræða. Árið 2018 fékk hún ásamt norrænum samstarfssystkinum veglegan styrk frá NordForsk til fimm ára til að koma á fót rannsóknasetrinu ReNEW. Þar eru norrænu ríkin og velgengni þeirra skoðuð með gagnrýnum augum en margar þjóðir horfa til ríkjanna vegna árangurs þeirra á sviði jafnréttismála, nýsköpunar, samkeppnishæfni og almennrar velsældar. Hún er einnig þátttakandi í öðru stóru samnorrænu verkefni, Nordic Branding, þar sem fjallað er um ímynd Norðurlandanna, m.a. út frá sjónarhorni jafnréttis. 

Auk kennslu og rannsókna hefur Irma gegnt ýmsum stjórnunar- og trúnaðarstörfum. Hún situr m.a. í útgáfustjórn norræna femíníska tímaritsins NORU og ráðgjafastjórn tímaritsins The European Journal of Politics and Gender. Hún á jafnframt sæti í framkvæmdastjórn RINGS, alþjóðlegra samtaka rannsóknastofnana á sviði kynja- og jafnréttisfræða. 

Irma var á síðasta ári í hópi 100 áhrifamestu einstaklinga heims í jafnréttismálum samkvæmt lista Apolitical, alþjóðlegs fræðslu- og stefnumótunarvettvangs fyrir ríkisstjórnir og aðra opinbera aðila. Hún var þar í hópi með heimsþekktu baráttufólki fyrir jafnrétti kynjanna,“ segir í umsögn valnefndar.

Helga Steinunn Hauksdóttir, verkefnisstjóri nemendaþjónustu Félagsvísindasviðs, hlýtur viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til stjórnsýslu og stoðþjónustu. Helga Steinunn lauk BA-prófi í sagnfræði árið 1992. Hún hóf störf við Háskóla Íslands haustið 2012 og hefur starfað sem verkefnastjóri á skrifstofu Lagadeildar Háskóla Íslands frá 2014 og nú síðast einnig í nemendaþjónustu Félagsvísindasviðs. 

Helga Steinunn

„Í starfi sínu fyrir Lagadeild og Félagsvísindasvið hefur Helga Steinunn m.a. umsjón með málefnum nemenda. Óhætt er að segja að hún ræki það starf af einstakri alúð og trúmennsku. Helga Steinunn er vakin og sofin yfir velferð skjólstæðinga sinna. Hún kemur fram við nemendur eins og jafningja, er ráðagóð og ævinlega til staðar til að leiðbeina um hvaðeina sem viðkemur náminu. Hún er örlát á upplýsingar og hefur ævinlega á reiðum höndum svör við spurningum nemenda. 

Helga Steinunn ber hag nemenda Lagadeildar og Félagsvísindasviðs mjög fyrir brjósti, er ósérhlífin og vandvirk í störfum sínum, fús að leysa úr málum og gefur sér til þess góðan tíma. Hún er vel heima á sínu starfssviði, svarar erindum fljótt og vel, er hvetjandi og ávallt reiðubúin til aðstoðar þegar til hennar er leitað, auk þess sem hún er glaðleg og kurteis í viðmóti. Helgu Steinunni vaxa viðfangsefnin ekki í augum heldur lítur hún á þau sem verkefni til að leysa,“ segir í umsögn valnefndar.

Viðurkenningar fyrir lofsverðan árangur í starfi hafa verið veittar við Háskóla Íslands í rúma tvo áratugi. Í upphafi var þremur starfsmönnum veitt viðurkenning á svið kennslu, rannsókna og almennra starfa en í fyrra var tekin upp sú ánægjulega nýbreytni að bætt var við fjórðu viðurkenningunni fyrir lofsvert framlag til jafnréttismála. Er þetta í samræmi við þá áherslu sem lögð er á jafnréttismál í stefnu Háskóla Íslands. Allir verðlaunahaf hljóta viðurkenningarskjal, greinargerð valnefndar, blómvendi og peningaverðlaun að fjárhæð 500 þúsund krónur.

Öllu starfsfólki og nemendum gefst ár hvert kostur á að senda inn tilnefningar til viðurkenninganna auk þess sem þrjár af starfsnefndum háskólaráðs, kennslumálanefnd, vísindanefnd og jafnréttisnefnd senda inn tilnefningar. Þriggja manna valnefnd fer síðan yfir tilnefningarnar og velur einn úr hverjum hópi. 

Í ár tók við ný valnefnd og er hún skipuð þeim Ingileif Jónsdóttur prófessor, sem er formaður, Eiríki Rögnvaldssyni, prófessor emeritus og fyrrverandi varaforseta háskólaráðs, sem er fulltrúi fyrrverandi starfsmanna í nefndinni, og Ásthildi Margréti Otharsdóttur, ráðgjafa og formanni stjórnar Marel hf., fulltrúa í háskólaráði, en Ásthildur er jafnframt fulltrúi fyrrverandi nemenda í valnefndinni. 

Samtals hafa 61 starfsmenn Háskóla Íslands verið heiðraðir með þessum viðurkenningum fram að þessu. Lista yfir þá starfsmenn sem hlotið hafa viðurkenningar má finna á vef skólans.

Háskóli Íslands óskar fjórmenningunum innilega til hamingju með viðurkenninguna og þakkar þeim framúrskarandi störf í þágu skólans.

Verðlaunahafarnir fjórir ásamt rektor. Frá vinstri: Helga Steinunn Hauksdóttir, Gavin Lucas, Irma Erlingsdóttir, Amalía Björnsdóttir og Jón Atli Benediktsson.