Skip to main content

Þroskaþjálfafræði - Aukagrein

Þroskaþjálfafræði - Aukagrein

Menntavísindasvið

Þroskaþjálfafræði

Aukagrein – 60 einingar

Í uppeldis- og menntunarfræði er fengist við spurningar sem tengjast þroska og uppeldi barna og unglinga, samskiptum fólks, sjálfsmyndum einstaklinga og hópa, fjölskyldum, skólum, kynferði og kyngervi, menningarlegum margbreytileika, menntun og starfsframa og þróun skólakerfa. Námið felur í sér fjölbreytta grunnmenntun sem undirbýr fólk til starfa á fjölmörgum sviðum uppeldis-, félags- og tómstundamála. Fjarnám.

Skipulag náms

X

Saga og fötlun: Þróun hugmynda og kenninga (ÞRS119G)

Í þessu námskeiði er tilgangurinn að gefa nemendum sögulega yfirsýn yfir þróun ólíkra hugmynda og kenninga um fötlun og með hvaða hætti þær  hafa mótað líf og aðstæður fatlaðs fólks, viðhorf til þess og stöðu í samfélaginu fyrr og nú. Séstök áhersla verður á tímabilið frá því í upphafi 20. aldar og fram til dagsins í dag. Í því skyni verður sjónum meðal annars beint að  mannkynbótastefnu, sjúkdómsvæðingu fötlunar, stofnanavæðingu og hugmyndafræði um eðlilegt lif og samfélagsþátttöku (normaliseringu). Auk þess verður fjallað um mannréttindabaráttu fatlaðs fólks, samtvinnun mismunabreyta og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í námskeiðinu er byggt á félagslegum skilningi fötlunarfræðinnar og fjallað verður um ýmsa félagslega og menningarlega þætti tengda fötlun. Í námskeiðinu er lögð sérstök áhersla á að tengja sögulegar hugmyndir og kenningar við daglegt líf og reynslu fatlaðs fólks.

X

Inngangur að þroskaþjálfafræði (ÞRS118G)

Námskeiðið er inngangsnámskeið að þroskaþjálfafræðum. Þroskaþjálfar starfa á öllum sviðum samfélagsins með það að leiðarljósi að styðja við og efla samfélagslega þátttöku og gæta hagsmuna fatlaðs fólks og annarra sem nýta sér þjónustu og fagþekkingu þroskaþjálfa. Mannréttindi eru kjölfestan í störfum þroskaþjálfa.

Í námskeiðinu verður farið yfir grunnþætti þroskaþjálfastarfsins:

  • Lykilhugtök þroskaþjálfafræða
  • Grunnþætti í teymis- og hópavinnu.
  • Sögu og þróun þroskaþjálfastéttarinnar á Íslandi
  • Mannréttindi og mannréttindasáttmála
  • Lög og reglugerðir sem tengjast störfum og starfsvettvangi þroskaþjálfa
  • Siðareglur, hugmyndafræði og gildi þroskaþjálfa
  • Hlutverk þroskaþjálfa í samfélagi margbreytileikans

 Nemendur fá kynningu á starfsviði og starfsháttum þroskaþjálfa á vettvangi og helstu þjónustukerfum í málaflokkum fatlaðs fólks. Starfandi þroskaþjálfar munu koma sem gestafyrirlesarar inn í kennslustundir  Leitast er við að kynna nýjar íslenskar rannsóknir innan þroskaþjálfafræðinnar.

 Vinnulag:

Kennarar setja inn fyrirlestra og annað námsefni á Canvas. Nemendur mæta í vikulega kennslu og staðlotur á stað eða í rauntíma á netinu samkvæmt stundaskrá og taka virkan þátt í umræðum og verkefnavinnu. Stundaskrá er aðgengileg á námskeiðsvefnum. Staðlotur eru tvær á misserinu.  

Mætingar-/ þátttökuskylda er á námskeiðinu (nánar útfærð í kennsluáætlun).

Staðkennsla: Staðnemar mæta í vikulegar kennslustundir og staðlotur í kennslustofu.

Fjarkennsla: Fjarnemar mæta í rauntíma á netinu í vikulegar kennslustundir og í staðlotur. Í staðlotum stendur nemendum til boða að mæta í stofu og eru þeir hvattir til þess.

Áhersla er lögð á samvinnu nemenda og virka þátttöku í námskeiðinu.

X

Siðfræði og fagmennska (ÞRS312G)

Í þessu námskeiði er farið í siðfræði með áherslu á nytjastefnu, réttarstefnu (skyldukenningar), mannréttindi og siðfræðileg hugtök eins og sjálfræði, velferð, friðhelgi einkalífs og virðingu. Jafnframt er fjallað um tengsl fagmennsku og siðferðis.

Áhersla er lögð á að tengja hina fræðilegu umfjöllun við siðferðileg álitamál í starfi fagstétta sem vinna með margvíslegum hópum í samfélaginu

X

Fötlun, heilsa og færni (ÞRS308G)

Efni námskeiðs skiptist í megindráttum í þrennt. Í fyrsta lagi er fjallað um einkenni og orsakir mismunandi skerðinga hjá fötluðu fólki. Í öðru lagi er fjallað um heilsu og heilsutengda þætti í lífi fatlaðs fólks. Í þriðja lagi er fjallað um áhrif umhverfis á heilsu. Stefnt er að því að nemendur öðlist færni í að greina mismunandi sjónarhorn á heilsu og fötlun (læknisfræðileg- og félagsleg) og hvernig megi yfirfæra þau á gagnrýninn hátt á starfsvettvang þroskaþjálfa. Sérstök áhersla verður á umfjöllun umhverfis á heilsu fatlaðs fólks

X

Fjölbreyttar tjáskiptaleiðir (ÞRS310G)

Í námskeiðinu er fjallað um fjölbreyttar tjáskiptaleiðir fyrir fólk með tal- og tjáskiptaörðugleika af ýmsum toga. Áhersla er lögð á mikilvægi tjáskipta allt lífið og þátt þeirra varðandi mannréttindi og sjálfstætt líf. Nemendur fá kynningu á fjölbreyttum aðferðum til tjáskipta sem geta hentað ólíkum aldurshópum og ólíkum þörfum. Sérstök áhersla verður lögð á tjáskiptaforritin Communicator 5 og TD Snap. Einnig verður veitt innsýn í TEACCH hugmyndafræðina ásamt fleiri aðferðum sem henta einstaklingum á einhverfurófi.  Rætt verður um hvað felst í því að vera góður tjáskiptafélagi ásamt mikilvægi þess að vinna saman í teymi og sinna eftirfylgni varðandi notkun fjölbreyttra tjáskiptaleiða. Í námskeiðinu er lögð rík áhersla á hagnýta notkun fjölbreyttra tjáskiptaleiða og miða verkefni námskeiðsins að þjálfun nemenda á því sviði.  

X

Vald og jaðarsetning: hagnýting félagsfræðikenninga (ÞRS214G)

Markmið námskeiðsins er að nemendur læri að þekkja og nota mismunandi félagsfræðilegar kenningar sem tengjast líkamlegu og andlegu atgervi. Farið verður yfir hugtök sem tengjast valdi, til dæmis stigma, valds, öráreitni og ableisma, sem nemendur geta nýtt sér til að greina hvernig normi er viðhaldið og hvernig samfélagslegar skilgreiningar á normi eru til komnar. Þær kenningar sem farið verður í ættu að geta nýst nemendum til þess að átta sig á því hvernig jaðarsetningu hópa er viðhaldið í samfélaginu og hvernig ögun líkama fer fram.

X

Fötlun og lífshlaup (ÞRS212G)

Í þessu námskeiði verður fjallað um lífshlaupið, allt frá barnæsku til elliáranna, og þær fjölmörgu samfélagslegu og kerfislægu hindranir sem mæta fötluðu fólki á ólíkum æviskeiðum. Gagnrýnar kenningar fötlunarfræða verða notaðar til að skoða þá margþættu mismunun og undirliggjandi fordóma sem fatlað fólk verður fyrir á ólíkum aldursskeiðum og hvernig þeir verða til þess að draga úr möguleikum til virkar samfélagsþátttöku fatlaðs fólks, m.a. á sviði menntunar, atvinnu, menningar, tómstunda, stjórnmála og fjölskyldulífs. Fjallað verður sérstaklega um gagnrýni réttindasamtaka fatlaðs fólks hvað varðar upphaf og endamörk lífsins, þ.e. að segja fósturskimun og dánaraðstoð. Auk þess verða unglingsárin skoðuð sem sérstakt aldurskeið, sem og aðgengi fatlaðs fólks að rafrænum heimi sem hluta að réttinum til fullrar og virkrar þátttöku á fullorðinsárunum. Þá verður sjónum beitt að því hvernig viðteknar hugmyndir um viðfangsefni ólíkra æviskeiða, t.d. bernsku, unglings-, fullorðins- og efri ára, geta verið bæði hamlandi og frelsandi fyrir fatlað fólk og sjálfsmyndarsköpun þess. Stefnumótun í málefnum fatlaðs fólks og alþjóðlegir mannréttindasamningar verða skoðaðir í þessu samhengi með áherslu á mannréttindasjónarhornið á fötlun.

Vinnulag: Fyrirlestrar, hópavinna og umræður í tímum. Áhersla er lögð á virka þátttöku nemenda í umræðum og að þeir fylgist vel með umfjöllun um fötlun í fjölmiðlum með tilliti til birtingarmynda fötlunar og ólíkra æviskeiða. Jafnframt að nemendur tileinki sér fræðileg vinnubrögð í skrifum og við heimildaleit.

X

Þroskasálfræði: Allt æviskeiðið (ÞRS215G)

Fjallað er um þroska mannsins yfir allt æviskeiðið. Veigamestu kenningum um þroska verða gerð skil, m.a. kenningum um vitrænan þroska, tilfinningaþroska og þróun tilfinningatengsla, kenningum um félagsþroska, þróun sjálfsmyndar og siðferðisvitundar.

Áhersla er lögð á umfjöllun um áhrif uppeldis, félagslegra aðstæðna og menningar á þroska einstaklingsins. Þá verður einkennum hvers æviskeiðs gerð skil og fjallað um helstu breytingar sem eiga sér stað á hverju æviskeiði. 

Kennsla fer fram með fyrirlestrum/hljóðglærum sem verða aðgengilegar í Canvas og í umræðutímum.
Staðnemar sækja jafnan umræðutíma (í rauntíma) og fjarnemar svara yfirleitt umræðuspurningum skriflega á Canvas. Verkefnatímar miða að því að nemendur fái þjálfun í að ræða námsefnið á gagnrýninn hátt, mynda tengsl milli kenninga og vettvangs og efla sjálfstæð vinnubrögð og miðlun. 

X

Fjölskyldan og samvinna (ÞRS412G)

Námskeiðið er undirbúningur fyrir ÞRS401G Vettvangsnám á 4. misseri BA-náms í þroskaþjálfafræðum

Í námskeiðinu verður fjallað um farsældar – og stuðningsþjónustu og þá þróun sem átt hefur sér stað undanfarin ár. Skoðuð verða hlutverk stuðningsaðila í samstarfi við fjölskyldur og hvað einkennir góðan stuðning. Komið verður inn á áfallamiðaða nálgun sem og algilda hönnun stuðnings. Farið verður í grundvallarþætti samskipta og nemendur fá hagnýta kennslu í samtalstækni þar sem grunnurinn er lagður að árangursríkum samskiptum þegar að samvinnu og teymisvinnu kemur. Fjallað verður um mikilvægi samvinnu og teymisvinnu í tengslum við farsældar - og stuðningsþjónustu sem og í tengslum við persónumiðaða nálgun.  Þá verður sjónum einnig beint að fagmennsku og mörkum í starfi.  

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hvað segja nemendur?

Tinna Kristjánsdóttir
Helena Gunnarsdóttir
Hlöðver Sigurðsson
Tinna Kristjánsdóttir
BA í þroskaþjálfafræði

Besta ákvörðun lífs míns var að fara í þroskaþjálfafræði. Námið er virkilega skemmtilegt og krefjandi og veitir góða innsýn í stöðu fatlaðs fólks. Ég hef öðlast mikla þekkingu á málefnum fatlaðs fólks og réttindabaráttu þess og mun ávallt hafa það að leiðarljósi að styðja og gæta hagsmuna þess í einu og öllu. Mér finnst ég hafa breyst til hins betra eftir þetta nám.

Helena Gunnarsdóttir
BA í þroskaþjálfafræði

Námið hefur gefið mér tækifæri til að takast á við nýjar áskoranir og bæta við mig fræðilegri þekkingu. Í tengslum við námið hafa mér boðist tækifæri til að taka þátt í rannsóknum og fara út á vettvang sem hefur verið ómetanleg reynsla. 

Hlöðver Sigurðsson
Þroskaþjálfafræði nám

Námið í þroskaþjálfafræði hefur opnað nýjar víddir í mínu starfi  sem aðstoðarmaður fólks með fötlun. Það hefur einnig fengið mig til að sjá hversu gríðarlega breiður og mikilvægur vettvangur það er sem þroskaþjálfar starfa á.

Hafðu samband

Kennsluskrifstofa Menntavísindasviðs
Stakkahlíð, 1. hæð í Enni
Opið kl. 8.15 – 15.00 alla virka daga
Sími 525 5950
mvs@hi.is

""

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.