Skip to main content

Þroskaþjálfafræði

Þroskaþjálfafræði

Menntavísindasvið

Þroskaþjálfafræði

BA gráða – 180 einingar

Vilt þú taka þátt í að skapa samfélag fyrir alla?
Þroskaþjálfar eru lykilaðilar í að í að þróa samfélag fyrir alla, þar sem hver manneskja er álitin einstök og metin að verðleikum. Samfélag, sem vinnur saman að því að stuðla að fullri þátttöku allra með því að útrýma hindranir, koma í veg fyrir mismunun og skapa tækifæri. 

Skipulag náms

X

Vinnulag í háskólanámi (MMB101G)

Meginmarkmið námskeiðsins er að veita nemendum grundvallarfærni í fræðilegum vinnubrögðum og undirbúa þá sem best fyrir námið. Fjallað er um fagleg vinnubrögð í háskólanámi og um fræðileg skrif. Kynnt verða meginatriði í skipulagi og frágangi verkefna og ritgerða. Áhersla verður lögð á að þjálfa nemendur í að skrifa fræðilegan texta á góðri íslensku. Nemendur vinna m.a. verkefni þar sem þeir æfa sig í að finna heimildir í gegnum leitarvélar, nota og skrá heimildir á réttan hátt.

X

Inngangur að þroskaþjálfafræði (ÞRS118G)

Námskeiðið er inngangsnámskeið að þroskaþjálfafræðum. Þroskaþjálfar starfa á öllum sviðum samfélagsins með það að leiðarljósi að styðja við og efla samfélagslega þátttöku og gæta hagsmuna fatlaðs fólks og annarra sem nýta sér þjónustu og fagþekkingu þroskaþjálfa. Mannréttindi eru kjölfestan í störfum þroskaþjálfa.

Í námskeiðinu verður farið yfir grunnþætti þroskaþjálfastarfsins:

  • Lykilhugtök þroskaþjálfafræða
  • Grunnþætti í teymis- og hópavinnu.
  • Sögu og þróun þroskaþjálfastéttarinnar á Íslandi
  • Mannréttindi og mannréttindasáttmála
  • Lög og reglugerðir sem tengjast störfum og starfsvettvangi þroskaþjálfa
  • Siðareglur, hugmyndafræði og gildi þroskaþjálfa
  • Hlutverk þroskaþjálfa í samfélagi margbreytileikans

 Nemendur fá kynningu á starfsviði og starfsháttum þroskaþjálfa á vettvangi og helstu þjónustukerfum í málaflokkum fatlaðs fólks. Starfandi þroskaþjálfar munu koma sem gestafyrirlesarar inn í kennslustundir  Leitast er við að kynna nýjar íslenskar rannsóknir innan þroskaþjálfafræðinnar.

 Vinnulag:

Kennarar setja inn fyrirlestra og annað námsefni á Canvas. Nemendur mæta í vikulega kennslu og staðlotur á stað eða í rauntíma á netinu samkvæmt stundaskrá og taka virkan þátt í umræðum og verkefnavinnu. Stundaskrá er aðgengileg á námskeiðsvefnum. Staðlotur eru tvær á misserinu.  

Mætingar-/ þátttökuskylda er á námskeiðinu (nánar útfærð í kennsluáætlun).

Staðkennsla: Staðnemar mæta í vikulegar kennslustundir og staðlotur í kennslustofu.

Fjarkennsla: Fjarnemar mæta í rauntíma á netinu í vikulegar kennslustundir og í staðlotur. Í staðlotum stendur nemendum til boða að mæta í stofu og eru þeir hvattir til þess.

Áhersla er lögð á samvinnu nemenda og virka þátttöku í námskeiðinu.

X

Saga og fötlun: Þróun hugmynda og kenninga (ÞRS119G)

Í þessu námskeiði er tilgangurinn að gefa nemendum sögulega yfirsýn yfir þróun ólíkra hugmynda og kenninga um fötlun og með hvaða hætti þær  hafa mótað líf og aðstæður fatlaðs fólks, viðhorf til þess og stöðu í samfélaginu fyrr og nú. Séstök áhersla verður á tímabilið frá því í upphafi 20. aldar og fram til dagsins í dag. Í því skyni verður sjónum meðal annars beint að  mannkynbótastefnu, sjúkdómsvæðingu fötlunar, stofnanavæðingu og hugmyndafræði um eðlilegt lif og samfélagsþátttöku (normaliseringu). Auk þess verður fjallað um mannréttindabaráttu fatlaðs fólks, samtvinnun mismunabreyta og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í námskeiðinu er byggt á félagslegum skilningi fötlunarfræðinnar og fjallað verður um ýmsa félagslega og menningarlega þætti tengda fötlun. Í námskeiðinu er lögð sérstök áhersla á að tengja sögulegar hugmyndir og kenningar við daglegt líf og reynslu fatlaðs fólks.

X

Fötlun og lífshlaup (ÞRS212G)

Í þessu námskeiði verður fjallað um lífshlaupið, allt frá barnæsku til elliáranna, og þær fjölmörgu samfélagslegu og kerfislægu hindranir sem mæta fötluðu fólki á ólíkum æviskeiðum. Gagnrýnar kenningar fötlunarfræða verða notaðar til að skoða þá margþættu mismunun og undirliggjandi fordóma sem fatlað fólk verður fyrir á ólíkum aldursskeiðum og hvernig þeir verða til þess að draga úr möguleikum til virkar samfélagsþátttöku fatlaðs fólks, m.a. á sviði menntunar, atvinnu, menningar, tómstunda, stjórnmála og fjölskyldulífs. Fjallað verður sérstaklega um gagnrýni réttindasamtaka fatlaðs fólks hvað varðar upphaf og endamörk lífsins, þ.e. að segja fósturskimun og dánaraðstoð. Auk þess verða unglingsárin skoðuð sem sérstakt aldurskeið, sem og aðgengi fatlaðs fólks að rafrænum heimi sem hluta að réttinum til fullrar og virkrar þátttöku á fullorðinsárunum. Þá verður sjónum beitt að því hvernig viðteknar hugmyndir um viðfangsefni ólíkra æviskeiða, t.d. bernsku, unglings-, fullorðins- og efri ára, geta verið bæði hamlandi og frelsandi fyrir fatlað fólk og sjálfsmyndarsköpun þess. Stefnumótun í málefnum fatlaðs fólks og alþjóðlegir mannréttindasamningar verða skoðaðir í þessu samhengi með áherslu á mannréttindasjónarhornið á fötlun.

Vinnulag: Fyrirlestrar, hópavinna og umræður í tímum. Áhersla er lögð á virka þátttöku nemenda í umræðum og að þeir fylgist vel með umfjöllun um fötlun í fjölmiðlum með tilliti til birtingarmynda fötlunar og ólíkra æviskeiða. Jafnframt að nemendur tileinki sér fræðileg vinnubrögð í skrifum og við heimildaleit.

X

Vald og jaðarsetning: hagnýting félagsfræðikenninga (ÞRS214G)

Markmið námskeiðsins er að nemendur læri að þekkja og nota mismunandi félagsfræðilegar kenningar sem tengjast líkamlegu og andlegu atgervi. Farið verður yfir hugtök sem tengjast valdi, til dæmis stigma, valds, öráreitni og ableisma, sem nemendur geta nýtt sér til að greina hvernig normi er viðhaldið og hvernig samfélagslegar skilgreiningar á normi eru til komnar. Þær kenningar sem farið verður í ættu að geta nýst nemendum til þess að átta sig á því hvernig jaðarsetningu hópa er viðhaldið í samfélaginu og hvernig ögun líkama fer fram.

X

Þroskasálfræði: Allt æviskeiðið (ÞRS215G)

Fjallað er um þroska mannsins yfir allt æviskeiðið. Veigamestu kenningum um þroska verða gerð skil, m.a. kenningum um vitrænan þroska, tilfinningaþroska og þróun tilfinningatengsla, kenningum um félagsþroska, þróun sjálfsmyndar og siðferðisvitundar.

Áhersla er lögð á umfjöllun um áhrif uppeldis, félagslegra aðstæðna og menningar á þroska einstaklingsins. Þá verður einkennum hvers æviskeiðs gerð skil og fjallað um helstu breytingar sem eiga sér stað á hverju æviskeiði. 

Kennsla fer fram með fyrirlestrum/hljóðglærum sem verða aðgengilegar í Canvas og í umræðutímum.
Staðnemar sækja jafnan umræðutíma (í rauntíma) og fjarnemar svara yfirleitt umræðuspurningum skriflega á Canvas. Verkefnatímar miða að því að nemendur fái þjálfun í að ræða námsefnið á gagnrýninn hátt, mynda tengsl milli kenninga og vettvangs og efla sjálfstæð vinnubrögð og miðlun. 

X

Siðfræði og fagmennska (ÞRS312G)

Í þessu námskeiði er farið í siðfræði með áherslu á nytjastefnu, réttarstefnu (skyldukenningar), mannréttindi og siðfræðileg hugtök eins og sjálfræði, velferð, friðhelgi einkalífs og virðingu. Jafnframt er fjallað um tengsl fagmennsku og siðferðis.

Áhersla er lögð á að tengja hina fræðilegu umfjöllun við siðferðileg álitamál í starfi fagstétta sem vinna með margvíslegum hópum í samfélaginu

X

Fötlun, heilsa og færni (ÞRS308G)

Efni námskeiðs skiptist í megindráttum í þrennt. Í fyrsta lagi er fjallað um einkenni og orsakir mismunandi skerðinga hjá fötluðu fólki. Í öðru lagi er fjallað um heilsu og heilsutengda þætti í lífi fatlaðs fólks. Í þriðja lagi er fjallað um áhrif umhverfis á heilsu. Stefnt er að því að nemendur öðlist færni í að greina mismunandi sjónarhorn á heilsu og fötlun (læknisfræðileg- og félagsleg) og hvernig megi yfirfæra þau á gagnrýninn hátt á starfsvettvang þroskaþjálfa. Sérstök áhersla verður á umfjöllun umhverfis á heilsu fatlaðs fólks

X

Fjölbreyttar tjáskiptaleiðir (ÞRS310G)

Í námskeiðinu er fjallað um fjölbreyttar tjáskiptaleiðir fyrir fólk með tal- og tjáskiptaörðugleika af ýmsum toga. Áhersla er lögð á mikilvægi tjáskipta allt lífið og þátt þeirra varðandi mannréttindi og sjálfstætt líf. Nemendur fá kynningu á fjölbreyttum aðferðum til tjáskipta sem geta hentað ólíkum aldurshópum og ólíkum þörfum. Sérstök áhersla verður lögð á tjáskiptaforritin Communicator 5 og TD Snap. Einnig verður veitt innsýn í TEACCH hugmyndafræðina ásamt fleiri aðferðum sem henta einstaklingum á einhverfurófi.  Rætt verður um hvað felst í því að vera góður tjáskiptafélagi ásamt mikilvægi þess að vinna saman í teymi og sinna eftirfylgni varðandi notkun fjölbreyttra tjáskiptaleiða. Í námskeiðinu er lögð rík áhersla á hagnýta notkun fjölbreyttra tjáskiptaleiða og miða verkefni námskeiðsins að þjálfun nemenda á því sviði.  

X

Vettvangsnám (ÞRS401G)

Viðfangsefni vettvangnámsins er að tengja saman fræði og framkvæmd og er áherslan á einstaklings-og fjölskyldumiðaða þjónustu. Nemendur sækja vettvangsnám sitt á valda vettvangsstaði og nema undir leiðsögn starfandi þroskaþjálfa. Þeir taka virkan þátt í störfum leiðbeinenda sinna í samræmi við leiðsagnaráætlun og greina vinnulag við framkvæmd einstaklingsbundnar og persónumiðaðrar þjónustu. Í vettvangsnáminu er miðað að því að nemendur kynnist innra starfi viðkomandi stofnunar, þjónustunni sem hún veitir ásamt þeirri hugmyndafræði og lagalega ramma sem hún starfar eftir. Nemendur sækja vikulega leiðsagnarfundi til leiðbeinenda sinna. Auk þess skapa leiðbeinendur nemendum tækifæri til heimsókna á aðra þjónustustaði. 

Nemendur fara í vettvangsnám í 5 vikur á vormisseri. Gert er ráð fyrir vettvangsnámi á dagvinnutíma, 6 klukkustundir á dag og því þurfa nemendur að gera ráð fyrir þeim tíma í sínu skipulagi. Það er 100% mætingarskylda í vettvangsnám.

Ekki er leyfilegt að nemendur fari í vettvangsnám á eigin vinnustað og eru færð eftirfarandi rök fyrir því:

  • Nauðsynlegt er að nemendur fái frelsi til að vera nemar. Það felur í sér að þeirra eina ábyrgð er gagnvart sér og náminu, ekki gagnvart vinnuveitanda.
  • Nemendur eru hvattir til að vera gagnrýnir og koma með hugmyndir að nýjum leiðum þar sem úrbóta er þörf – slíkt getur verið erfitt á eigin vinnustað.
  • Þroskaþjálfar starfa á fjölbreyttu starfssviði og vettvangsnámið er tækifæri fyrir nemendur til þess að víkka sjóndeildarhringinn og læra nýja hluti. Tillit verður tekið til óska nemenda um vettvangsnám á ákveðnu starfssviði.
  • Fái nemar úthlutað vettvangsstað sem þeir tengjast, t.d. vegna starfa sinna þar, skulu þeir án tafar hafa samband við umsjónarmenn námskeiðsins.

Nemendum er bent á að nýta sér þjónustu námsráðgjafa við skipulag náms.

X

Persónumiðuð þjónusta (ÞRS402G)

Námskeiðið er undirbúningur fyrir ÞRS401G Vettvangsnám á 4. misseri BA-náms í þroskaþjálfafræðum.

Á námskeiðinu verður fjallað um hugmyndafræði, lykilhugtök, aðferðir og verkfæri í persónumiðaðri þjónustu. Áhersla er lögð á persónumiðaða nálgun og valdeflandi samskiptaleiðir til að styðja fólk á öllum aldri til sjálfræðis og þátttöku.

Farið verður yfir skilgreiningar á einstaklingsbundinni þjónustu og þverfaglegum þjónustuteymum sem birtast í lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018 og helstu leiðir  sem nýttar eru til að meta þjónustuþörf. Fjallað verður um grunnatriði í áætlunargerð og nemendur kynnast hagnýtum leiðum, aðferðum og verkfærum í persónumiðaðri þjónustu og æfa sig í notkun þeirra.

Vinnulag:

Fyrirlestrar, verkefni og umræður. Gert er ráð fyrir virka þátttöku nemenda. Námskeiðið er kennt bæði í staðnámi og í fjarnámi.

X

Fjölskyldan og samvinna (ÞRS412G)

Tilgangur þessa námskeiðs er að nemendur öðlist þekkingu á fræðilegum hugmyndum og kenningum um fjölskylduna og mikilvæga færni í samstarfi við fjölskyldur og samstarfsaðila.

Fjallað verður um fjölskylduna í sögulegu samhengi, jafnframt verður fjallað um breytileg hlutverk fjölskyldunnar og meðlima hennar í gegnum tíðina ásamt skörun hlutverka fjölskyldna og ýmissa stofnana samfélagsins. Þroskaþjálfar eru oft í framvarðasveit þessara stofnana og er sérstaklega fjallað um hvernig styðja megi fjölskyldur til að takast á við mismunandi áskoranir. Farið verður yfir þau lög, reglur og alþjóðasamþykktir sem nýtast til að styðja við fjölskyldur. Skoðuð verða hlutverk stuðningsaðila í samstarfi við fjölskyldur og hvað einkennir góðan stuðning. Rýnt verður í samskipti, unnið með samskipta-og viðtalstækni og viðtöl sem vinnutæki.

X

Aðferðafræði rannsókna í félagsvísindum I (MMB301G)

Markmið námskeiðins er að nemendur fái innsýn í aðferðafræði rannsókna í félagsvísindum. Í námskeiðinu verður fjallað um grundvallarhugtök í þekkingarfræði og vísindaheimspeki. Þá verður lögð áhersla á síðfræði rannsókna og ýmis siðfræðileg atriði sem sérstaklega tengjast rannsóknum og aðferðafræðilegum álitamálum með viðkvæmum hópum. Fjallað verður um helstu rannsóknaraðferðir og rannsóknarferlið kynnt. Nemendur rýna í rannsóknir á sínu fræðsviði í því skyni að auka hæfni þeirra til að nýta sér niðurstöður rannsókna og tileinka sér gagnrýnið hugarfar. 

Í megindlega hluta námskeiðsins er fjallað um meginatriði lýsandi tölfræði og nokkur hugtök úr ályktunartölfræði. Nemendur fá meðal annars heimadæmi í tölfræði. Þá verður sjónum beint að rannsóknum á sviði tómstunda- og félagsmálafræði, uppeldis- og menntunarfræði og þroskaþjálfafræði og þeim aðferðafræðilegu álitamálum í rannsóknum sem upp kunna að koma. 

Í eigindlega hluta námskeiðsins verður fjallað um upphaf og þróun þessarar rannsóknarhefðar og helstu aðferðir innan hennar. Sérstök áhersla verður á tengingu við rannsóknir á sviði fötlunar-, tómstunda- og uppeldisfræða. Þar á meðal verða kynntar aðferðir þátttöku- og samvinnurannsókna en þær hafa á undaförnum árum verið að þróast í rannsóknum með viðkvæmum hópum. 

Vinnulag: Fyrirlestrar, umræður og verklegir tímar. Jafnframt fá nemendur heimaverkefni og dæmi í tölfræði. Þá gera nemendur viðtalskönnun á vettvangi.

X

Forysta, fagmennska og heildræn þjónusta (ÞRS501G)

Viðfangsefni: Fjallað um kenningar um fagmennsku, forystu og leiðtogahugsun. Ennfremur verða starfskenningar í brennidepli. Í þessu ljósi verður fjallað um mikilvægi sjálfsþekkingar fyrir fagmenn og leiðtoga út frá kenningum innra fjölskyldukerfis. 

Fjallað verður um mikilvægi þess að nemendur efli persónulega hæfni sína sem leiðtoga sem og að efla leiðtogahugsun meðal fatlaðs fólks. Í því samhengi verður lögð áhersla á að nemendur þekki hugmyndafræðilegu viðmið og gildi mannréttindamiðaðrar þjónustu og geti tengt sálrænar afleiðingar þess að búa við misrétti við áföll og áfallamiðaða nálgun.

X

Sjálfræði, velferð og vanræksla (ÞRS601M)

Eitt algengasta og vandasamasta siðferðilega viðfangsefnið í faglegu starfi með jaðarsettu fólki sem hefur þörf fyrir stuðning og þjónustu er að finna rétt jafnvægi milli sjálfræðis þess og velferðar. Of einhliða áhersla á velferð getur leitt af sér óréttmæta forræðishyggju og hamlað sjálfstæði og þroska einstaklingsins. Of rík eða ótímabær áhersla á sjálfræði einstaklingsins getur á hinn bóginn leitt til vanrækslu og orðið til þess að ýmsum grunnþörfum einstaklingsins sé ekki sinnt sem skyldi. Í námskeiðinu verður togstreitan milli skyldu þroskaþjálfans til að virða sjálfræði annars vegar og skyldunnar til að gæta að velferð þjónustunotenda tekin til sérstakrar skoðunar.  Meðal annars verður fjallað um þau megin sjónarmið, siðferðileg og lagaleg, sem liggja þessum skyldum til grundvallar, skoðað hvernig beita má ýmsum faglegum aðferðum til að brúa bilið á milli þeirra, og kannað hvernig fagfólk á vettvangi leitast við að taka mið af þeim og sætta þær í daglegum störfum sínum. Kennsla og verkefni í námskeiðinu mun að verulegu leyti byggjast á greiningu og umfjöllun um sögur og dæmi af faglegum vettvangi þar sem spurningar vakna um vægi og togstreitu sjálfræðis og velferðar í starfi fagfólks.

X

Lokaverkefni (ÞRS261L)

Lokaverkefni er sjálfstætt verk nemandans og miðar að því að nemendur dýpki skilning sinn á afmörkuðu efni og tengi það sínu fræðasviði. Verkefnið er unnið undir leiðsögn leiðsögukennara og geta verið af þrenns konar toga:

  • Rannsóknarritgerð eða fræðileg ritgerð þar sem nemandi aflar gagna úr fræðilegum heimildum til að leita svara rannsóknarspurningar sinnar. Kafað er í rannsóknir og kenningar á viðkomandi fagsviði og lagt mat á þær.
  • Rannsóknarskýrsla sem byggir á rannsókn nemanda og gögnum. Byggir skýrslan á gagnasöfnun með viðtölum eða spurningarlistum ásamt úrvinnslu þeirra og tengingu við fræðilegt efni.
  • Annars konar verkefni eru þau verkefni þar sem einhver hagnýt afurð/efni er sköpuð og henni fylgt út hlaði með ítarlegri greinargerð. Í henni þarf markmið verkefnisins að koma fram, það sett í fræðilegt samhengi og greint frá niðurstöðum verkefnisins. Dæmi um annars konar verkefni eru bæklingar, vefsíður, gjörningar, bækur, myndbönd eða önnur afurð.

Ekki er æskilegt að nemendur geri rannsóknir á börnum, ungmennum eða öðrum einstaklingum sem þurfa á sérstakri vernd að halda eða aðstandendum þeirra (svo sem sjúklingum, föngum eða einstaklingum með þroskahömlun). Forðast skal að nemendur, sem eru að skrifa lokaverkefni, leiti inn í skólana til rannsókna nema sem þátttakendur í rannsóknum kennara eða nemenda sem eru komnir lengra í námi (meistara- og doktorsnema). Sé það þó gert í undantekningartilvikum verður ávallt að gæta þess að fá upplýst samþykki forráðamanna þeirra sem ekki eru lögráða auk þátttakenda sjálfra.

Lokaverkefni á þroskaþjálfabraut er skylda og gert er ráð fyrir að nemendur hafi lokið um 120 einingum áður en þeir hefja vinnu við lokaverkefni. Eins er skilyrði að nemendur hafi lokið námskeiði í aðferðafræði hyggist þeir gera rannsókn.

X

Í brennidepli: Málstofa í þroskaþjálfafræði (ÞRS605G)

Nemendur sækja námskeiðið samhliða vinnu lokaverkefna til BA-gráðu. Nemendur fá tækifæri til að kynna, ræða og ígrunda viðfangsefni verkefna í jafningjahópi. Í kennslunni verður farið yfir hagnýt atriði við skrif, í heimildaleit, ritun fræðilegs texta og málflutningi.

Markmið námskeiðsins er að stuðla að færni í ritun fræðilegs texta og til að flytja erindi um fræðilegt efni á málstofu eða ráðstefnu. 

Í lok námskeiðs skipuleggja nemendur ráðstefnu og flytja erindi um BA ritgerð sína og gera einnig veggspjald og ágrip til birtingar í ráðstefnuriti.

X

Inngangur að foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf (FFU101M)

Viðfangsefni
Markmið námskeiðsins er að nemendur kynnist helstu kenningum og rannsóknum um uppeldi barna og undirbúi sig undir að geta frætt foreldra um þær aðferðir sem best hafa reynst. Fjallað verður um efnið á breiðum grunni, þannig að nemar fái sem víðasta sýn á uppeldishlutverkið og aðferðir til að sinna því sem best.

Vinnulag
Námskeiðið er skipulagt sem staðbundið. Kennsla fer fram í samræðum og gagnvirkum fyrirlestrum. Námið er auk þess byggt upp á lestri, hópvinnu, kynningum og skriflegum verkefnum.

Fyrirkomulag kennslu miðar við að nemendur geti stundað námið óháð búsetu. Þá er fjarfundabúnaður notaður í rauntíma fyrir nemendur sem búsettir eru fjarri höfuðborgarsvæðinu.

X

Íþróttakennsla í margbreytilegum hópi og sérhæfð þjálfun (ÍÞH516G)

Í námskeiðinu er fjallað um ólíkar þarfir nemenda í skólaíþróttum og hvernig hægt er að mæta þeim. Byggt verður á þeirri þekkingu sem nemendur hafa þegar öðlast um hreyfingu og íþróttakennslu. Nemendur kynnast fjölbreyttum leiðum og aðferðum til að aðlaga æfingar og leiki að þörfum ólíkra einstaklinga í margbreytilegum hópi. Áhersla er lögð á að mæta hverjum nemanda á hans forsendum og hvetja til hreyfingar og íþróttaiðkunnar.

Einnig verður farið í vettvangsheimsóknir og fylgst með þjálfun fatlaðra íþróttaiðkenda sem stefna langt í sínum greinum. Þar verða kynntar ýmsar leiðir og aðferðir í sérhæfðri þjálfun.

X

Nemi styður nema - fjölbreytt háskólasamfélag (haust) (TÓS106G)

Viðfangsefni
Viðfangsefni námskeiðsins eru félagsleg samskipti, samvera og námsaðstoð við nemendur sem geta þurft aðstoð og/eða stuðning í námi sínu á Menntavísindasviði HÍ.

Í námskeiðinu verður fjallað um nýjar áherslur og nýbreytni í menntamálum, sérstök áhersla lögð á inngildandi nám, algilda hönnun og tækifærin sem hugmyndafræðin býður upp á. Einnig verður fjallað um jafnrétti, samfélag án aðgreiningar og mannréttindi í víðu samhengi. Kynntar verða leiðir til að efla náms- og félagslega þátttöku nemenda í háskólanum með fjölbreyttum hætti.

Að námskeiði loknu hljóta nemendur viðurkenningu/staðfestingu á að hafa lokið námskeiðinu sem þeir geta til dæmis nýtt í ferilskrá en námskeiðið er dýrmæt reynsla sem mun nýtast í leik og starfi.

Hægt er að taka námskeiðið tvisvar en það er kennt bæði vor og haust. Námskeiðið er einstaklingsmiðað og því aðlagað að hverjum nema hverju sinni og því ekki um endurtekningu efnis að ræða. 

Vinnulag
Samstarf og samvera með samnemum er að jafnaði þrjár kennslustundir á viku. Samstarfið getur falið í sér námsaðstoð, til dæmis við verkefnavinnu, verkefnaskil, yfirferð á námsefni eða samveru á bókasafni eða matsal og þátttaka í félagslífi á vegum nemendafélaga.

þrír fræðslufundir með kennurum fyrrihluta misseris. Að auki geta nemendur pantað fundi eftir þörfum með kennurum námskeiðsins.

Nemendur vinna dagbókarverkefni jafnt og þétt yfir misserið og skila lokaskýrslu um reynslu sína af námskeiðinu.

X

Fjölskyldumiðaður snemmtækur stuðningur (ÞRS515M)

Á námskeiðinu er fjallað um fræðilegan bakgrunn og kjarnahugtök fjölskyldumiðaðs snemmtæks stuðnings (family-centred services, family-centred early intervention). Áherslan er á fjölskyldur ungra fatlaðra barna en innihald námskeiðsins á þó við um fleiri sem þarfnast sértæks stuðnings. Heildræn sýn á börn og fjölskyldur er útgangspunktur hugmyndafræðinnar með þverfaglega samvinnu og miðlun þekkingar, sameiginlegan skilning á lykilhugtökum, þróun sameiginlegra markmiða og farsæld fjölskyldna að leiðarljósi.  Í því skyni er áhersla lögð á þverfaglega teymisvinnu og hvernig samtvinna megi sérfræðiþekkingu, (sér)kennslu og þjálfun við nám og daglegar athafnir í leikskólum og annarsstaðar í nærumhverfi barna með inngildingu og fullgildi (fatlaðra)barna að leiðarljósi.

X

Ólíkir nemendur: Stuðningur og hagnýt úrræði í skóla- og frístundastarfi (ÞRS517G)

Markmið námskeiðsins er að vekja nemendur til umhugsunar um þær áskoranir sem grunn-og framhaldsskólanemendur með fjölþættan vanda mæta á vettvangi skólans. Þá kynnast nemendur starfsháttum og hagnýtum úrræðum sem geta komið að gagni í samskiptum og stuðningi við ólíka nemendur og kynna sér nýjar rannsóknir á sviði margbreytileika í  skólastarfi. Einnig greina þeir viðhorf sín, skráðar og óskráðar siðareglur og hlutverk í starfi með ólíkum nemendahópum og fjölskyldum þeirra.

Viðfangsefni:
Megin viðfangsefni námskeiðsins er að öðlast skiling á stöðu einstakra nemendahópa og þeim fjölbreytilegu áskorunum sem þeir mæta á vettvangi skólans. Þá eru nemendur jafnframt að fást við eigin hugmyndir, viðhorf og starfshætti og nýta eigin reynslu af kennslu og stuðningi við úrvinnslu í verkefnum ásamt því að styrkja þekkingu sína á lögbundnum skyldum, starfsháttum og stoðþjónustu skólanna. Þá er siðferðilegum skyldum kennara og annara stuðningsaðila gagnvart nemendum með fjölþættan vanda gefin sérstakur gaumur í öllum námsþáttum.

X

Hinsegin menntunarfræði (SFG004M)

Markmið: Markmið námskeiðsins er að nemar kynnist hugmyndum, kenningum  og rannsóknum í hinsegin menntunarfræðum. Enn fremur að þeir fái góða innsýn inn í fræðaheim hinsegin fræða. Áhersla verður lögð að að nemar tileinki sér gagnrýna sýn á uppeldi og menntun og að þeir verði meðvitaður um veruleika hinsegin ungmenna.

Viðfangsefni: Unnið verður meðal annars með hugtökin kyngervi, kynhneigð, kynvitund, samtvinnun, karlmennska, kvenleiki, kynhlutverk, kynjatvíhyggja, gagnkynhneigðarhyggja og síshyggja. Fjallað verður um megininntak hinsegin menntunarfræða og hvernig nálgun þeirra getur varpað ljósi á menntun, uppeldi, tómstunda- og félagsstarf og samfélag. Nálgunin verður í anda hinsegin fræða og félagslegrar mótunarhyggju sem verða notuð til að útskýra ólíkar hugmyndir um kynhneigð, kynvitund og hinsegin kynverund. Enn fremur verður fjallað um skólakerfi, hérlendis og erlendis, og hvernig það viðheldur margs konar mismunun og ýtir jafnvel undir stofnanabundna gagnkynhneigðarhyggju og síshyggju. Lesnar verða nýjar íslenskar og erlendar rannsóknir í tengslum við kynhneigð, kynvitund, skólakerfi, kennslu og námsbækur. Þá verður lögð áhersla á að þjálfa verðandi fagfólk sem starfar með börnum og ungmennum í að búa til hinseginvænt andrúmsloft í barna- og ungmennahópi, að flétta hinsegin veruleika inn í starf sitt og bregðast við neikvæðum viðhorfum í garð hisneginleika.

X

Færninámskeið II (TÁK201G)

Markmið: Að nemendur geti tjáð sig á einföldu máli og tekið þátt í samræðum á táknmáli. Áhersla verður lögð á bæði tjáningu og skilning táknmáls.

Viðfangsefni: Framhald af Færninámskeiði I sem er nauðsynlegur undanfari þessa námskeiðs. Mun þyngra táknmál og þjálfun í fjölbreytilegri notkun þess. Áfram verður lögð áhersla á málfræðileg látbrigði mikilvægi þeirra í íslenska táknmálinu.

Vinnulag: Námskeiðið byggir á fyrirlestrum og leiðsögn kennara, yfirferð á táknmálstextum og hagnýtum hóp- og einstaklingsæfingum í tímum sem nemendur taka virkan þátt í. Mætingarskylda er 80% og er forsenda próftökuréttar.

Námsmat: Upptökuverkefni og skriflegt próf. Standast þarf alla þætti námsmats til að ljúka námskeiði.

X

Trans börn og samfélag (UME204M)

Markmið:

Markmið námskeiðsins er að nemar kynnist hugmyndum, kenningum og rannsóknum í fræðum sem koma inn á veruleika og upplifanir trans fólks (trans fræði). Einnig verða meginhugmyndir gagnrýnna bernskufræða kynntar. Áhersla verður lögð á að þátttakendur verði meðvitaðir um veruleika trans ungmenna og trans barna og samfélagslega orðræðu um málaflokkinn.

Viðfangsefni:

Unnið verður meðal annars með hugtökin kyngervi, kynjatvíhyggja, kynsegin, kynvitund, samtvinnun, trans* hugtakið, síshyggja, umhyggja, barnavernd og réttindi barna. Fjallað verður um megininntak transfræða/hinseginfræða og hvernig hægt er að nýta sér þá nálgun til varpa ljósi á uppeldi, menntun, samfélag, tómstunda- og félagsstarf og íþróttir. Nálgunin verður í anda gagnrýnna trans- og bernskufræða og félagslegrar mótunarhyggju. Enn fremur verður fjallað um skólakerfi og aðrar stofnanir, hérlendis og erlendis, og hvernig margs konar mismunun skapast og viðhelst og getur ýtt undir stofnanabundna transfóbíu og síshyggju. Lesnar verða nýjar íslenskar og erlendar rannsóknir í tengslum við efnið. Þá verður lögð áhersla á að þjálfa verðandi uppeldis- og menntunarfræðinga, þroskaþjálfa, foreldrafræðara, kennara, tómstunda- og félagsmálafræðinga, stjórnendur og annað fagfólk til að skapa hinsegin/trans vænt andrúmsloft í viðeigandi hópum sem unnið er með.

X

Algild hönnun (ÞRS002M)

Námskeiðið er bæði fræðilegt og hagnýtt. Hugmyndafræði algildrar hönnunar verður rædd út frá sjónarhornum jafnréttis, fötlunarfræða og hönnunar. Skoðuð verða tengsl við aðstæðubundið sjálfræði, inngildandi menntun og heilsu. Sjónum verður beint að ólíkum leiðum til að ná markmiðum algildrar hönnunar og það skoðað í samhengi við hugtökin viðeigandi aðlögun og viðeigandi stuðningur.

Nemendur kynnast útfærslum og lausnum í anda algildrar hönnunar á ólíkum sviðum og fá tækifæri til að hanna umhverfi og móta algildar leiðir til þátttöku á völdu sviði.

Námskeiðið er skipulagt út frá hugmyndum algildrar hönnunar í námi. Lagt er upp með að nemendur öðlist þannig hagnýta þekkingu og færni í því að skipuleggja námsumhverfi, kennslu, fræðslu og upplýsingamiðlun á algildan hátt ásamt reynslu af því að læra í slíku námsumhverfi. 

X

Samstarf um farsæld barna í frístunda- og skólastarfi (TÓS202F)

Í þessu námskeiði er sjónum beint að samstarfi ólíkra fagstétta sem tengjast frístunda- og skólastarfi, s.s. á sviði tómstunda- og félagsmálafræði, kennslu, þroskaþjálfafræði og íþróttastarfi. Námskeiðið miðar einnig að þverfaglegu samstarfi þar sem tómstundir koma við sögu, t.d. í starfi með eldri borgurum. Námskeiðið miðar að því að efla þekkingu nemenda á þverfaglegu samstarfi ólíkra fagstétta og hvaða þekking verður til á landamærum þeirra.

Fjallað verður um ávinning og áskoranir í þverfaglegu samstarfi fyrir börn, ungmenni og aðra skjólastæðinga og einnig fyrir starfsfólk, stofnanir og menntakerfi í stærra samhengi. Kenningum um ólíkar víddir samstarfs og fjölbreytt starfssamfélög verður gerð skil sem og rannsóknum á trausti og þekkingu sem byggist upp í þverfaglegu samstarfi.

Ný lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna verða skoðuð og hvaða tækifæri felast í þeim fyrir þverfaglegt samstarf. Nemendur þjálfast í gagnrýnu hugarfari og borgaralegri virkni með því að vega og meta kosti og galla samstarfsverkefna, sem og hvar samstarf milli stofnana og fagstétta skortir. 

Námskeiðið hentar þeim sem stefna að því að starfa með börnum og ungmennum, hvort heldur er í formlegu, hálfformlegu eða óformlegu uppeldis-, íþrótta, frístunda- eða skólastarfi. Námskeiðið hentar einnig þeim sem hyggjast starfa við tómstundir fólks á ólíkum æviskeiðum, sem og starfsfólki og stjórnendum sem nú þegar starfa að tómstundum og í frístunda-, íþrótta- eða skólastarfi.

Vinnulag og væntingar
Stuðst verður við vendikennslu og kennslustundir nýttar til umræðna og úrvinnslu. Þess er vænst að nemendur taki virkan þátt í umræðu eða skili inn ígrundun ef þeir ekki komast í umræðutíma. 

Alla námsþætti verður að standast með lágmarkseinkunn 5.0. 

X

Starfstengd leiðsögn og handleiðsla (ÞRS004M)

Námskeiðið skiptist í þrjá meginefnisþætti. Í fyrsta lagi umfjöllun um starfstengda leiðsögn í vettvangsnámi og við nýliða í starfi. Í öðru lagi umfjöllun um lykilþætti sem nýtast nemendum og fagfólki við að njóta leiðsagnar og handleiðslu við eigin fagþróun. Í þriðja lagi er fjallað um eðli og framkvæmd handleiðslu og þau líkön sem þar er gagnlegt að þekkja.   

Meginmarkmið námskeiðsins er að efla skilning nemenda á gildi þess að nýta og njóta lærdómssamfélags og stuðnings við eigin fagþróun undir leiðsögn á námsárum og sérhæfðri faghandleiðslu á öllum stigum starfsferils. Einnig öðlist nemendur dýpri skilning á tengslum streitu, starfsþreytu og starfsþrots og verndandi hlutverki starfstengdrar leiðsagnar og handleiðslu þar að lútandi. Á námskeiðinu fá nemendur í hendur verkfæri til aukinnar sjálfsþekkingar, verndar og viðbragðsfærni í starfi.  

X

Nemi styður nema - fjölbreytt háskólasamfélag (vor) (TÓS213G)

Viðfangsefni

Viðfangsefni námskeiðsins eru félagsleg samskipti, samvera og námsaðstoð við nemendur sem geta þurft aðstoð og/eða stuðning í námi sínu á Menntavísindasviði HÍ. 
Í námskeiðinu verður fjallað um nýjar áherslur og nýbreytni í menntamálum, sérstök áhersla lögð á inngildandi nám og tækifærin sem hugmyndafræðin býður upp á. Einnig verður fjallað um, jafnrétti, samfélag án aðgreiningar og mannréttindi í víðu samhengi. Kynntar verða leiðir til að efla náms- og félagslega þátttöku nemenda í háskólanum með fjölbreyttum hætti. Lögð verður áhersla á samráð við nemendur varðandi skipulagningu námskeiðsins. 

Námskeiðið er dýrmæt reynsla sem mun nýtast í leik og starfi.

Námskeiðið er kennt að vori og hausti. Námskeiðið er einstaklingsmiðað og aðlagað að hverjum nemanda. Þess vegna er ekki um endurtekningu á námsefni að ræða ef nemendur taka námskeiðið tvisvar. 

Vinnulag
Samstarf og samvera með samnemum er að jafnaði þrjár kennslustundir á viku. Samstarfið getur falið í sér námsaðstoð, til dæmis við verkefnavinnu, verkefnaskil, yfirferð á námsefni eða samveru á bókasafni eða matsal og þátttaka í félagslífi á vegum nemendafélaga.

Þrír fræðslufundir með kennurum fyrrihluta misseris. Að auki geta nemendur pantað fundi eftir þörfum með kennurum námskeiðsins.

Nemendur vinna dagbókarverkefni jafnt og þétt yfir misserið og skila lokaskýrslu um reynslu sína af námskeiðinu.

X

Samskipti í uppeldis- og fræðslustarfi (UME201G)

Nemar kynnast helstu kenningum og rannsóknum um árangursríka samskiptahætti í uppeldis- og fræðslustörfum á vettvangi fjölskyldna, skóla og annarra stofnana. Fjallað er um vináttu, leik, samskiptahæfni barna og unglinga og áskoranir í samskiptum jafnt innan skóla sem utan. Nemendur kynna sér og vinna verkefni um innlend og erlend samskiptaverkefni sem miða að því að efla félags-, og samskiptahæfni barna og unglinga í fjölmenningarlegu nútímasamfélagi.

Vinnulag:
Kennsla fer fram með fyrirkomulagi vendikennslu sem felst í upptökum frá kennurunum og/eða fyrirlestrum í tímum og umræðum og hópavinnu í tímum. Í þessu námskeiði er fyrirkomulag fyrir fjarnema: Fjarnám með virkniskyldu í rauntíma.

X

Unglingsárin: Áskoranir og tækifæri (UME404G)

Í námskeiðinu er fjallað um áhættuhegðun ungmenna og velferð þeirra. Fjallað er um ýmsa uppeldislega, félagslega og sálfræðilega þætti sem tengjast styrkleikum ungmenna og áskorunum sem þeim mæta. Rætt er um kenningar og rannsóknir á eftirfarandi sviðum í tengslum við unglingsárin: Líffræðilegar og félagslegar breytingar; margvíslegan sálfélagslegan þroska; sjálfsmynd; heilsu og líðan; forvarnir; vímuefnanotkun; skólagöngu; samskipti við fjölskyldu og vini; og framtíðarmarkmið.

Verkefni í námskeiðinu hafa að markmiði að auka þekkingu og skilning nemenda á forvörnum ýmiss konar bæði á og því hvernig megi best styðja ungmenni til sjálfseflingar, heilbrigðs lífstíls og lífsviðhorfa.

Í umræðutímum er lögð er áhersla á að nemendur geti skoðað viðfangsefni frá mörgum hliðum og rökrætt um álitamál.

ATH: Hægt er að taka námskeiðið í fjarnámi. Kennsluinnlegg eru almennt tekin upp og sett inn á námsumsjónarkerfið CANVAS fyrirfram en ef kennsla fer fram í rauntíma þá er hún tekin upp. Vikulega eru umræðutímar (90 mín.) þar sem nemendur geta valið milli þess að koma á staðinn eða vera með á netinu. Hið sama á við þegar ritgerðir eru kynntar einu sinni á önninni þá geta nemendur verið á staðnum eða með á netinu.

X

Staðartengd útimenntun (TÓS001M)

Kynningarvefur um námskeiðið

Á námskeiðinu ræður samfélag staðarins tilhögun námsins og við beitum reynslunámi þar sem nemendur upplifa „siglingar, strönd og arfleifð sjóferða“. Í staðartengdri útimenntun er unnið með námsferli sem grundvallað er á upplifun af sögum sem eiga rætur að rekja til ákveðins staðar; einstökum sögulegum staðreyndum, umhverfi, menningu, efnahag, bókmenntum og listum staðarins.

Markmið námskeiðsins er að þátttakendur upplifi staðinn með öllum sínum skynfærunum og öðlist þannig tengsl við staðinn sem verða grunnur að þekkingarleit.  Með því að tengjast staðnum og bregðast við honum þroska nemendur með sér dýpri skilning á einkennum staðarins, virðingu og vitund um hann. Gengið verður og siglt um undraheim staðarins, inn í fornar og nýjar sögur hans og nemendur velta fyrir sér framtíð staðarins.

Með þennan nýja skilning og viðmið að leiðarljósi munu nemendur kanna með fjölbreyttum hætti ýmis alþjóðleg vandamál, rétt umhverfisins, sjálfbærni og félagslegt réttlæti staðarins?

Nemendur eru hvattir til að beina sjónum sínum að samfélagi, sögum, menningu og hagsmunahópum og munu ýmsir sérfróðir aðilar taka þátt í kennslu á námskeiðinu ásamt kennurum. Nemendur upplifa staðartengda uppeldisfræði (e. pedagogy of place) bæði úti og inni að eigin raun og geta með því beitt henni í lífi og starfi.

Námskeiðið hefur verið þróað í samstarfi milli Háskóla Íslands og Outdoor Learning teymisins í Plymouth Marjon University í Bretlandi og er stutt af Siglingaklúbbnum Ými, Vatnasportmiðstöðinni Siglunesi, Sjóminjasafni Reykjavíkur og Sjávarklasanun.

Fæðis- og ferðakostnaður: 15.000 kr.

Vinnulag:

Námskeiðið byggir á virkri þátttök allra. Undirbúningsdagur er 25. júní 2025 kl. 16.30-18. Námskeiðið er dagana 6.-8. ágúst og 11.-13. ágúst 2025 og miðað er við kennslu allan daginn og við erum mjög mikið úti. 

Námskeiðið fer fram mikið úti. Stefnt er að því að fara á sjó, upplifa fjöru og strandlengju, kynnast nýjum hliðum á Reykjavík og fara í Viðey og jafnvel Gróttu.

X

Eldur og ís – náttúruöflin, nám og upplifun (TÓS003M)

Kynnningarsíða námskeiðsins

Á námskeiðinu er lögð áhersla á beina reynslu af náttúru Íslands og umfjöllun um náttúruvísindi með áherslu á eldfjalla- og jöklafræði; eld og ís.  Námskeiðið hentar þeim sem skipuleggja náms- og vettvangsferðir í íslenska náttúru, s.s. þá sem starfa eða stefna á störf í skóla, á vettvangi frístunda eða ferðaþjónustu.  

Aðstæður verða bæði nýttar til að til að rýna í menntunarfræðihugtökin útimenntun, náttúrutúlkun, ævimenntun og starfendafræðslu og ferðamálafræðihugtökin fjallaferðamennska, loftlagsferðamennska, vísindaferðaþjónusta og félagsleg ferðaþjónusta. Samhæfð félagsleg viðbrögð við náttúruhamförum og öryggismál verða einnig tekin til umfjöllunar.

Vettvangur námsins eru gosstöðvarnar á Reykjanesi og Breiðamerkursandur í Vatnajökulsþjóðgarði, sem gefur kost á að setja í samhengi sjálfbæra sambúð manns og náttúru með sérstakri áherslu á eldgos, jökla, loftlagsbreytingar, veðuröfgar, náttúruhamfarir og náttúruvá.

Kjarni námskeiðsins er ferðalag í fjóra daga 18. - 21. júní. Farið verður í rútu, gist á farfuglaheimilum og ferðast gangandi um náttúru Íslands. Þátttakendur sjá að hluta til um að elda sjálfir sameiginlegan mat og þurfa að vera búnir til útivistar. Unnið er á ígrundandi hátt með skynjun og upplifanir, auk þess að njóta þess að ferðast um með hæglátum hætti um náttúruna. Undirbúningsfundur er í 3. júní kl. 16-18.

Meginþættir námskeiðsins tengjast náttúru, menntun og ferðamennsku og þessa þætti er nálgast með ábyrgum og öruggan hætti. Viðfangsefni námskeiðsins verða skoðuð út frá hugtökunum kvika (dýnamík), fjölbreytni (e. diversity), gagnvirkni (e. interactivity) og, síðast en ekki síst, ferlar (e. processes) – og hvernig reynsla og ígrundun fléttar þessa þætti saman.

Kennsla og nám

Þverfræðilegur hópur sérfræðinga og kennara kemur að námskeiðinu og áhersla er lögð á að fá til liðs við okkur fagfólk af svæðunum þar sem markviss innlegg, samtal, skynjun og ígrundun þátttakenda er í fókus. Lært er frá morgni til kvölds og unnið með óljós skil á milli þess sem er að kenna og læra, milli þess að læra af umhverfinu, öðru fólki og ferðalaginu sjálfu.

Í námsmati er rík áhersla lögð á að nemendur ígrundi upplifanir sínar og setji þær í samhengi við fræðileg viðfangsefni námskeiðsins og fyrri reynslu. Einnig munu nemendur vinna verkefni þar sem tengja á viðgangsefni námskeiðsins, eigin reynslu og þekkingu við starf á vettvangi. Sá vettvangur getur t.d. verið innan skóla- og frístundastarfs, félagsmála, ferðaþjónustu eða rannsókna. 

Námskeiðið er þróunarverkefni þeirra aðila sem að því koma, sem eru m.a. Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Rannsóknasetur HÍ á Hornafirði og Framhaldsskóli Austur-Skaftafellssýslu.

X

Ævintýri, forysta og ígrundun: Undir berum himni (TÓS004M)

Kynningarvefur námskeiðsins

Áhersla er lögð á þverfaglega nálgun, samvinnu nemenda og kennara af ólíkum fræðasviðum. Vettvangur námsins er náttúra Íslands. Unnið með þrjú viðfangsefni þ.e. ígrundun, útilíf og sjálfbærni með áherslu á persónulegan- og faglega þroska þátttakenda.

Á námskeiðinu verður fjallað um tengsl manns og náttúru og ígrundun eigin upplifana. Kenndir verða og þjálfaðir þættir sem nauðsynlegt er að kunna skil á þegar ferðast er gangandi um óbyggðir. Fjallað verður um hugmyndafræði útilífs (friluftsliv) og hún sett í samhengi við samtímann.

Skipulag verður:
Undirbúningsdagur 16. maí 2025 kl 17:00-18:30

Sameiginlegar dagsferðir verða 25. maí og 1. júní 2025 frá klukkan 10:00-17:00 

Ferðalag námskeiðsins verður 13. – 15. júní 2025 (föstudagur kl. 9 til sunnudags kl. 18). Farið verður út úr bænum, gist í tjöldum og ferðast gangandi um náttúru Íslands.

Ferðakostnaður er 13.000 kr. Auk þess greiða nemendur kostnað vegna fæðis.
Skyldumæting er í alla þætti námskeiðsins.

Námsmat

Til að ljúka námskeiðinu þarf hver nemandi að gera eftirfarandi:
1. Taka virkan þátt í öllu námskeiðinu (undirbúningsdagur, ferðalag og vinnusmiðja).
2. Lesa námsefni og setja það í samhengi.
3. Fyrir brottför að hafa valið eina bók af þremur og lesið.
4. Skilað 500-600 orða ígrundun um eina bók (nemendur velja sér eina af þremur bókum) sem valin er og lesin fyrir brottför.
5. Halda leiðarbók, bæði með hópnum og einnig til að þjálfa sig í að beita rýni eða ígrundandi námsaðferðum. Hópleiðarbókinni er skilað sem námsgagni en einstaklingsbókinni skila nemendur ekki í heild sinni til kennara, heldur nota sem undirstöðu í „Greinandi úttekt á reynslunni“
6. Skila verkefni sem byggir á ígrundandi leiðarbók (reflective journal). Umfang þess er 4-6 síður (2500-3500 orð), fylgja APA reglum varðandi uppsetningu og vísun í heimildir. Sérstakur kafli þarf að vera þar sem fjallað er um fræðilega undirstöðu ígrundandi námsaðferða.
7. Í ágúst hittist hópurinn aftur og skoðar reynsluna í samhengi við eigin útivist um sumarið og fræðilegt samhengi námskeiðsins.
Námsmat er lokið/ólokið. Ekki er hægt að ljúka hluta námskeiðsins.

X

Bjargráð og stuðningur (ÞRS006M)

Í þessu námskeiði er fjallað um undirstöðuatriði áfallamiðaðrar nálgunar, með sérstakri áherslu á fatlað fólk og aðra jaðarsetta notendahópa. Nemendur læra að þekkja algengi áfalla og áhrif áfalla og ólíkra tegunda valdaójafnvægis á líf, hegðun og bjargráð einstaklinga. Jafnframt hvernig hægt er að byggja upp valdeflandi og persónumiðaðan stuðning sem miðar að því að draga úr neikvæðum afleiðingum áfalla og koma í veg fyrir endur-upplifanir á áföllum. Sérstök áhersla er lögð á aðferðir sem styðja við tilfinningastjórn, samskipti og seiglu í lífi og starfi.

X

Innbyrðing kúgunar (ÞRS003M)

Kúgun minnihlutahópa er málefni sem félagsvísindi hafa skoðað töluvert síðustu áratugina en styttra er síðan farið var að rannsaka sálfræðileg áhrif kúgunar sem birtist oft í innbyrðingu kúgunarinnar. Í þessu námskeiði verða nemendum kynntar gagnrýnar kenningar sprottnar upp úr síð-nýlendu sálfræði. Farið verður bæði í það hvernig kúgun er innbyrt en einnig verður varpað ljósi á innbyrðingu kúgunar ákveðinna hópa, t.d. fatlaðra, innflytjenda og hinsegin fólks. Þekking samfélagsins á sálrænum áhrifum innbyrðingar þessara hópa er mikilvæg og þegar fagfólk starfar á vettvangi er þýðingarmikið bregðast rétt við birtingarmyndum innbyrðingar og reyna að draga úr neikvæðum áhrifum hennar eins og hægt er. 

X

Inngangur að táknmálsfræði (TÁK108G)

Í námskeiðinu verður fjallað um táknmálssamfélög, sér í lagi samfélag íslenska táknmálsins (ÍTM). Fjallað verður um döff menningu og sögu ÍTM, um málhugmyndafræði og um stöðu og lífvænleika íslenska táknmálsins. Beitt verður nálgunum döff fræða, mannfræði og félagslegra málvísinda.

 

X

Færninámskeið I (TÁK102G)

Markmið og viðfangsefni námskeiðsins:

Nemendum eru kynnt grundvallaratriði íslenska táknmálsins. Megináhersla verður lögð á mál sem tengist daglegu lífi og þær meginreglur sem gilda um táknmálssamtalið. Áhersla verður lögð á bæði tjáningu og skilning táknmáls. Í námskeiðinu er fjallað um skyldubundin látbrigði með táknum og próformasögnum og mikilvægi þeirra í táknmáli. Nemendur nota myndbandsupptökur til þess að ná auknu valdi á málinu. Námskeiðið er byggt upp á fyrirlestrum og æfingum í tímum sem nemendur taka virkan þátt í.

Námsmat: Verkefni, aðallega upptökuverkefni, sem dreifast yfir misserið. Standast þarf alla þætti námsmats til að ljúka námskeiði sem og uppfylla mætingaskyldu.

X

Mentor í Spretti (GKY001M)

Í námskeiðinu felast verkefni nemenda í  að vera mentor fyrir þátttakendur á framhalds- og háskólastigi í verkefninu „Sprettur”. Mentorar sinna því mikilvæga starfi að styðja og hvetja ungmenni í námi og félagslífi. Hlutverk mentora er að skapa uppbyggjandi samband við þátttakendur, vera jákvæð fyrirmynd og taka þátt í sameiginlegum viðburðum skipulögðum í Spretti. Mentorhlutverkið snýst um tengslamyndun og samveru sem felur í sér skuldbindingu gagnvart ungmennunum sem mentor styður.  

Sprettur er verkefni sem styður við nemendur með innflytjenda- eða flóttamannabakgrunn sem koma úr fjölskyldum þar sem fáir eða engir hafa háskólamenntun.  Nemendur í námskeiðinu eru mentorar þátttakenda og eru þeir tengdir saman með hliðsjón af sameiginlegu áhugasviði. Hver mentor ber ábyrgð á að styðja tvo þátttakendur. Mentorar skipuleggja samveru og verja þremur klukkustundum á mánuði (frá ágúst fram í maí) með þátttakendum í Spretti, þremur klukkustundum í mánuði í heimavinnuhópi og mæta í fimm málstofur sem dreifast yfir skólaárið. Nemendur skila dagbókarfærslum á Canvas í nóvember og mars. Dagbókarfærslur byggjast á lesefni og hugleiðingum nemenda um mentorstarfið. Námskeiðið er kennt á íslensku og ensku.  

 Nemendur sækja um þátttöku á námskeiðinu. Sjá rafrænt umsóknareyðublað.  Umsækjendur fara í viðtal og eru 15-30 nemendur valdir til þátttöku.   

Frekari upplýsingar um verkefnið „Sprettur” má nálgast hér: www.hi.is/sprettur 

X

Lífið sem mig langar í -farsæld og sjálfsrýni (UME006G, UME007G)

Þetta námskeið er fyrra námskeið af tveimur sem byggja á grundvallar spurningum um farsæld og mannlega tilvist: „Hvað gerir lífið þess virði að lifa því?“, „Hvernig getum við lifað farsælu og merkingarbæru lífi?” eða „Hvernig er lífið sem mig langar í?“. Námskeiðin byggja á Life Worth Living nálgununni sem var þróuð í Yale háskóla. Áhersla er lögð á gagnrýna nálgun gagnvart fjölbreyttri lífspeki og hvatt til samtals og ígrundunnar um megin spurningar námskeiðsins.

 

Grunnnámskeiðið miðar að því að gefa innsýn í ólíka lífsspeki um hamingjuna og hið verðuga líf t.d. útfrá heimspeki, (jákvæðri) sálfræði, gagnrýnum fræðum og fjölbreyttum menningarsamfélögum.  Kennslufræðileg nálgun er byggð á spurningum um hið farsæla líf og að nemendur finni sín eigin svör frekar en að læra kenningar eða verða sérfræðingur í ákveðnum fræðum. Spurningunum er ætlað að beina sjónum bæði útávið og innávið. Með skoðun innávið er vísað til þess að nemendur og kennarar eru hvattir til að taka persónulega afstöðu og nýta þær spurningar sem lagðar verða til grundvallar til að spegla eigið líf. Með skoðun útávið er vísað til þess að nemendur og kennarar taki þátt í umræðum um ólík siðferðileg gildi og ólíkar hefðir í samfélagslegu tilliti.  

Námskeiðið er sérstaklega hugsað fyrir nemendur í uppeldis og menntunarfræðum, nemendur sem eru að undirbúa sig sem fagfólk í skóla-, frístunda- og uppeldisstörfum. Á námskeiðinu fá þeir tækifæri til að fara í persónulegan leiðangur þar sem áhersla er lögð á sjálfsrýni um hið farsæla líf, í styðjandi lærdómssamfélagi. Nemendur skoða meðal annars líf sitt og framtíðarstarfsvettvang útfrá lífssýn, gildum og mannkostum. Einnig vinna nemendur fræðileg verkefni sem þau geta tengt við sinn fagvettvang.

X

Lífið sem mig langar í II - hagnýtar leiðir í uppeldi og menntun (UME006G, UME007G)

Þetta námskeið er seinna námskeið af tveimur sem byggja á grundvallar spurningum um farsæld og mannlega tilvist: „Hvað gerir lífið þess virði að lifa því?“, „Hvernig getum við lifað farsælu og merkingarbæru lífi?” eða „Hvernig er lífið sem mig langar í?“. Námskeiðin byggja á Life Worth Living nálgununni sem var þróuð í Yale háskóla.

Grunnnámskeiðið miðar að því að gefa innsýn í ólíka lífsspeki um hamingjuna og hið verðuga líf t.d. útfrá heimspeki, (jákvæðri) sálfræði, gagnrýnum fræðum og fjölbreyttum menningarsamfélögum. Þetta seinna námskeið byggir á því fyrra en leggur áherslu á faglega þróun og hagnýta nálgun í formlegri og óformlegri menntun. Í námskeiðinu læra nemendur hagnýtar aðferðir til að leiða sjálfsrýni um hið farsæla og merkingarbæra líf. Unnið er með fjölbreytt verkefni og æfingar sem byggja bæði einstaklings- og hópvinnu, samkennd, virkri hlustun og samtali ásamt því að nemendur deila hugmyndum og gildum. Aðferðirnar sem lagðar eru til grundvallar eru sóttar til jákvæðrar sálfræði, markþjálfunar, núvitundar, samkenndar, heimspeki með börnum og mannkostamenntunar.

Námskeiðið er sérstaklega hugsað fyrir nemendur í uppeldis og menntunarfræðum, til dæmis nemendur sem eru að undirbúa sig sem fagfólk í skóla-, frístunda- og uppeldisstörfum. Athugið að aðeins þeir sem hafa lokið fyrra námskeiðinu, Lífið sem mig langar í I. Farsæld og sjálfsrýni (eða sambærilegu námskeiði) geta setið þetta námskeið.

X

Áhrifaþættir heilsu (HÍT504M)

Í þessu námskeiði verður farið yfir grunnskilgreiningar á hugtökunum: heilsa og heilbrigði, sjúkdómar og fötlun. Farið verður yfir helstu áhrifaþætti heilbrigðis og ræddir verða sérstakir áhrifavaldar á heilsufar. Bæði verða kynntir þættir sem geta ógnað heilsu og heilbrigði en einnig skoðað hvaða þættir geta haft jákvæð heilsueflandi áhrif. Sérstök áhersla verður á áhrif umverfis á heilsu. Fjallað verður um ólíkar nálganir í heilsueflingu og hverjir beri ábyrgð á heilsueflingu

Athugið: Námskeiðið hét áður Hugur, heilsa og heilsulæsi.

X

Heilsuhegðun og fæðuval – áhrifaþættir og mótun (ÍÞH036M)

Viðfangsefni námskeiðsins er heilsuhegðun í víðum skilningi. Fjallað verður um heilsuhegðun mismunandi aldurshópa og samband líffræðilegra þátta, heilsuhegðunar og félagslegra aðstæðna. Farið verður yfir hvernig hegðun einstaklinga, bjargráð og streita hafa áhrif á heilsufar. Hegðun í tengslum við fæðuval og neysluvenjur er sérstaklega skoðuð. Þá verður horft til þess hvernig má móta heilsusamlegar lífsvenjur frá æsku, svo sem hafa áhrif á fæðuval og vinna á matvendni. Samfélagsáhrif og þáttur fjölmiðla eru einnig könnuð. Námsefnið byggir á fræðbókum og vísindagreinum frá mismunandi áttum og ólíkum sviðum sem spanna viðfangsefnið og nálgast það á ólíkan hátt.
Námskeiðið er ætlað nemendum á efri stigum grunnnáms og á meistarastigi og er opið öllum.

X

Tómstundir og börn (TÓS202G)

Megin viðfangsefni námskeiðsins eru tómstundir barna á aldrinum 6-12 ára í víðum skilningi. Fjallað er um helstu uppeldisfræðislegu sjónarhornin með þennan aldurshóp í huga, sem og margvíslegar áskoranir sem börn á þessum aldri standa frammi fyrir.

Viðfangsefni námskeiðsins snúa meðal annars að lýðræðislegum starfsháttum í starfi með börnum, viðmiðum um gæði í frístundastarfi og öryggis- og velferðarmálum í æskulýðs- og tómstundastarfi. Þá er einnig fjallað um mikilvægi frjálsa leiksins, fjölmenningu og inngildingu, samskipti og gagnrýna hugsun, listir, barnamenningu og skapandi starf og tómstundastarf með margbreytilegum barnahópum.

Markmiðið með námskeiðinu er að nemendur öðlist skilning og innsæi í helstu kenningar um þroska, nám og félagsfærni 6 – 12 ára barna, þekki til umgjörðar og laga um starfsemi stofnana á vettvangi frístunda- og æskulýðsstarfs og skilji möguleika og hindranir fyrir þátttöku barna í tómstundastarfi. Þá er einnig fjallað um samspils stöðu barna við umhverfi sitt og náttúru, listir og menningu, lýðræðisleg vinnubrögð í frístundastarfi með börnum, í fjölmenningarsamfélagi. Einnig er lögð áhersla á að nemendur fái tækifæri til að ígrunda eigin reynslu og reynsluheim af tómstundum sem börn.

Á námskeiðinu er litið til viðmiða um virðingu og skilning, eins og fram kemur í gátlista Háskóla Íslands um jafnrétti í kennslu

X

Menntun og kyngervi (UME004M)

Markmið: Markmið námskeiðsins er að nemar kynnist hugmyndum, kenningum  og rannsóknum um uppeldi og menntun í ljósi kynjafræðilegra sjónarmiða og hugtaksins kyngervi (gender).

Viðfangsefni. Unnið verður með hugtökin, kyngervi, kynjun, kynímyndir, staðalmyndir, kvenfrelsi, félagsleg mismunun, kynhlutverk, kynjablinda, tvíhyggja og valdatengsl. Fjallað verður um hvernig hugmyndir um menntun kynjanna hafa þróast sögulega, rýnt í orðræðuna um drengi og stúlkur og staðreyndir og gagnrýni á menntun og kynferði á öllum skólastigum. Sjónarmið félagslegar mótunarhyggju og eðlishyggju verða notuð til að útskýra mismunandi hugmyndir um kynjamismunun. Athyglinni verður beint sérstaklega að nýjum rannsóknum á sviðinu og fræðilegri nálgun mismunandi fræðimanna. Að síðustu verður athyglinni beint að íslenska skólakerfinu, stöðu drengja og stúlkna, leiðtogum og stjórnendum, námskrám og stöðu lögbundinnar jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum. Lesnar verða nýjar íslenskar og erlendara rannsóknir á kyngervi og skólastarfi, t.d. rannsóknir á námsframmistöðu kynjanna, mismunandi hugmyndum stelpna og stráka um námsgreinar, námshæfni og námsval og hvernig skólar bregðast við kynjun skóla og samfélags.

Vinnulag
Námskeiðið er skipulagt sem staðnám, með möguleikum til fjarnáms ef þörf krefur. Námskeiðið byggist á fyrirlestrum, umræðum, málstofum, hópvinnu og verkefnavinnu.

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hvað segja nemendur?

Helena Gunnarsdóttir
Hlöðver Sigurðsson
Tinna Kristjánsdóttir
Helena Gunnarsdóttir
BA í þroskaþjálfafræði

Námið hefur gefið mér tækifæri til að takast á við nýjar áskoranir og bæta við mig fræðilegri þekkingu. Í tengslum við námið hafa mér boðist tækifæri til að taka þátt í rannsóknum og fara út á vettvang sem hefur verið ómetanleg reynsla. 

Hlöðver Sigurðsson
Þroskaþjálfafræði nám

Námið í þroskaþjálfafræði hefur opnað nýjar víddir í mínu starfi  sem aðstoðarmaður fólks með fötlun. Það hefur einnig fengið mig til að sjá hversu gríðarlega breiður og mikilvægur vettvangur það er sem þroskaþjálfar starfa á.

Tinna Kristjánsdóttir
BA í þroskaþjálfafræði

Besta ákvörðun lífs míns var að fara í þroskaþjálfafræði. Námið er virkilega skemmtilegt og krefjandi og veitir góða innsýn í stöðu fatlaðs fólks. Ég hef öðlast mikla þekkingu á málefnum fatlaðs fólks og réttindabaráttu þess og mun ávallt hafa það að leiðarljósi að styðja og gæta hagsmuna þess í einu og öllu. Mér finnst ég hafa breyst til hins betra eftir þetta nám.

Hafðu samband

Kennsluskrifstofa Menntavísindasviðs
Stakkahlíð, 1. hæð í Enni
Opið kl. 8.15 – 15.00 alla virka daga
Sími 525 5950
mvs@hi.is

""

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.