Skip to main content

Kynjafræði - Aukagrein

Kynjafræði - Aukagrein

Félagsvísindasvið

Kynjafræði

Aukagrein – 60 einingar

Kynjafræði snýst um margbreytileika mannlífsins. Nánast allt í veröldinni hefur kynjafræðilegar hliðar og fátt er kynjafræðinni óviðkomandi. Kyn er grundvallarstærð í tilverunni og eitt af því sem skapar margbreytileika mannlífsins rétt eins og kynvitund, kynhneigð, litarháttur, þjóðernisuppruni, aldur, stétt, fötlun og fleiri félagslegir áhrifaþættir.  Fjarnám.

Skipulag náms

X

Kynjamyndir og kynusli: Inngangur að kynjafræði (KYN106G)

Í námskeiðinu er fjallað um helstu viðfangsefni kynjafræða í ljósi margbreytileika nútímasamfélaga. Kynjafræðilegu sjónarhorni er beitt til að gefa yfirlit yfir stöðu og aðstæður ólíkra hópa í samfélaginu. Kynnt verða helstu hugtök kynjafræða svo sem kyn, kyngervi, eðlishyggja og mótunarhyggja. Skoðað er hvernig kyn er ávallt samtvinnuð öðrum samfélagslegum áhrifabreytum.

Kennslufyrirkomulag: Námið byggir á vendikennslu sem þýðir að allir fyrirlestrar verða aðgengilegir á Canvas. Stað- og fjarnemar mæta vikulega í umræðutíma í háskólanum eða á Teams og netnemar taka vikulega þátt í umræðum á Canvas.

X

Suðupottur fræðanna: Efst á baugi í kynjafræðum (KYN304G)

Nemendur kynnast nýjum rannsóknum á fræðasviðinu, fá innsýn í þá breidd sem kynjafræðileg viðfangsefni endurspegla og skilji mikilvægi fræðilegrar umræðu innan kynjafræða.

Námskeiðið byggist á verkefnavinnu í tengslum við ráðstefnur, málþing, málstofur, fyrirlestra og valda viðburði á sviði jafnréttis- og kynjafræða innan og utan Háskóla Íslands í eitt misseri.

X

Menntun, félagslegur hreyfanleiki og félagsleg lagskipting (FÉL501M)

Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni? Í þessu námskeiði er skoðað hvernig félagslegur bakgrunnur einstaklings hefur áhrif á þá félagslegu stöðu sem sem viðkomandi nær að lokum í lífinu og hvernig ójöfnuður endurskapast frá einni kynslóð til annarrar. Námskeiðið fjallar um hvernig félagslegur hreyfanleiki hefur breyst í gegnum tíðina og milli landa og hvaða hlutverki menntun gegnir fyrir félagslegan hreyfanleika. Fjallað verður um helstu kenningar sem notaðar eru til að útskýra ójöfnuð í menntun og félagslegum hreyfanleika og (hugsanlegar) breytingar yfir tíma. Á námskeiðinu verður lögð áhersla á félagslegan bakgrunn einstaklinga (stétt, menntun foreldra eða félags-efnahagslega stöðu foreldra) en misrétti á grundvelli kyns og þjóðernisuppruna  verður einnig skoðað á síðustu fundum. Í málstofunni munum við lesa blöndu af klassískum og nýlegum textum. Jafnframt verður sérstök áhersla lögð á að fjalla um lestur og niðurstöður frá öðrum löndum í samanburði við Ísland.

X

Ævintýri og samfélag: Hjálparhellur, hetjur og vondar stjúpur (ÞJÓ334G)

Ævintýri verða lesin og skoðuð í ljósi samfélagslegra gilda. Lögð verður áhersla á sagnahefðina, flutning sagnafólks, sísköpun þess og meðferð á sagnaminnum. Ævintýrin verða skoðuð m.t.t. hins breytilega efniviðar og hin ýmsu afbrigði einstakra gerða og minna borin saman. Leitast verður við að ráða í merkingu ævintýra, m.a. með táknrýni, auk þess sem þau verða skoðuð í félagslegu ljósi og sett í samhengi við það samfélag sem mótaði þau. Þá verður skoðað hvernig ævintýri eru nýtt og sífellt endursköpuð í nýrri miðlun.

Vinnulag

Kennsla fer einkum fram með fyrirlestrum, en einnig með umræðum svo sem kostur er.

X

Ekki er allt gull sem glóir: kyn, jafnrétti og sjálfbærni á Íslandi (KYN314G)

Orðspor Íslands sem fyrirmyndarríkis í kynjajafnrétti og málefnum hinsegin fólks hefur farið vaxandi síðustu áratugi.

Þá hefur Ísland verið talið meðal umhverfisvænstu landa heims samkvæmt vísitölumælingum á þeim vettvangi.

Í námskeiðinu er skyggnst á bak við þessa ímynd frá þverfræðilegu sjónarhorni.

Orðspor Íslands sem fyrirmyndarríkis í kynjajafnrétti og málefnum hinsegin fólks hefur farið vaxandi síðustu áratugi í kjölfar góðrar útkomu Íslands í mælingum jafnrétti og stöðu hinsegin fólks. Þá hefur Ísland verið talið meðal umhverfisvænstu landa heims samkvæmt vísitölumælingum á þeim vettvangi. Í námskeiðinu er skyggnst á bak við þessa ímynd frá þverfræðilegu sjónarhorni. Fjallað er um helstu atriði á sviði kynjajafnréttis, hinsegin mála, umhverfismála og sjálfbærni og þau skoðuð út frá ýmsum áhrifaþáttum eins og margbreytileika, kyngervi, stétt, þjóðerni og hnattrænum valdatengslum. Sérstök áhersla er á hvernig málefni jafnréttis og sjálfbærni tengjast íslenskum veruleika og stjórnmálum

X

Siðfræði náttúrunnar (HSP722M)

Námskeiðið fjallar um samband manns og náttúru frá heimspekilegu sjónarhorni. Fjallað er um helstu frumkvöðla náttúrusiðfræðinnar og áhrifamestu kenningar sem settar hafa verið fram. Gerð grein fyrir ólíkri náttúrusýn manna og mismunandi grunnafstöðum til náttúrunnar - þ.e. mannhverfri, visthverfri og lífhverfri afstöðu. Einnig fjallað um tengsl umhverfis- og þróunarmála og tengsl umhverfishyggju og lýðræðisþróunar. Rætt um álitaefni eins og: Getur siðfræðin nýst við lausn umhverfisvandamála?, Hvers konar verur hafa siðferðisstöðu?, Geta náttúrleg fyrirbæri búið yfir eigingildi?, Hafa dýr einhver réttindi?, Er einhver grundvallarmunur á (af)stöðu karla og kvenna gagnvart náttúrunni?, og Hvert er siðferðilegt inntak sjálfbærrar þróunar?

X

Líkamsmenning: Útlit, hegðun, heilsa (ÞJÓ325G)

Í námskeiðinu er fjallað um mannslíkamann frá þjóðfræðilegu og menningarsögulegu sjónarhorni. Skoðuð eru mismunandi viðhorf til líkamans eins og þau birtast í hugmyndum um samband hugar og líkama, afstöðu til hreinlætis og líkamsumhirðu, líkamlegs útlits, siðlegrar hegðunar o.fl. Að hvaða leyti eru hugmyndir um líkamsfegurð og heilbrigði mótaðar af samfélaginu? Hvernig hefur breytt þekking og aðferðir í lífvísindum og heilsufræði mótað hvernig litið er á líkamann? Með hvaða hætti er líkamleg hegðun háð lögum og reglum samfélagsins og hvernig er skynjun okkar og sýn á líkamann háð viðmiðum samfélagsins? Sérstök áhersla er lögð á að kanna líkamann sem menningarlegt fyrirbæri í íslensku samfélagi frá nítjándu öld og til samtímans.

Spurt er hvernig stefnur og straumar í heilsurækt hafa áhrif á líkamlega upplifun fólks, hvernig merking er lesin í útlit og framkomu; hvernig sómatilfinning og siðir marka líkamlega hegðun og hvernig samband mannslíkama og menningar birtist t.d. í þjóðbúningum og sundfatatísku, megrunarkúrum og borðsiðum, heilbrigðisreglugerðum og baðsiðum, mannkynbótum og fegurðarsamkeppnum eða gangráðum og brjóstastækkunum.

X

Karlar og karlmennska (FÉL209G)

Markmið námskeiðsins er að kynna nemendum helstu áherslur þeirra sem rannsaka karla sem samfélagslegt kyn (gender). Gerð verður grein fyrir þeim þremur meginaðferðum sem beitt hefur verið við karlarannsóknir á þessari öld; sálgreiningu, félagssálfræði (kyn"hlutverk") og nýrri þróun í félagsvísindum sem leggur áherslu á "sköpun" eða "byggingu" karlmennsku. Fjallað verður um mismunandi gerðir karlmennsku og hvernig tilurð þeirra, niðurrif og uppbygging tengist öðrum formgerðum samfélagsins. Þáttur karla í uppeldis- og umönnunarstörfum innan og utan heimilis verður skoðaður og fjallað um íslenska rannsókn um karlmennsku og fjölskyldutengsl.

X

Líkaminn og kynverundin: Frelsi og fjötrar (FÉL326G)

Í námskeiðinu verður sjónum beint að nokkrum þáttum kynverundar (sexualities), breytingum og þróun frá upphafi 20. aldar og íslensk þróun sérstaklega skoðuð. Við fjöllum um rannsóknir sem gerðar hafa verið á kynverund og kynhegðun allt frá bók Richard von Krafft-Ebing, Psychopathia Sexualis (1886) og til nýlegra rannsókna í nágrannalöndum okkar. Sérstaklega verður litið til breytinga á stöðu sam- og tvíkynhneigðra og fjallað um BDSM-fólk og blæti ýmiskonar. Kynlíf sem verslunarvara verður skoðað, allt frá auglýsingum og íþróttum til kláms og vændis. Áhrif trúarbragða, menntakerfis, fjölskyldna og vinnustaða á kynlíf og kynlífshegðun fær umfjöllun, sem og barneignir og kynferðisleg heilsa. Loks verður fjallað um kynferðislegt ofbeldi, nauðganir, þvinganir og áreitni ýmiss konar og þá þróun síðustu ára að krafa kvenna  um kynjajafnrétti hefur í æ ríkari mæli beinst að stöðu líkama þeirra eins og sjá má í hreyfingum á borð við #freethenipple og #metoo.

Námsmat verður í formi verkefnis / ritgerðar og skriflegs lokaprófs.

X

Lífshlaupið, sjálf og samfélag (FFR302M)

Aðstæður og reynsla fatlaðs fólks er miðlæg í umfjöllun námskeiðsins, þar sem áhersla er á lífshlaupið og þau meginsvið sem snerta daglegt líf, svo sem fjölskyldulíf, menntun, atvinnu og búsetu. Rýnt verður í íslenskar og erlendar rannsóknir um líf og aðstæður fatlaðs fólk og þau fjölmörgu öfl sem móta sjálfsmynd og sjálfsskilning fatlaðra barna, ungmenna og fullorðins fólks. Fræðileg umfjöllun námskeiðsins er tengd við lagasetningar, stefnumótun, þjónustu, velferðarkerfi og félagslegar aðstæður fatlaðs fólks. 

X

Aukaverkefni: Suðurpottur fræðanna: Efst á baugi í kynjafræðum (KYN302G)

Í tengslum við námskeiðið KYN304G Suðupottur fræðanna: Efst á baugi í kynjafræðum gefst nemendum kost á að vinna aukaverkefni. Nemendur hafa samband við kennara námskeiðsins til ákveða efni og efnistök.

X

Ofbeldisbrot frá sjónarhóli kvennaréttar (LÖG104F)

Í kjörgreininni verður fjallað um eftirfarandi fjóra brotaflokka: Nauðgun og önnur brot gegn kynfrelsi fólks. Kynferðisbrot gegn börnum. Vændi. Heimilisofbeldi. Gerð verður grein fyrir skilyrðum refsiábyrgðar fyrir brot, sem falla undir þessa brotaflokka og viðurlögum fyrir þau. Þá verður fjallað um nokkra þætti opinbers réttarfars sem sérstaklega tengjast meðferð þessara brota, t.d. reglur um sönnun og réttarstöðu brotaþola. Sérstök áhersla verður lögð á að nálgast viðfangsefnið út frá þeim sjónarmiðum sem fram hafa komið í kvennarannsóknum síðustu ára. Auk þess að fjalla um refsiréttarlega þætti efnisins verður vikið að refsipólitískum viðhorfum, þ.e. á hvern hátt þyrfti að breyta gildandi ákvæðum, svo að þau þjóni betur hagsmunum kvenna. Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist þekkingu á eðli og inntaki kynbundins ofbeldis og verði færir um að leysa úr lögfræðilegum álitaefnum á því sviði. Námskeiðið er að jafnaði kennt annað hvert ár. Minnt er á að framboð námskeiða er háð ýmsum fyrirvörum, þar á meðal að deild hefur heimild til að fella niður fámenn námskeið.

X

Kynjafræðikenningar (KYN202G)

Kynjafræði er þverfræðileg. Hér verður heimspekilegur og kenningalegur grundvöllur kynjafræða og gagnrýnið inntak þeirra skoðað.

Fjallað er um birtingarform og merkingu kyns (e. sex) og kyngervis (e. gender) í tungumáli og menningu, sögu, samfélagi og vísindum. Sjónarmið fræðanna eru kynnt og tengsl þeirra við aðferðafræði.

Í námskeiðinu er fjallað um heimspekilegan og kenningalegan grundvöll kynjafræða og gagnrýnið og þverfræðilegt inntak þeirra. Fjallað er um birtingarform og merkingu kyns (e. sex) og kyngervis (e. gender) í tungumáli og menningu, sögu, samfélagi og vísindum. Sjónarmið fræðanna eru kynnt og tengsl þeirra við aðferðafræði. Þá eru nemendur þjálfaðir í að beita á sjálfstæðan og gagnrýninn hátt fræðilegum hugtökum og aðferðum.

Kennslufyrirkomulag: Námið byggir á vendikennslu sem þýðir að allir fyrirlestrar verða aðgengilegir á Canvas. Stað- og fjarnemar mæta vikulega í umræðutíma í háskólanum eða á Teams og netnemar taka vikulega þátt í umræðum á Canvas.

X

Kyn, fjölmenning og margbreytileiki (KYN201G)

Fjallað um helstu viðfangsefni margbreytileika- og kynjafræða í ljósi gagnrýnnar fjölmenningarhyggju og margbreytileika nútímasamfélaga. Áhersla er á hvernig viðfangsefnin tengjast íslenskum veruleika og stjórnmálum.

Skoðað er hvernig félagslegar áhrifabreytur á borð við kyn, kynhneigð, þjóðernisuppruna, trúarskoðanir, fötlun, aldur og stétt eiga þátt í að skapa einstaklingum mismunandi lífsskilyrði og möguleika.

Kynnt verða helstu hugtök kynja- og margbreytileikafræða svo sem kyngervi, eðlishyggja og mótunarhyggja og skoðað hvernig félagslegar áhrifabreytur eru ávallt samtvinnaðar í lífi fólks. Áhersla er á hvernig málefni kyns, fjölmenningar og margbreytileika tengjast íslenskum veruleika og stjórnmálum. 

X

Hinseginlíf og hinseginbarátta (KYN415G)

Barátta hinsegin fólks síðastliðna áratugi hefur skilað margvíslegum ávinningi og réttindum. Enn er þó langt í jafnrétti á þessu sviði og samfélagið er í meginatriðum sniðið að hinum gagnkynhneigðu sískynja meginstraumi.

Í námskeiðinu er ljósi varpað á sögu hinsegin fólks, samfélagslega stöðu, reynsluheim, baráttumál og menningu.

Námskeiðið er inngangsnámskeið sem varpar ljósi á sögu hinseginfólks (sam-, tvíkynhneigðra, pansexual, transfólks og fleiri) á Íslandi, reynsluheim þeirra, baráttumál og menningu. Sagan er sett í alþjóðlegt samhengi og gerð er grein fyrir helstu vörðum í mannréttinda¬baráttunni, réttarstöðu og löggjöf. Fjallað er um mikilvæga þætti félagsmótunar¬innar, svo sem sköpun sjálfsmyndar og þróun sýnileika, samband við upprunafjölskyldu og leit að eigin fjölskyldugerð. Rætt er um muninn á samkynhneigðum fræðum og hinsegin fræðum, og kynntar eru kenningar um mótun kynferðis, kyngerva (sex og gender) og kyngervisusla (gender trouble). Vikið er að samræðu hinseginfólks við stofnanir samfélagsins og fjallað um líðan þeirra og lífsgæði. Fjallað er um þátt kynhneigðar í mótun menningar og ýmsar menningargreinar eru teknar sem dæmi um það hvernig veruleiki hinseginfólks birtist í listum og menningu. 

X

Vald og jaðarsetning: hagnýting félagsfræðikenninga (ÞRS214G, ÞRS003M, SFG004M)

Markmið námskeiðsins er að nemendur læri að þekkja og nota mismunandi félagsfræðilegar kenningar sem tengjast líkamlegu og andlegu atgervi. Farið verður yfir hugtök sem tengjast valdi, til dæmis stigma, valds, öráreitni og ableisma, sem nemendur geta nýtt sér til að greina hvernig normi er viðhaldið og hvernig samfélagslegar skilgreiningar á normi eru til komnar. Þær kenningar sem farið verður í ættu að geta nýst nemendum til þess að átta sig á því hvernig jaðarsetningu hópa er viðhaldið í samfélaginu og hvernig ögun líkama fer fram.

X

Innbyrðing kúgunar (ÞRS214G, ÞRS003M, SFG004M)

Kúgun minnihlutahópa er málefni sem félagsvísindi hafa skoðað töluvert síðustu áratugina en styttra er síðan farið var að rannsaka sálfræðileg áhrif kúgunar sem birtist oft í innbyrðingu kúgunarinnar. Í þessu námskeiði verða nemendum kynntar gagnrýnar kenningar sprottnar upp úr síð-nýlendu sálfræði. Farið verður bæði í það hvernig kúgun er innbyrt en einnig verður varpað ljósi á innbyrðingu kúgunar ákveðinna hópa, t.d. fatlaðra, innflytjenda og hinsegin fólks. Þekking samfélagsins á sálrænum áhrifum innbyrðingar þessara hópa er mikilvæg og þegar fagfólk starfar á vettvangi er þýðingarmikið bregðast rétt við birtingarmyndum innbyrðingar og reyna að draga úr neikvæðum áhrifum hennar eins og hægt er. 

X

Fötlun og menning (FFR102M)

Meginviðfangsefni námskeiðsins er að rýna í stöðu og ímynd fatlaðs fólks og birtingarmyndir fötlunar í (dægur)menningu og listum. Fjallað verður um ímyndir og hlutverk fatlaðs fólks í sögulegu samhengi, dægurmenningu, fjölmiðlum, bókmenntum, listum og almennri orðræðu. Sérstök áhersla verður lögð á (list)menningu fatlaðs fólks, sjálfskilning, kvenleika og karlmennsku. Rýnt verður í fötlun sem einn lið í fjölbreytileika samfélaga og staðsetningu fatlaðs fólks í menningu og sögu.

X

Ímynduð samfélög og þjóðmenning: Þjóðir, ímyndir og alþýðuhefðir (ÞJÓ439G)

Námskeiðið fjallar um hvernig sjálfsmyndir og ímyndir af Íslendingum og öðrum þjóðum hafa mótast og hvernig þær vinna með alþýðuhefðir á hverjum stað. Við skoðum íslenskan veruleika og ímyndir í samanburði við reynslu ýmissa grannþjóða og rannsökum hvernig sögur, siðir og minjar skapa þjóðir og móta þær, frá þjóðminjasöfnum til þorrablóta í London; og frá viskídrykkju (í Skotlandi) til víkingasagna (á Norðurlöndum), með viðkomu á Up Helly Aa (á Hjaltlandseyjum) og Ólafsvöku (í Færeyjum); við skoðum hönnunarsýningu (á Grænlandi), norrænar byggðir í Vesturheimi og sendum myndir af öllu saman á samfélagsmiðla.

Við berum niður í kvikmyndum og tónlist, hátíðum, leikjum og skrautsýningum stjórnmálanna. Sérstaklega verður greint hvernig þjóðlegar ímyndir sameina og sundra hópum fólks. Í því samhengi verður horft til kvenna og karla, búsetu (borgar og landsbyggðar), fólksflutninga fyrr og síðar (innfluttra, brottfluttra, heimfluttra), kynþáttahyggju og kynhneigðar. Við rannsökum þessar ímyndir sem hreyfiafl og hugsjón, auðlindir og þrætuepli og skoðum hvernig þeim er beitt í margvíslegu skyni af ólíku fólki á ólíkum stöðum, jafnt af þjóðernispopúlistum sem græningjum, ríkisstofnunum og bönkum, fræðafólki og nemendum.

X

Ójöfnuður: Efnahagur, kyn og minnihlutahópar (FÉL264G)

Ójöfnuður hefur löngum verið eitt meginhugtak félagsfræðinnar, enda hefur hún mikið fjallað um hvernig gæðum í samfélaginu er skipt og með hvaða afleiðingum. Lengi var talið að Ísland væri tiltölulega jafnt samfélag, en endurskoðun á fortíðinni hefur leitt í ljós að ójöfnuður hefur verið meiri en við höfum viljað viðurkenna í gegnum tíðina. Það sem er kannski mikilvægara er að efnahagslegur ójöfnuður hefur verið breytilegur til lengri tíma og frá tíunda áratugnum til allra síðustu ára hafa orðið miklar sveiflur í skiptingu tekna, eigna og fjárhagsþrenginga. Félagsfræðin hefur víða nálgun á birtingarform ójafnaðar í samfélaginu, til dæmis út frá kyni, aldri, þjóðerni, kynþætti og kynhneigð. 

Í þessu námskeiði munum við skoða helstu kenningar og rannsóknir félagsfræðinnar um ójöfnuð og setja þær í íslenskt samhengi. Við munum velta fyrir okkur hvers konar ójöfnuður er til staðar í samfélaginu og hvort ákveðnar tegundir ójöfnuðar eigi eftir að skipta meira máli í framtíðinni, meðal annars út frá breytingum í samfélagsumhverfinu og í samsetningu mannfjöldans. Að auki munum við skoða afleiðingar ójöfnuðar á líf einstaklinga, til dæmis varðandi heilsu þeirra, völd, afkomu og þátttöku í samfélaginu.

X

Kynjafornleifafræði (FOR410G)

Yfirlitsnámskeið um kynjafornleifafræði (e. Archaeology of Gender) þar sem farið verður yfir sögu og þróun greinarinnar, tengingu hennar við femínisma og síðvirknihyggju, um leið og greint verður frá helstu áherslum og skilgreiningum innan hennar. Kyngerfishugtakið (e. gender) er sífellt að víkka og teygir sig því til rannsókna á konum, körlum, jafnt sem börnum eða á ákveðnum þjóðfélagshópum, aldri og lífshlaupi. Tekin verða dæmi frá fornleifarannsóknum sem byggja á kenningum og aðferðum kynjafornleifafræðinnar og kynntir verða þeir möguleikar sem hún getur boðið upp á hérlendis við fornleifarannsóknir.

X

Fólk á flótta: Orsakir, viðbrögð og afleiðingar (STJ447G)

Í námskeiðinu er fjallað um málefni flóttafólks í stjórnmálafræðilegu, sögulegu og kynjafræðilegu samhengi. Fjallað verður um orsakir þess að fólk flýr heimalönd sín, svo sem samfélagslegt hrun, stríðsátök, ofsóknir og slæmt efnahagsástand. Sérstaklega verður litið til flóttafólks í Evrópu frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Fjallað er um ábyrgð ríkja gagnvart fólki á flótta í ljósi alþjóðalaga og –reglna. Viðbrögð og geta ríkja Evrópu til að takast á móti flóttafólki eru sérstaklega skoðuð. Í þessu samhengi er fjallað um landamæraeftirlit, þróun þess í Evrópu, Schengen-samstarfið og aðild Íslands að því. Íslensk flóttamannastefna er einnig skoðuð í sögulegu og samfélagslegu ljósi um leið og framtíðarmöguleikum er velt upp. Farið er yfir uppruna hugtaksins „flóttamaður“ og alþjóðalög sem varða stöðu fólks á flótta. Hlutverk ríkja, alþjóðastofnana og frjálsra félagasamtaka eru skoðuð. Fjallað um stærstu hópa flóttamanna í heiminum í dag, t.d. konur í rómönsku Ameríku, Rohingya múslíma í SA-Asíu og íbúa Sýrlands. Ólíkar orsakir eru ræddar og settar í samhengi milli heimshluta.

X

Eldhúsnautnir, megrunarkúrar og matreiðsluþættir (ÞJÓ609M)

Námskeiðið verður lotukennt alla daga vikunnar 10.-14. maí 2021 (sem er vikan eftir að lokaprófum á vormisseri lýkur) í sex stundir hvern dag (samtals 30 stundir). Nemendur verða að lesa allt námsefnið áður en námskeiðið hefst. Þeir vinna verkefni í vikunni og skrifa lokaritgerð eftir að námskeiðinu lýkur.

Í slow motion sleikir sjónvarpskokkurinn Nigella á sér fingurinn eftir að hafa dýft honum í rjómalagaða sveppasósu. Hún gefur frá sér nautnalegt hljóð, horfir í myndavélina með blik í auga og vill að við njótum með sér. Á annarri stöð öskrar sjónvarpskokkurinn Gordon Ramsey látlaust á aðra kokka sem berjast við að bjarga veitingastöðunum sínum. Margir þeirra fella tár undir reiðilestrinum.

Nautn, reiði, stress, spenna, karlremba, kvenleiki, rjómi, megrunarkúrar, heilsusamlegt mataræði, matarblogg, baksturskeppnir og barátta fyrir bættum og réttlátum matarháttum endurspeglar vinsældir matar sem afþreyingar og tækis til að rækta manneskjur og samfélag. Hvað útskýrir þennan gífurlega áhuga, jafnvel þráhyggju, samtímans gagnvart matarháttum og næringu?

Í námskeiðinu verður rýnt í nokkur vel valin hráefni sem umbreytt hefur verið í girnilegar menningarafurðir og sérstök áhersla lögð á hvernig hugmyndir um kyngervi og lífsstíl endurspeglast í matartengdum fyrirbærum á borð við matreiðsluþætti, matreiðslubækur, matarkeppnir og matarblogg.

X

Konur á 20. öld (SAG711M)

Í námskeiðinu verður fjallað um líf og stöðu íslenskra kvenna á 20. öld. Í því samhengi verður skoðað hvernig þjóðfélagsbreytingar, tækniþróun og nýir menningarstraumar mótuðu og breyttu lífi kvenna. Jafnframt því verður spurt hvernig og að hvaða marki konur tóku þátt að móta þessar breytingar. Sjónum er verður ekki aðeins beint að breytingum á formlegri stöðu þeirra, eins og því þegar konur fengu kosningarétt og kjörgengi. Áherslan verður ekki síður á að skoða hvernig konur nýttu sér breyttar aðstæður til að móta sér líf sem var í grundvallaratriðum öðru vísi en líf formæðra þeirra á 19. öld. Þannig verður leitast við að skoða upplifun og reynslu fjölbreytts hóps kvenna, ólíkra kynslóða sem og kvenna úr mismunandi þjóðfélagshópum. Við sögu koma kvenréttindakonur, menntakonur, óskólagengnar alþýðukonur, íhaldssamar konur og róttækar, konur í peysufötum, þröngum pilsum og mussum, sveitastelpur og borgarpíur, fegurðardísir og pönkstelpur. Lögð er áhersla á að kynna og ræða erlendar kenningar og rannsóknir á þessu sviði og skoða í samhengi við íslenskan veruleika og rannsóknir. Jafnframt því verður nemendum falið að gera litla frumrannsókn á afmörkuðu efni og leggja þannig sitt af mörkum til að búa til sögu sem enn er að miklu leyti óskrifuð.

X

Menntun og kyngervi (UME004M)

Markmið: Markmið námskeiðsins er að nemar kynnist hugmyndum, kenningum  og rannsóknum um uppeldi og menntun í ljósi kynjafræðilegra sjónarmiða og hugtaksins kyngervi (gender).

Viðfangsefni. Unnið verður með hugtökin, kyngervi, kynjun, kynímyndir, staðalmyndir, kvenfrelsi, félagsleg mismunun, kynhlutverk, kynjablinda, tvíhyggja og valdatengsl. Fjallað verður um hvernig hugmyndir um menntun kynjanna hafa þróast sögulega, rýnt í orðræðuna um drengi og stúlkur og staðreyndir og gagnrýni á menntun og kynferði á öllum skólastigum. Sjónarmið félagslegar mótunarhyggju og eðlishyggju verða notuð til að útskýra mismunandi hugmyndir um kynjamismunun. Athyglinni verður beint sérstaklega að nýjum rannsóknum á sviðinu og fræðilegri nálgun mismunandi fræðimanna. Að síðustu verður athyglinni beint að íslenska skólakerfinu, stöðu drengja og stúlkna, leiðtogum og stjórnendum, námskrám og stöðu lögbundinnar jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum. Lesnar verða nýjar íslenskar og erlendara rannsóknir á kyngervi og skólastarfi, t.d. rannsóknir á námsframmistöðu kynjanna, mismunandi hugmyndum stelpna og stráka um námsgreinar, námshæfni og námsval og hvernig skólar bregðast við kynjun skóla og samfélags.

Vinnulag
Námskeiðið er skipulagt sem staðnám, með möguleikum til fjarnáms ef þörf krefur. Námskeiðið byggist á fyrirlestrum, umræðum, málstofum, hópvinnu og verkefnavinnu.

X

Menningarheimar (TÁK204G)

Þverfaglegt inngangsnámskeið þar sem efnt er til samræðu milli fræðasviða námsbrautarinnar, þ.e. bókmenntafræði, kvikmyndafræði, kynjafræði, listfræði, málvísinda, menningarfræði, táknmálsfræði og þýðingafræði. Birtu verður brugðið á alþjóðlegar hræringar í hugvísindum á liðnum áratugum en jafnframt rýnt í tengsl fræða og heimsmyndar. Fjallað verður um táknfræði tungumálsins og m.a. spurt hvort það geti talist grundvöllur annarra táknkerfa. Spurst verður fyrir um tengsl og "sambúð" mismunandi tungumála og málheima. Er hægt að þýða á milli allra mál- og menningarheima? Hvað geta aðstæður heyrnarlausra sagt okkur um tengsl málheima? Hvað er fjölmenning? Hvernig tengjast talað mál, lesmál og sjónmenning í samfélaginu? Í hverju felst menningarlæsi? Hugað verður að bókmenntum, myndlist, kvikmyndum og öðru myndefni í þjóðlegu og alþjóðlegu samhengi og kannað hvernig þessi táknkerfi vinna með mörkin milli kynja, kynþátta, stétta, menningarhópa, þjóða og heimshluta. Lesið verður ýmiskonar fræðilegt efni og skáldverk, könnuð myndverk og kvikmyndir, en viðfangsefnin verða einnig sótt í fjölmiðla og það sem er á seyði í samtímanum. Námsmat felst í fjórum verkefnum á misserinu og skriflegu lokaprófi.

X

Efnismenning og samfélag: Hlutirnir, heimilið, líkaminn (ÞJÓ205G)

Í námskeiðinu verður efnisleg hversdagsmenning tekin til gagngerrar umfjöllunar. Gefið verður yfirlit yfir þetta þverfaglega rannsóknarsvið og rýnt jöfnum höndum í dæmi úr samtímanum og frá fyrri tíð, íslensk og erlend. Meðal annars verður fjallað um föt og tísku, matarhætti, hlutina sem umkringja okkur í daglega lífinu, rusl og hreinlæti, handverk og neyslumenningu, hús og garða, heimilið, borgarlandslag, söfn og sýningar. Um leið kynnast nemendur ýmsum kenningum og sjónarhornum sem leggja t.a.m. áherslu á mannslíkamann, kyngervi, neyslu, rými og stað.

X

Siðferðileg álitamál samtímans (HSP723M)

Áleitin siðferðileg úrlausnarefni ofarlega á baugi í nútímasamfélagi eru meginviðfangsefni þessa námskeiðs. Sjónum er beint að möguleikum siðfræðinnar á að takast á við klemmur sem upp koma, jafnt í lífi einstaklinga sem á samfélagsgrundvelli. Val á viðfangsefnum getur breyst milli ára en meðal mögulegra viðfangsefna námskeiðsins má nefna tjáningarfrelsi, stöðu flóttafólks, réttindi dýra, fátækt og ójöfnuð, kynjamisrétti, kynþáttamisrétti, umhverfismál og ýmis álitamál úr heilbrigðiskerfinu. Farið er í tengsl fræðilegrar og hagnýttrar siðfræði. Námskeiðið byggir á fyrirlestrum með ríkri áherslu á virka þátttöku nemenda í umræðum.

X

Kynusli í myndlist (LIS429M)

Í námskeiðinu eru myndlistarverk skoðuð í kynlegu ljósi og fjallað um kenningalegan grundvöll kynjafræða og þverfaglegt inntak þeirra. Leitast er við að greina hvernig hugmyndir um kyngervi hafa áhrif á listsköpun jafnt sem umræðu og skrif um myndlist. Birtingarform og merking kyngervis í tungumáli, samfélagi og menningu eru einnig greind með áherslu á staðalímyndir og/eða uppbrot þeirra í afstöðu og verkum listamanna. Stuðst er við hugmyndir femínista og hinsegin fræða til að afhjúpa áhrif kyngervis í verkum sumra listamanna sem hliðra staðalímyndum kven- og karlleika og skapa usla í ríkjandi orðræðu og kynjakerfi Vesturlanda. Einnig er fjallað um listheiminn út frá kynjafræðilegu sjónarhorni og kynntar rannsóknir á margbreytilegum birtingarmyndum kynjamisréttis í samtímanum.

X

Landmiðuð skrif: Femínísk umhverfi í bókmenntum 20. aldar (ENS620M)

Áður en samtímagreiningar á eyðandi áhrifum mannmiðaðrar hugsunar á umhverfi og lífkerfi komu fram höfðu sögur árþjóða og femínískra höfunda gagnrýnt hugmyndina að maðurinn drottnaði yfir öðrum lífverum. Í þessu námskeiði munum við nota hugtökin „femínismi“ og „umhverfi“ sem leiðarstef til að greina verk kvenhöfunda eins og Leslie Marmon Silko, bell hooks, Willa Cather, Maria Lugones og Muriel Rukeyser og skoða hvernig verk þeirra flækja og dýpka skilning okkar á hugtökunum.

Saman munum við skoða hvernig áhrif nýlendustefnu birtast í því hvernig hugtökin „femínismi“ og „umhverfi“ eru notuð sem lýsing á verkum ákveðinna höfunda og ekki annarra. Við munum takast á við spurningar eins og; hvaða ólíku hugmyndir um umhverfisvernd má sjá í verkum höfunda námskeiðsins? Hvaða merkingu má leggja í hugtakið „umhverfisbókmenntir“ og hvernig gætu femínísk fræði hjálpað okkur að svara þeirri spurningu?

X

Rannsóknasemínar C: Fear, like and subscribe: Internet Moral panics and reactionary backlash (MFR602M)

Siðfár eru menningarbundnar frásagnir sem hafa smogið inn í og haft áhrif á vestræn stjórnmál áratugum saman. Vestrænt fjölmiðlalandslag hefur löngum verið gegnsýrt af siðfárum, allt frá svokölluðum „Satanic Panic“ og „Stranger Danger“ til mansals með börn og kynsegin íþróttafólks. Þessar meintu ógnir eru ýmist ýktar eða ekki fyrir hendi og bera í mörgum tilvikum vott um undirliggjandi samfélagslegan kvíða sem er varpað yfir á minnihlutahópa. Þessu námskeiði er ætlað að vera kynning á helstu siðfárum sem hafa mótað Vesturlönd og þeim aðferðafræðilegu nálgunum sem er beitt til að bera kennsl á og greina þau. Í námskeiðinu verður fjallað um hlutverk Internetsins þegar kemur að dreifingu og tilurð yfirstandandi siðfára, með sérstakri áherslu á samtímasiðfár á borð við slaufunarmenningu og íhaldsbakslagið gegn #MeToo-hreyfingunni, og það hvernig þessar frásagnir rata inn í meginstraumsfjölmiðla og – stjórnmál.

X

Málaðu eins og maður, kona! Konur, kyngervi og íslensk listasaga (1875-1975) (SAG606M)

Námskeiðið er hugsað sem endurskoðun á þáttum úr íslenskri listasögu (1875 til 1975) með áherslu á framlagi íslenskra myndlistarkvenna til listasögunnar. Brugðið verður upp mynd af fjölbreyttri listsköpun kvenna á tímabilinu í hinum ýmsu listmiðlum (s.s. málara-og höggmyndalist, ljósmyndun og textíl) og litið til samhljóms og sérstöðu íslenskra myndlistarkvenna í alþjóðlegu, listsögulegu samhengi. Kynnt verða helstu hugtök og rannsóknarspurningar innan femínískrar listfræði, með áherslu á kyngervi og hvernig hægt er að nota orðræðugreiningu til að varpa ljósi á kynjaða orðræðu um myndlist sem beint og óbeint mótaði hugmyndina og skilgreininguna á (karl) snillingnum og íslenskri myndlist.  Einnig verður vikið að mikilvægri baráttu kvenna almennt á tímabilinu gegn mismunun á sviði menningar og lista. Þá verður skoðað hvernig hægt er að beita þverfaglegri nálgun til að fá heildstæðari mynd af stöðu kynjanna í samfélags, list-og menningarsögulegu samhengi hverju sinni. Námskeiðið byggir að mestum hluta á niðurstöðum doktorsritgerðar kennara námskeiðsins í sagnfræði og listfræði, frá haustinu 2023 (sjá, Paint like a man, woman! Women, gender and discourse on art in Iceland fom the late nineteenth century to 1960, sem hægt er að nálgast á opinvisindi.is). 

X

Trans börn og samfélag (UME204M)

Markmið:

Markmið námskeiðsins er að nemar kynnist hugmyndum, kenningum og rannsóknum í fræðum sem koma inn á veruleika og upplifanir trans fólks (trans fræði). Einnig verða meginhugmyndir gagnrýnna bernskufræða kynntar. Áhersla verður lögð á að þátttakendur verði meðvitaðir um veruleika trans ungmenna og trans barna og samfélagslega orðræðu um málaflokkinn.

Viðfangsefni:

Unnið verður meðal annars með hugtökin kyngervi, kynjatvíhyggja, kynsegin, kynvitund, samtvinnun, trans* hugtakið, síshyggja, umhyggja, barnavernd og réttindi barna. Fjallað verður um megininntak transfræða/hinseginfræða og hvernig hægt er að nýta sér þá nálgun til varpa ljósi á uppeldi, menntun, samfélag, tómstunda- og félagsstarf og íþróttir. Nálgunin verður í anda gagnrýnna trans- og bernskufræða og félagslegrar mótunarhyggju. Enn fremur verður fjallað um skólakerfi og aðrar stofnanir, hérlendis og erlendis, og hvernig margs konar mismunun skapast og viðhelst og getur ýtt undir stofnanabundna transfóbíu og síshyggju. Lesnar verða nýjar íslenskar og erlendar rannsóknir í tengslum við efnið. Þá verður lögð áhersla á að þjálfa verðandi uppeldis- og menntunarfræðinga, þroskaþjálfa, foreldrafræðara, kennara, tómstunda- og félagsmálafræðinga, stjórnendur og annað fagfólk til að skapa hinsegin/trans vænt andrúmsloft í viðeigandi hópum sem unnið er með.

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hvað segja nemendur?

Ragnheiður Davíðsdóttir
Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir verkefnastýra Jafnréttisskóla Reykjavíkurborgar
Sveina Hjördís Þorvaldsdóttir
Þorsteinn Einarsson
Ragnheiður Davíðsdóttir
Kynjafræði

Ég ákvað að fara í meistaranám í kynjafræði af því að ég ólst upp með kynjagleraugun og þetta sjónarhorn hefur alltaf verið hluti af minni sýn bæði í námi og starfi. Í náminu hefur verið ótrúlega gefandi að kynnast nýjum sjónarhornum og öðlast fræðilega þekkingu um margt það sem ég hef brotið heilann um nær allt mitt líf. Ég finn hvernig ég hef vaxið í kynjafræðinni. Þar hefur áhersla verið lögð á að hugsa út fyrir boxið, kynnast nýjum sjónarhornum, rannsóknarhugmyndum og samfélagsstraumum. Ég hef kynnst frábæru samstarfsfólki bæði hér á landi og erlendis. Kennararnir eru fyrsta flokks, knúnir áfram af áhuga, sérþekkingu og metnaði um kennsluna. Deildin er náin, sveigjanleg og heldur vel utan um hvern nemanda og ólíkar námsþarfir. Þetta er gefandi, hagnýtt og skemmtilegt nám. Umfram allt skerpir námið gagnrýna hugsun og fyllir nemendur eldmóði til að bæta og breyta samfélaginu sem við tilheyrum. 

Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir
MA í kynjafræði

Ég skráði mig í MA í kynjafræði haustið 2013 eftir að hafa verið grunnskólakennari í nokkur ár. Jafnrétti er ein af grunnstoðum menntunar en þó upplifði ég að almennt væri skortur á þekkingu og færni til að jafnréttismálum væri vel sinnt í skólakerfinu. Mig langaði því að dýpka þekkingu mína og finna leiðir til að miðla henni til annarra í skóla- og frístundastarfi.  
Það er óhætt að segja að kynjafræðinámið stóðst allar mínar væntingar og meira til. Námið er bæði fjölbreytt og skemmtilegt og það krefur nemendur um að líta inn á við og rýna tilveru sína á nýjan hátt. Helsti kostur kynjafræðinámsins er samþætting á fræðilegri þekkingu og hagnýtingu. Hver og einn getur aðlagað innihald námsins að sínum vettvangi, því sjónarhorn kynjafræðinnar má máta við öll viðfangsefni daglegs lífs. Í starfi mínu sem verkefnastýra Jafnréttisskóla Reykjavíkur nýti ég verkfærin sem ég öðlaðist í náminu á hverjum einasta degi í þágu barna og unglinga borgarinnar. 

Sveina Hjördís Þorvaldsdóttir
Kynjafræði nám

Ég valdi kynjafræði því ég vildi skilja betur það samfélag sem við búum í og hvernig valdamynstur birtast í því. Það sem heillaði mig mest við kynjafræðina var fjölbreytni námsins og hvernig kynjafræðin tengist öllum öngum samfélagsins. Ég vildi læra að stuðla að jafnrétti og betra samfélagi í heild. Í náminu hef ég lært margt sem hefur aukið skilning minn á hinu daglega lífi ásamt því að öðlast ómetanleg tækifæri til framtíðar.

Þorsteinn Einarsson
MA í kynjafræði

Meistaranám í kynjafræði var eins og ferðalag á kunnuga staði en samt var eins og ég hefði aldrei séð þá áður. Sjónarhornið, baksagan og samhengið sem kennarar veittu í gegnum námið gerðu ferðalagið krefjandi en á sama tíma algjörlega ógleymanlegt. Þetta kemur til af því að námið er lifandi, krítískt, hagnýtt og stundum óþægilega nærgöngult, þar sem ég þurfti að takast á við mínar hugmyndir, fordóma og fékk verkfæri til að beita á samfélagið. Ég öðlaðist færni í að greina kynjun, valdatengsl, orðræðu og dýptina í mynstrum og þemum sem dulin eru í samfélagsgerðinni og nærir víðtækt misrétti. Nám í kynjafræði hentar öllum sem brenna fyrir réttlæti og jafnrétti og vilja hafa áhrif á samfélagið sitt. 

Hafðu samband

Nemenda- og kennsluþjónusta Félagsvísindasviðs er á
Þjónustutorgi í Gimli
s. 525 4500 
Netfang: nemFVS@hi.is

Opið virka daga frá 09:00 - 15:00 
Gimli - Sæmundargötu 10, 102 Reykjavík

Bóka viðtal við nemenda- og kennsluþjónustu Félagsvísindasviðs

Stjórnmálafræðideild á samfélagsmiðlum

 Instagram   Facebook

""

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.