Skip to main content

Doktorsvörn í félagsráðgjöf - Ásdís Aðalbjörg Arnalds

Doktorsvörn í félagsráðgjöf - Ásdís Aðalbjörg Arnalds  - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
6. nóvember 2020 14:00 til 16:00
Hvar 

Aðalbygging

Streymt frá Hátíðasal

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Föstudaginn 6. nóvember ver Ásdís Aðalbjörg Arnalds doktorsritgerð sína í félagsráðgjöf.

Heiti ritgerðar: Fjölskyldustefna og foreldrahlutverk: Áhrif íslensku fæðingarorlofslöggjafarinnar á atvinnuþátttöku foreldra og umönnun barna (e. Policies and Parenthood: The Impact of the Icelandic Paid Parental Leave Law on Work and Childcare).

Vörnin fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst klukkan 14:00. Athöfninni verður streymt hér https://livestream.com/hi/doktorsvornasdisaarnalds

Andmælendur: Dr. Ivana Dobrotić, Marie Curie rannsakandi hjá Department of Social Policy and Intervention við Oxford háskóla og dr. Ársæll M. Arnarson, prófessor og forseti Deildar heilsueflingar, íþrótta og tómstunda við Háskóla Íslands.

Leiðbeinandi: Dr. Guðný Björk Eydal, prófessor við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands.

Einnig í doktorsnefnd: Dr. Ingólfur V. Gíslason aðstoðarleiðbeinandi, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands og dr. Ann-Zofie Duvander, prófessor í lýðfræði við  Stokkhólmsháskóla.

Doktorsvörn stýrir: Dr. Steinunn Hrafnsdóttir, prófessor og varadeildarforseti Félagsráðgjafardeildar Háskóla Íslands.

Um doktorsefnið
Ásdís Aðalbjörg Arnalds er fædd árið 1977. Hún lauk BA prófi í félagsfræði frá Háskóla Íslands árið 2001, MA prófi í félagsfræði frá Háskóla Íslands árið 2007 og prófi í kennslufræðum til kennsluréttinda árið 2010 frá sama skóla. Ásdís hefur starfað sem verkefnisstjóri á Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands frá 2006 auk þess að sinna stundakennslu í rannsóknaraðferðum félagsvísinda. Ásdís er gift Finni Bjarna Kristjánssyni, forstöðumanni hugbúnaðarþróunar hjá Arion banka og börn þeirra eru Guðrún Embla, Kristján Andri og Hildur Eva.

Ágrip
Íslenska löggjöfin um fæðingar- og foreldraorlof (nr. 95/2000) vakti alþjóðaathygli fyrir að veita báðum foreldrum jafnan rétt til töku þriggja mánaða óframseljanlegs orlofs. Lengi vel bauð ekkert annað land feðrum upp á jafnmarga óframseljanlega daga með sambærilegum greiðslum. Lögin hafa það að markmiði að tryggja barni samvistir við báða foreldra og gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.

Doktorsverkefninu er ætlað að meta að hvaða leyti þessum markmiðum hefur verið náð. Stuðst var við bæði megindlegar og eigindlegar aðferðir til að leggja mat á hvort, og hvernig, til hefur tekist að ná markmiðum laganna. Megindlegra gagna var aflað með viðamiklum könnunum meðal foreldra sem áttu sitt fyrsta barn árin 1997, 2003, 2009 og 2014. Megindlegu gögnin nýtast við að greina hvernig atvinnuþátttaka foreldra og þátttaka þeirra í umönnun fyrsta barns hefur þróast frá því lögin tóku gildi. Einnig voru tekin eigindleg viðtöl við íslenska og pólska foreldra, sem búa á Íslandi, til að öðlast dýpri skilning á aðstæðum sem liggja að baki atvinnuþátttöku foreldra, töku fæðingarorlofs og umönnun
barns. Niðurstöður sýna að lögin hafa skilað tilætluðum árangri. Feður hafa jafnt og þétt aukið hlut sinn í umönnun barna sinna frá því lögin tóku gildi og árið 2017 kvaðst mikill meirihluti foreldra skipta umönnun barns jafnt á milli sín við þriggja ára aldur. Löggjöfin hvetur því feður til töku fæðingarorlofs og til aukinnar þátttöku í umönnun barna sinna. Þetta á einnig við um pólska feður búsetta á Íslandi, þrátt fyrir ríkjandi viðhorf í Póllandi um að börn skuli njóta umönnunar móður fyrstu æviárin. Mikilvægi
óframseljanlegs orlofs birtist einnig í niðurstöðum sem sýna að því lengra orlof sem nýtt er af feðrum, því minni tíma verja þeir í vinnu utan heimilis og því meiri er þátttaka þeirra í umönnun barna sinna
þegar barnið verður eldra. Með efnahagskreppunni haustið 2008 varð þó ákveðið bakslag, þar sem það dró úr orlofstöku feðra og á sama tíma lengdist sá tími sem mæður voru heima með börn sín. Þá sýna niðurstöður að bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla veldur ójöfnuði sem ekki fyrirfinnst í Svíþjóð, þar sem börn eiga lögvarin rétt á leikskóla að loknu fæðingarorlofi. Á Íslandi kemur það oftar í hlut mæðra en feðra að brúa þetta bil.

Föstudaginn 6. nóvember ver Ásdís Aðalbjörg Arnalds doktorsritgerð sína í félagsráðgjöf.

Doktorsvörn í félagsráðgjöf - Ásdís Aðalbjörg Arnalds