Jarðeðlisfræði
Jarðeðlisfræði
BS gráða – 180 einingar
Ísland hefur þá sérstöðu að vera eini staðurinn á jarðkringlunni þar sem virkur úthafshryggur er ofansjávar og liggur jafnframt ofan á möttulstrók sem á mikinn þátt í að lyfta landinu upp úr sjávardjúpinu, eina 3000 metra.
Landið veitir því einstakt tækifæri til þess að kanna þessi jarðfræðilegu fyrirbæri á aðgengilegan og hagkvæman hátt og því sækir hingað jarðvísindafólk alls staðar að úr heiminum.
Skipulag náms
- Haust
- Eðlisfræði 1 R
- Verkleg eðlisfræði 1 R
- Innri öfl jarðar
- Línuleg algebra
- Stærðfræðigreining IB
- Stærðfræðigreining IAB
- Vinnustofa fyrir nýnema í jarðvísindumV
- Vor
- Eðlisfræði 2 R
- Verkleg eðlisfræði 2 R
- Ytri öfl jarðar
- Almenn jarðeðlisfræði
- Stærðfræðigreining IIB
- Stærðfræðigreining IIAB
Eðlisfræði 1 R (EÐL107G)
Nemendum eru kynntar aðferðir og grundvallarlögmál aflfræði, bylgjufræði og varmafræði til þeirrar hlítar að þeir geti beitt þeim við lausn dæma.
Námsefni: Hugtök, einingar, tölur, víddir. Vigrar. Gangfræði. Hreyfifræði agna, tregða, kraftar og lögmál Newtons. Núningur. Vinna og orka og varðveisla orkunnar. Skriðþungi, árekstrar. Agnakerfi, massamiðja. Snúningur stjarfhlutar. Hverfiþungi og hverfitregða. Stöðufræði. Þyngd. Storka og straumefni, jafna Bernoullis. Sveiflur: Hreinar, deyfðar og þvingaðar. Bylgjur. Hljóð. Hitastig. Kjörgas. Varmi og fyrsta lögmál varmafræðinnar. Kvikfræði gasa. Óreiða og annað lögmál varmafræðinnar.
Athugið að kennslubókin fyrir námskeiðið er aðgengileg nemendum í gegnum Canvas án endurgjalds.
Verkleg eðlisfræði 1 R (EÐL108G)
Gerðar eru 4 verklegar æfingar, þar sem áhersla er lögð á að kynna nemendum verklag við gagnasöfnun og gagnavinnslu. Viðfangsefnin eru einkum sótt í aflfræði, og þurfa nemendur að skila vinnubókum fyrir allar æfingarnar og einni lokaskýrslu, sem er meira í stíl vísindatímaritsgreinar.
Innri öfl jarðar (JAR101G)
Meginmarkmið námskeiðsins er að kynna nemendum kenningar varðandi myndun alheimsins, þróun hans og stöðu, tilurð sólkerfisins og jarðarinnar. Áhersla er á framvindu jarðfræðilegra ferla í tíma og rúmi. Myndun, rek og eyðingu meginlanda. Leitast er við að efla skiling nemenda á ferlum innrænnra afla og að þeir geti tjáð sig um þessi jarðfræðilegu ferli með hugtökum jarðfræðinnar, bæði á íslensku og ensku.
Helstu umfjöllunarefni námskeiðsins eru: Grunnnatriði í kenningu um uppruna alheimsins, vetrarbrauta, sólkerfa allt til þess tíma þegar sólkerfi okkar og jörðin mynduðust. Megindrættir innri gerðar jarðarinnar þar sem áhersla er lögð á lagskiptingu hennar og eiginleika hinna einstöku laga. Fjallað er um fyrstu tilgátur um landrek og þróun þeirra sem líkur með því að plötukenningin kemur fram og áhersla lögð á að skýra hvers vegna og hvernig innbyrðis afstaða platnanna og þar með meginlandanna er sífellt að breytast. Farið er yfir meginatriði í gerð steinda, berggerða og myndbreytingar. Eldvirkni er gerð skil, orsakir hennar,útbreiðslu og hættur með sérstöku tilliti til Íslands. Leitast er við að útskýra orsakir jarðskjálfta og útbreiðslu þeirra, mismunandi gerðir og hegðun jarðskjálftabylgna og hvernig hægt er að nýta sér þá þekkingu t.a.m. til að staðsetja og meta stærð jarðskjálfta. Fjallað er um byggingarlag jarðskorpunnar, misgengi, fellingar og fjallamyndun og þau öfl sem að baki búa. Áhersla er lögð á helstu drætti í byggingarlagi berggrunns Íslands og hvernig það verður til. Einnig er fjallað um tímatal og aldursákvarðanir og jarðsögutöflu, þ.e.a.s. skipan jarðlaga í tíma og rúmi. Auk almennrar umfjöllunar um efni námskeiðsins er leitast við og sérstök áhersla lögð á gerð og stöðu Íslands í jarðfræðilegu og jarðsögulegu tilliti.
Framkvæmd námskeiðsins: Námskeiðið er 7,5 ECTS og er hlutur fyrirlestra og æfinga jafn, 4f og 4æ á viku. Í stundatöflu námskeiðsins eru 6 viðverutímar, 4 fyrir fyrirlestra og 2 fyrir æfingar. Æfingahlutinn fer fram í kennslustofu og í nágrenni Háskólans og að hluta til er hann framkvæmdur í námsferðum (20-30 tímar). Námsferðirnar haust 2023 verða farnar fimmtudagana 24.ágúst, 7. september, og 14. september að öllu óbreyttu. Þetta eru heilsdagsferðir.
Um það bil vikulega glíma nemendur við rafrænpróf tengd einstökum köflum kennslubókarinnar. Tilgangur prófanna er að laða stúdentana til þess að lesa kennslubókina jafnóðum og farið er yfir efni hennar og líka til þess að þjálfa þá í notkun hugtaka jarðfræðinnar á erlendri tungu.
Námsferðir.Námsferðir eru mikilvægur partur af námi í jarðvísindum. Í þessu námskeiði eru þær skylda. Námsferðir er liður í að ná ákveðinni hæfni sem ekki er hægt að tileinka sér í kennslustofu eða fjarnámi.Námsferðirnar í JAR101G eru þrjár-fjórar; í Hvalfjörð, Reykjanes, Þingvelli-Nesjavelli og Höfuðborgarsvæðið.
Námsmat: Lokaeinkunn í námskeiðinu er samanlagður árangur í æfingum á Canvas vef námskeiðsins (25%), fyrir skýrslur (feltbók) (25%) og í skriflegu lokaprófi (50%).
Línuleg algebra (STÆ107G)
Einingar til BS-prófs gilda aðeins fyrir annaðhvort REI201G Stærðfræði og reiknifræði eða STÆ107G Línuleg algebra.
Fjallað er um undirstöðuatriði línulegar algebru yfir rauntölurnar.
Viðfangsefni: Línuleg jöfnuhneppi,fylkjareikningur, Gauss-Jordan aðferð. Vigurrúm og hlutrúm þeirra. Línulega óháð hlutmengi, grunnar og vídd. Línulegar varpanir, myndrúm og kjarni. Depilfargfeldið, lengd og horn. Rúmmál í margvíðu hnitarúmi og krossfeldi í þrívíðu. Flatneskjur, stikaframsetning og fólgin framsetning. Hornrétt ofanvörp og einingaréttir grunnar. Aðferð Grams og Schmidts. Ákveður og andhverfur fylkja. Eigingildi, eiginvigrar og hornalínugerningur.
Stærðfræðigreining I (STÆ104G, STÆ101G)
Þetta er grunnnámskeið um stærðfræðigreiningu í einni breytistærð. Æskilegur undirbúningur er að nemendur hafi lokið námskeiðum á framhaldsskólastigi sem fjalla um algebru, rúmfræði, hornaföll, diffrun og heildun. Námskeiðið leggur grunn að skilningi á greinum á borð við náttúrufræði, verkfræði, hagfræði og tölvunarfræði. Umfjöllunarefni námskeiðsins eru meðal annars:
- Rauntölur.
- Markgildi og samfelld föll.
- Deildanleg föll, reglur um afleiður, hærri afleiður, hagnýtingar deildareiknings (útgildisverkefni, línuleg nálgun).
- Torræð föll.
- Meðalgildissetning, setningar l'Hôpitals og Taylors.
- Heildun, ákveðin heildi og reiknireglur fyrir þau, stofnföll, óeiginleg heildi.
- Undirstöðusetning stærðfræðigreiningarinnar.
- Hagnýtingar heildareiknings: Bogalengd, flatarmál, rúmmál, þungamiðjur.
- Venjulegar afleiðujöfnur: fyrsta stigs línulegar diffurjöfnur, annars stigs línulegar diffurjöfnur með fastastuðlum.
- Runur og raðir, samleitnipróf.
- Veldaraðir, Taylor-raðir.
Stærðfræðigreining IA (STÆ104G, STÆ101G)
Talnakerfin. Rauntölur og hugtökin efra mark og neðra mark, tvinntölur. Mengi náttúrulegra talna og þrepasannanir. Föll og varpanir. Runur og runumarkgildi. Raðir. Samleitnipróf og skilorðsbundin samleitni raðar. Markgildi og samfelld föll. Helstu eiginleikar samfelldra falla. Hornaföll. Diffrun. Helstu reglur um diffrun. Útgildi. Meðalgildissetningin. Nálgun diffranlegra falla með margliðum. Tegrun. Tengsl tegrunar og diffrunar. Ýmis algeng föll. Ýmsar aðferðir til að reikna út stofnföll. Veldaraðir. Fyrsta stigs diffurjöfnur. Tvinngild föll og annars stigs diffurjöfnur.
Vinnustofa fyrir nýnema í jarðvísindum (JAR045G)
Aðstoðartímar í ýmsum námskeiðum fyrir nemendur í jarðvísindum
Eðlisfræði 2 R (EÐL206G)
Markmið: Að kynna nemendum aðferðir og grundvallarlögmál rafsegulfræði og ljósfræði. Námsefni: Hleðsla og rafsvið. Lögmál Gauss. Rafmætti. Þéttar og rafsvarar. Rafstraumur, viðnám, rafrásir. Segulsvið. Lögmál Ampères og Faradays. Span. Rafsveiflur og riðstraumur. Jöfnur Maxwells. Rafsegulbylgjur. Endurkast og ljósbrot. Linsur og speglar. Bylgjuljósfræði.
Verkleg eðlisfræði 2 R (EÐL207G)
Gerðar eru fjórar 4 tíma tilraunir og tvær 3ja tíma, í ljósfræði og almennri rafsegulfræði. Nemendur skila vinnubókum fyrir allar tilraunir og einni formlegri lokaskýrslu um eina 4 tíma tilraun.
Ytri öfl jarðar (JAR202G)
Áhersla er á ferli útrænna afla, þ.e. þau ferli sem sem liggja að baki myndunnar einstakra landforma og landslagsheilda á þurrlendi Jarðar og hvernig þessi form breytast (þroskast) og eyðast í tíma og rúmi. Lögð áhersla á að nemendur geti tjáð sig um þessi jarðfræðilegu ferli með hugtökum jarðfræðinnar, bæði á íslensku og ensku.
Helstu umfjöllunarefni námskeiðsins eru: Grunnatriði í setlagafræði með aðaláherslu á breytingar á kornastærð og kornastærðadreifingu bergmols, og áferð og lögun korna við flutning þeirra t.a.m. með rennandi vatni, jöklum og vindi. Vatnshringrás jarðar gegnir veigamiklu hlutverki við mótun þurrlendis jarðarinnar, jafnt við veðrun, flutning bergmols og upphleðslu þess. Rennandi vatn er veigamesta ferlið við mótun þurrlendis jarðar, bæði hvað varðar rof og flutning bergmols. Á ströndum jarðar, mörkum láðs og lagar eiga sér stað átök sem valda því að strendur þurrlendisins taka sífelldum breytingum, hröðum og hægum. Fjallað er um hvaða þættir eru helst ráðandi um þróun stranda. Fjallað er um grunnvatn, þátt þess í mótun lands, mikilvægi þess við öflun neysluvatns og hvernig komast má hjá því að spilla þessari mikilvægu auðlind. Hringrás lofthjúps jarðarinnar ræður miklu um dreifingu úrkomu á jörðinni, legu og útbreiðslu þurra og gróðurlítilla svæða. Fjallað er um helstu rof- og setmyndunarferli og landmótun þeirra hérlendis. Einnig er fjallað um helstu ástæður jöklamyndunar og breytilegrar stærðar þeirra með áherslu á jöklunarsögu síðasta jökulskeiðs ísaldar. Einnig er fjallað um ólífrænar og lífrænar auðlindir jarðar, myndun þeirra og útbreiðslu, vinnslu þeirra og notkun, förgun, endurnýjun og endurnýtingu. Áhersla er lögð á að tengja fræðilegan hluta námskeiðsins við Ísland með því að fjalla jöfnum höndum um sambærileg fyrirbæri hérlendis.
Kennslusýn/Teaching statement
Til þess að ná góðum árangri í námskeiðinu þurfa nemendur að taka virkan þátt í fyrirlestrum og verkefnavinnu. Nemendur öðlast þekkingu í fyrirlestrum og við lestur námsefnis, en nauðsynlegt er að gera verkefni og taka þátt í námsferðum til að auka skilning á hugtökum og þjálfa aðferðir. Kennarar munu gera hugtök og efni námskeiðs aðgengilegt en ætlast er til þess að nemendur læri sjálfstætt og spyrji spurninga ef eitthvað er óljóst eða óskýrt. Kennarar leggja áherslu á að nemendur taki þátt í kennslukönnunum til þess að bregðast við ef eitthvað þarf að bæta. Farið verður yfir miðmisseriskönnun með nemendum að henni lokinni.
Kennslufyrirkomulag: Námskeiðið er 7,5 ECTS og spannar 14 vikur. Námsefni er kynnt í fyrirlestrum, völdu lesaefni, og 5 daga námsferð um suðurland og Vestmannaeyjar. Um það bil vikulega glíma nemendur við rafrænpróf tengd einstökum köflum kennslubókarinnar.
Megintilgangur námsferðar er að koma nemendumí beina snertingu við þau ferli og landform sem fjallað hefur verið um á vettvangi námskeiðsins um veturinn. Námsferðin er farin strax að loknum vorprófum, námsferðin er skylda. Nemendur að greiða fyrir fæði í ferðinni.
Námsmat: Námsmatið er þríþætt og verður að ljúka öllum þáttum með 5 í einkunn að lágmarki til að standast námskeiðið.
- Rafrænkaflapróf : 25%
- Feltbók úr námsferð um Suðurland 15%
- Skriflegt lokapróf 60%
Almenn jarðeðlisfræði (JEÐ201G)
Námskeiðið er inngangur að jarðeðlisfræði hinnar föstu jarðar. Fjallað er um byggingu jarðar, lögun hennar og snúning, þyngdarsvið og þyngdarmælingar, flóðkrafta, segulsvið, segulsviðsmælingar og bergsegulmagn, jarðskjálfta, jarðskjálftamælingar og jarðskjálftabylgjur, bylgjubrots- og endurkastsmælingar auk varmaleiðni og hita í iðrum jarðar. Rannsóknir í jarðeðlisfræði á Íslandi verða kynntar.
Verklegar æfingar fara fram innan og utanhúss á formi vikulegra dæmatíma og þjálfunar í notkun jarðeðlisfræðilegra mælitækja. Nemendur skrifa einnig ritgerð um valið efni í jarðeðlisfræði.
Stærðfræðigreining II (STÆ205G, STÆ207G)
Í námskeiðinu er fengist við stærðfræðigreiningu falla af mörgum breytistærðum. Helstu hugtök sem koma vip sögu eru:
Opin mengi og lokuð. Varpanir, markgildi og samfelldni. Deildanlegar varpanir, hlutafleiður og keðjuregla. Jacobi-fylki. Stiglar og stefnuafleiður. Blandaðar hlutafleiður. Ferlar. Vigursvið og streymi. Sívalningshnit og kúluhnit. Taylor-margliður. Útgildi og flokkun stöðupunkta. Skilyrt útgildi. Fólgin föll og staðbundnar andhverfur. Ferilheildi, stofnföll. Heildun falla af tveimur breytistærðum. Óeiginleg heildi. Setning Greens. Einfaldlega samanhangandi svæði. Breytuskipti í tvöföldu heildi. Margföld heildi. Breytuskipti í margföldu heildi. Heildun á flötum. Flatarheildi vigursviðs. Setningar Stokes og Gauss.
Stærðfræðigreining IIA (STÆ205G, STÆ207G)
Áhersla er lögð á fræðilega hlið efnisins. Stefnt er að því að nemendur öðlist skilning á grundvallarhugtökum og kunni að beita þeim, bæði í fræðilegu samhengi og í útreikningi. Opin mengi og lokuð. Varpanir, markgildi og samfelldni. Deildanlegar varpanir, hlutafleiður og keðjuregla. Jacobi-fylki. Stiglar og stefnuafleiður. Blandaðar hlutafleiður. Ferlar. Vigursvið og streymi. Sívalningshnit og kúluhnit. Taylor-margliður. Útgildi og flokkun stöðupunkta. Skilyrt útgildi. Fólgin föll og staðbundnar andhverfur. Ferilheildi og mætti vigursviða. Heildun falla af mörgum breytistærðum. Óeiginleg heildi. Setning Greens. Einfaldlega samanhangandi svæði. Breytuskipti í margföldu heildi. Heildun á flötum. Flatarheildi vigursviðs. Setningar Stokes og Gauss.
- Haust
- Jarðeðlisfræðileg könnun B
- Inngangur að skammtafræði
- Aflfræði
- Stærðfræðigreining III
- Tölvunarfræði 1a
- Varmafræði og inngangur að safneðlisfræðiB
- Varmafræði og efnahvörfB
- Vor
- Eðlisfræði rafrása og mælitækni
- Rafsegulfræði 1
- Eðlisfræði lofthjúps jarðar
- Stærðfræðigreining IV
Jarðeðlisfræðileg könnun B (JEÐ507M)
Námskeiðið er ætlað nemendum sem hafa tekið fyrsta námskeið í jarðeðlisfræði og þekkja til helstu jarðeðlisfræðilegra mælinga og hagnýtingar þeirra. Námskeiðið skiptist í tvo hluta:
- a) Fjögurra til fimm daga mælingar í upphafi haustmisseris. Margvíslegum jarðeðlisfræðilegum aðferðum beitt til að kanna jarðlagaskipan á tilteknu svæði.
- b) Farið yfir aðferðir jarðeðlisfræðilegrar könnunar og hagnýtingu þeirra við rannsóknir á jarðlögum, orkulindum og jarðefnum, fræðilegan grunn, aðferðafræði mælinga, meðferð gagna og úrvinnslu. Aðferðir sem teknar eru fyrir: Bylgjubrots- og endurkastsmælingar, þyngdar- og segulmælingar, viðnáms- og jarðleiðnimælingar, borholumælingar. Í námskeiðinu eru dæma- og reikniæfingar þar sem m.a. verður unnið niðurstöðum úr mæliferðinni auk þess sem nemendur skrifa skýrslu um mælingarnar og niðurstöður þeirra, í samræmi við hæfniviðmið.
Inngangur að skammtafræði (EÐL306G)
Í þessu námskeiði er fjallað um undirstöðuatriði skammtafræðinnar.
Aðdragandi skammtafræðinnar, jafna Schrödingers, líkindatúlkun bylgjufallsins, stöðlun, skriðþungi og óvissulögmál, sístæð ástönd, einvíð skammtakerfi. Jafna Schrödingers í kúluhnitum, vetnisfrumeindin, hverfiþungi og spuni. Einsetulögmál Paulis. Útgeislun og ísog, sjálfgeislun.
Aflfræði (EÐL302G)
Markmið: Að kynna nemendum hugtök og aðferðir aflfræðigreiningar, sem beitt er í ýmsum greinum verkfræði og eðlisfræði.
Námsefni: Aflfræði Newtons, línulegar sveiflur, deyfðar og þvingaðar sveiflur. Ólínulegar sveiflur og ringl (chaos). Þyngdarsvið, þyngdarmætti og sjávarfallakraftar. Hnikareikningur, regla Hamiltons, jöfnur Lagrange og Hamiltons, alhnit og skorður. Miðlæg svið, brautir reikistjarna, stöðugleiki hringbrauta. Árekstrar massaagna í viðmiðunarkerfum vinnustofu og massamiðju. Tregðukerfi og önnur viðmiðunarkerfi hreyfingar, gervikraftar. Aflfræði stjarfra hluta, tregðufylki, höfuðásar hverfitregðu, horn Eulers, jöfnur Eulers um áhrif vægis á snúning hlutar, snúðhreyfing og stöðugleiki hennar. Tengdar sveiflur, eigintíðni og eiginhnit sveiflukerfa.
Stærðfræðigreining III (STÆ302G)
Í námskeiðinu er fjallað undistöðuatriði um tvö svið stærðfræðigreiningar, tvinnfallagreiningu og afleiðujöfnur, með áherslu á hagnýtingu og útreikninga á lausnum.
Viðfangsefni: Tvinntölur og varpanir á svæðum í tvinntalnasléttunni. Föll af einni tvinnbreytistærð. Fáguð föll. Veldisvísisfallið, lograr, rætur og horn. Cauchy-setningin og Cauchy-formúlan. Samleitni í jöfnum mæli. Veldaraðir. Laurent-raðir. Leifareikningur. Hagnýtingar á tvinnfallagreiningu í straumfræði. Venjulegar afleiðujöfnur og afleiðujöfnuhneppi. Línulegar afleiðujöfnur með fastastuðlum. Ýmsar aðferðir til að reikna út sérlausnir. Green-föll fyrir upphafsgildisverkefni. Línuleg afleiðujöfnuhneppi. Veldisvísisfylkið. Veldaraðalausnir og aðferð Frobeniusar. Laplace-ummyndun og notkun hennar við lausn á afleiðujöfnum. Leifaformúlur fyrir Fourier-myndir og andhverfar Laplace-myndir.
Tölvunarfræði 1a (TÖL105G)
Einingar til BS-prófs gilda aðeins fyrir annaðhvort TÖL101G Tölvunarfræði 1 eða TÖL105G Tölvunarfræði 1a.
Forritun í Python (sniðið að verkfræðilegum og raunvísindalegum útreikningum): Helstu skipanir og setningar (útreikningur, stýri-setningar, innlestur og útskrift), skilgreining og inning falla, gagnatög (tölur, fylki, strengir, rökgildi, færslur), aðgerðir og innbyggð föll, vigur- og fylkjareikningur, skráavinnsla, tölfræðileg úrvinnsla, myndvinnsla. Hlutbundin forritun: klasar, hlutir, smiðir og aðferðir. Hugtök tengd hönnun og smíði tölvukerfa: Forritunarumhverfi, vinnubrögð við forritun, gerð falla- og undirforritasafna og tilheyrandi skjölun, villuleit og prófun forrita.
Varmafræði og inngangur að safneðlisfræði (EFN307G)
Grunnhugtök og stærðfræðilegar aðferðir í varmafræði, lögmál varmafræðinnar, varmafræðileg mætti, Maxwell vensl, jafnvægi, fasabreytingar, tölfræðileg varmafræði, kjörgas og raungas sameinda, eðlisvarmi, slembigangur og sveim, Bose og Fermi kjörgös.
Allt skriflegt efni er á ensku. Námskeiðið er kennt í 14 vikur.
Varmafræði og efnahvörf (VÉL303G)
Markmið: Að nemendur öðlist grunnþekkingu á varmafræði og skilning á helstu hugtökum hennar. Einnig að nemendur kunni skil á mismunandi formum orku, hvort sem er í orkuflutningi eða umbreytingu úr einu formi í annað og að nemendur kunni skil á ferlum í útreikningi á efnahvörfum og orkuummyndun tengdum þeim.
Námsefni:
- Grunnhugtök og stærðfræðiaðferðir í varmafræði.
- Núllta lögmál varmafræðinnar.
- Vinna, varmi og fyrsta lögmál varmafræðinnar.
- Kjörgas, raungas, ástandsjöfnur og ástandsmyndir.
- Óreiða og annað lögmál varmafræðinnar.
- Óreiða og hámarksvinna.
- Kynning á vinnuhringjum (Otto, Diesel, Brayton, Stirling og gufuvinnuhringjum), kælivélum og varmadælum.
- Varmafræðileg mætti, Maxwell-vensl.
- Varma- og hraðafræði efnahvarfa.
- Jafnvægisskilyrði.
- Efnajafnvægi: sýru-basa, fellingar-, komplex- og afoxunar.
- Efnablöndur, efnahvörf og efnalausnir.
- Sjálfgeng efnahvörf, óreiða og fríorka – jafna van t' Hoff
- Þriðja lögmál varmafræðinnar.
Eðlisfræði rafrása og mælitækni (EÐL203G)
Markmið: Að kenna nemendum eiginleika, aðferðir og verklausnir í rafeindatækni og mælitækni og þjálfun í vinnubrögðum og aðferðum sem gagnast við framkvæmd mælinga í rannsóknum og gagnaöflun.
Námsefni: Farið er í ýmis undirstöðuatriði í rafeindatækni og eðlisfræði rafrása og mælitækni. Meðal annars eru skoðaðir eiginleikar jafnstraums- og riðspennurása, díóða og transistora. Farið er í virkni aðgerðamagnara og afturverkunar og rökrásir og eiginleikar stafrænna rása skoðaðir. Fjallað er um stafræna mælitækni, mögnun og síun. Alls eru gerðar 12 verklegar æfingar um eiginleika rafrása þar sem nemendur færa niðurstöður æfinga í dagbók án skýrslugerðar. Nemendur vinna verkefni í þróun örtölvustýrðra skynjararása ásamt hugbúnaði. 5 heimadæmi eru lögð fyrir á misserinu og prófað er skriflega úr efninu í lok námskeiðsins.
Rafsegulfræði 1 (EÐL401G)
Rafstöðufræði. Jöfnur Laplace og Poissons. Segulstöðufræði. Span. Jöfnur Maxwells. Orka rafsegulsviðs. Setning Poyntings. Rafsegulbylgjur. Sléttar bylgjur í einangrandi og leiðandi efni. Endurkast og brot bylgna. Útgeislun. Dreifing. Dofnun.
Eðlisfræði lofthjúps jarðar (EÐL401M)
Námskeiðið er að jafnaði kennt annað hvert ár, þegar ár er oddatala.
Námsefni:
Varmafræði, kraftar og hreyfingar í andrúmsloftinu. Stöðugleiki loftmassa, úrkomumyndun og skýjafræði. Stór og smá veðrakerfi. Úrkomu-, vinda- og hitafar. Veðurfarssveiflur. Veður- og veðurfarsspár. Víxlverkun andrúmslofts og yfirborðs jarðar. Nemendur vinna með veðurgögn og kanna samhengi breytistærða og breytileika veðurs í tíma og/eða rúmi.
Stærðfræðigreining IV (STÆ401G)
Markmið: Að kynna fyrir nemendum Fourier-greiningu og hlutafleiðujöfnur og hagnýtingu á þeim.
Lýsing: Fourier-raðir og þverstöðluð fallakerfi, jaðargildisverkefni fyrir venjulega afleiðuvirkja, eigingildisverkefni fyrir Sturm-Liouville-virkja, Fourier-ummyndun, bylgjujafnan, varmaleiðnijafnan og Laplace-jafnan leystar á ýmsum svæðum í einni, tveimur og þremur víddum með aðferðum úr fyrri hluta námskeiðsins, aðskilnaður breytistærða, grunnlausn, Green-föll, speglunaraðferðin.
- Haust
- Inngangur að skammtafræði
- Aflfræði og varmaflutningur í samfelldum efnum
- Vor
- Eðlisfræði lofthjúps jarðar
- Almenn haffræði 1
- BS-verkefni í jarðeðlisfræði
Inngangur að skammtafræði (EÐL306G)
Í þessu námskeiði er fjallað um undirstöðuatriði skammtafræðinnar.
Aðdragandi skammtafræðinnar, jafna Schrödingers, líkindatúlkun bylgjufallsins, stöðlun, skriðþungi og óvissulögmál, sístæð ástönd, einvíð skammtakerfi. Jafna Schrödingers í kúluhnitum, vetnisfrumeindin, hverfiþungi og spuni. Einsetulögmál Paulis. Útgeislun og ísog, sjálfgeislun.
Aflfræði og varmaflutningur í samfelldum efnum (JEÐ503M)
Markmið: Að kynna aflfræði samfelldra efna, vökvaaflfræði og varmaflutning og beitingu fræðanna á vandamál í eðlisfræði og jarðeðlisfræði. I. Spenna og aflögun, spennusvið, spennutensor, sveiging platna, efniseiginleikar, líkön: Fjaðrandi efni, seigt efni, plastískt efni.- II. Seigir vökvar, lagstreymi, iðustreymi, samfellujafna, jafna Navier-Stokes.- III. Varmaflutningur: Varmaleiðing, hræring vatns, varmaburður og jarðhiti. Dæmi tekin úr ýmsum greinum eðlisfræði, einkum jarðeðlisfræði.
Kennslusýn: Til að standa sig vel í námskeiðinu þurfa nemendur að taka virkan þátt í umræðum, mæta í fyrirlestra, halda sjálf nemendafyrirlestra og skila verkefnum sem sett eru fyrir. Nemendur öðlast þekkingu í fyrirlestrunum en það er nauðsynlegt að gera verkefnin til að skilja og þjálfa notkun hugtakanna. Verkefnin eru samþættuð textanum í kennslubókinni og því er ráðlagt að gera æfingarnar þegar textinn er lesinn. Kennari munu reyna að gera hugtök og tungutak aðgengilegt, en það er ætlast til að nemendur læri sjálfstætt og spyrji spurninga ef eitthvað er óljóst eða óskýrt. Til að bæta námskeiðið og innihald þess er óskað eftir að nemendur taki þátt í kennslukönnunum, bæði miðmisseriskönnun og í lok annar.
Eðlisfræði lofthjúps jarðar (EÐL401M)
Námskeiðið er að jafnaði kennt annað hvert ár, þegar ár er oddatala.
Námsefni:
Varmafræði, kraftar og hreyfingar í andrúmsloftinu. Stöðugleiki loftmassa, úrkomumyndun og skýjafræði. Stór og smá veðrakerfi. Úrkomu-, vinda- og hitafar. Veðurfarssveiflur. Veður- og veðurfarsspár. Víxlverkun andrúmslofts og yfirborðs jarðar. Nemendur vinna með veðurgögn og kanna samhengi breytistærða og breytileika veðurs í tíma og/eða rúmi.
Almenn haffræði 1 (JAR414M)
Markmið námskeiðs er að nemendur öðlist yfirsýn á undirstöðum almennrar haffræði, gerð hafsbotns, eðlis- og efna- og lífefnafræði sjávar. Ennfremur hvernig samspil þessara þátta mótar aðstæðurnar í höfunum. Viðfangsefnið er skipting lands og sjávar, heimshöfin, stærð og landfræðileg einkenni, botnlögun. Tæki og aðferðir í hafrannsóknum. Eðliseiginleikar sjávar, selta. Ljós og hljóð í hafinu. Breytingar eiginleika vegna sveims og strauma. Orkubúskapur og vatnshagur. Dreifing sjávarhita og seltu, sjógerðir og hita-seltuhringrásin. Ágrip af stöðu- og hreyfifræði hafsins. Efnafræði sjávar: Jarðefnafræðileg hringrás, aðalefni, snefilefni og uppleystar lofttegundir í sjó. Næringarsölt í sjó og tengsl þeirra við kolefni og súrefni. Áhrif eðlis- og efnafræðilegra eiginleika á frjósemi hafsvæða. Hafið við Ísland.
Verklegar æfingar ná yfir dæmaæfingar, skýringar dæma, úrvinnslu og túlkun haffræðilegra gagna og heimsókn í Hafrannsóknarstofnun og í rannsóknaskip.
BS-verkefni í jarðeðlisfræði (JEÐ231L)
Námskeiðið er unnið með leiðsögn kennara.
Upplýsingar um skil á verkefni
Skil eru í maí fyrir júníbrautskráningu
Skil eru í september fyrir októberbrautskráningu
Skil eru í janúar fyrir febrúarbrautskráningu
Í upphafi misseris koma nemandi og leiðbeinandi sér upp tímalínu um skil á verkefni
Skil á fullbúnu verkefni til leiðbeinanda/umsjónarkennara er 10. maí/ september/ janúar
Skil nemanda inn á Skemmu eru í síðasta lagi 30. maí/ september/ janúar og senda þarf staðfestingu um samþykkt skil á nemvon@hi.is
Einkunn frá leiðbeinanda á að hafa borist skrifstofu í síðasta lagi 30. maí/ september/ janúar
- Haust
- Jarðeðlisfræðileg könnun AV
- Þróun jarðar 1V
- Umhverfi á kvarter tímabiliV
- TektóníkV
- JarðhitiV
- Rafeindatækni fastra efnaV
- Aflfræði veðursV
- Setlagafræði og setbergV
- GrunnvatnsfræðiV
- EldfjallafræðiV
- MerkjafræðiV
- StraumfræðiV
- JarðskjálftafræðiVE
- Vor
- Námsferð til útlandaVE
- VatnafræðiV
- Þróun jarðar 2V
- Myndbreyting, ummyndun og veðrunV
- SteindafræðiV
- Stærðfræðileg eðlisfræðiVE
- Bergfræði 2V
- Rafeindatækni 1V
- Líkindareikningur og tölfræðiV
- Töluleg greiningV
Jarðeðlisfræðileg könnun A (JEÐ506M)
Námskeiðið er ætlað nemendum sem ekki hafa tekið fyrsta námskeið í jarðeðlisfræði en vilja kynnast jarðeðlisfræðilegum mælingum og hagnýtingu þeirra. Námskeiðið skiptist í tvo hluta:
- a) Fjögurra til fimm daga mælingar í upphafi haustmisseris. Margvíslegum jarðeðlisfræðilegum aðferðum beitt til að kanna jarðlagaskipan á tilteknu svæði.
b) Kynning á undirstöðum þeirra aðferða sem notaðar eru við jarðeðlisfræðilega könnun. Farið yfir aðferðir og hagnýtingu þeirra við rannsóknir á jarðlögum, orkulindum og jarðefnum, fræðilegan grunn, aðferðafræði mælinga, meðferð gagna og úrvinnslu. Aðferðir sem teknar eru fyrir: Bylgjubrots- og endurkastsmælingar, þyngdar- og segulmælingar, viðnáms- og jarðleiðnimælingar og borholumælingar. Í námskeiðinu eru dæma- og reikniæfingar þar sem m.a. verður unnið niðurstöðum úr mæliferðinni auk þess sem nemendur skrifa skýrslu um mælingarnar og niðurstöður þeirra í samræmi við hæfniviðmið námskeiðsins.
Þróun jarðar 1 (JAR314G)
Markmið námskeiðsins er að auka skilning á jarðsögu frá upphafsöld til miðlífsaldar, sem og uppruna lífs og þróun þess á jörðinni.
Helstu umfjöllunarefni eru myndunar- og þróunarsaga jarðar frá upphafsöld til loka miðlífsaldar. Myndun jarðar, jarðskorpu, úthafa og lofthjúps. Undirstöðuatriði jarðlagafræði, tímatal í jarðsögu, myndun meginlandsfleka, flekahreyfingar, myndunarsaga troga og fellingafjalla, jöklunar- og loftslagssaga, þróun og saga lífsins. Vitnisburður steingervinga um þróun lífs á jörðinni, umhverfisþróun og aldauðaviðburðir. Jarðsögulega athyglisverð landsvæði, svo sem Miklagjá (Grand Canyon), Norðursjávarsvæðið og Svalbarði verða kynnt sérstaklega í fyrirlestrum.
Framkvæmd námskeiðsins: Meginefni námskeiðsins er kynnt í fyrirlestrum. Verklegur þáttur námskeiðsins er þríþættur: Skriflegar æfingar sem tengjast efni lesefnis og fyrirlestra undangenginnar viku, ritgerðir og erindi. Nemendur velja jarðsöguleg viðfangsefni, skrifa um það ritgerð og halda 10-12 mínútna erindi sem kynnir efni ritgerðar.
Umhverfi á kvarter tímabili (JAR516M)
Fjallað er um helstu umhverfis- og loftslagsbreytingar sem átt hafa sér stað á kvartertímabilinu, helstu orsakir breytinga og svörun. Sérstök áhersla er lögð á umhverfis- og loftslagsbreytingar á Íslandi og Norður Atlantshafssvæðinu á tímabilinu. Fjallað er um einkenni kvarter tímabilsins og jarðfræðilegan vitnisburð loftslagsbreytinga á tímabilinu, breytingar á braut jarðar og áhrif á veðurfar, aldursgreiningar, vitnisburð loftslagsbreytinga á landi og í sjó, eldvirkni og umhverfisbreytingar og sögu jöklabreytinga á jörðu. Námsmat: Lokaverkefni 35%, verkefni unnin á misserinu 30%, erindi 15%, heimapróf 20%. Hluti lokaverkefnis er leit að heimildum sem nýtast í verkefninu og erindi tengdu því.
Tektóník (JEÐ301G)
Strúktúrjarðfræði og jarðskorpuhreyfingar í heiminum, með sérstakri áherslu á hreyfingar á Íslandi. Rúmfræði jarðfræðilegra strúktúra, bæði flata og lína.
Æfingar í notkun hvolfvörpunar. Frumstrúktúrar og vefta í bergi. Hnígandi aflögun, fellingar og fellingamyndun. Flekakenningin, afstæðar og algildar flekahreyfingar, líkanreikningar. Fjaðrandi hegðun bergs í jarðskorpunni og möttli jarðar. Brotahreyfingar í stökkri jarðskorpu, sprungur og misgengi. Flekaskil og aflögun umhverfis þau, fráreksbelti, hjáreksbelti. Jarðskjálftar og misgengishreyfingar, brotlausnir skjálfta. Mælingar á jarðskorpuhreyfingum, GPS-landmælingar, InSAR-mælingar, hæðar- og hallamælingar.
Rannsóknarverkefni, sprungur á virku sprungusvæði eru kortlagðar.
Fyrirlestrar og umræður eru tvisvar í viku, dæma- og verkefnatímar einu sinni í viku. Nemendur skila úrlausnum verkefna í stuttum skýrslum. Unnið er rannsóknarverkefni þar sem nemendur fara út í tvo daga og kortleggja sprungur og sprungutengd fyrirbrigði með GPS-tækjum og skila skýrslu um það.
Síðustu 10 vikur námskeiðsins eru fyrirlestrar sameiginlegir með námskeiðinu Current Crustal Movements.
Jarðhiti (JAR508M)
Jarðhitakerfi og uppbygging þeirra, orkubúskapur jarðar, hita-/orkuflutningur til yfirborðs jarðar. Uppruni og efnafræði jarðhitavökva, efnaskipti bergs og vökva, borholumælingar, endurnýjun jarðhitakerfa, aðferðir í jarðhitaleit, forðamat, nýting jarðhita og umhverfisáhrif hennar. Námskeiði er kennt á 7 vikna tímabili í upphafi haustmisseris. Það samanstendur af fyrirlestrum, verklegum æfingum, nemendafyrirlesturm, nemendaveggspjöldum, ritgerð og prófum. Námskeiðið er kennt á ensku.
Rafeindatækni fastra efna (EÐL301G)
Undirstöðuatriði almennrar skammtafræði og safneðlisfræði. Gerð atómsins. Atómkraftar og uppbygging efnisins. Borðalíkanið. Rafeiginleikar málma og hálfleiðara. Ljóseiginleikar hálfleiðara. Samskeyti hálfleiðara. P-N Tvistar og Schottky-tvistar. Rafsviðssmárar (FET) og nórar (BJT). CMOS. Ljóstvistar, sólarhlöð og hálfleiðaraleisar.
Aflfræði veðurs (EÐL515M)
Fjallað verður um jöfnur þær sem liggja til grundvallar ástandi og breytingum í lofthjúpnum og þeim beitt til að lýsa stórum og smáum veðrakerfum, þrýstivindi, hvirfilvindi, sólfarsvindi, vindbreytingum með hæð við jörðu og í háloftum, uppstreymi og úrkomu. Þyngdarbylgjur og Rossby-bylgjur. Nærþrýstivindakerfi, iðujafna, lóðstreymisjafna og þrýstispájafna. Nærþrýstivindakerfi við fjöll.
Setlagafræði og setberg (JAR308G)
Fjallað er um grunneiginleika sets og setbergs, setásýndir, ásýndafylki og umhverfislíkön í setlagafræði með tilvísun til íslensks sets. Almenn umfjöllun um eiginleika setlaga og umhverfin fer fram í fyrirlestratímum. Nemendum er ætlað að taka fyrir ákveðnar tímaritsgreinar sem koma inn á einkenni hvers setmyndunarumhverfis og gera grein fyrir þeim í stuttum fyrirlestrum. Lögð er áhersla á bein tengsl milli fyrirlestra og æfingatíma.
Æfingar byggja á vettvangsferðum í nágrenni Reykjavíkur, þar sem nemendur eru látnir vinna að lýsingu, mælingu og túlkun á setlögum. Markmiðið er að nemendur kynnist aðferðum við ásýndargreiningu og túlkun setmyndunarumhverfa.
Grunnvatnsfræði (JEÐ502M)
Sjö vikna námskeið (kennt fyrri 7 vikur haustmisseris). Námskeiðið verður kennt ef þátttaka er nægileg. Námskeiðið kann að verða kennt sem lesnámskeið
Grunnvatn í jörðu, vatn í jarðvegi, gerðir og eiginleikar vatnsleiðara (poruhluti, heldni, gæfni, forðastuðlar, opnir, lokaðir og lekir vatnsleiðarar, einsleitir vatnsleiðarar, stefnuóháð og stefnuháð lekt). Eiginleikar grunnvatnsflæðis, lögmál Darcy, grunnvatnsmætti, lektarstuðull, vatnsleiðni, innri lekt. Lektarstuðull í bæði einsleitum og stefnuháðum vatnsleiðurum, straumlínur og straumlínunet, stöðugt og óstöðugt flæði um opna, lokaða og leka vatnsleiðara. Almennar flæðijöfnur grunnvatns. Grunnvatnsflæði að borholum, niðurdáttur, dæluprófanir, eiginleikar vatnsleiðara út frá dæluprófunum, nýting grunnvatnsborholna, ferskvatnslinsur og jarðsjór, flutningur efna með grunnvatni, gæði grunnvatns, mengun. Dæmi um grunnvatn og nýtingu þess á Íslandi, reiknilíkön af grunnvatnsflæði. Nemendur vinna þverfaglegt verkefni um grunnvatn og nýtingu þess.
Eldfjallafræði (JAR514M)
Eldgos eru eitt þeirra meginferla sem skapar og mótar svipmót jarðar. Eldgos geta leitt af sér hamfarir og valdið verulegu tjóni á mannvirkjum. Kvikugösin sem rísa upp frá eldspúandi gígunum viðhalda andrúmslofti jarðar, sem og hafa veruleg áhrif á eiginleika andrúmsloftsins og loftstrauma þess. Kvikuvirkni neðanjarðar, og í sumum tilfellum eldvirknin ofan jarðar, hefur myndað beint eða óbeint stóran hluta að þeim málmum sem við nemum úr jörðu. Þannig að fyrirbærið eldgos hefur bein og óbein áhrif á mannkynið sem og tengsl við margar af undirgreinum jarðvísindanna. Af þeim sökum er grunnskilningur á því hvernig eldfjöll og eldstöðvakerfi virka og framlag eldvirkninar til hringrásaferla jarðar góð undirstaða fyrir alla nemendur í jarðvísindum.
Í þessu námskeiði verður farið í grunnatriði eldfjallafræðinnar; ferðalag kviku upptakastað til yfirborðs og almenn ferli sem stjórna eldvirkni á yfirborði og dreifingu gosefna. Fjallað verður líka um grunnatriði eldgosavár og hnattrænna áhrifa eldgosa.
Verklegar æfingar eru vikulega og beinast að því að leysa vandamál með útreikningum, greiningu gagna og rökstuðningi. Ein vettvangsferð á Reykjanes.
Merkjafræði (RAF503G)
Markmið námskeiðsins er að leggja grunn að hönnun stafrænna sía. Helstu atriði: Stakræn, endanleg stakræn og hröð Fourier vörpun. Byggingarform stakrænna sía. Afturleitnar síur (IIR), framleitnar síur (FIR), áhrif endanlegrar orðlengdar í stafrænum síum. Síun hvikulla merkja og greining eiginleika þeirra byggt á Fourier-greiningu. Lotubundin stakræn merkjafræði.
Straumfræði (VÉL502G)
Markmið:
1. Að kynna helstu hugtök straumfræðinnar og koma nemendum í skilning um hvernig stærðfræði er beitt við flókin viðfangsefni og hvernig hægt er að fá nálgunarlausnir með einföldun án þess að tapa miklu í nákvæmni.
2. Að gera nemendur færa um að beita straumfræðinni til þess að reikna mótstöðu hluta og þrýstifall í pípum.
3. Að þjálfa þá í að beita mæliaðferðum í straumfræði.
4. Að beita þverfaglegri þekkingu á helstu sviðum vélaverkfræðinnar.
Námsefni m.a.: Eiginleikar kvikefna (vökva og lofttegunda). Þrýstingur og kraftasvið í kyrrstæðum vökvum, þrýstingsmælar. Rennslisfræði, samfellujafna, skriðþunga- og orkujafna. Hreyfijafna Bernoullis. Víddargreining og líkanlögmál. Tvívítt streymi, seigjulausir vökvar, jaðarlög, lag- og iðustreymi, vökvamótstaða og formviðnám. Streymi þjappanlegra vökva, hljóðhraði, Mach tala, hljóðbylgjur, lögun túðu fyrir yfirhljóðhraða. Rennsli í opnum og lokuðum farvegum. Dæmaæfingar og verklegar tilraunir.
Jarðskjálftafræði (JEÐ505M)
Spennu- og aflögunarþinir, öldulíkingar fyrir P-og S-bylgjur. Rúmbylgjur og leiddar bylgjur. Helstu jarðskjálftabylgjur: P-, S-, Rayleigh- og Love-bylgjur. Frjálsar sveiflur jarðar. Gerð og eiginleikar jarðskjálftamæla. Upptök jarðskjálfta: Brotlausn, vægi, stærð, orka, tíðniróf, áhrif. Dýpi jarðskjálfta, dreifing þeirra um jörðina og samband við jarðfræði. Jarðskjálftabylgjur og innri gerð jarðarinnar.
Námskeiðið er ýmist kennt með hefðbundnum hætti (fyrirlestrar, heimadæmi, verkefni) eða sem lesnámskeið þar sem nemendur kynna sér efnið og gera því skil skriflega og í umræðutímum.
Námsferð til útlanda (JAR615G)
Jarðfræði Íslands markast öðru fremur af því að landið er jarðfræðilega mjög ungt (<16 milljón ár), og liggur um flekaskil (rekbelti) sem fer saman við heitan reit. Ísland markast því öðru fremur af eldvirkni í tímans rás, þar sem eldgos (um fram allt basisk gos) hafa hlaðið upp jarðlagastaflann. Þetta er mjög frábrugðið jarðfræði meginlandanna, sem markast af langri jarðsögu (hundruðir miljóna eða milljarðir ára), vitnisburði um endurtekna flekaárekstra, oft flókinni sögu jarðhniks, setmyndunar og rofs.
Námsferð til útlanda í 10 daga er farin til að kynnast jarðfræði og jarðsögu á völdum svæðum. Sótt verður til nágrannalanda Íslands, Danmerkur og Svíþjóðar, en þar má í lykilopnum kynnast langri og flókinni jarðsögu á tiltölulega takmörkuðum svæðum. Markmið námsferðatinnar er að nemendur kynnist jarðfræði og jarðsögu meginlandsskjaldar, með áherslu á að þeir læri að þekkja hinar ýmsu berggerðir sem algengar eru á meginlöndunum (svo sem granít og gnæs, kvartsít, kalkstein), ummerki flekaárekstra í formi fellingafjalla og stórfelldrar höggunar, og algenga leiðarsteingervinga. Verkefnum verður úthlutað og skýrslum skilað.
Nemendur bera allan kostnað við ferð og uppihald.
ATH: ferðin er á dagskrá með fyrirvara varðandi covid
Vatnafræði (UMV201G)
Vatnafræði er vísindaleg könnun á vatnsauðlindum jarðar. Nemendur verða kynntir fyrir eðlisfræðilegum og efnafræðilegum eiginleikum vatns og þeim ferlum sem stýra hvar vatnið er, dreifingu þess og hringrás, ásamt einkennum íslenskra vatnsauðlinda. Aðferðir og líkön sem notuð eru í vatnaverkfræði og hönnun eru kynnt og notuð til lausna verkefna.
Þróun jarðar 2 (JAR421G)
Saga lífs og jarðar á nýlífsöld, með áherslu á ferli sem hafa leitt til stórfelldra hnattrænna umhverfisbreytinga og haft áhrif á þróun lífs. Vitnisburður steingervinga um þróun, með áherslu á þróun spendýra og sérstaklega á þróun prímata og mannsins. Flekahreyfingar, með áherslu á opnun Norður Atlantshafs og myndun Alpa- og Himalayafjalla. Jarðsöguleg þróun Íslands og nágrannalandanna á tertíer og kvarter. Ísöld, síðjökultími og nútími. Jarðsaga áhugaverðra svæða utan Íslands.
Nemendur vinna að sjálfstæðum verkefnum sem tengjast námsefni og fyrirlestrum, og flytja erindi um valið efni.
Verklegt: Vikulegar skriflegar æfingar, erindi og ritgerðir nemenda um ýmis jarðsöguleg efni.
Í apríl er farin tveggja daga námsferð á Snæfellsnes eða tvær dagsferðir á Reykjanes og Vesturland.
Markmiðið er að auka skilning nemenda á þeim ferlum sem hafa stýrt þróun lands og lífs á nýlífsöld og auka skilning þeirra á stórum rannsóknarspurningum sem varða jarðsögu nýlífsaldar. Þá fá þeir þjálfun í að vinna með rannsóknarspurningar, greina niðurstöður og túlka bæði í formi fyrirlestra og ritgerða.
Myndbreyting, ummyndun og veðrun (JAR625M)
Fyrirlestrar fjalla um grunnatriði og fasarit, myndbreytingahamir, hita- og þrýstimæla, myndbreytingu storkubergs, myndbreytingu setbergs, myndbreytingarumhverfin. Flokkun, vefta og steindasamsetning myndbreytts storkubergs, vefta og steindasamsetning myndbreytts setbergs, fjölstiga myndbreyting.
Æfingar: Greining bergs í handsýnum og smásjá. Meðferð og túlkun efnagreininga.
Ferð til að skoða borkjarna frá jarðhitasvæði.
Steindafræði (JAR211G)
Inngangur að kristallafræði og steindafræði. Fyrirlestrar fjalla um fjögur megin svið: 1) kristallafræði; 2) ljósfræði kristalla; 3) kristalefnafræði; 4) kerfisbundna steindafræði þar sem nemendur læra um efnasamsetningu og eðliseiginleika helstu bergmyndandi steinda.
Í verklegum æfingum verða notaðar kristalgrindur, kristallíkön og bergfræðismásjár og steindir verða greindar í handsýnum.
Nemendur eiga þess kost að vinna að hópverkefnum og kynna hóparnir niðurstöður verkefnanna í lok námskeiðsins.
Stærðfræðileg eðlisfræði (EÐL612M)
Markmið: Að kynna stærðfræðilegar aðferðir sem nytsamar eru í eðlisfræði og veita þjálfun í beitingu þeirra. Námsefni: Hljóðbylgjur í vökvum og lofttegundum. Spennutensor og þenslutensor, almennar hreyfingarjöfnur fyrir samfellt efni. Jarðskjálftabylgjur. Jöfnur Maxwells og rafsegulbylgjur. Flatar bylgjur, skautun, endurkast og brot. Dreififöll og Fourier-greining. Grunnlausnir og Green-föll hlutafleiðujafna. Bylgjur í einsleitum efnum. Lögmál Huygens og setning Leifs Ásgeirssonar. Tvístur (dispersion. Fasahraði og grúpuhraði. Jöfnur Kramers og Kronigs. Aðferð hins stöðuga fasa. Bylgjur á yfirborði vökva.
Bergfræði 2 (JAR603M)
Í þessu námskeiði mun nemandinn fræðast um uppruna, myndun og þróun kviku á jörðinni. Sérstök áhersla verður lögð á að auka skilning á því hvernig kvika breytist við tilfærslu og viðstöðu í skorpunni.
Fyrirlestrar munu taka fyrir eðlis- og efnafræði kviku ásamt mikilvægustu fasabreytingum sem kvika verður fyrir við flutning upp í gegnum skorpuna.
Í verklegum tímum verður farið í eðlis- og efnafræðilegar aðferðir sem notaðar eru við að meta uppruna kviku og þróun. Í því felst m.a. fasajafnvægi, efnavarmafræði, útreikningar á þrýstingi og hitastigi, og líkanreikningar á hlutbráðnun og hlutkristöllun. Sérstök áhersla er lögð á túlkun gagna og skilning á óvissu í gögnum.
Námskeiðið stendur í 7 vikur á fyrri hluta vormisseris (vikur 1-7) og samanstendur af 3 fyrirlestrum og 4 verklegum tímum í hverri viku.
Rafeindatækni 1 (RAF403G)
Almennir eiginleikar magnara, tíðnisvörun og Bode gröf. Aðgerðamagnarar og algengar gerðir rása sem byggja á þeim, mismunaháttar- og samháttarmerki, skekkjur í aðgerðamögnurum. Díóður og líkön þeirra, brotspenna og zener virkni díóða, afriðlar, klippirásir og klemmurásir með díóðum. Grunnvirkni tvískeyttra nóra (BJT) og feta (MOSFET), upprifjun úr eðlisfræði hálfleiðara, tengsl straums og spennu, stórmerkislíkön. Grunngerðir transistormagnara, smámerkisgreining, reglun DC vinnupunkts með afturvirkni, algengar magnararásir.
Líkindareikningur og tölfræði (STÆ203G)
Grundvallarhugtök í líkindafræði og tölfræði, stærðfræðileg undirstaða þeirra og beiting með tölfræðihugbúnaðinum R.
- Líkindi, slembistærðir og væntigildi þeirra
- Mikilvægar líkindadreifingar
- Úrtök, lýsistærðir og úrtaksdreifing lýsistærða
- Metlar og öryggisbil
- Hugmyndafræði tilgátuprófa
- Mikilvæg tilgátupróf
- Línuleg aðhvarfsgreining
Töluleg greining (STÆ405G)
Einingar til BS-prófs gilda aðeins fyrir annaðhvort REI201G Stærðfræði og reiknifræði eða STÆ405G Töluleg greining.
Undirstöðuhugtök um nálgun og skekkjumat. Lausn línulegra og ólínulegra jöfnuhneppa. PLU-þáttun. Margliðubrúun, splæsibrúun og aðhvarfsgreining. Töluleg nálgun afleiða og heilda. Útgiskun. Töluleg lausn upphafshafsgildisverkefna fyrir venjuleg afleiðujöfnuhneppi. Fjölskrefaaðferðir. Töluleg lausn jaðargildisverkefna fyrir venjulegar afleiðujöfnur.
Gefin er einkunn fyrir skriflegar úrlausnir á forritunarverkefnum og vegur hún 30% af heildareinkunn. Stúdent verður að hafa lágmarkseinkunn 5 bæði fyrir verkefni og lokapróf.
Hafðu samband
Nemendaþjónusta VoN
s. 525 4466 - nemvon@hi.is
Opið virka daga frá 09:00-15:30
Einnig er hægt að hafa samband í gegnum netspjall hér á síðunni (í samræmi við þjónustutíma)
Tæknigarður - Dunhaga 5, 107 Reykjavík
Askja - Sturlugata 7, 102 Reykjavík
Fylgstu með Verkfræði- og náttúruvísindasviði:
Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.