Fjölmiðlafræði - Aukagrein
Fjölmiðlafræði
Aukagrein – 60 einingar
Nemendur fá góðan grunn í sígildri fjölmiðlafræði auk þess sem rík áhersla er lögð á hvernig greinin hefur verið að þróast undanfarin ár. Fjölmiðlafræðin er einkar „lifandi“ grein þar sem rannsóknarefnið hefur tekið ótrúlegum stakkaskiptum, einkum með tilkomu samfélagsmiðlanna, sem farið er sérstaklega í.
Skipulag náms
- Haust
- Almenn félagsfræði
- Fjölmiðlafræði (Inngangur að fjölmiðlafræði)
- Suðupottur fræðanna: Efst á baugi í kynjafræðumB
- Stjórnmál í fjölmiðlum: Fréttir, samfélagsmiðlar og markaðssetningB
- Falsfréttir, upplýsingaóreiða og stjórnmálBE
- Félagsfræði dægurmenningar: Kvikmyndir, tónlist og annað afþreyingarefniB
- AfbrotafræðiV
- Karlar og karlmennskaV
- Líkaminn og kynverundin: Frelsi og fjötrarVE
- Vor
- Aðferðafræði: Rannsóknaraðferðir félagsvísinda
- Samfélags- og nýmiðlar
- Ójöfnuður: Efnahagur, kyn og minnihlutahóparB
- Fjölmiðlarannsóknir: Álita- og ágreiningsmálB
- Ójöfnuður: Efnahagur, kyn og minnihlutahóparV
- Tækni og samfélag: Frelsi og fjötrar upplýsingasamfélagsinsVE
- GeðheilsufélagsfræðiVE
- Fjöldahreyfingar: Andóf, mótmæli og byltingarVE
Almenn félagsfræði (FÉL102G)
Fjallað er um hið félagsfræðilega sjónarhorn; helstu kenningar og beitingu þeirra á viðfangsefni í fortíð og samtíma. Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist yfirsýn um þekkingu helstu viðfangsefnum félagsfræðinnar. Áhersla er lögð á að tengja saman kenningar og niðurstöður rannsókna. Auk umfjöllunar um klassískar kenningar, nútímavæðingu og um miðlæg hugtök á borð við félagsgerð (social structure) og menningu (culture), kynnast nemendur rannsóknum á veigamiklum viðfangsefnum, t.d. lagskiptingu, fjöldahreyfingum, skipulagsheildum, hnattvæðingu, frávikum og sjúkdómum, kynjafræði, börnum og unglingum, innflytjendamálum og lífshlaupinu.
Fjölmiðlafræði (Inngangur að fjölmiðlafræði) (FÉL323G)
Markmið námskeiðsins er að veita nemendum þekkingu á félagsfræðilegum grundvelli fjölmiðla og þætti þeirra í samheldni flókinna þjóðfélaga. Yfirlit verður veitt um sögu boðskipta frá fyrstu prentuðum blöðum til stafrænnar miðlunar og áhersla lögð á að veita nemendum innsýn í samspil fjölmiðla við samfélagið og einstaklingana sem það skipa. Fjallað verður um helstu kenningar og niðurstöður innlendra og erlendra rannsókna á notkun og áhrifamætti fjölmiðla og er eignarhald, sjálfstæði fjölmiðla- og blaðamanna og fréttaframleiðsla á meðal þess sem er skoðað auk þess sem sígildar kenningar um dagskrár- og innrömmunaráhrif, siðafár, áróður, orðræðu og ímyndasköpun koma við sögu.
Suðupottur fræðanna: Efst á baugi í kynjafræðum (KYN304G)
Nemendur kynnast nýjum rannsóknum á fræðasviðinu, fá innsýn í þá breidd sem kynjafræðileg viðfangsefni endurspegla og skilji mikilvægi fræðilegrar umræðu innan kynjafræða.
Námskeiðið byggist á verkefnavinnu í tengslum við ráðstefnur, málþing, málstofur, fyrirlestra og valda viðburði á sviði jafnréttis- og kynjafræða innan og utan Háskóla Íslands í eitt misseri.
Stjórnmál í fjölmiðlum: Fréttir, samfélagsmiðlar og markaðssetning (STJ360G)
Námskeiðið fjallar um hvernig upplýsingar um stjórnmál dreifast í gegnum fjölmiðla og hvernig þessi upplýsingamiðlun hefur áhrif á skilning okkar á stjórnmálum í dag. Námskeiðið blandar saman kenningum og rannsóknum úr fjölmiðlafræði, stjórnmálafræði og blaða- og fréttamennsku. Nemendur læra meðal annars um stafræn stjórnmál og samskipti, samfélagsmiðlanotkun stjórnmálafólks og stjórnmálaflokka, krísu hefðbundinna stjórnmála og fjölmiðla í lýðræðisríkjum, hvernig fréttir um stjórnmál verða til, pólitíska markaðssetningu og kosningabaráttur og stjórnmál sem skemmtiefni. Í tengslum við þessi viðfangsefni fræðast nemendur til dæmis um rannsóknir sem snúa að hvernig stríðsátök birtast okkur á samfélagsmiðlum, fjölmiðlaumfjöllun í tengslum við þjóðaratkvæðagreiðsluna um Brexit, hvernig Donald Trump hefur beitt samfélagsmiðlum í samskiptum sínum við umheiminn, fjölmiðlaumfjöllun um COVID-19 og nýlegum dæmum frá íslenskum stjórnmálum. Þar sem efni námskeiðsins tengist málefnum líðandi stundar eru nemendur hvattir til að fylgjast vel með fréttum um stjórnmál í fjölbreyttum miðlum.
Falsfréttir, upplýsingaóreiða og stjórnmál (STJ355G)
Í námskeiðinu verður kastljósinu beint að upplýsingaóreiðu og falsfréttum í tengslum við umræðu um stjórnmál. Fjallað verður um mismunandi skilgreiningar á hugtakinu falsfrétt og það rætt í sögulegu samhengi. Skoðuð verða möguleg áhrif og afleiðingar falsfrétta og einnig hvernig hugtakinu er beitt í pólitískri baráttu.
Fjallað verður um hvernig röngum og misvísandi upplýsingum er dreift og sérstaklega skoðaður þáttur samfélagsmiðla í dreifingunni. Þá verður farið í hverjir dreifa falsfréttum og í hvaða tilgangi. Einnig verður fjallað um hvernig stjórnvöld á Vesturlöndum hafa brugðist við auknu umfangi falsfrétta og tilraunum utanaðkomandi aðila til að hafa áhrif á lýðræðislega umræðu og kosningar.
Þá verður vikið að því breytta fjölmiðlaumhverfi sem stjórnmálamenn búa við, þar sem upplýsingar dreifast á ógnarhraða og tími til umhugsunar og viðbragða því oft lítill. Einnig hafa skilin milli einkalífs og opinbers lífs orðið óljósari og fréttir af því sem stjórnmálamenn segja og/gera geta náð til mjög margra á örskömmum tíma.
Félagsfræði dægurmenningar: Kvikmyndir, tónlist og annað afþreyingarefni (FÉL328G)
Að nota hið félagsfræðilega sjónarhorn á dægurmenningu getur hjálpað til við að skilja og skýra hina ýmsu þætti félagsgerðar, félagslegra samskipta og athafna sem og félagslegra breytinga. Í námskeiðinu verður farið í greiningu á afþreyingarefni eins og kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og dægurtónlist með það að markmiði að nemendur fái þjálfun í því að beita sjónarhorni félagsfræðinnar og félagsfræðilegum kenningum á mismunandi félagslegar kringumstæður.
Afbrotafræði (FÉL309G)
Í námskeiðinu verður afbrotafræðin og helstu viðfangsefni hennar kynnt. Í grófum dráttum skiptist námskeiðið í tvennt. Í fyrri hlutanum verður farið í helstu kenningar og rannsóknir til að varpa ljósi á eðli afbrota og samfélagslegra viðbragða við þeim. Í þessu skyni verður klassísk og pósitívísk afbrotafræði skoðuð. Sérstök áhersla verður lögð á ýmsar félagsfræðilegar kenningar og rannsóknir á afbrotum, s.s. framlag formgerðarhyggju, samskiptaskólans og átakakenninga. Í síðari hluta námskeiðsins verða fjórar tegundir afbrota teknar fyrir (ofbeldisglæpir, kynferðisbrot, fíkniefnabrot og viðskiptaglæpir) og þær metnar í ljósi kenninga úr fyrri hluta og opinberrar stefnumörkunar í þessum málaflokkum.
Karlar og karlmennska (FÉL209G)
Markmið námskeiðsins er að kynna nemendum helstu áherslur þeirra sem rannsaka karla sem samfélagslegt kyn (gender). Gerð verður grein fyrir þeim þremur meginaðferðum sem beitt hefur verið við karlarannsóknir á þessari öld; sálgreiningu, félagssálfræði (kyn"hlutverk") og nýrri þróun í félagsvísindum sem leggur áherslu á "sköpun" eða "byggingu" karlmennsku. Fjallað verður um mismunandi gerðir karlmennsku og hvernig tilurð þeirra, niðurrif og uppbygging tengist öðrum formgerðum samfélagsins. Þáttur karla í uppeldis- og umönnunarstörfum innan og utan heimilis verður skoðaður og fjallað um íslenska rannsókn um karlmennsku og fjölskyldutengsl.
Líkaminn og kynverundin: Frelsi og fjötrar (FÉL326G)
Í námskeiðinu verður sjónum beint að nokkrum þáttum kynverundar (sexualities), breytingum og þróun frá upphafi 20. aldar og íslensk þróun sérstaklega skoðuð. Við fjöllum um rannsóknir sem gerðar hafa verið á kynverund og kynhegðun allt frá bók Richard von Krafft-Ebing, Psychopathia Sexualis (1886) og til nýlegra rannsókna í nágrannalöndum okkar. Sérstaklega verður litið til breytinga á stöðu sam- og tvíkynhneigðra og fjallað um BDSM-fólk og blæti ýmiskonar. Kynlíf sem verslunarvara verður skoðað, allt frá auglýsingum og íþróttum til kláms og vændis. Áhrif trúarbragða, menntakerfis, fjölskyldna og vinnustaða á kynlíf og kynlífshegðun fær umfjöllun, sem og barneignir og kynferðisleg heilsa. Loks verður fjallað um kynferðislegt ofbeldi, nauðganir, þvinganir og áreitni ýmiss konar og þá þróun síðustu ára að krafa kvenna um kynjajafnrétti hefur í æ ríkari mæli beinst að stöðu líkama þeirra eins og sjá má í hreyfingum á borð við #freethenipple og #metoo.
Námsmat verður í formi verkefnis / ritgerðar og skriflegs lokaprófs.
Aðferðafræði: Rannsóknaraðferðir félagsvísinda (FÉL204G)
Markmið námskeiðsins er að nemendur kunni skil á undirstöðuatriðum í aðferðafræði félagsvísinda og geti gert grein fyrir helstu rannsóknaraðferðum. Fjallað verður um helstu þætti rannsóknarferlisins og grundvallaratriði aðferðafræðinnar. Þá er veitt yfirlit um helstu rannsóknaraðferðir félagsvísinda, þ.á m. tilraunir, spurningalistakannanir, athuganir á skráðum gögnum, innihaldsgreiningu, viðtalsrannsóknir og þátttökuathuganir. Rætt verður um styrkleika og takmarkanir mismunandi aðferða með hliðsjón af fjölbreytilegum markmiðum félagsvísindarannsókna.
Samfélags- og nýmiðlar (FÉL443G)
Námskeiðið er helgað hinum svofelldu samfélagsmiðlum (Facebook, Twitter, Snapchat o.s.frv) sem hafa á umliðnum árum, og það á fremur stuttu tímabili, markað djúp spor í sögu fjölmiðla og á margan hátt breytt eðli og eigindum fjölmiðlunar (og margir vilja líta svo á þessi fyrirbæri séu ekki eiginlegir fjölmiðlar). Sérstaklega verður litið til þeirra rullu sem þessir gagnvirku samfélagsmiðlar spila í nútímanum, bæði á makróstigi (stofnanir, eignarhald) og míkróstigi (samskipti einstaklinga og hópa). Áhrif þessara miðla á daglegt líf; samskipti, menningarneyslu, pólitík o.fl eru óumdeild og litið verður til nýjustu rannsókna á þessu sviði.
Ójöfnuður: Efnahagur, kyn og minnihlutahópar (FÉL264G)
Ójöfnuður hefur löngum verið eitt meginhugtak félagsfræðinnar, enda hefur hún mikið fjallað um hvernig gæðum í samfélaginu er skipt og með hvaða afleiðingum. Lengi var talið að Ísland væri tiltölulega jafnt samfélag, en endurskoðun á fortíðinni hefur leitt í ljós að ójöfnuður hefur verið meiri en við höfum viljað viðurkenna í gegnum tíðina. Það sem er kannski mikilvægara er að efnahagslegur ójöfnuður hefur verið breytilegur til lengri tíma og frá tíunda áratugnum til allra síðustu ára hafa orðið miklar sveiflur í skiptingu tekna, eigna og fjárhagsþrenginga. Félagsfræðin hefur víða nálgun á birtingarform ójafnaðar í samfélaginu, til dæmis út frá kyni, aldri, þjóðerni, kynþætti og kynhneigð.
Í þessu námskeiði munum við skoða helstu kenningar og rannsóknir félagsfræðinnar um ójöfnuð og setja þær í íslenskt samhengi. Við munum velta fyrir okkur hvers konar ójöfnuður er til staðar í samfélaginu og hvort ákveðnar tegundir ójöfnuðar eigi eftir að skipta meira máli í framtíðinni, meðal annars út frá breytingum í samfélagsumhverfinu og í samsetningu mannfjöldans. Að auki munum við skoða afleiðingar ójöfnuðar á líf einstaklinga, til dæmis varðandi heilsu þeirra, völd, afkomu og þátttöku í samfélaginu.
Fjölmiðlarannsóknir: Álita- og ágreiningsmál (FÉL441G)
Um er að ræða námskeið þar sem nemendum gefst færi á að stíga úr stólnum og prufa sig áfram með rannsóknir/verkefni gagnvart því sem það hefur lært í haustnámskeiðunum. Um símatsnámskeið er að ræða, nokkurs konar tilraunastofu, þar sem nemendur leysa verkefni í hópum undir handleiðslu kennara í bland við lestur um sígildar og nýlegar fjölmiðlafræðirannsóknir.
Lagt er upp með virkni nemenda og samstarfskunnáttu, og verða verkefnin smá sem stór, sum með hefðbundnu formi en önnur lúta meira frjálsræði. Viðföngin verða fjölmiðlar í allri sinni dýrð, hvort heldur dagblöð, sjónvarp, samfélagsmiðlar eða hljómplötur. Hér er klifrað niður úr fílabeinsturninum og lagt af stað í skotgrafir raunheima.
Nemendur fá innsýn í það hvernig akademískar rannsóknir virka, eitthvað sem getur hjálpað upp á BA vinnu og er gaman og gott – og eiginlega nauðsynlegt - fyrir framtíðarfræðimenn.
Ójöfnuður: Efnahagur, kyn og minnihlutahópar (FÉL264G)
Ójöfnuður hefur löngum verið eitt meginhugtak félagsfræðinnar, enda hefur hún mikið fjallað um hvernig gæðum í samfélaginu er skipt og með hvaða afleiðingum. Lengi var talið að Ísland væri tiltölulega jafnt samfélag, en endurskoðun á fortíðinni hefur leitt í ljós að ójöfnuður hefur verið meiri en við höfum viljað viðurkenna í gegnum tíðina. Það sem er kannski mikilvægara er að efnahagslegur ójöfnuður hefur verið breytilegur til lengri tíma og frá tíunda áratugnum til allra síðustu ára hafa orðið miklar sveiflur í skiptingu tekna, eigna og fjárhagsþrenginga. Félagsfræðin hefur víða nálgun á birtingarform ójafnaðar í samfélaginu, til dæmis út frá kyni, aldri, þjóðerni, kynþætti og kynhneigð.
Í þessu námskeiði munum við skoða helstu kenningar og rannsóknir félagsfræðinnar um ójöfnuð og setja þær í íslenskt samhengi. Við munum velta fyrir okkur hvers konar ójöfnuður er til staðar í samfélaginu og hvort ákveðnar tegundir ójöfnuðar eigi eftir að skipta meira máli í framtíðinni, meðal annars út frá breytingum í samfélagsumhverfinu og í samsetningu mannfjöldans. Að auki munum við skoða afleiðingar ójöfnuðar á líf einstaklinga, til dæmis varðandi heilsu þeirra, völd, afkomu og þátttöku í samfélaginu.
Tækni og samfélag: Frelsi og fjötrar upplýsingasamfélagsins (FÉL263G)
Eftirlitsþjóðfélagið (surveillance society) og áhættuþjóðfélagið (risk society) eru hugtök sem verða æ meira áberandi í félagsfræði. Að auki er vaxandi áhugi á að skilja hvernig ný tækni hefur mótandi áhrif á þjóðfélagið, fyrirkomulag vinnu, samskipti fólks, félagsauð (social capital) og lagskiptingu samfélagsins (social sorting). Kenningar og skrif fræðimanna á borð við Manuel Castells, Bruno Latour, Ursula Huws, David Lyon, Juliet Webster, Kristie Ball og Kevin Haggerty verða kynntar til sögunnar. Hryðjuverkin 11. september 2001 mörkuðu ákveðin vatnaskil varðandi eftirlitsþjóðfélagið. Miklum fjármunum er nú varið í tækni sem hægt er að nota til að fylgjast með fólki í leik og í starfi og hugmyndir um meinta óvini ríkisins og ýmissa skipulagsheilda taka á sig nýjar myndir. Krafan um aukin afköst og harðari samkeppni milli fyrirtækja hefur leitt til þess að sams konar tækni er í æ ríkari mæli notuð til að fylgjast með starfsmönnum, afköstum þeirra og vinnuhegðun. Áhrifin á persónuvernd eru margbreytileg og benda bæði í átt til aukins frelsis og fjötra. Samspil fjölskyldu og atvinnulífs verður í óljósara, sem og mörkin á milli hins efnislega og hugræna. Rýmið hefur fengið nýja merkingu, sem og líkaminn. Þá hafa nýjar tegundir samfélagsmiðla og netsamfélaga einnig kallað fram ákveðið form eftirlits sem fræðunum er kallað social surveillance – eða félagslegt eftirlit.
Markmið námskeiðsins er að greina rannsóknir og kenningar um þau margvíslegu og mótsagnarkenndu áhrif sem upplýsinga- og tölvutæknin hefur á einstaklinga og samfélög. Nemendur kryfja valda texta sem fást við ofannefnda umræðu og kynna sér erlendar og innlendar rannsóknir á sviðinu.
Geðheilsufélagsfræði (FÉL439G)
Raktar eru félagslegar skýringar á geðrænum vandamálum og þeim beitt til að útskýra samsetningu og útbreiðslu geðrænna vandamála meðal aldurshópa, kynja, hjúskaparhópa og stétta. Fjallað er um aðstæður geðsjúkra og samskipti þeirra við fjölskyldumeðlimi og geðheilbrigðisstéttir. Munur á notkun geðheilbrigðisþjónustu milli kynja, hjúskaparhópa og stétta er rakinn og skýrður. Loks er greint frá skipan og árangri geðheilbrigðisþjónustunnar.
Fjöldahreyfingar: Andóf, mótmæli og byltingar (FÉL444G)
Eitt af viðfangsefnum félagsfræðinnar er að skoða tilurð, framgang og áhrif félagslegra hreyfinga (e. social movements). Félagslegar hreyfingar má skilgreina sem aðgerðir hópa sem leitast við að hafa áhrif á þróun samfélagsins eða afmörkuð svið þess, oft á grundvelli hugmynda um sameiginlega stöðu, hagsmuni eða lífsviðhorf. Um er að ræða samstarf og aðgerðir af margvíslegu tagi, allt frá staðbundnu grasrótarstarfi til starfsemi alþjóðlegra samtaka. Félagslegrar hreyfingar geta leitt til fjöldamótmæla og uppþota og jafnvel til borgarastríða og stjórnarfarsbyltinga. Í námskeiðinu er fjallað um kenningar og rannsóknir á þessu sviði og valin dæmi skoðuð. Til að mynda verður fjallað um sögulegar byltingar (t.d. frönsku byltinguna), stéttarfélög, kvennahreyfingar, trúarhreyfingar, friðarhreyfingar og umhverfisverndarsamtök. Sérstaklega verður fjallað um mótmælabylgjuna sem alþjóðlega bankakreppan leiddi af sér, þar á meðal „Búsáhaldabyltinguna” íslensku.
Hafðu samband
Nemenda- og kennsluþjónusta Félagsvísindasviðs er á
Þjónustutorgi í Gimli
s. 525 4500
Netfang: nemFVS@hi.is
Opið virka daga frá 09:00 - 15:00
Gimli - Sæmundargötu 10, 102 Reykjavík
Bóka viðtal við nemenda- og kennsluþjónustu Félagsvísindasviðs
Fylgstu með Félagsvísindasviði
Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.