Skip to main content

Horft í áhrif COVID-19 á ferðaþjónustu í Hornafirði

""

Fáar atvinnugreinar hér á landi hafa fundið meira fyrir áhrifum kórónuveirufaraldursins en ferðaþjónustan enda hefur veiran og viðbrögð þjóða við henni nánast stöðvað ferðalög fólks um heiminn. Höggið sem hlýst af þessu skyndilega áfalli reynist sveitarfélögum hér á landi misjafnlega þungt en óhætt er að segja að  íbúar og fyrirtæki á Höfn í Hornafirði hafi fundið mikið fyrir því. Þessir aðilar hafa verið miðdepill í rannsókn sem fræðimenn og nemendur við Háskóla Íslands hafa unnið í sumar og snýr að áhrifum COVID-19-faraldursins á ferðaþjónustu, samfélag og framtíðarsýn í sveitarfélaginu.

„Ferðaþjónusta hefur mikið vægi á Hornafirði, þar eru nú um 130 ferðaþjónustufyrirtæki, þar af 30 sem sérhæfa sig í afþreyingu. Flest þeirra eru fjölskyldufyrirtæki og ekki óalgengt að hjón starfi bæði hjá fyrirtækinu. Hrun ferðaþjónustunnar mun því ekki aðeins bitna á efnahag svæðisins heldur samfélaginu sem heild,“ segir Soffía Auður Birgisdóttir, fræðimaður við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Höfn í Hornafirði.

Að verkefninu koma auk hennar Arndís Lára Kolbrúnardóttir, verkefnastjóri á rannsóknasetrinu, Arndís Ósk Magnúsdóttir, laganemi við Háskóla Íslands, Hafdís Lára Sigurðardóttir, sem lauk BS-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands í vor, auk Þorvarðar Árnasonar, forstöðumanns rannsóknasetursins. „Sú alvarlega staða sem kom upp í sveitarfélaginu Hornafirði vegna COVID-19 er aðalkveikjan að verkefninu en einnig ríkur vilji rannsóknasetursins til að skapa sumarstörf fyrir háskólanema,“ segir Soffía enn fremur.

„Ferðaþjónusta hefur mikið vægi á Hornafirði, þar eru nú um 130 ferðaþjónustufyrirtæki, þar af 30 sem sérhæfa sig í afþreyingu. Flest þeirra eru fjölskyldufyrirtæki og ekki óalgengt að hjón starfi bæði hjá fyrirtækinu. Hrun ferðaþjónustunnar mun því ekki aðeins bitna á efnahag svæðisins heldur samfélaginu sem heild,“ segir Soffía Auður Birgisdóttir, fræðimaður við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Höfn í Hornafirði. MYND/Þorvarður Árnason

Erlent starfsfólk utan EES í verri stöðu

Stór hluti starfsmanna í ferðaþjónustunni á Hornafirði er af erlendu bergi brotinn og hafa sumir þeirra starfað í fjölda ára hjá sama fyrirtæki. Staða þeirra er mjög viðkvæm vegna tekjusamdráttar í greininni, að sögn Arndísar Óskar sem kannaði með viðtölum félagslegt umhverfi, vinnuskilyrði og lagalega stöðu hóps sem starfað hefur í veitingaþjónustu, afþreyingu og á gistiheimilum og hótelum. „Niðurstöður rannsóknarinnar leiða í ljós bæði mjög skert atvinnuöryggi og ekki síður veik félagsleg tengsl þeirra í heimabyggðinni. Það kom jafnframt fram áberandi munur á milli einstaklinga sem eiga uppruna innan og utan Evrópska efnahagssvæðisins en viðmælendur í síðarnefnda hópnum lýstu gjarnan neikvæðari upplifun þar sem þeir höfðu ekki notið atvinnuleysisbóta og höfðu ríkari áhyggjur af dvöl sinni í landinu,” segir Arndís Ósk.

Seinni hluti sumars fór fram úr björtustu vonum ferðaþjónustufólks

Hafdís Lára ræddi við 11 atvinnurekendur á svæðinu, bæði á sviði afþreyingar-, gisti- og veitingaþjónustu. „Flestir atvinnurekendur voru mjög svartsýnir þegar litið var til næstu mánaða. COVID-19 hefur komið einna harðast niður á litlum, fjölskyldureknum fyrirtækjum en eigendur stærri og burðugri fyrirtækja, með lengri starfstíma, töldu reksturinn sinn nokkuð öruggan,“ segir Hafdís en bætir við að seinni bylgjur faraldursins kunni að hafa breytt þeirri sýn. „Seinni hluti nýliðins sumars fór þó fram úr björtustu vonum atvinnurekenda og vonuðust þeir að ferðamenn héldu áfram að koma til landsins í haust. Viðmælendur í veitingarekstri nefndu enn fremur þann jákvæða þátt að faraldurinn hefði veitt þeim svigrúm til þess að verja meiri tíma með sínum nánustu,“ segir Hafdís.

Þær Hafdís Lára og Arndís Ósk munu kynna niðurstöður sínar á ráðstefnunni Þjóðarspeglinum sem fer fram í Háskóla Íslands í lok október og þá vinnur starfsfólk Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði einnig að skýrslu um verkefnið. Enn fremur stendur til að kynna niðurstöður þess fyrir heimamönnum á Höfn í Hornafirði á sérstöku málþingi nú í haust. 

Fáar sambærilegar rannsóknir verið gerðar

Soffía Auður segir niðurstöðurnar afar þýðingarmiklar. „Rannsóknin býr yfir verulegu nýsköpunargildi því fáar sambærilegar rannsóknir hafa áður verið unnar hérlendis á þessum sviðum. Samtenging verkefnanna í eina heild gefur þeim aukið vægi því þannig fæst heildarstæðari sýn á breytingarnar sem eru að eiga sér stað og hvernig fólk bregst við þessum nýju og áður óþekktu aðstæðum. Niðurstöðurnar eru áhugaverðar og sú yfirsýn sem fékkst t.a.m. yfir líðan, viðhorf og réttindi erlendra starfsmanna ferðaþjónustufyrirtækja á Hornafirði mun vafalaust koma mörgum óþægilega á óvart því víða reyndist pottur brotinn.“