Vald- og verkefnadreifing til sveitarstjórna ekki dæmigerð fyrir smáríki
Út er komin bókin „Sub-national governance in Small states: the case of Iceland“ eftir Evu Marín Hlynsdóttur, dósent í opinberri stjórnsýslu við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, á vegum hins virta forlags Palgrave Macmillan.
Í bókinni skoðar höfundur sveitarstjórnarstig í smáríkjum með sérstaka áherslu á íslenskar aðstæður. Dregnar eru saman upplýsingar um íslenska sveitarstjórnarstigið en um leið er áhersla lögð á að skoða ríki af sambærilegri stærð eða með á bilinu 100 þúsund til eina milljón íbúa. Markmiðið er að meta hvaða áhrif fámenni geti haft á möguleika smáríkja til að skipuleggja og dreifa verkefnum til lægri stjórnstiga. Höfundur skoðar þannig vald- og verkefnadreifingu til sveitarstjórnarstigsins í fámennum ríkjum út frá hugmyndum smáríkjafræða.
Meginniðurstöður, sem kynntar eru í bókinni, eru að sveitarfélög og sveitarstjórnarstigið í smáríkjum hafi almennt færri verkefni og kerfið sé miðstýrðara en í fjölmennari ríkjum. Hins vegar er Ísland þar skýr undantekning, hvort heldur sem horft er til verkefna- eða valddreifingar til sveitarstjórnarstigsins. Ísland getur því ekki talist dæmigert tilvik fyrir smáríki þar sem íbúafjöldi er innan við ein milljón.
Íslensk stjórnsýsla á aftur á móti meira sameiginlegt með hinum norrænu ríkjunum þegar kemur að valddreifingu niður á sveitarstjórnarstigið og þá svipar aðstæðum hér á landi frekar til aðstæðna í t.d. Eystrasaltslöndunum þegar stig verkefnadreifingar er metið, til að mynda í gegnum hlutfall sveitarstjórnarstigsins í útgjöldum hins opinbera. Þannig benda niðurstöður Evu Marínar til þess að sú stefna sem íslensk stjórnvöld hafa sett sér í málefnum sveitarstjórnarstigsins, þar sem áhersla er á aukna verkefna- og valddreifingu, sé mjög óvenjuleg í alþjóðlegu samhengi, ekki síst út frá stöðu Íslands sem fámenns smáríkis.