Skip to main content

Doktorsvörn í eðlisfræði - Lukas Schneiderbauer

Doktorsvörn í eðlisfræði - Lukas Schneiderbauer - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
25. september 2020 14:00 til 16:00
Hvar 

Veröld - Hús Vigdísar

Stofa 023

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Vörninni verður streymt á slóðinni https://www.youtube.com/user/HIvarp/live

Doktorsefni: Lukas Schneiderbauer

Heiti ritgerðar: Hálfskömmtuð heilmyndun fyrir svarthol (Semi-Classical Black Hole Holography)

Andmælendur: Dr. Veronika Hubeny, prófessor við eðlisfræðideild UC Davis í Kaliforníu, Bandaríkjunum
Dr. Mukund Rangamany, prófessor við eðlisfræðideild UC Davis í Kaliforníu, Bandaríkjunum

Leiðbeinandi: Dr. Lárus Thorlacius, prófessor við Raunvísindadeild Háskóla Íslands

Einnig í doktorsnefnd: Dr. Bo Sundborg, prófessor við eðlisfræðideild Stokkhólmsháskóla
Dr. Valentina Giangreco M. Puletti, prófessor við Raunvísindadeild Háskóla Íslands
Dr. Þórður Jónsson, prófessor við Raunvísindadeild Háskóla Íslands

Doktorsvörn stýrir: Dr. Einar Örn Sveinbjörnsson, prófessor og deildarforseti Raunvísindadeildar Háskóla Íslands

Ágrip

Í ritgerðinni er fjallað um tvo eiginleika svarthola.
Fyrst er skoðuð ný aðferð við að reikna flækjuóreiðu á milli svarthols og Hawking geislunarinnar sem það sendir frá sér. Þessir útreikningar gefa til kynna hvort skammtaupplýsingar tapist við uppgufun svartholsins eður ei. Ef gert er ráð fyrir að upplýsingarnar varðveitist fylgir flækjuóreiðan svonefndum Page ferli. Reiknuð er flækjuóreiðan, annars vegar í þyngdarfræðilíkani sem kennt er við Callan, Giddings, Harvey og Strominger (CGHS) og hins vegar í líkani kennt við Russo, Susskind og Thorlacius (RST), og sýnt fram á að hún fylgir Page ferlinum í báðum þessum líkönum. Niðurstaðan er í samræmi við það að uppgufun svarthols sé ferli þar sem skammtaupplýsingar tapast ekki.
Einnig er skoðað hugtakið skammtafræðilegt flækjustig í tengslum við svarthol. Flækjustig skammtaástands segir til um hve margar einfaldar aðgerðir eða skref af ákveðinni gerð þarf til þess að mynda ástandið úr tilteknu viðmiðunarástandi. Susskind setti fram þá tilgátu að skammtafræðilegt flækjustig svarthols sé jafngilt tilteknu rúmmáli innan svartholsins. Önnur tilgáta tengir flækjustigið við þyngdarvirkni ákveðins hluta tímarúmsins sem skarast við svartholið. Prófaðar eru þessar tilgátur fyrir svarthol sem gufa upp með Hawking útgeislun í CGHS og RST líkönunum og sýnt að báðar tilgáturnar gefa flækjustig í samræmi við skammtafræði.

Um doktorsefnið

Lukas Schneiderbauer fæddist í bænum Ried im Innkreis í Austurríki árið 1989. Hann lauk framhaldsskólaprófi árið 2008 og hóf nám við háskólann í Vínarborg í Austurríki árið 2009. Þaðan útskrifaðist hann með BSc- og MSc-gráður í kennilegri eðlisfræði árið 2015. Eftir útskrift vann hann að rannsóknum tengdum MSc-verkefninu en flutti til Íslands til að stunda doktorsnám við Háskóla Íslands haustið 2016.

Lukas Schneiderbauer

Doktorsvörn í eðlisfræði - Lukas Schneiderbauer