Skip to main content

Doktorsvörn í fornleifafræði: Sólveig Guðmundsdóttir Beck

Doktorsvörn í fornleifafræði: Sólveig Guðmundsdóttir Beck - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
4. september 2020 13:00 til 15:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Föstudaginn 4. september 2020 fer fram doktorsvörn við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Þá ver Sólveig Guðmundsdóttir Beck doktorsritgerð sína í fornleifafræði, Quernstones and Craftsmanship. Diffusion of Innovation in Pre-Industrial Iceland. Vörnin fer fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands og hefst kl. 13:00. Hér verður hægt að fylgjast með vörninni í streymi.

Andmælendur við vörnina verða dr. Irene Baug, fræðimaður í fornleifafræði við Háskólann í Bergen, og dr. Carl Lipo, prófessor í mannfræði við Binghamton Háskóla í New York.

Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn dr. Orra Vésteinssonar, prófessors í fornleifafræði við Háskóla Íslands. Einnig voru í doktorsnefnd dr. Guðrún Sveinbjarnardóttir og dr. Þorvaldur Þórðarson, prófessor við Háskóla Íslands.

Steinunn Kristjánsdóttir, forseti Sagnfræði- og heimspekideildar, stjórnar athöfninni.

Um rannsóknina

Nýjungar sem teknar voru upp í tengslum við Innréttingarnar um miðja 18. öld hafa lengi verið taldar að stórum hluta misheppnaðar. Ýtarlegar greiningar á ástæðum mismunandi velgengi einstakra nýjunga hefur hinsvegar skort. Eftir mistækar tilraunir með innlenda kornrækt var tekin sú ákvörðun á 7. áratug 18. aldar að hefja innflutning á ómöluðu korni og endurvekja innlenda kvarnarsteinaframleiðslu um allt Ísland. Sú endurvakning gekk framar vonum og var framleiðslunni haldið við fram á 20. öld. Markmið doktorsverkefnis Sólveigar var þríþætt: 1) að greina þá hugmyndafræði og atburðarás sem leiddi til endurvakningar á innlendri kvarnarsteinaframleiðslu, 2) að greina hvaða þættir skiptu sköpum fyrir framgang þessarar 18. aldar endurvakningar og 3) að greina hvort breytingar urðu í hönnun íslenska kvarnarsteinsins fyrir og eftir viðreisn innlendrar framleiðslu. Saga kvarnarsteinsins á Íslandi sýnir að það var ekki inngróin íhaldssemi og stöðnun sem orsakaði að ýmsar aðrar nýjungar Innréttinganna náðu ekki fótfestu. Fátæk og lítt menntuð bændastétt í samfélagi sem byggði á sjálfsþurft hafði hvorki forsendur né ástæðu til að meta nýjungar út frá utanaðkomandi efnahagslegum sjónarmiðum ríkisvaldsins. Kvarnarsteinar voru nýjung sem hægt var að aðlaga samfélaginu innan frá án róttækra breytinga á samfélagsgerð eða hagkerfi. Þegar kvarnarsteinarnir voru kynntir var þeim útbýtt víða og voru því vel sýnilegir. Þeir voru fjótt tilfinnanlega hagkvæmir og hentugir til frekari framleiðslu og mótunar í nánasta umhverfi viðtakenda sem allt hjálpaði til þess að frekar var hægt að aðlaga þá að samfélaginu til langs tíma litið.

Um doktorsefnið

Sólveig Guðmundsdóttir Beck lauk B.Sc. prófi í jarðfræði frá Háskóla Íslands árið 2004 og M.Sc. prófi í jarðfornleifafræði (geoarchaeology) frá Háskólanum í Reading í Bretlandi árið 2005. Hún hefur starfað við fornleifafræði í og með á Fornleifastofnun Íslands frá árinu 2003 og er stundakennari í fornleifafræði við Háskóla Íslands.

Sólveig Guðmundsdóttir Beck

Doktörsvörn í fornleifafræði: Sólveig Guðmundsdóttir Beck