Eitt af lykilverkefnum Rannsóknasetursins allt frá stofnun er fjölþætt verkefni sem snýst um rannsókn á íslenskri þjóðtrú og miðlun þekkingar um hana. Unnið er að þessu verkefni með fjölbreyttum og ólíkum leiðum og margvíslegri miðlun, s.s. fyrirlestrum, kvöldvökum, sögustundum, leiðsögn, ýmiskonar útgáfu, tímabundnum sýningum, námskeiðum, vefmiðlum og samstarfsverkefnum. Verkefnið skarast einnig við mörg önnur verkefni á vegum Rannsóknasetursins.
Þjóðtrúarfléttan
Rannsóknasetrið fékk tvívegis góðan styrk frá Uppbyggingarsjóði Vestfjarða í verkefni sem ber titilinn Vestfirska þjóðtrúarfléttan. Þar er um að ræða viðamikið samstarfsverkefni þjóðfræðinga á Vestfjörðum og safna, setra og sýninga í fjórðungnum og snýst um fjölbreytta miðlun. Einnig styrkti Frumkvæðissjóður Brothættra byggða í Strandabyggð verkefni með titilinn Þjóðtrúarfléttan veglega, en þar var unnið að því markmiði að skapa Ströndum þá sérstöðu að á Rannsóknasetrinu verði í framtíðinni einskonar miðstöð upplýsingamiðlunar um íslenska þjóðtrú. Báðir þessir sjóðir fá bestu þakkir fyrir mikilvæg framlög sín til verkefnisins.
Unnið hefur verið að þjóðtrúartengdum verkefnum á hverju ári frá stofnun setursins.
Á árinu 2019 var t.d. unnið að námskeiðahaldi og mótun á námsefni, einnig samstarfsverkefni við Galdrasýningu á Ströndum um barnamenningarverkefni á sviði þjóðtrúar. Einnig þjóðtrúarkvöldvöku í samstarfi við Sauðfjársetur á Ströndum, auk þess sem unnið var að úttekt á rannsóknum, miðlun og vinnu með þjóðtrú á Vestfjörðum síðustu áratugi. Ætlunin er að byggja á þeirri vinnu margvísleg samstarfsverkefni við söfn og sýningar og fleiri aðila í framhaldinu. Árið 2019 var einnig unnið með þjóðtrú tengda náttúrunni, selum og ísbjörnum, vestfirskum vættum og vofum, auk þess sem þjóðtrú og menningarlandslag á Ströndum var rannsakað í viðamiklu verkefni á Ströndum með aðstoð þjóðsagnasafna og örnefnaskráa. Álagablettir, aftökustaðir, þjóðtrú og sagnir á Vestfjörðum hafa verið þar í öndvegi. Fyrirlestrar voru þá haldnir um Vestfirði, bæði sjálfstæðir og sem hluti af málþingum, m.a. á Suðureyri, Hnjóti í Örlygshöfn og á Ströndum. Gestafræðimaðurinn Matthias Egeler dvaldi hjá okkur hálft árið og vann að rannsóknum um örnefni og þjóðtrú.
Árið 2020 hefur athyglinni til viðbótar verið beint að þjóðtrúarverum og vættum, m.a. draugum og jólaverum, og lögð áhersla á að koma á laggirnar vefsíðum um íslenska þjóðtrú, á íslensku og ensku. Einnig var áfram unnið með dýralífið, nú voru fuglar og þjóðtrú í brennidepli. Unnin var sérstök rannsókn um þjóðtrúartengd örnefni í örnefnaskrám á Ströndum sumarið 2020 og einnig gerð þá tillaga um hljóðleiðsögn um Strandir milli valinna sagnastaða. Sögugöngur með áherslu á þjóðtrú hafa einnig verið á dagskránni á Ströndum síðustu árin, í Reykhólasveit og Dölum, en þar er um að ræða samstarf við söfnin á Ströndum og í Dölum. Vinna að verkefninu birtist einnig í samstarfsverkefnum við námsmenn, eins og t.d. sýninguna Skessur sem éta karla sem Dagrún Ósk Jónsdóttir hefur sett upp víða um land síðan og sýningu um þjóðtrú um drauga sem sett var upp á vegum Rannsóknasetursins í ársbyrjun 2020. Í lok ársins var opnaður vefurinn Icelandicfolklore.is, þar sem stendur til að safna inn greinum og fróðleik á ensku.
Árið 2021 var áfram unnið að þjóðtrúarverkefnum og var stærsta átakið á því sviði útgáfa á bókinni Álagablettir á Ströndum sem Dagrún Ósk Jónsdóttir og Jón Jónsson eru höfundar af. Einnig var haldin þjóðtrúarkvöldvaka með Sauðfjársetrinu og ráðstefna á Galdrasýningunni um dýr og þjóðfræði með nemendum í Hagnýtri þjóðfræði. Sett var upp sýning um förufólk þar sem þjóðtrúin kemur við sögu, Dagrún Ósk Jónsdóttir og Jón Jónsson gerðu hana. Starfsfólk Rannsóknasetursins flutti fyrirlestra um efnið, skrifaði greinar og pista og tók þátt í viðburðum. Matthias Egeler kom aftur til landsins og dvaldi hjá setrinu í tvo mánuði. Bók um rannsóknir hans er nú væntanleg og hann hefur birt allmargar greinar um þjóðtrú, landslag og örnefni sem byggjast á rannsóknum hans á Ströndum.
Árið 2022 var þjóðtrúin enn í brennidepli. Eiríkur skrifaði pistla og flutti fyrirlestra, m.a. um veðurspár og draugatrú í tengslum við Vesturheimsferðir og Jón flutti fyrirlestra um örnefni og álagabletti í samhengi við þjóðtrúna og setti upp sýningu um hvítabirni þar sem þjóðtrúin er einn af áherslupunktunum. Matthias Egeler kom í heimsókn og dvaldi í tvo mánuði við rannsóknir og skrif. Árleg þjóðtrúarkvöldvaka í samvinnu við Sauðfjársetrið var á dagskránni að venju. Heilmikið þjóðtrúarþema var á dagskránni hjá Grunnskólanum á Hólmavík um haustið og voru nokkrar skólaheimsóknir og samstarf í tengslum við það. Í lok árs var upp sögusýning um gömlu í íslensku jólafólin í samvinnu við Árbæjarsafn, myndskreytt af Sunnevu Guðrúnu Þórðardóttur, en Dagrún Ósk Jónsdóttir og Jón Jónsson unnu að verkefninu.
Á árinu 2023 var áfram unnið að þjóðtrúarverkefnum, fyrirlestrar haldnir og unnið að greinarskrifum og miðlun. Vinna tengd sögnum, þjóðtrú, landslagi og örnefnum er að taka á sig mynd og dr. Matthias Egeler fékk styrk úr þýska rannsóknasjóðnum fyrir þriggja ára verkefni sem unnið verður á árunum 2023-25, í samvinnu við Rannsóknasetrið. Hann og doktorsneminn Saskia Klose höfðu aðsetur á Hólmavík yfir sumarið og unnu að þeirri rannsókn sem hefur hreppana fyrir norðan Hólmavík, Árneshrepp og Kaldrananeshrepp sem rannsóknarsvæði. Unnið var að ritun bókar um álfasögur Ólafs í Purkey, farið í vettvangsferðir og þjóðtrúarkvöldvaka haldin í samvinnu við Sauðfjársetrið eins og síðustu ár.
Sama á við um árið 2024. Annað árið af þremur í samvinnuverkefni við dr. Matthias Egeler um sagnir, þjóðtrú, landslag og örnefni. Doktorsneminn Saskia Klose dvaldi hálft árið á Ströndum við rannsóknir og ritun. Gefið var út kort um þjóðsagnastaði á rannsóknasvæðinu á vefnum Strandasögur. Eins voru fyrirlestrar á dagskránni, gönguferðir með leiðsögn, greinaskrif og birtingar, unnið áfram með bókina um álfasögur Ólafs í Purkey og handriti skilað í ritrýni. Þjóðtrúarkvöldvaka í samvinnu við Sauðfjársetrið var enn á ný á dagskránni og haldið málþing um skrímsli með nemendum í Hagnýtri þjóðfræði.
Um afrakstur erfiðsins má sjá nánar í yfirliti um miðlun á vegum starfsfólks setursins.
Námskeið: Álfar og tröll og ósköpin öll ...
Í mars 2019 stóðu Fræðslumiðstöð Vestfjarða og Þjóðfræðistofa fyrir fjögurra kvölda (12 kennslustunda) námskeiði undir heitinu: Álfar og tröll og ósköpin öll: Íslensk þjóðtrú og vestfirskar vættir. Vel tókst til og var kennt í Hnyðju á Hólmavík og fjarkennt í gegnum netfundabúnað á Ísafjörð og einnig suður í Dali og til Reykjavíkur.
Kennarar voru Jón Jónsson þjóðfræðingur hjá Rannsóknarsetri HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu og Dagrún Ósk Jónsdóttir doktorsnemi í þjóðfræði og yfirnáttúrubarn hjá Náttúrubarnaskólanum.
Námskeiðslýsing var á þessa leið: Spennandi námskeið þar sem fjallað er um þjóðsögur og þjóðtrú Íslendinga, fyrr og nú. Þar er margt skrítið og skemmtilegt að finna. Spjallað er um ýmsar vættir svo sem álfa og tröll, drauga, dverga og skrímsli en sérstök áhersla lögð á vestfirskar kynjaverur og vættir á námskeiðinu. Einnig er talað um náttúrufyrirbæri sem eru sveipuð dulúð og tengjast þjóðtrú, t.d. álagabletti, plöntur og steina, og einnig dýr eins og hvítabirni, seli og fugla. Þá er galdratrúin og sérstaða Vestfjarða í því samhengi skoðuð. Þjóðtrú nútímans er líka veitt athygli og hvernig hún hefur tekið breytingum í gegnum tíðina.
Sagt er frá söfnun og miðlun þjóðsagnaefnis og þjóðtrúarhugmyndum sem birtast í því. Einnig hvað þjóðtrúin og sögurnar geta sagt okkur um samfélagið sem þau tilheyra og líf fólks á þeim tíma sem þær voru skrifaðar. Á námskeiðinu eru gefnar góðar ábendingar um hvar má finna frekari fróðleik um þjóðsagnaarfinn. Frábær leið til að fá góða yfirsýn yfir efnið á stuttum tíma!
Álagablettir – sýning og bókaútgáfa
Áður en Rannsóknasetrið varð að veruleiku settu Jón Jónsson og Dagrún Ósk Jónsdóttir upp tímabundna sögusýningu um álagabletti. Hún var opnuð á Sauðfjársetri á Ströndum í Sævangi árið 2013. Var sú sýning uppi allt fram í febrúar 2022. Á þeim tíma var unnið að viðbótarrannsóknum í samvinnu Rannsóknasetursins og Sauðfjársetursins, m.a. sértækri söfnun fróðleiks um álagabletti á Vestfjörðum 2020 og sérhæfðri rannsókn á stöðum á Ströndum sem álagasögur tengjast þar sem þær voru einnig settar í alþjóðlegt samhengi. Haustið 2021 kom síðan út bókin Álagablettir á Ströndum í samvinnu Sauðfjárseturs og Rannsóknasetursins, eftir sömu höfunda. Hún er ætluð fyrir heimamenn, ferðafólk og fróðleiksfúsan almenning. Óteljandi fyrirlestrar hafa verið fluttir og greinar og pistlar hafa einnig litið dagsins ljós.
Árlegar þjóðtrúarkvöldvökur
Þjóðtrúarkvöldvökur hafa verið haldnar í mörg ár í samvinnu við Sauðfjársetur á Ströndum. Þá er boðað til skemmtilegarar kvöldvöku í Sævangi, einhverja smalahelgina í september: fyrirlesarar, tónlistaratriði og dulúðlegt kvöldkaffi. Þessar kvöldvökur hafa tekist afbragðs vel, en sú fyrsta var á þjóðtrúardeginum mikla 7. sept. 2013 (7-9-13), en þá var sýningin Álagablettir opnuð. Rannsóknasetrið gekk svo til liðs við Sauðfjársetrið sem aðstandandi þessara kvöldvakna þegar það var stofnað 2016.
2024 (7. sept): Þjóðtrúarkvöldvaka – illska og ofbeldi
# Rósa Þorsteinsdóttir: Fullur skór af blóði. Ofbeldi í ævintýrum
# Dagrún Ósk Jónsdóttir: Járnteinar og töfraspeglar: Útilegumenn og heimilisofbeldi í íslenskum sögnum
# Jón Jónsson: Þumalskrúfur og gapastokkar: Viðurkenndar pyntingar fyrr á tímum
Agnes Jónsdóttir flutti viðeigandi tónlist og Ester Sigfúsdóttir hjá Sauðfjársetrinu sá um dásamlegt kökuhlaðborð.
2023 (9. sept): Kynngimagnaðar sögur og kraftmiklir staðir
# Saskia Klose: Á reiðhjóli í Árneshreppi: Sögur og staðir
# Eiríkur Valdimarsson: Þegar englar dauðans heimsóttu Skinþúfu
# Dagrún Ósk Jónsdóttir: Kynlegar sögur úr kirkjugarðinum
# Jón Jónsson: "Mér er sama hvar ég lendi ..." Áfangastaðir eftir andlátið
Skúli Gautason sá um hljóðfæraslátt, sögn og hringdans, en Ester Sigfúsdóttir um yfirnáttúrulegt kvöldkaffi.
2022 (10. sept): Þjóðtrú á ferð og flugi – Draugar, útilegumenn og óvæntir gestir!
Jón Jónsson: Viðbrögð við óvelkomnum gestum: Heimsóknir villidýra, vætta og annars óþjóðalýðs.
Eiríkur Valdimarsson: Draugur fær heimþrá: Af þvælingi þjóðtrúar til Vesturheims.
Dagrún Ósk Jónsdóttir: Konur fara á fjöll: Smalastúlkur og útilegumenn í íslenskum þjóðsögum.
Íris Björg Guðbjartsdóttir mætti með gítarinn og sá um tónlistina. Ester sá að venju um stórmagnað kaffihlaðborð á Sauðfjársetrinu.
2021 (11. sept): Pestir og plágur
Jón Jónsson og Eiríkur Valdimarsson: Gleymt en þó geymt: Lækningaaðferðir alþýðu fyrri alda
Dagrún Ósk Jónsdóttir: Flökkusagnir og faraldrar
Áki Guðni Karlsson: Dauðinn og Covid: Tækni, hefðir og verklag á kveðjustundu
Kristján Sigurðsson mætti með gítarinn og sá um tónlistina. Ester sá að venju um stórmagnað kaffihlaðborð á Sauðfjársetrinu.
2019 (14. sept): Ógnarstundir og örlagastaðir
# Jón Jónsson: Dauðadómar, aftökustaðir og dysjar sakamanna
# Matthias Egeler: Misnotkun, ranglæti og dauði. Sagnir um fátækt fólk á Ströndum
# Dagrún Ósk Jónsdóttir: Ást, harmur og dauði. Hlutskipti kvenna í íslenskum þjóðsögum
Kynngimagnað kvöldkaffi á Sauðfjársetrinu og Dúllurnar tróðu upp!
2018 (8. sept): Á mörkum lífs og dauða!
# Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur: Er andi í glasinu?
# Jón Jónsson þjóðfræðingur: Ýluskarð og Skæluklöpp: Útburðir í íslenskri þjóðtrú
# Sigurjón Baldur Hafsteinsson prófessor í safnafræði við HÍ: Bara annarsstaðar: Um ljósmyndir af látnum
Kynngimagnað kvöldkaffi og tónlistaratriði sem Skúli Gautason sá um.
2016 (10. sept): Leyndardómar fjörunnar, þjóðtrú, ótti og óhugnaður!
# Dagrún Ósk Jónsdóttir, þjóðfræðingur: Ógnvaldur í undirdjúpunum: Hryllileg samskipti sela og manna
# Kristinn Schram, þjóðfræðingur: Líf og dauði í flæðarmálinu: þjóðfræði rekafjörunnar
# Jón Jónsson, þjóðfræðingur: Ísbirnir éta ekki óléttar konur!
Dulmagnað kaffihlaðborð og Arnar Snæberg Jónsson sá um viðeigandi tónlistaratriði.
2015 (11. sept): Mannát, dauði og djöfull
# Dagrún Ósk Jónsdóttir, þjóðfræðinemi: Mannát á Íslandi
# Björk Bjarnadóttir, umhverfis- og þjóðfræðingur: "Skrattinn fór að skapa mann ..."
# Jón Jónsson, þjóðfræðingur: Þjóðtrú tengd dauðanum
Björk Bjarnadóttir sá um tónlistaratriði og dulmagnað kvöldkaffi var á boðstólum.
2014 (6. sept): Draugar og tröll og ósköpin öll
# Jón Jónsson, þjóðfræðingur frá Steinadal – Afturgöngur og aðrir ættbálkar drauga
# Guðlaug G. I. Bergsveinsdóttir, þjóðfræðinemi á Gróustöðum – Fjársjóður og feigð í fiðurfénaði
# Dagrún Ósk Jónsdóttir, íslensku- og þjóðfræðinemi á Kirkjubóli – Gengið í fossinn: Álög, skrímsli og vatnavættir
# Magnús Rafnsson, forstöðumaður Þjóðfræðistofu og sagnfræðingur á Bakka – Trunt, trunt og tröllin á Ströndum
Íris Björg Guðbjartsdóttir á Klúku flutti eigin lög og kynngimagnað kvöldkaffi var á boðstólum.
2013 (7. sept): Álagablettir
# Dagrún Ósk Jónsdóttir íslenskunemi: Sýningin Álagablettir
# Jón Jónsson þjóðfræðingur: Hefndir huldra vætta
# Rakel Valgeirsdóttir þjóðfræðingur: Álagablettir í Árneshreppi
Arnar Snæberg Jónsson flutti tónlistaratriði og dulmagnað kvöldkaffi var á boðstólum við opnun sýningarinnar Álagablettir.