Sigurður Magnús nýr stjórnarformaður Vísindagarða Háskóla Íslands
Sigurður Magnús Garðarsson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands, hefur tekið við stjórnarformennsku í stjórn Vísindagarða Háskóla Íslands. Sigurður tekur við af Hilmari Braga Janussyni, forstjóra Genís, sem verið hefur stjórnarformaður frá upphafi.
„Það eru einstaklega spennandi tímar fram undan og geng ég sáttur frá borði. Það má segja að framkvæmdahluti Vísindagarða hafi hafist fyrir alvöru í lok síðustu efnahagsörðugleika, eða árið 2012. Í nokkur ár þar á eftir voru framkvæmdir á svæðinu með þeim umsvifamestu á landinu. Félagsstofnun stúdenta byggði stúdentaíbúðir, Alvotech reisti glæsilegar höfuðstöðvar sínar og síðan kom seinni hluti stúdentagarðanna. Ekki má svo gleyma hinu stórkostlega Gróskuhúsi sem opnað verður í lok sumars 2020,“ segir Hilmar B. Janusson, fráfarandi stjórnarformaður VHÍ.
„Það eru mörg stór og krefjandi verkefni sem liggja fyrir hjá Vísindagörðum og ég hlakka til að taka við keflinu af Hilmari sem sinnt hefur þessu hlutverki af mikilli seiglu og framsýni,“ segir Sigurður Magnús Garðarsson, nýkjörinn stjórnarformaður VHÍ.
Auk Sigurðar voru kjörin í stjórn þau Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Icelandair, Guðmundur Hafsteinsson, frumkvöðull, Margrét Helga Ögmundsdóttir, dósent við Læknadeild á Heilbrigðisvísindasviði og Óli Jón Hertevig, skrifstofustjóri hjá Reykjavíkurborg. Til vara eru prófessorarnir Daði Már Kristófersson og Anna Sigríður Ólafsdóttir.
Háskóli Íslands stofnaði Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. árið 2004. Hlutverk félagsins er að vera alþjóðlega viðurkenndur vettvangur tækni- og þekkingarsamfélags á Íslandi sem á virkan hátt hlúir að og tengir saman frumkvöðla, fyrirtæki, háskóla, stofnanir og aðra hagsmunaaðila sem vinna að því að stórefla hagnýtingu rannsókna, nýsköpun og viðskiptaþróun til hagsældar og heilla fyrir land og þjóð. Félagið starfar í þágu almenningsheilla og eru tveir eigendur; Háskóli Íslands (94,6%) og Reykjavíkurborg (5,4%). Tilgangur félagsins er að efla vísindarannsóknir og nýsköpun með því að skapa kjöraðstæður til slíks í vísindagörðum á lóð Háskóla Íslands.