Mikil viðbrögð við fræðsluefni um COVID-19 fyrir börn
Vísindamenn og nemendur Háskóla Íslands hafa látið að sér kveða með ýmsum hætti í því mikla samfélagsumróti sem fylgt hefur COVID-19 faraldrinum og samkomubanni hér á landi síðustu vikur. Ein þeirra sem hafa lagt sitt af mörkum er Guðlaug Marion Mitchison, doktorsnemi í sálfræði við Háskóla Íslands, sem hefur nýtt sérþekkingu sína til að þýða og aðlaga fræðsluefni um veiruna fyrir börn. Efnið hefur eins og faraldurinn farið víða um samfélagið og vakið töluverða athygli fjölmiðla.
Um er að ræða myndasögu um vírusinn Kórónu sem ferðast víða um samfélagið. Höfundur upprunalegu útgáfunnar, sem kom út á ensku undir heitinu COVIBOOK, er Manuela Molina en Guðlaug rakst á sögu hennar í leit sinni að hugmyndum að fræðsluefni um faraldurinn fyrir börn. „Í framhaldi af því hversu vel Almannavarnir, Embætti landlæknis, heilbrigðisstarfsfólk og fjölmiðlar stóðu sig í að halda almenningi upplýstum um COVID-19 datt mér í hug að mögulega væri hægt að setja saman einfalt fræðsluefni fyrir börn. Þetta var mér ofarlega í huga því ég starfa sem barnasálfræðingur á Menntasviði Kópavogsbæjar. Stuttu seinna var ég svo heppin að finna COVIBOOK og ákvað að þýða og aðlaga efnið frá Molina með áherslu á notagildið þannig að börnin ættu auðvelt með að tengja við efnið og skilja það,“ segir Guðlaug sem fékk leyfi frá höfundi fyrir því. „Svo skemmtilega vildi til að ég var ekki sú eina sem fékk þessa hugmynd því þau Christína van Deventer og Bragi Þór Valsson íslenskuðu hana líka.“
Guðlaug lofar framtak Molina og bendir á að höfundurinn hafi lagt mikið upp úr því að forráðamenn og börn þeirra fái aðgang að bókinni á sem flestum tungumálum sér að kostnaðalausu en alls er hún nú aðgengileg á 24 tungumálum á heimasíðu höfundarins.
Stuðlað að því að börn ræði áhyggjur sínar
„Ég bæði þýddi efni Molina og aðlagaði efnið að íslenskum aðstæðum og var með leikskólabörn og börn á yngsta stigi í grunnskóla í huga, en ég er mest að vinna með þeim aldurshópi. Í sögunni langaði mig líka að undirstrika mikilvægi þess að börnin myndu leita til forráðamanna og starfsfólks í skólunum til að velta upp áhyggjum sem þau væru með. Sum börn eru dugleg að segja frá hvernig þeim líður en svo er hópur af börnum sem ber ekki áhyggjur sínar á borð við fullorðna og mig langaði að reyna að ná líka til þeirra,“ segir Guðlaug um vinnuna.
Viðbrögðin við þessu frábæra framtaki Guðlaugar hafa ekki látið á sér standa: „Mig óraði aldrei fyrir því að sagan yrði svona vinsæl. Þörfin fyrir að fá svona fræðsluefni hér á Íslandi var mun meiri en ég gerði mér grein fyrir til að byrja með. Ég hef verið að fylgjast með Manuela Molina á Instagram-síðunni hennar (sem heitir Mindheart.kids), og hafa viðbrögðin verið svipuð um allan heim. Aðstæður í heiminum eru vægast sagt bundnar við mikla óvissu sem er krefjandi fyrir flesta. Það er mikilvægt fyrir okkur öll að standa saman á tímum sem þessum,“ segir Guðlaug.
Myndasagan sem Guðlaug þýddi og aðlagaði að íslenskum aðstæðum fjallar um veiruna Kórónu og ferðalag hennar um samfélagið. MYND/Manuela Molina
Bækur góður grundvöllur til að ræða mál
Sem fyrr segir starfar Guðlaug sem barnasálfræðingur samhliða doktorsnámi við Háskóla Íslands. Hún segir aðspurð mikilvægt fyrir foreldra að hlífa börnum við stöðugum blaðamannafundum, fréttum og tilkynningum um faraldurinn. „Í fréttum er oft verið að nota flókin orð sem börnin geta misskilið eða mistúlkað og slíkt getur aukið áhyggjur og óöryggi. Við eigum ekki að halda þeim frá öllum upplýsingum um veiruna heldur nýtum þá þekkingu sem við erum búin að afla okkur til að ræða við börnin í rólegheitum og á þeirra tungumáli með tilliti til þroska þeirra og aldurs. Ég ráðlegg forráðamönnum almennt sem koma til mín í ráðgjöf að nota bækur til að lesa með börnum sínum um ýmsa ólíka hluti og eiga svo samtal í framhaldi af því,“ segir Guðlaug og bendir á að fræðsluefnið nýja sé kjörið til þess.
„Það er líka mikilvægt að hafa í huga að taka bara einn dag í einu. Börn eru ekki endilega hugsa langt fram í tímann líkt og við fullorðna fólkið og þurfa bara vita hvað er að gerast í dag og á morgun. Gott er fyrir forráðamenn að reyna að hafa rútínu til staðar í fjölskyldulífinu eins og mögulegt er, vakna og fara að sofa á svipuðum tíma, reyna að hafa rútínu á matartímum og hreyfingu. Einnig taka frá tíma til að fara yfir heimavinnu eða aðra skipulagða verkefnavinnu. Ekki má gleyma að eiga síðan gæðastundir með fjölskyldunni og að muna að suma daga er ekki hægt að hafa rútínuna í föstum skorðum. Að lokum er mikilvægt að staldra við þegar tök eru á og gera eitthvað sem börnunum finnst skemmtilegast,“ segir hún aðspurð um ráð til foreldra á þessum óvenjulegu tímum þar sem mörg eru heima heilu og hálfu dagana.
Hún bendir enn fremur á að Embætti Landlæknis, Heilsuvera, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og fleiri hafi undanfarið deilt góðu fræðsluefni fyrir fullorðna og börn. „Einnig hafa nokkrir tekið sig saman á Facebook og Instragram til að gefa forráðamönnum skemmtilegar hugmyndir um verkefni sem börnin geta leyst heima fyrir og hvernig er hægt að viðhalda rútínu í sóttkví. Sem dæmi er Hlín Magnúsdóttir Njarðvík að deila ógrynni af stórskemmtilegum verkefnum sem börnin geta leyst heima fyrir, bæði á Instagram og Facebook og nefnist, „Fjölbreyttar kennsluaðferðir fyrir fjöruga krakka“. Einnig eru sálfræðingar og talmeinafræðingar Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings með Instragramsíðu sem kallast „heimaskolinn“ og gefa virkilega góð ráð þar,“ segir hún.
Áhersla á tilfinningar barna
Reynsla Guðlaugar í doktorsverkefni hennar kom að góðu notum við gerð fræðsluefnisins um veiruna enda fæst hún í verkefninu við hlut sem mikið er til umræðu nú, stjórnun tilfinninga. „Markmið doktorsrannsóknarinnar er að kortleggja frávik í tilfinningastjórnun og þróun hegðunarvanda á meðal íslenskra barna á aldrinum 5-8 ára. Þar sem ég les mikið af rannsóknum um afleiðingar þess þegar börn eru með frávik í tilfinningastjórnun hef ég ósjálfrátt byrjað að leggja áherslu á slíkt í minni vinnu og er m.a. að leiðbeina forráðamönnum um að auka færni barna í tilfinningastjórnun og tilfinningalæsi. Þegar ég fór að huga að því að setja saman fræðsluefni fyrir börn á þessum óvissutímum vildi ég að áhersla yrði lögð á þær tilfinningar sem börnin upplifa og hvort þau gætu borið kennsl á þær því þá getum við fullorðna fólkið komið til móts við börnin til að reyna að draga úr óöryggi þeirra og vanlíðan,“ segir Guðlaug.
Guðlaug er sú fyrsta sem ræðst í langtímarannsókn á tilfinningastjórnun og hegðunarvanda barna hérlendis. „Við höfum nýlega lokið gagnasöfnun en við fylgdum 2010 og 2011 árgöngunum eftir í þrjú ár. Niðurstöður rannsóknarinnar með öllum gögnum munu liggja fyrir nánustu framtíð og það er mjög spennnandi,“ segir Guðlaug að endingu.
Íslenska útgáfu Guðlaugar af sögunni um vírusinn Kórónu má nálgast hér.