Gerir Flateyjarbók geirfuglsins almennileg skil
„Ég hef lengi haft áhuga á samskiptum manna og annarra dýra. Þetta er viðfangsefni sem mannfræðingar hafa látið til sín taka undanfarin ár, meðal annars í ljósi hamfarahlýnunar og aldauða tegunda,“ segir Gísli Pálsson, prófessor emeritus í mannfræði við Háskóla Íslands, sem hefur undanfarin þrjú ár rýnt í svokallaðar Geirfuglabækur og síðustu veiðiferðirnar á geirfuglaslóðir við Ísland. Afrakstur vinnunnar er ný bók, Fuglinn sem gat ekki flogið sem kemur út á vegum Forlagsins í haust.
Geirfuglinn er eflaust ein þekktasta fuglategundin sem lifað hefur hér við land þótt nú séu hartnær 180 ár frá því að síðasti fuglinn var drepinn. Fuglinn var stór, um 70 sentímetrar á hæð, og minnti um margt á mörgæs og þar sem hann var ófleygur reyndist hann auðveld bráð fyrir fuglaveiðimenn hér á landi fyrr á öldum. Eftir því sem honum fækkaði varð hann svo vinsælli meðal safnara sem leiddi á endanum til þess að síðustu tveir fuglarnir af tegundinni voru drepnir við Eldey sumarið 1844, að því er talið er.
Þar og í Vestmannaeyjum hefur lengi verið blómlegt fuglalíf en það var einmitt á uppeldisstöðvum Gísla Pálssonar í Eyjum og í sveitardvöl í Landeyjum sem áhugi hans á fuglum kviknaði. „Fyrir þremur árum eða svo beindist áhugi minn sérstaklega að geirfuglinum,“ segir Gísli og útskýrir þetta nánar. „Síðustu þrjú ár hef ég unnið töluvert með dýr sem mannfræðilegt viðfangsefni, ritstýrði meðal annars þemahefti um efnistök mannfræðinga með norskum kollega fyrir tímaritið Ethnos. Um leið hef ég sökkt mér ofan í heimildir um geirfugla. Þegar ég komst á snoðir um svonefndar Geirfuglabækur í Cambridge varð ekki aftur snúið. Fáar þjóðir hafa sýnt geirfuglinum meiri áhuga en Íslendingar. Samt hefur hann víða verið tákn tegunda í útrýmingarhættu.“
Í rannsóknarvinnu sinni leitaði Gísli uppi handrit og skjöl um sögu geirfuglsins. „Einnig hef ég heimsótt erlend söfn þar sem finna má egg, bein og uppstoppaða fugla. Auk þess hef ég tekið viðtöl við fuglamenn og sérfræðinga. Þá hef ég kynnt mér sérstaklega umræðu mannfræðinga um fugla. Nú tala mannfræðingar oft um „annað en mannfólk“ (e. other-than-human) fremur en „dýr“, til að forðast mannhverfa sýn sem hefur verið landlæg í mörgum mannlegum fræðum og sýna viðfangsefninu meiri virðingu en áður hefur tíðkast,“ bætir hann við.
Geirfuglar í mistri. Verk eftir Errol Fuller.
Mannfræðingar fjalla í vaxandi mæli um aldauða fugla
Eflaust gætu einhverjir haldið að aldauði dýrategunda eins og geirfuglsins væri fremur viðfangsefni dýra- og fuglafræðinga en mannfræðinga. „Áhugi mannfræðingsins beinist hins vegar sérstaklega að samskiptum fólks og fugls, í náttúruskoðun, á veiðum og á söfnum, fremur en fuglinum sjálfum eða búsvæði hans. Óhjákvæmilega beinist athyglin þó að einhverju leyti að náttúru fuglsins, samanburði á vitsmunum hans og annarra lífvera og notkun hans í mannheimi, meðal annars í líkingamáli. Allt ber þetta á góma í umræðum og rannsóknum um aldauða tegunda – og fuglar eru víða í útrýmingarhættu nú á tímum,“ segir Gísli.
Hann bætir enn fremur við að mannfræðingar hafi í vaxandi mæli fjallað um aldauða fugla, kannað hugmyndir um þá og nýtingu á þeim. „Aldauðinn á oftast rætur að rekja til mannheims, til menningar og atvinnuhátta, en aðstæður eru breytilegar eftir samfélögum og mannfræðingar hafa margt um það að segja. Mannfræðingar hafa bent á að aldauðinn sé langt ferli, ekki einstakur viðburður. Sérhver tegund er hluti af tengslaneti lífvera og þegar tegundin hverfur raskast þetta net eða hrynur. Geirfuglinn er gott dæmi. Aldauði hans hófst með veiðiferðum Evrópumanna til Nýfundnalands í kjölfar landafunda. Seinna, þegar söfnun fugla komst í tísku í Evrópu og geirfuglar urðu sjaldgæfir, kepptust safnarar og kaupmenn við að eignast fugl og því fór sem fór,“ segir Gísli enn fremur.
Geirfuglabækurnar, oft kenndar við annan leiðangursmanna, John Wolley, eru einstök heimild um endalok tegundar og eiga brýnt erindi við samtímann og heiminn allan. Wolley kom hingað til lands ásamt Alfred Newton en þeir skráðu kappsamlega og nákvæmlega frásagnir veiðimanna á Suðurnesjum.Myndin er af John Wolley. MYND/ Balford og Newton bókasafnið í Cambridge
Geirfuglabækurnar einstök heimild um endalok tegundar
Gísli hefur í fyrri verkum sínum beint sjónum að umhverfismálum og norðurslóðum og í nýju bókinni, Fuglinn sem gat ekki flogið, sameinar hann í raun þessi tvö viðfangsefni. „Þar beini ég sjónum mínum að síðustu veiðiferðunum á geirfuglaslóðir við Ísland, veiðimönnum sem áttu hlut að máli og kaupmönnum og söfnurum sem ýttu undir veiðar og viðskipti. Tveir breskir fuglamenn sem voru með geirfugla á heilanum sigldu til Íslands sumarið 1858, fundu enga geirfugla en skráðu kappsamlega og nákvæmlega frásagnir veiðimanna á Suðurnesjum. Ég rek sögu fuglamannanna og Geirfuglabókanna sem þeir létu eftir sig, hvernig þær rak á fjörur mínar, hvað þær hafa að geyma og hvað aldauði felur í sér. Geirfuglabækurnar, oft kenndar við annan leiðangursmanna, John Wolley, eru einstök heimild um endalok tegundar og eiga brýnt erindi við samtímann og heiminn allan. Þetta eru um níu hundruð handskrifuð blöð í fimm heftum, eins konar Flateyjarbók geirfuglsins, geymd á Bókasafni Cambridge-háskóla og aðeins til í einu eintaki. Engin viðlíka heimild er til um aðra útdauða tegund,“ bendir Gísli á.
Hann bætir við að þetta sé í fyrsta sinn sem Geirfuglabókunum séu gerð almennileg skil og þær settar í samhengi við aðstæður á Íslandi og í heimalandi leiðangursmanna, Bretlandi. „Saga þessi á sérstakt erindi til nútímans þegar allsherjar aldauði tegunda blasir við og efnt er til mótmæla víða um heim. Alfred Newton, ferðafélagi Wolleys, vakti athygli fræðaheimsins á aldauðanum sem viðfangsefni og var m.a. í samskiptum við Charles Darwin og Alfred Wallace, höfunda þróunarkenningarinnar,“ bendir Gísli enn fremur á.
Geirfuglabækurnar fluttar „heim“
Þáttur Íslendinga í aldauða geirfuglsins er umtalsverður en þeir veiddu fuglinn af miklu kappi og þá voru það íslenskir veiðimenn sem drápu síðustu tvo fuglana. Gísli segir því bókina nýju og Geirfuglabækurnar sjálfar eiga mikið erindi við þjóðina, ekki síst afkomendur mannanna sem fóru í síðustu veiðiferðirnar til Eldeyjar. „Vonir standa til að með haustinu komi þessi sögulegu handrit hingað „heim“, vistuð á stafrænu safni Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni. Þá yrðu þau aðgengileg öllum heiminum á vefnum. Ætla má að áhugafólk um aldauða geirfuglsins og annarra tegunda fagni þessu framtaki,“ segir hann að endingu.
Þess má geta að rannsóknir Gísla á fuglinum ófleyga hafa þegar vakið athygli utan landsteinanna en nýlega birtist viðtal við hann á danska vísindavefnum Science Stories.
Nánar um Gísla Pálsson
Gísli Pálsson er prófessor emerítus í mannfræði við Háskóla Íslands. Hann er m.a. kunnur fyrir rit sín um umhverfismál (Fjallið sem yppti öxlum), og norðurslóðir (ferðir Vilhjálms Stefánssonar um inúítaslóðir). Meðal bóka Gísla er Hans Jónatan: Maðurinn sem stal sjálfum sér sem þýdd hefur verið á ensku, dönsku og frönsku. Ensk þýðing Önnu Yates vann til verðlauna við William and Mary Háskóla í Bandaríkjunum árið 2018.